2.5.1997

Anna-Eva Bergmann, sýning

Anna-Eva Bergmann sýning í Gerðarsafni ávarp
3. maí 1997

Íslensk myndlistarsaga hefst í nútímanum, þegar listrænir ungir menn komast í kynni við erlenda myndlistarmenn með því að sjá verk þeirra á sýningum utan landsteinanna. Síðan eru straumarnir virkjaðir af íslenskum höndum og fá á sig þá, sem mynd, sem íslenskt umhverfi mótar.

Sagan kennir okkur, að myndverk erlendra manna skilja eftir sig áhrif, sem geta birst með nýjum hætti við íslenskar aðstæður.

Við vitum einnig, að íslenskir myndlistarmenn, sem starfa erlendis flytja þangað með sér íslensk áhrif og viðfangsefni þeirra eiga oft rætur í umhverfi bernsku og uppvaxtar. Á þetta ekki síst við um íslenskar myndlistarkonur. Safnið þar sem við erum nú er einmitt kennt við eina þeirra Gerði Helgadóttur.

Fyrir tæpri hálfri öld eða haustið 1947 hélt Gerður út í heim. Hún fór sínar eigin leiðir. Vakti aðeins þremur árum síðar athygli á sýningu í París og komst síðan í framvarðarsveit listamanna þar. Í bókinni um Gerði hefur Elín Pálmadóttir þetta eftir japanska myndhöggvaranum Tajirii: “Ég bar mikla virðingu fyrir henni. Kvennabyltingin í nútímaskilningi þess orðs var varla byrjuð og það þurfti mikið hugrekki til að vera öðruvísi en aðrir."

Norska myndlistarkonan Anna-Eva Bergmann var eldri en Gerður Helgadóttir en það var þó einmitt sama árið og Gerður hélt út í heim, að Anna-Eva Bergmann fór að mála aftur eftir 10 ára hlé. Hafði hún þá dvalist í Noregi um nokkurt árabil en flyst síðan til Parísar 1952 en það ár eru þrjár sýningar í borginni með verkum Gerðar, þar af ein einkasýning.

Ekki er mér kunnugt um, að þessar tvær norrænu listakonur hafi nokkru sinni hist, þótt ekki sé það ólíklegt, því að báðar hafa þær vafalaust sótt samkomur eins og þessar hér í dag í París á sínum tíma. Hitt er ljóst, að báðar fluttu þær með sér hluta af norðlægu umhverfi sínu til heimsborgarinnar.

Árin eftir að Anna-Eva Bergmann snýr að nýju til Parísar vinnur hún úr áhrifum af kynjamyndum norskrar náttúru og mótar eigin stíl, þannig að einnig hún hefur hugrekki til að vera öðruvísi en aðrir. Er henni líst á þann veg, að þessi kona, sem gat virst svo fíngerð og viðkvæm, hafi skapað myndir, sem bjuggu yfir ótrúlegum styrk.

Góðir áheyrendur!

Hljóma orðin ekki enn kunnuglega, þegar við leiðum hugann að hinum ágætu íslensku myndalistarkonum, sem hafa haslað sér völl erlendis? Við getum því með góðri samvisku slegið því föstu, að á hinni glæsilegu sýningu, sem hér er að hefjast í dag, gefist einstakt tækifæri til samanburðar við margt hið besta úr íslenskri myndlistarsögu.

Sýningin á uppruna í Frakklandi en hefur í rúmt ár verið á ferðalagi um Noreg. Er mikils virði, að hún skuli hafa komið hingað til lands og óska ég Listasafni Kópavogs til hamingju með að standa enn að merkum listviðburði, um leið og ég lýsi sýninguna opna..