8.11.1997

Rauðarárholt eða Höfðabakki - Morgunblaðsgrein

Af Rauðarárholti í Höfðabakka
8. nóvember 1997

Við ráðstöfun takmarkaðra fjármuna til skólamála er menntamálaráðuneytinu skylt að kynna hina hagkvæmustu kosti segir Björn Bjarnason ekki til að ögra eða móðga heldur í von um skynsamlega niðurstöðu.

Þegar litið er til hlutverks menntamálaráðuneytisins við yfirstjórn menntamála, felst einn þáttur þess í því að búa skólastofnunum hæfilegan starfsramma. Ráðuneytið gerir tillögur um fjárveitingar og tekur einnig ákvarðanir um tækjabúnað og húsakost skóla. Að því er framhaldsskóla varðar skal ríkið bera 60% stofnkostnaðar en viðkomandi sveitarfélag 40%. Viðhaldskostnaður fellur hins vegar alfarið á ríkissjóð, eigi hann skólahúsnæðið einn eða með sveitarfélagi.

Í umræðum um aðstöðu fyrir skipstjórnar- og vélstjóranám í Reykjavík hefur verið látið að því liggja, að Sjómannaskólahúsið á Rauðarárholti sé eign sjómannastéttarinnar og þess vegna geti menntamálaráðuneytið ekki tekið einhliða ákvörðun um að flytja sjómannanám úr húsinu. Þetta sjónarmið stangast á við áralanga kröfu á hendur ríkisvaldinu um, að það annist viðhald og endurbætur á húsinu.

Skólasvæði á Rauðarárholti

Gert hefur verið deiliskipulag á Rauðarárholti, sem byggist á því, að þar verði sambýli Kennaraháskóla Íslands, Stýrimannaskólans og Vélskólans. Fyrir um það bil ári fól ég nefnd að gera tillögur um nýbygginar og húsnæðismál annarra háskóla en Háskóla Íslands. Leit nefndin til þess, að nú hefur verið lagt fram frumvarp til laga um að sameina Kennaraháskólann, Þroskaþjálfaskólann, Fósturskólann og Íþróttakennaraskólann í einn skóla: Kennara- og uppeldisháskóla Íslands. Á hann að starfa í Reykjavík og Laugarvatni.

Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að kanna ætti til hlítar, hvort nýta mætti allt skólarými á Rauðarárholti fyrir Kennara- og uppeldisháskólann. Taldi nefndin unnt að ná því markmiði með því að flytja Stýrimannaskólann og Vélskólann í nábýli við Tækniskóla Íslands að Höfðabakka. Framkvæmdasýsla ríkisins lagði mat á þessa tillögu og taldi, að hún sparaði ríkissjóði allt að 750 milljónum króna og var þá reiknað með 25 ára leigukostnaði Stýrimannaskóla og Vélskóla í nýju húsnæði.

Kynningarfundir

Í sumarbyrjun kynnti ég þessar hugmyndir fyrir forráðamönnum útgerða, skipstjórnarmanna og vélstjóra auk formanna skólanefnda Stýrimannaskólans og Vélskólans. Töldu þeir ógerlegt að taka endanlega afstöðu til þeirra án frekari útfærslu. Varð að ráði, að fela Framkvæmdasýslu ríkisins að vinna að henni með aðstoð arkitekta. Þegar því starfi var lokið um miðjan október boðaði ég til fundar með skólastjórnendum, nemendum, forystumönnum sjómanna og útgerða og öðrum, sem létu sig málið sérstaklega varða á því stigi.

Á þessum fundi lagði ég áherslu á, að um væri að ræða kynningu á hugmyndum en ekki tilkynningu um ákvörðun ráðuneytisins. Væri mikilvægt, að menn tækju sér nokkrar vikur til að fara yfir alla þætti málsins

Veglegt stórhýsi

Sjómannaskólahúsið er að stofni veglegt og gott hús. Nú er svo komið, að húsið þarfnast ekki aðeins mikilla viðgerða heldur einnig gagngerðrar endurskipulagningar. Er ljóst, að hvorki verður staðið vel að því verki né á hagkvæmasta hátt nema hlé verði á öllu skólastarfi í húsinu á verktíma.

Húsið var byggt á árunum 1944 til 1946. Viðbótarhúsnæði kom til sögunnar 1959, 1965 og 1973. Alls eru þessi hús um 6700 fermetrar að flatarmáli, þar af eru 600 fermetrar nýttir af Samskiptamiðstöð heyrnarlausra, sem flutti í húsið á síðasta ári.

Flestir voru nemendur í Sjómannaskólahúsinu um og eftir 1970. Matsveina- og veitingaskólinn var þá einnig þar til húsa og nemendur alls á sjötta hundrað. Vélskóli Íslands var lengst af stærstur þessara skóla og fór nemendafjöldi hans nokkuð á fjórða hundrað þegar flest var. Matsveina- og veitingaskólinn flutti árið 1980 og hefur honum nú verið búin glæsileg aðstaða í Menntaskólanum í Kópavogi.

Um þessar mundir eru um 200 nemendur í Vélskólanum og um 80 í Stýrimannaskólanum. Af þessu má ráða, að rúmt er um hvern nemanda eða um það bil 21 fm. brúttó. Í bóknámi er almennt gert ráð fyrir 8 fm. á nemanda en allt að 15 fm. í plássfrekustu greinum verknáms.

Viðunandi kostur

Séu þær forsendur notaðar, sem hér er lýst, má auðveldlega rökstyðja hagkvæmni þess að flytja Stýrimannaskólann og Vélskólann í nýtt húsnæði. Forráðamenn Tækniskóla Íslands hafa ekki kvartað undan starfsaðstöðu í húsinu við Höfðabakka. Hátæknifyrirtækið Marel hefur starfað þar undanfarin ár og náð glæsilegum árangri.

Skipstjórnar- og vélstjóranám verður sífellt hátæknilegra. Er ekki óeðlilegt, að frá faglegum sjónarhóli líti menn til þess, að innra starf allra skólanna þriggja styrkist við nábýlið.

Fé til skólamála á Íslandi er takmarkað. Menntamálaráðuneytinu er skylt að tryggja sem besta nýtingu þess og má ekki láta undir höfuð leggjast að kynna kosti í því skyni. Það er ekki gert til að ögra neinum eða móðga heldur í von um, að með málefnalegum hætti komist menn að skynsamlegri niðurstöðu.

Höfundur er menntamálaráðherra.