14.6.1997

TIMSS rannsókn

TIMSS rannsókn
Morgunblaðið, laugardagur 14. júní 1997.

Samstaða um nauðsyn breytinga Viðbrögð vegna niðurstaðna TIMSS-rannsóknarinnar

Samstaða um nauðsyn breytinga Viðbrögð vegna niðurstaðna TIMSS-rannsóknarinnar lýsa samstöðu um nýja stefnu í menntamálum, segir Björn Bjarnason, sem byggist á markmiðum, aga og árangri. UMRÆÐURNAR sem þegar hafa spunnist í tilefni af niðurstöðum TIMSS-rannsóknarinnar um frammistöðu íslenskra nemenda 3. og 4. bekkjar í stærðfræði og náttúrufræði sýna víðtækan stuðning við þá stefnu, sem fylgt hefur verið á þessu kjörtímabili, að í skólakerfinu eigi að setja fram skýr markmið og kröfur. Nú virðist flestum ljóst að án skýrra markmiða og aga næst ekki viðunandi árangur. Umræðurnar taka af allan vafa um nauðsyn þess að áfram verði unnið að gagngerri endurskoðun á íslenska skólakerfinu. Rætur vandans liggja víða og djúpt.

Ný menntastefna mótuð

Ný menntastefna var mótuð á síðasta kjörtímabili. Á fyrri hluta þess, sem nú er að líða, hefur nýjum grunnskólalögum og framhaldsskólalögum verið hrundið í framkvæmd. Endurskoðun á aðalnámskrám grunn- og framhaldsskóla er vel á veg komin og á að ljúka fyrir haustið 1998. Aðalnámskrár eru tæki stjórnvalda til að bæta skólastarf, menntun og árangur nemenda með óyggjandi hætti. Á herðum menntamálaráðuneytisins hvílir nú sú ábyrgð að leiða þetta starf. Árangursrík menntun hvílir á skýrum markmiðum, metnaðarfullum kröfum, ábyrgð þeirra sem að skólamálum koma, öflugu samstarfi heimila og skóla, eftirliti með árangri í skólastarfi, baráttuanda, hæfu starfsfólki og vitund nemenda um mikilvægi menntunar. Þegar fyrsti hluti TIMSS-rannsóknarinnar var birtur á liðnum vetri fóru fram umræður um niðurstöðurnar á Alþingi hinn 3. desember 1996. Þá röktu menn meðal annars upphaf vandans til fyrri hluta áttunda áratugarins. Athyglinni var jafnframt sérstaklega beint að markmiðum með skólastarfi, inntaki kennaramenntunar, fagmennsku kennara, lögverndun kennarastarfsins, meiri námsaðgreiningu og námsgagnaútgáfu.

Nýjungar í undirbúningi

Á undanförnum vikum og mánuðum hef ég sérstaklega beitt mér fyrir átaki á eftirfarandi sviðum:

Í nýjum námskrám verður lögð mikil áhersla á skýr og mælanleg námsmarkmið. Kröfur til nemenda á ýmsum stigum náms skulu vera ótvíræðar. Skýr markmið auðvelda nemendum að skipuleggja nám sitt og kennurum að skipuleggja kennslu sína og námsmat. Í sumar munu vinnuhópar skila tillögum um námskrárstefnu í einstökum námsgreinum, þ.á m. í stærðfræði og raungreinum, þar sem fram verða settar þær námskröfur sem talið er eðlilegt að gera til nemenda við námslok sem og á tilteknum áföngum í námi þeirra.

Í tengslum við endurskoðun aðalnámskráa hefur verið ákveðið að auka kennslu í stærðfræði og raungreinum í grunnskólum. Á framhaldsskólastigi er verið að skoða innihald námsbrauta með það að leiðarljósi að gera námið bæði markvissara og heilsteyptara.

Í mótun er mats- og eftirlitskerfi, á grundvelli grunn- og framhaldsskólalaga, sem eykur faglegt aðhald að skólastarfi. Aðgangur almennings að upplýsingum um árangur skólastarfs hefur nú þegar verið aukinn og á næstu árum innleiða grunn- og framhaldsskólar altæk sjálfsmatskerfi. Ráðuneytið stendur fyrir reglubundnum úttektum á skólastarfi til að tryggja lágmarksgæði í kennslu og rekstri skóla og hefur þegar gefið út viðmiðanir um sjálfsmat skóla.

Kennaramenntunarstofnanir verða með róttækum hætti að huga innra starfi sínu og fagbundnum markmiðum þess náms sem þær veita. Unnið er að úttekt á kennaramenntun í landinu með þátttöku erlendra aðila og er niðurstaðna að vænta snemma á næsta ári. Kennaramenntunarstofnunum hefur í ár verið veittur styrkur til að bjóða stærðfræðikennurum upp á endurmenntun á sínu sviði. Með frumvarpi til laga um Kennara- og uppeldisháskóla er lagður grunnur að öflugri stofnun á þessu sviði. Þá má geta þess að helmingur af ráðstöfunarfé Þróunarsjóðs grunnskóla í ár rann til verkefnaá sviði náttúrufræði og stærðfræði.

Á vordögum var lagt fram á Alþingi stjórnarfrumvarp um breytingu á lögverndun kennarastarfsins, sem gerir ráð fyrir að auðveldara verði að ráða fólk með sérmenntun til starfa í skólum, einkum framhaldsskólum.

Forsendur fyrir árangri

Ljóst er að námsefni í stærðfræði svarar ekki eðlilegum kröfum og ástæða er til að efast um réttmæti þeirrar stefnu og hugmyndafræði, sem fylgt var við gerð þess. Í þessu mati felst krafa um róttæka breytingu, bæði að því er varðar námskrá, námsefni og kennsluhætti. Birting niðurstöðu TIMSS rannsóknarinnar er í samræmi við þá stefnu, sem ég hef lagt til grundvallar í störfum menntamálaráðuneytisins, að upplýsingum sé miðlað um árangur í skólastarfi og þannig stuðlað að málefnalegum umræðum um alla þætti menntamála. Á þann hátt er best að skapa forsendur fyrir því að Íslendingar standi jafnfætis öðrum á öllum sviðum fræðslumála.