15.4.1997

Ræða á ársfundi Rannsóknarráðs Íslands

Ræða á ársfundi Rannsóknarráðs Íslands
15. apríl 1997

Við mat á úrræðum okkar Íslendinga til að halda stöðu okkar í fremstu röð meðal þjóða í efnalegu tilliti vega rannsóknir og vísindi sífellt þyngra. Fyrir þá, sem bera ábyrgð á þessum málaflokki, er mikilvægt að vekja með jákvæðum hætti athygli á þessari staðreynd. Ber að vinna því almennt fylgi, að ekki sé lögð minni rækt við þennan þátt í atvinnulífi þjóðarinnar en aðra. Færa má að því sterk rök, að hér sé um forsendu skynsamlegra úrræða og vinnubragða á öllum sviðum að ræða.

Ég tel, að sérstakt lag sé til þess nú að vinna málstað rannsókna, vísinda og þekkingar brautargengi, þegar stöðugleiki og festa ríkir í stjórnmála- og efnahagslífinu. Þegar verðbólga og glundroði, sem henni fylgir, ræður ríkjum, brenglast allt verðmætamat og hætta eykst á því, að þeim hlutum sé haldið fram, sem í raun eru sókn eftir vindi. Við þær aðstæður, sem skapast hafa í íslensku þjóðfélagi á undanförnum árum og eiga enn eftir að ríkja um nokkurra ára skeið, ef rétt er á málum haldið, ætti að vera auðveldara en ella að rökstyðja stuðning við það, sem skiptir máli og skilur eftir sig raunveruleg verðmæti, þegar upp er staðið. Þar ber menntun, rannsóknir og vísindi hæst vegna hins varanlega afraksturs, sem þeim fylgir. Góð menntun verður aldrei tekin frá einstaklingi, hvað sem á dynur. Vísindin efla alla dáð svo sem kunnugt er og reynslan ætti að hafa kennt okkur Íslendingum, að rannsóknir og íhugun eru skynsamlegri forsendur fjárfestinga en óðagot og flumbrugangur yfirborðsmennskunnar.

Stjórnmálamenn reiða sig æ meira á sérfræðilega ráðgjöf á öllum sviðum. Ekki eru þó mörg ár síðan menn sáu ofsjónum yfir sérfræðingum. Umræður snerust um, hve óheppileg of mikil sérhæfing gæti orðið, líklega væri brjóstvitið oft betra að lokum. Þessi tími er liðinn. Minnumst þess þó, að sérfræðileg ráðgjöf leysir stjórnmálamenn eða aðra ekki undan þeirri ábyrgð að taka ákvörðun, velja á milli ólíkra kosta, ef þeir eru í boði og rökræða niðurstöðu sína.

Gjörbreyttar aðstæður


Á því er enginn vafi, að aukin sérfræðileg þekking á hagstærðum íslenska þjóðfélagsins hefur átt sinn þátt í því, að skynsamlegar er staðið að kjarasamningum en áður. Í þessu efni gerir þekkingin menn frjálsa undan skammtímalausnum og eyðir tortryggni, þegar ekki er tekist á um forsendur.

Menn ættu að bera saman aðstæður íslenskra stjórnvalda nú eða fyrir rúmum 30 árum, þegar teknar eru ákvarðanir um starfsleyfi nýs álvers. Nú eru til lög og reglur, sem mæla fyrir um, hvernig staðið skuli að sérfræðilegu mati og rannsóknum til að búa mál í hendur stjórnvalda til ákvörðunar. Slíkt útilokar vissulega ekki deilur um niðurstöðuna en ætti þó að auðvelda mönnum að átta sig á því, um hvað er deilt og hvers vegna.

Vísindaleg ráðgjöf um fiskveiðar og veiðiþol einstakra fiskistofna hefur verið í heiðri höfð. Öllu skipulagi á sókn íslenskra skipa á heimamið og einnig í vaxandi mæli á úthöfin hefur verið hagað í samræmi við hana. Er nú svo komið, að í senn hefur tekist að koma í veg fyrir eyðingu stofnanna og stuðla að hagræðingu í fiskveiðunum. Afleiðingin er hins vegar sú, að ýmsir sjá ofsjónum yfir afkomu útgerðar og sjómanna og vilja beita skattheimtuvaldi ríkisins til að seilast dýpra ofan í vasa þeirra. Er þetta einnig sagt í nafni vísinda og rannsókna.

Við nýlegt eldgos í Vatnajökli jókst skilningur manna á gildi jöklarannsókna við töku skynsamlegra ákvarðana um mannvirkjagerð og viðbrögð við einstæðum hamförum náttúrunnar. Einnig varð fleirum betur ljóst en áður, að hér eru einstæðar aðstæður til að stunda grunnrannsóknir á samspili elds og ísa. Viðbrögð þeirra, sem fara með fjárveitingarvaldið á Alþingi, sýndu skömmu fyrir jól, að þar eru menn til þess búnir að veita sérstaka fjárveitingu til að auðvelda störf þeirra, sem við þessar rannsóknir starfa.

Mikilvægi kynningarstarfs


Fyrir nokkrum vikum lagði ég skýrslu um stöðu og horfur í vísinda- og tæknimálum fyrir Alþingi. Er það í fyrsta sinn, sem slík skýrsla er lögð fyrir þingið, en samkvæmt lögum um Rannsóknarráð Íslands skal ráðið árlega skila menntamálaráðherra skýrslu, sem hann leggur síðan fyrir Alþingi ásamt greinargerð sinni. Er þetta gert þingmönnum til kynningar og umfjöllunar.

Þegar ég las skýrslu Rannsóknarráðs Íslands undraðist ég yfir því, að þar sjást þess merki, að talið er nauðsynlegt að réttlæta ráðið, hlutverk þess og gildi rannsókna og vísinda. Ég hélt satt að segja, að í almennum umræðum og á stjórnmálavettvangi værum við komin yfir það stig, að færa þyrfti fyrir því sérstök rök, að rannsóknir og vísindi skipti sköpum fyrir framtíð okkar eins og annarra þjóða. Spurningin snýst ekki um þetta heldur hitt, hvernig getum við best nýtt okkur þekkingu byggða á rannsóknum og vísindum.

Í ræðu minni hér á þessum vettvangi fyrir einu ári lagði ég áherslu á það, að Rannsóknarráð Íslands skilgreindi, hvað væri í boði fyrir fyrirtæki, sem hefðu nú meira bolmagn en áður til að festa fé í rannsóknar- og þróunarverkefnum. Vil ég árétta þessa skoðun mína, því að ég er sannfærðari en áður um, að nútímafyrirtæki fá ekki þrifist án samstarfs við rannsóknastofnanir og á grundvelli þess starfs, sem unnið er innan veggja þeirra. Einnig skal ítrekað, að stjórnendur fyrirtækja þurfa með markvissari hætti en áður að gera sér grein fyrir, hvers þeir vænta af vísinda- og rannsóknastarfi. Hér er því um gagnkvæma hagsmuni að ræða milli fyrirtækja og vísinda- og rannsóknastofnana.

Tel ég, að í þessu ljósi sé meðal annars brýnt, að kynna fyrir almenningi og atvinnulífi niðurstöður, árangur og starfshætti íslenskra vísindamanna mun betur en gert hefur verið. Það sé vænlegri leið til að ná árangri í þágu rannsókna og vísinda en reka kvörtunarstefnu vegna skorts á opinberum fjárveitingum eða samstarfi við einstök ráðuneyti.

Alþjóða- og Evrópusamstarf


Rannsókna- og vísindastarf er alþjóðlegt í eðli sínu. Þar er tekist á við verkefni, sem ekki eru bundin við landamæri eða einstakar þjóðir. Stóraukin þátttaka Íslendinga í alþjóðlegu vísindasamstarfi hefur fært heim sanninn um, að íslenskir vísindamenn standa sig vel í samkeppni við erlenda starfsbræður og óhætt er að fullyrða, að við höfum margt að bjóða í því efni.

Ánægjulegt samstarf á heimavettvangi hefur tekist um mótun stefnu Íslands vegna fimmtu rammaáætlunar Evrópusambandsins um rannsóknir og tækniþróun. Má segja, að í þeirri vinnu hafi í senn tekist að beina umræðum um höfuðviðfangsefni okkar heima fyrir inn í alþjóðlegan farveg og jafnframt draga fram áhersluatriði í samvinnu stjórnvalda og vísindasamfélagsins. Þess vegna vil ég líta þannig á, að í þeirri stefnu, sem hefur verið kynnt Evrópusambandinu, felist einnig forgangsröð fyrir þá, er starfa á vettvangi Rannsóknarráðs Íslands og annars staðar að rannsóknum og vísindum fyrir opinbert innlent fé.

Vil ég hér á þessum vettvangi árétta mikilvægi þess, að veittur sé stuðningur til að treysta íslenska menningu og sérkenni hennar. Verði þá sérstaklega litið til þess, hvernig nýta megi upplýsingatæknina í þessu skyni. Gefst nú einstakt lag til þess hér heima fyrir, í norrænu samstarfi og á evrópskum vettvangi. Ættum við Íslendingar að setja okkur það markmið að vera í fararbroddi á þessu mikilvæga sviði. Menningarleg einsleitni okkar, sérstaða tungumálsins og traustar forsendur þess gefa okkur tækifæri til að nálgast þetta viðfangsefni með skipulegri hætti en þeim ríkjum, þar sem togstreita á milli málsamfélaga eða tillit til menningarlegra minnihlutahópa setja strik í reikninginn.

Ný skólalöggjöf


Undanfarin ár hefur allt skipulag íslenskra skólamála verið til endurskoðunar. Ný lög hafa verið sett um leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Fyrsta starfsári grunnskóla í umsjá nýs húsbónda, sveitarfélaganna, er að ljúka. Framhaldsskólarnir eru að laga sig að nýjum lögum. Stefnt er að því að samskipti menntamálaráðuneytisins og framhaldsskóla taki stakkaskiptum á grundvelli samninga um árangursstjórnun. Unnið er að því að setja grunn- og framhaldsskólunum nýjar aðalnámskrár.

Hef ég lagt á það áherslu, að markmið, kröfur og agi verði höfð að leiðarljósi í þessari endurskipulagningu. Miðlun upplýsinga um innra starf og árangur í skólum er meiri en áður og á að aukast. Samræmd próf verða tekin upp í framhaldsskólum. Samanburður er ekki aðeins á milli skóla innanlands heldur einnig alþjóðlegur. Er þar skemmst að minnast TIMSS-rannsóknarinnar um kunnáttu í stærðfræði og náttúrugreinum.

Þessi rannsókn hefur vakið miklar umræður hér á landi og annars staðar. Vikuritið The Economist fjallaði nýlega um hana og komst að sömu niðurstöðu og ég hef meðal annars hreyft í umræðum hér, að skýringuna á því, hvers vegna þjóðum vegnar misjafnlega vel, sé líklega helst að finna í kennsluháttum og þá því, hvernig menntun kennara er háttað. Telur blaðið, að umræður um slíka þætti séu vænlegri til úrbóta en þreytandi rifrildi um það, hve miklu fé sé veitt úr ríkissjóði. Það virðist hvort sem er ekki skipta mjög miklu, þegar litið er til námsárangurs.

Í upphafi þessa mánaðar lagði ég fyrir Alþingi þrjú lagafrumvörp, sem ástæða er til að nefna hér. Þar vil ég fyrst nefna frumvarp, sem lýtur að rétti manna til að stunda kennslu í grunn- og framhaldsskólum. Tillögur mínar miða að því að auka fagþekkingu þeirra, sem stunda kennslu í framhaldsskólum á kostnað kennslufræðinnar.

Í öðru lagi nefni ég frumvarp til laga um háskóla. Þar er farið inn á þá braut að skilgreina, hvaða kröfur skólar verða að uppfylla til að teljast háskólar. Með hliðsjón af innlendum aðstæðum tel ég ekki fært að gera afdráttarlausa kröfu um, að innan háskóla séu stundaðar rannsóknir. Er líklegt að skil milli háskóla eigi eftir að byggjast á þessum þætti. Samþykkt frumvarpsins auðveldar mjög að laga háskólastigið að nýjum aðstæðum, þar sem alþjóðleg samkeppni skiptir miklu meira máli en áður.

Í þriðja lagi nefni ég frumvarp til laga um Kennara- og uppeldisháskóla Íslands. Þar er mælt fyrir um sameiningu fjögurra skóla í einn, það er þriggja framhaldsskóla; Fósturskólans, Íþróttakennaraskólans og Þroskaþjálfaskólans og Kennaraháskóla Íslands. Sameining skólanna á tvímælalaust eftir að styrkja aðstöðu starfsmanna þeirra til að stunda rannsóknir.

Ég vek athygli á því, að samþykki Alþingi frumvarpið um háskóla, hefur það á fáeinum árum skapað öllu skólastarfi í landinu nýjan lagaramma. Eins og flutningur grunnskólans, námskrárvinnan og samningaferlið um aukið sjálfstæði framhaldsskólanna sýnir hefur markvisst verið unnið að alhliða breytingum á grundvelli hinna nýju laga. Við framkvæmd alls þessa ber að hafa hugfast, að á öllum skólastigum ber að rækta með ungu fólki áhuga á rannsóknum og vísindum. Reynslan sýnir, að hvatning innan og utan skóla er besta úrræðið til að laða fram hið besta. Vil ég í því efni nefna hvers konar keppni.

Nýskipan á rannsóknastarfi


Rannsóknarráð Íslands hefur eindregið lagt til, að skipan rannsóknastarfseminnar í landinu verði endurskoðuð. Er nauðsynlegt, að gengið verði til þess verks með skipulegum hætti. Vandinn er hins vegar sá, að á þessu sviði hefur orðið til svo mikið af sjálfstæðum einingum, sem starfa í raun á náskyldum sviðum, án þess að eiga skipulega samvinnu, að erfitt getur reynst vegna sjálfstæðiskröfu smákonungdæma að skapa þá samfellu og heild, sem Rannsóknarráð telur nauðsynlega. Innan Háskóla Íslands eins eru til dæmis um 40 stofnanir, sem leggja með einum eða öðrum hætti stund á rannsóknir.

Í skýrslu Rannsóknarráðs kemur fram, að ráðið telur réttilega óheppilegt, að endurskipulagning rannsóknastarfseminnar sé knúin í gegn “undir formerkjum niðurskurðar með pólitískri ákvörðun gegn vilja alls þorra þess sérfróða fólks sem á þessum stofnunum vinnur." Vandinn er hins vegar sá, að þetta ágæta fólk hefur eðlilega ekki sérþekkingu á því, hvað best dugar til að ná árangri í rekstri stofnana. Hljótum við að greina á milli inntaks rannsókna annars vegar og rekstrarramma þeirra hins vegar. Hér er ég að ræða rammann. Markmiðið á að vera að treysta rekstrarlega ábyrgð og sjálfstæði þessara stofnana, um leið og gerðar eru sömu kröfur til opinbers rekstrar og annarra á samkeppnismarkaði. Fjárveitingarvaldið lítur á sig sem kaupanda þjónustu og og ekki er á vísan að róa um auknar fjárveitingar ríkisins. Hér eins og endranær eru gerðar kröfur um gæði þjónustunnar og fái kaupendur, fjárveitingarvald og fyrirtæki, ekki það sem þeir vænta, hætta þeir viðskiptunum eða snúa sér annað.

Hingað til hefur löggjöf um háskólastigið verið sniðin að einstökum stofnunum, sem veita háskólamenntun. Lagafrumvarpið um háskóla byggist hins vegar á því meginsjónarmiði, að lögfestar verði kröfur, sem gera verði til háskólastofnana. Síðan sé það matsatriði í hverju tilviki, hvort setja þurfi sérstök lög um einstaka skóla í samræmi við almennu löggjöfina. Frumvarpið um Kennara- og uppeldisháskólann sýnir, hvernig unnt er að laga starfsramma um einstaka stofnun að rammalöggjöfinni.

Skynsamlegt kann að vera að haga nýskipan rannsóknastarfsemi í landinu með sama hætti. Setja almenn lög um rannsóknir og gera síðan kröfu til þess, að einstakar stofnanir lagi sig að þeim. Varpa ég þessari hugmynd fram til umhugsunar. Er ljóst, að vinna verður að framgangi hennar með öðrum hætti en lagafrumvarpinu um háskóla, þar sem rannsóknastofnanir heyra undir fleiri ráðuneyti en menntamálaráðuneytið. Sú stjórnsýslulega staðreynd breytir ekki hinu, að stofnanirnar eiga fleira sameiginlegt í innra starfi sínu en það, sem aðskilur þær. Skipulagið á auðvitað frekar að taka mið af eðli starfseminnar en verkaskiptingu innan stjórnarráðsins.

Yrði sett almenn löggjöf um rannsóknastarf þyrfti að kveða á um, hvaða kröfur ætti að gera til þeirra, sem nefndust rannsóknastofnanir. Tengsl slíkra stofnana við menntun, menningu og atvinnulíf yrðu ákveðin og hvernig staðið væri að samskiptum við fjárveitingarvaldið. Þróunin í fjárveitingum undanfarinna ára hefur einkennst af þeirri stefnu, að verkefnabinda stuðning, enda renni fé í gegnum sjóði, þar sem um það er keppt með umsóknum og úthlutun á faglegum forsendum.

Ótvírætt hagrænt gildi


Ég er sömu skoðunar og leiðarahöfundur The Economist að leiðigjarnt rifrildi um opinberar fjárveitingar í ræðum á fundum eins og þessum eða endranær séu næsta tilgangslausar. Að sjálfsögðu er ávallt auðvelt að færa rök fyrir því, að gera megi meira fyrir stærri skerf af skattfé almennings. Með öllu er óþarft að telja það til marks um áhugaleysi eða vanþekkingu ríkisstjórnar og fjárveitingarvalds, að minna fé fæst en óskað er. Öll reynum við að gera okkar besta, en verðum að velja og hafna.

Til að skapa menntun og rannsóknum betri vígstöðu í keppninni um opinbert fé, fól ég fyrr í vetur Hagfræðistofnun Háskóla Íslands að semja fyrir mig skýrslu um tengsl menntunar og framleiðni. Lagði ég hana síðan fyrir ríkisstjórn hinn 14. febrúar síðastliðinn.

Einn kaflinn fjallar um rannsóknir og þróun. Þar segir meðal annars, að flestir hagfræðingar, sem hafa rannsakað samband rannsóknar- og þróunarstarfs og hagvaxtar álíti, að ekki sé varið nægu fé í þennan málaflokk. Stafi þessi skoðun væntanlega af því, að arðsemi rannsóknar- og þróunarstarfs sé mun meiri en flestra annarra fjárfestingarkosta. Bendi fjöldi bandarískra rannsókna til þess, að þjóðhagsleg arðsemi rannsóknar- og þróunarstarfs sé á bilinu 70-110%. Fram kemur, að hér á landi hafi útgjöld á ársverk í rannsóknum og þróun tvöfaldast á tímabilinu 1971-1993 og útgjöld á hvern Íslending tæplega fjórfaldast. Þá segir orðrétt: “Af þessu má vera ljóst að mikið átak hefur átt sér stað í rannsóknar- og þróunarstarfi sl. aldarfjórðung."

Heildarframlög Íslendinga til rannsókna og þróunar hafa vaxið úr 1,9 milljarði króna árið 1975 í um 6,9 milljarð króna árið 1995 á verðlagi þess árs. Á sama tíma hefur ársverkum á þessu sviði fjölgað úr rúmlega 500 í um 1600. Þetta átak er meðal annars að skila okkur þeim hagvexti, sem nú má alls staðar sjá merki. Hlutur atvinnulífsins í fjármögnun og framkvæmd rannsóknar- og þróunarstarfs hefur farið ört vaxandi, því að stjórnendur átta sig æ betur á hagrænu gildi þessa starfs. Enn er hlutur íslensks atvinnulífs of lítill miðað við grannþjóðirnar. Einmitt þess vegna er nauðsynlegt að vekja enn betur athygli á þjóðhagslegri arðsemi rannsóknar- og þróunarstarfs hér á landi eins og annars staðar.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins


Fyrir Alþingi liggur nú frumvarp til laga um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Samkvæmt því verða fjórir milljarðar króna lagðir í þennan sjóð, sem á að stuðla að rannsóknum og þróun. Er með því komið til móts við þau sjónarmið, sem Rannsóknarráð hefur kynnt um að bæta aðgang fyrirtækja að áhættufé til nýsköpunarverkefna. Hefur ráðið hvatt til þess, að myndaður verði sérstakur nýsköpunarsjóður, sem geti stutt við þróunarvinnu á lokastigi nýsköpunar, tilraunaframleiðslu og byrjun á markaðssetningu svo og aðra þætti á fyrsta skeiði nýrrar framleiðslu.

Hlutverk Nýsköpunarsjóðs er að stuðla að uppbyggingu og vexti íslensks atvinnulífs með því að taka þátt í fjárfestingarverkefnum á sviði nýsköpunar og styðja við þróunar- og kynningarverkefni. Í þessu skyni er sjóðnum heimilt að leggja fram hlutafé eða veita lán, ábyrgðir eða styrki, eins og segir í lagafrumvarpinu. Öll fyrirtæki, í hvaða atvinnugrein sem er, skulu eiga jafnan aðgang að fjármagni úr sjóðakerfi atvinnuveganna. Er afnumin sú atvinnugreinaskipting sem verið hefur í sjóðakerfinu.

Nýtt Rannsóknarráð


Hinn 5. ágúst næstkomandi rennur út skipunartími þeirra manna, sem sitja í hinu fyrsta Rannsóknarráði Íslands. Vil ég þakka þeim störf þeirra. Það hefur ekki verið vandalaust að móta hinu nýja ráði starfsreglur og setja því stefnu.

Lögin um Rannsóknarráð mæla fyrir um, að þau skuli endurskoðuð innan fimm ára, frá því að þau tóku gildi 1994. Þegar litið er til þess mikilvæga brautryðjendastarfs, sem unnið hefur verið á vettvangi ráðsins undanfarin ár og stefnumótunarvinnu þess, er æskilegt að nýta þekkingu þeirra, sem ljúka brátt lögbundinni setu sinni í ráðinu, við mat á lögunum. Þess vegna hef ég ákveðið að óska eftir því, að núverandi stjórnarmenn Rannsóknarráðs veiti mér umsögn um reynslu sína af því að starfa eftir lögunum og geri tillögur til úrbóta, telji þeir þörf á.

*

Í upphafi máls míns sagði ég, að nú væri sérstakt lag til þess að vinna málstað rannsókna, vísinda og þekkingar brautargengi vegna stöðugleika og festu í stjórnmála- og efnahagslífi. Það er einnig sérstakt lag vegna þess, að hin góðu áhrif af störfum íslenskra vísindamanna verða sífellt greinilegri. Fyrir þau mikilvægu störf vil ég þakka og heita liðsinni mínu við þennan góða málstað.
Árangur næst ekki án frumkvöðla, einstaklinga, sem búa yfir framsýni og áræði. Sé markmið okkar við framkvæmd skóla- og rannsóknarstefnu að ýta undir frumkvæði og hvetja til dáða erum við á réttri braut.