17.10.1997

Afmælisráðstefna SÁA

Hlutverk ríkisins í forvörnum og meðferð
Afmælisráðstefna SÁÁ 17. október 1997

Hlutverk ríkisins ræðst að verulegu leyti af þeim kröfum, sem gerðar eru til þess hverju sinni. Um það er ekki deilt í okkar þjóðfélagi, að ríkið eigi að leggja verulegan skerf af mörkum til að tryggja velferð og alhliða öryggi borgaranna. Þar skiptir að sjálfsögðu mestu að þannig sé haldið á málum að kraftar og fjármunir nýtist sem best. Þegar litið er á baráttuna við fíkiefni skipta þess vegna forvarnir meginmáli.

Á þessu kjörtímabili hefur ríkisstjórnin brugðist við kröfum gagnvart henni á þessu sviði með heildstæðri áætlun í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum, þar sem mælt er fyrir um sameiginlegt átak, sem er nauðsynlegt því óhjákvæmilega koma fleiri en eitt ráðuneyti að þessum málum. Undir forystu dómsmálaráðuneytisins starfaði nefnd um samræmingu aðgerða á þessu sviði og hinn 3. desember 1996 samþykkti ríkisstjórnin síðan áætlun sína í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum.

Helstu þættir áætlunarinnar eru þessir:

Stefna ríkisstjórnarinnar í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum.
Stofnun sérstaks áfengis- og vímuvarnaráðs.
Auknir fjármunir til forvarna.
Efling löggæslu og tollgæslu.
Stuðningur við ungmenni í áhættuhópum gagnvart notkun fíkniefna og áfengis.
Samstarf ríkisins, Reykjavíkurborgar og Evrópuborga gegn eiturlyfjum um verkefnið Ísland án eiturlyfja árið 2002.
Fullgilding Íslands á samningi Sameinuðu þjóðanna gegn ólöglegri verslun með fíkniefni og skynvilluefni og samingi sem gerður var á vettvangi Evrópuráðsins um þvætti, leit, hald og upptöku ávinnings af afbrotum.

Um fyrsta liðinn af þessum sjö er það að segja að í stefnu ríkisstjórnarinnar eru sett fram áhersluatriði til ársins 2000 og þung áhersla lögð á að hvert ráðuneyti og undirstofnanir þeirra semji framkvæmdaáætlun til að útfæra stefnuna með hliðsjón af verkefnum hvers og eins. Sérstök nefnd sér síðan um að samræma aðgerðirnar eftir því sem þörf krefur.

Þegar litið er á hina liðina sex sést, að stjórnvöld hafa ekki setið auðum höndum. Á grundvelli stefnu ríkisstjórnarinnar hefur þegar verið veitt meira opinberu fjármagni til þeirra verkefna, sem eru tíunduð í áætluninni. Dómsmálaráðherra hefur kynnt hvernig staðið skuli að eflingu löggæslu og fjármálaráðherra að aukinni tollgæslu og til þess hefur verið varið nýjum fjármunum. Verkefnið Ísland án eiturlyfja árið 2002 hefur vakið mikla athygli og er skipulega unnið á grundvelli þess. Einnig voru alþjóðasamningarnir sem getið er í áætluninni staðfestir af Alþingi í maí á þessu ári.

Fimmti liðurinn, þ.e. stuðningur við ungmenni í áhættuhópum er sá sem helst má segja að tengist starfi menntamálaráðuneytisins og því langar mig að lýsa því í stuttu máli hvernig menntamálaráðuneytið hefur komið að forvörnum undir minni stjórn.

Það er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar að menntamálaráðuneytið fær á þessu ári 5 milljónir króna til forvarna. Fénu hefur meðal annars verið varið til að koma á fót teymi sérfræðinga sem ætlað er að skipuleggja forvarnarstarf í skólum. Ákvörðun um þetta starf var tekin á grundvelli nefndarálits sem var unnið undir forystu Guðríðar Sigurðardóttur ráðuneytisstjóra menntamálaráðuneytis um aðgerðir gegn sjálfsvígum. Í teyminu eru aðilar sem hafa reynslu og þekkingu af málefninu, það er skólastjóri, kennari, námsráðgjafi, skólahjúkrunarfræðingur og barnageðlæknir. Teyminu er einkum ætlað að vinna að stefnumörkun í forvarnarstarfi í skólum, sérstökum úrræðum vegna áhættu sem varðar sjálfsvíg og fíkniefnaneyslu á báðum skólastigum og að tillögum um þætti sem ákjósanlegt er að tekið sé mið af í námsefni grunn- og framhaldsskóla með sérstöku tilliti til áhættu sem varðar sjálfsvíg og fíkniefnaneyslu. Teymið á að ljúka störfum fyrir árslok 1997.

Starfið mun einkum beinast að ungmennum í áhættuhópum gagnvart notkun fíkniefna og áfengis. Greining og viðbrögð við áhættuhegðun innan skólans verður efld og beinn stuðningur sérfræðinga við nemendur og kennara í skólum aukinn. Þetta hefur meðal annars verið gert með sérstökum námskeiðum en í ágúst sl. var t.d. haldið námskeið fyrir grunn- og framhaldsskólakennara í samvinnu við endurmenntunarstofnun HÍ. Umsjón hafði Árni Einarsson á Fræðslumiðstöð í fíknivörnum, en hann hefur umsjón með forvarnaverkefni ráðuneytisins.

Námskeiðið var fjölsótt og þótti takast vel. Er ljóst, að mikill áhugi er hjá mörgum að vinna skipulega að þessum málum á vettvangi skólanna. Fjallað var um áhættuþætti áfengis- og vímuefnaneyslu ungs fólks, áhættuþætti sjálfsvíga, greiningu þessara þátta og viðbrögð við þeim. Námskeiðið sóttu kennarar, skólastjórnendur, námsráðgjafar og hjúkrunarfræðingar úr grunn- og framhaldskólum. Margir fyrirlesarar voru á námskeiðinu og m.a. dr. Gil Noam prófessor við Harvardlæknaskólann í Boston í Bandaríkjunum sem unnið hefur að skipulagningu á forvarnarstarfi í grunnskólum í Boston. Eftir veru sína hér á landi ritaði hann mér bréf og taldi einstakar aðstæður til að móta fyrirmyndar forvarnaráætlun fyrir ýmsa áhættuhópa æskufólks hér á landi. Er það von mín, að undir lok þessa árs hafi fyrrnefnt teymi sérfræðinga lagt grunn að slíkri áætlun.

Menntamálaráðuneytið veitir Rannsóknastofnun uppeldis- og menntamála sérstakan stuðning við rannsókn á högum ungs fólks ,,Ungt fólk 97". Sú rannsókn er mikilvægur grunnur forvarnarstarfs í skólum, íþrótta- og æskulýðsstarfi. Er ljóst, að íþróttaiðkun dregur úr áhrifum þeirra þátta sem ýta undir fíkniefnanotkun. Íþróttir hafa því almennt forvarnargildi og ber að skipulegga íþróttastarf ungmenna í nánum tengslum við skóla.

Ég tel, að rannsóknir Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála á þessu sviði sýni mikilvægi þess, að leitað sé sem haldbestra upplýsinga um þennan þjóðfélagsvanda

Ríkið þarf ekki síður en aðrir aðilar í forvarnar- og meðferðarstarfi að vera í góðu samstarfi við þá aðila sem meta árangur forvarnarverkefna til að kraftarnir nýtist sem best.

Sem menntamálaráðherra hef ég lagt mikla áherslu á að virkja sem flesta til forvarnarstarfa, enda sé þess gætt að allir stefni að sama marki og viti hver af öðrum. Þá eiga menn ekki að óttast nýjar leiðir að þessu marki og frekar ýta undir frumkvæði sem flestra en að telja að hin endanlega lausn sé fundin. Í þessu ljósi tók ég hugmynd framhaldsskólanema um sérstaka jafningjafræðslu mjög vel. Menntamálaráðuneytið hefur stutt verkefnið sérstaklega frá upphafi, bæði fjárhagslega og með því að taka þátt í verkefnisstjórn með fulltrúum skólameistara, kennara, námsráðgjafa og kennara, sem sinna félagsstörfum í framhaldsskólum.

Verkefnið felst í því að nemendur vinna sjálfir að viðhorfsbreytingu meðal framhaldsskólanema til neyslu áfengis og annarra fíkniefna. Meira en 6000 nemendur hafa hlýtt á fyrirlestra á vegum JF og á þessu skólaári er ætlunin að verkefnið nái til meira en 4000 ungmenna. Unga fólkið hefur látið sér detta margt gott í hug til að ná til jafnaldranna og nýlega veitti ég tengiliðum JF á Akranesi og nemendafélagi fjölbrautaskólans þar sérstaka viðurkenningu fyrir blómlegt starf á síðasta ári. Þá vöktu nemendur Menntaskólans við Hamrahlíð athygli fyrir skömmu fyrir frumlegar leiðir sem þeir fóru til að safna fjármagni til að fara í vímuefnalaus ferðalög. Úti á landi halda skólar vímuefnalaus sundlaugapartý, sérstakur ferðaklúbbur er starfandi og þannig mætti áfram telja.

Í þessu starfi er mikil gróska en ekki er hægt að ætlast til að nemendur beri einir hitann og þungann af forvarnarstarfi í þessum aldurshópi þegar vandinn er oft sá að foreldrarnir sýna neyslunni of mikið umburðarlyndi og eru e.t.v. ekki alltaf góðar fyrirmyndir að þessu leyti.

Ýmislegt fleira er á döfinni varðandi betra forvarnarstarf í skólum og þar má nefna að við gerð nýrrar námskrár fyrir grunn- og framhaldsskóla sem nú er unnið að verður sérstaklega hugað að fíknivörnum. Ekki er síður mikilvægt að kennaranám verði tengt betur við forvarnir. Einnig getur gott starf foreldra í grunnskólum reynst mjög öflugt í þágu forvarna. Í þessu tilliti verður hugað að frekari aðgerðum þegar fyrrgreint teymi sérfræðinga hefur lokið störfum.

Fíknivarnir í skólakerfinu munu aldrei leysa annað fíknivarnarstarf af hólmi. Menntamálaráðuneytið vill hins vegar með frumkvæði og stuðningi sínum stuðla að því að hinir fjölmörgu aðilar, sem hafa sýnt áhuga og mikinn dugnað í forvarnar- og meðferðarstarfsemi fái svigrúm og tækifæri til að láta starfsemi sína blómstra. Mikilvægt er að þeir vinni saman þannig að starfið verði markvisst og árangursríkt.

Góðir áheyrendur!

Þegar rætt er um forvarnir og meðferðarstarf á vettvangi hins opinbera verða menn að gæta sín á því að nefndarálit og þykkar skýrslur skila litlum árangri séu þær einungis geymdar í skúffum embættismanna. Það er líka varasamt þegar stjórnmálamenn eða opinberir aðilar slá um sig með hástemmdum yfirlýsingum og óraunhæfum markmiðum í forvarnarstarfi. Slík vinnubrögð geta valdið því að almenningur missi trú á því að unnt sé að ná raunverulegum árangri. Umræðan má ekki blossa upp með nokkurra ára millibili en hjaðna síðan án þess að skila nægilegum árangri.

Fjölmargir aðilar vinna nú að öflugu forvarnar- og meðferðarstarfi. Þar þarf að vera verkaskipting milli opinberra aðila annars vegar og einkaaðila hins vegar. Er augljóst að á 20 ára starfsferli sínum hefur SÁÁ sýnt og sannað, að hlutur áhugamannasamtaka er ómetanlegur og það á að vera markmið ríkisins að skapa þeim starfsgrundvöll en ekki seilast inn á verksvið þeirra.

Þá er ljóst að opinber forskrift dugar aðeins að takmörkuðu leyti í forvarnar- og meðferðarstarfi, mestu skiptir að einstaklingurinn sé reiðubúinn til að sætta sig við rök þeirra, sem vilja forða honum frá fíkninni eða losa hann úr greipum hennar. AA-samtökin eru á við bestu meðferðarheimili en eins og menn vita byggist styrkur þeirra á því að vera frjáls og öðrum óháð, sjálfsprottinn vettvangur þeirra, sem vilja fara þá meðferðarbraut, sem þau bjóða.

Af þessum orðum mínum geta menn auðveldlega ráðið, að ég tel ekki skynsamlegt að treysta í of ríkum mæli á opinbera forsjá í forvörnum og meðferð. Bestu úrræði hins opinbera felast í því að skapa einstaklingum og félögum þeirra svigrúm til að starfa og ýta jafnframt undir sérfræðiþekkingu og þjálfun hjá þeim opinberu starfsmönnum, sem starfa þar sem forvarnir eiga samleið með öðrum störfum og vísa ég þá ekki síst til skólanna.

Ég vil að lokum þakka fyrir að hafa fengið að ávarpa þessa glæsilegu og fróðlegu afmælisráðstefnu. Ég er tilbúinn að leggja mitt af mörkum til þessa góða málstaðar og fullyrði að ríkisstjórnin vill taka á þessum málum af heilum hug. Ég vil að lokum óska SÁÁ til hamingju með 20 ára afmælið og þakka fyrir hið farsæla starf sem samtökin hafa skilað á ferli sínum.