17.2.1996

Karlakór Reykjavíkur 70 ára

Ávarp á 70 ára afmæli Karlakórs Reykjavíkur
í Háskólabíói, 17. febrúar 1996.

Við komum saman hér í dag til að árna Karlakór Reykjavíkur heilla á 70 ára afmæli hans. Vil ég þakka fyrir að fá tækifæri til að vera með ykkur á þessum tímamótum.

Aldur kórsins sýnir, að hann er með frumkvöðlum í íslensku tónlistarlífi á þessari öld og þar með í menningarsögu þjóðarinnar. Höfðu tveir kórar verið stofnaðir hér, áður en Karlakór Reykjavíkur kom til sögunnar. Sigurður Þórðarson fyrsti stjórnandi og stofnandi kórsins nam tónlist hjá Páli Ísólfssyni og var með honum og Jóni Leifs í framhaldsnámi í Leipzig, þar sem Bach starfaði á sínum tíma.

Er sagt, að sönghefðin, sem Sigurður mótaði á 36 ára samleið sinni með Karlakór Reykjavíkur og krafa hans um vandaðan og hljómmikinn söng hafi verið aðalsmerki kórsins frá fyrstu tíð. Þetta merki stendur því á traustum íslenskum og mið-evrópskum grunni.

Vinsældir kórsins eru miklar eins og fimm tónleikar hvert vor sýna. Hann hefur einnig borið hróður íslenskrar menningar út fyrir landsteinanna en 1935 fór hann í fyrstu söngferð sína til útlanda og heimsótti Færeyjar. Karlakórinn fór til Algeirsborgar 1953 og haft er eftir föður mínum, sem varð menntamálaráðherra sama ár, að með förinni væri Tyrkjaránsins hefnt. Ég staðfesti ekki sannleiksgildi þessarar munnmælasögu en hún hefur verið lífsseig og nú hefur vinur minn Hannes Hólmsteinn Gissurarson heimfært hana upp á Fóstbræður í nýrri bók sinni, Íslenskar tilvitnanir. Leiðréttist þessi heimfærsla hér með. Það voru þeir Karlakórsmenn, sem hefndu Tyrkjaránsins á sínum tíma - og þökk sé þeim.

Stórhugur Karlakórs Reykjavíkur birtist ekki aðeins í söng hans. Fyrir nokkrum árum réðst hann í að koma yfir sig húsi við Skógarhlíð í Reykjavík.

Vona ég, að hús kórsins verði sem fyrst tekið í notkun. Það er líklega önnur byggingin hér landi á eftir Hljómskálanum, sem er sérstaklega reist með tónlistarflutning í huga.

Forráðamenn kórsins hafa rætt við mig um hugsanleg afnot opinberra aðila af hinu nýja en ófullgerða húsi. Ég skal beita mér fyrir því, að allar hugmyndir um skynsamlega nýtingu á húsinu fyrir almannafé séu metnar af velvilja.

Ég vil ljúka þessum fáu orðum með því að óska Karlakór Reykjavíkur heilla á sjötíu ára afmæli hans og láta í ljós þá von, að hann megi halda áfram dafna okkur öllum til gleði um langan aldur.