5.2.1997

Stefnubreyting í íslensku menntakerfi

Stefnubreyting í íslensku menntakerfi
Grein í Morgunblaðinu, 5. febrúar 1997.

Hér á landi voru lög um barnaskóla fyrst sett fyrir réttum 90 árum, eða árið 1907. Síðan er mikið vatn til sjávar runnið og menntakerfið hefur ekki verið ósnortið af tískubylgjum frekar en aðrir þættir samfélagsins.

Ákveðin vatnaskil urðu í fræðslumálum hér undir lok sjöunda áratugsins og við upphaf þess áttunda. Þeir, sem hafa skilgreint stefnubreytingu á þessum árum með gagnrýnum hætti, segja, að alls engin þörf hafi verið á henni. Hvorki foreldrar né kennarar hafi krafist breytinga.

Þessari breytingu á skólakerfinu hefur meðal annars verið lýst á þann veg, að kennarar hafi hætt að mennta kennara í kennaraskólum og þess í stað hafi sérfræðingar í uppeldisog sálarfræðum tekið kennara í fóstur. Ekki nóg með það, heldur hafi kennisetningar í þessum fræðum ekki reynst haldgóð vísindi. Þannig hafi kenningar um þroskastig barna eftir aldri þeirra beinlínis stuðlað að metnaðarleysi í kennslu og námsframboði.

Mig skortir forsendur til að fella dóma um réttmæti þessarar gagnrýni. Á hinn bóginn tel ég, að heilbrigð skynsemi ætti að segja öllum, að agalaus skóli sé lítils virði, að skóli, sem hafnar samkeppni og prófum, skili ekki miklum árangri. Þá er það ekki sannfærandi, þegar því er haldið fram, að starf innan veggja skóla sé svo sérhæft og sérstakt, að foreldrum komi það ekki við, af því að þeir skilji það ekki.

Fjölmörg framfaraskref

Íslenska skólakerfið hefur tekið miklum breytingum á undanförnum misserum. Þær breytingar hafa orðið til að færa skólakerfið fjær þeirri stefnu sem sett var á sjöunda áratugnum. Miðstýring hefur minnkað, fjárhagslegt sjálfstæði skóla er að aukast og kröfur um aukinn aga og betra eftirlit með gæðum náms hafa náð fram að ganga.

Grunnskólinn er nú alfarið í höndum sveitarfélaganna, þegar litið er til rekstrar hans. Námskrá er hins vegar sett af ríkisvaldinu og menntamálaráðuneytið hefur eftirlit með innra starfi í grunnskólum, á þess vegum er efnt til samræmdra prófa auk þess sem ríkisvaldinu ber að sjá skólunum fyrir námsefni.

Framhaldsskólastigið er einnig að taka miklum breytingum í kjölfar nýrra laga. Er það markmið mitt, að framhaldsskólarnir verði jafnt í orði sem á borði sjálfstæðar stofnanir, sem geri áætlanir um eigin starfsemi og fái til hennar fé á grundvelli samninga við menntamálaráðuneytið og eftir ákvörðunum Alþingis. Skólarnir skulu að sjálfsögðu starfa í samræmi við námskrár undir fjárhagslegu og faglegu eftirliti ráðuneytisins, sem meðal annars byggist á samræmdum prófum.

Um þessar mundir er endurskoðun á aðalnámskrám grunn- og framhaldsskóla að komast á fullan skrið. Ég hef grun um, að fáir leiði í raun hugann að því, hve hér er um mikilvægt verkefni að ræða, því að með aðalnámskránni er innra starf skólanna mótað. Til dæmis var það í almennum hluta aðalnámskrár frá 1976, sem gefin voru fyrirmæli um, að ekki ætti að skipta nemendum í bekkjardeildir eftir námsgetu og námsárangri. Er ætlunin að virkja kennara, foreldra, aðila atvinnulífsins og alla, sem áhuga hafa á menntamálum til þátttöku í þessu mikla verkefni.

Undanfarnar vikur hefur verið lögð töluverð vinna í það á vegum menntamálaráðuneytisins að smíða nýja löggjöf fyrir háskólastigið. Er hér um svonefnda rammalöggjöf að ræða, það er hún spannar háskólastigið í heild án tillits til einstakra skóla. Nú er talið, að í raun séu hér á landi 13 skólar, sem með einum eða öðrum hætti veiti háskólamenntun.

Af þessu stutta yfirliti sést, að það ríkir síður en svo nokkur kyrrstaða á þessum þremur meginskólastigum. Á hinu fjórða, leikskólastiginu, hefur einnig verið unnið að breytingum á grundvelli nýrra laga. Þar er að hefjast vinna við að endurskoða það, sem má kalla námskrá leikskólanna.

Innra starfið

Umræður um skólastarf að undanförnu hafa mjög beinst að innri málum skólanna. Ljóst er, að almenningur lætur sig þann þátt fræðslumála meiru skipta en áður. Upplýsingum er miðlað með nýjum hætti bæði með þátttöku í alþjóðlegum könnunum og birtingu upplýsinga um stöðu einstakra grunnskóla.

Þessar nýju upplýsingar leiða til allt annars konar umræðna en áður og skólamenn spyrja sig nýrra spurninga eins og þeirra, hvaða námsefni sé í boði í grunnskólum í Singapore. Svör við þeim leiða síðan athyglina að því, sem við bjóðum í okkar skólum. Hugmyndum um, að menn komist fyrirhafnarlaust í gegnum skólakerfið hefur verið ýtt til hliðar.

Lengi hefur blasað við, að hafa þyrfti sérstaka aðgát til að beina Íslendingum í raungreinanám. Hinn 1. júní 1989 birtist til dæmis grein eftir Sigríði Theodórsdóttur, þáverandi kennara í Menntaskólanum við Hamrahlíð, þar sem hún lýsti nákvæmlega þeim vítahring, sem við höfum búið okkur til í raungreinum. Fáir kennarar leggja stund á þær í námi sínu, raungreinafræðslu er því ekki miðlað sem skyldi í grunnskólum, áhugi á raungreinanámi minnkar í framhaldsskólum og enn minnkar þá áhuginn í Kennaraháskólanum. Háskólinn útskrifar sárafáa stærðfræðinga og nú er nemendaskortur áhyggjuefni í verkfræðideild.

Sérhver þjóð hefur sín sérkenni, sem fylgja henni mann fram af manni án tillits til þess, sem í skólum er boðið. Að sjálfsögðu á skólinn ekki að hafa það sem markmið að uppræta slík sérkenni heldur leggja rækt við þau, um leið og kennd eru vinnubrögð til að takast á við ný viðfangsefni.

Óeigingjarnt skólastarf

Gott og óeigingjarnt starf er unnið í skólum landsins. Hvar sem ég hef komið í skóla blasir við mikill metnaður og vilji skólastjórnenda, kennara og nemenda til að leggja mikið af mörkum. Þó er ljóst að margt má betur fara til að menntun verði búið það umhverfi að íslensk börn standi ekki að baki jafnöldrum sínum í öðrum löndum.

Höfundur er menntamálaráðherra.