3.10.1997

Gunnlaugur Scheving - Listasafn Íslands

Gunnlaugur Scheving - Listasafn Íslands
3. október 1997

Æfingin skapar meistarann. Er öllum nauðsynlegt að hafa þetta spakmæli í huga, vilji þeir ná árangri. Sjaldan byggist hann á heppni eða meðfæddri snilligáfu einni saman. Agi og æfing ráða úrslitum hjá okkur flestum. Skiptir ekki máli til hvaða verks er gengið, án alúðar og elju er oftast unnið fyrir gýg.

Við komum hér saman í kvöld til að kynnast hluta af miklu ævistarfi listamanns, sem náði frábærum árangri. Einnig viljum við þakka fyrir hina höfðinglegu gjöf, sem Gunnlaugur Scheving listmálari færði Listasafni Íslands og íslensku þjóðinni. Gefst nú í fyrsta sinn tækifæri til að skoða ómetanlega dánargjöf Gunnlaugs.

Í sýningarskrá kemst Halldór Björn Runólfsson svo að orði: “Dánargjöfin - þessi mikilvægi lykill að hugarheimi og starfsaðferðum Gunnlaugs - er einstæð heimild um þrotlausa elju listamanns sem ekki lét frá sér verk nema hann væri fullkomlega ánægður með árangurinn."

Með því að gefa um 1800 verk sín hefur Gunnlaugur Scheving ekki aðeins skilið eftir sig dýrmætan listaarf heldur einnig fært þiggjendum einstakt tæki til að kenna þeim vönduð vinnubrögð, sem vilja ná árangri á listabrautinni. Fátt er brýnna á tímum hraða, örra breytinga og fjölmiðlaaugnabliksins en gefa sér tóm til að staldra við og muna eftir að vanda sig - öðlast skilning á því, sem býr að baki góðra og varanlegra listaverka.

Á sínum tíma naut ég þeirrar gæfu að kynnast Gunnlaugi lítillega og fá tækifæri til að heimsækja hann oftar en einu sinni í vinnustofu hans. Man ég eftir því, hvað mér þótti hinn hlédrægi, einlægi og vingjarnlegi maður á annan veg en stór og mikil málverkin, sérstaklega sjávarmyndirnar. Varð ég þar vitni að því, þegar tveir listamenn Gunnlaugur og Matthías Johannessen, skáld og ritstjóri, mótuðu bókina um Gunnlaug, sem kom út tveimur árum eftir andlát hans.

Á bókarkápu segir Kristján Karlsson, að Gunnlaugur hafi verið fálátur maður í samfélagi okkar einkum þegar á leið, því að hann hafi verið maður þögullar vinnu. Við sjáum hér á sýningunni, að hin þögula vinna hefur skilað miklum árangri.

Gunnlaugur segir við Matthías, að hann hafi aldrei getað málað mynd án fyrirmyndar, samt vilji hann ekki mála eftir fyrirmynd, því að sér sé eðlilegt að mála endurminninguna.

Þögul og einlæg endurminningin um Gunnlaug Scheving lifir í list hans og góðu fordæmi og hún verður ljóslifandi í hugskoti okkar og allra, sem kynnast leið hans til meistaralegs árangurs.

Góðir áheyrendur!

Ég vil við þetta tækifæri bjóða Ólaf Kvaran, nýjan forstöðumann Listasafns Íslands, velkominn til starfa. Hann fetar í fótspor Selmu Jónsdóttur og Beru Nordals, sem báðar settu markið hátt og áunnu safninu virðingu. Lýsir hún sér meðal annars í því, að safninu er trúað fyrir dánargjöf Gunnlaugs Schevings. Efast ég ekki um, að safnið lýtur áfram stjórn, þar sem mikill metnaður er í fyrirrúmi. Sýningin, sem nú er opnuð á verkum Gunnlaugs Schevings er til marks um það.