17.1.1997

Hótel- og matvælagreinar í MK

Nýtt verknámshús Menntaskólans í Kópavogi
17. janúar 1997.

Við komum hér saman í dag til að fagna því, að langþráðu markmiði er náð. Nýtt verknámshús er formlega opnað við Menntaskólann í Kópavogi, ný og glæsileg aðstaða hefur verið sköpuð fyrir hótel- og matvælagreinar.

Hin nýju mannvirki eru umgjörð um skóla, sem er að þróast úr hefbundnum, meðalstórum menntaskóla, sem þjónar heimabyggð sinni, í fjölmennan bóknáms- og verknámsskóla, sem höfðar til nemenda af landinu öllu. Þessi breyting ein á eftir að auka hlut skólans verulega í bæjarlífinu hér í Kópavogi.

Margir hafa komið að framkvæmd þessa máls síðan menntamálaráðuneytið markaði þá stefnu árið 1983, að hér skyldi verða miðstöð náms í matvælagreinum. Stefnan hefur krafist ákvarðana um faglega þætti og byggingarframkvæmdir auk þess sem verkefni, nemendur og starfsmenn hafa flutt úr öðrum skólum í þetta nýja húsnæði og starfsumhverfi.

Málefni framhaldsskólanna hafa verið mjög til umræðu á haustmánuðum.. Innan menntamálaráðuneytisins hafa á undanförnum dögum verið teknar ákvarðanir á grundvelli nýrra framhaldsskólalaga, sem eiga eftir að setja svip á starfsemi allra skólanna. Síðastliðinn þriðjudag kom samstarfsnefnd um starfsnám saman til síns fyrsta fundar. Hún gegnir veigamiklu hlutverki við skipulag starfsnáms. Þá er markvisst unnið að gerð nýrrar aðalnámskrár fyrir framhaldsskólastigið.

Við gerð fjárlaga fyrir árið 1997 var sú leið farin til sparnaðar af hálfu menntamálaráðuneytisins að líta sérstaklega til framhaldsskólastigsins. Var það meðal annars rökstutt með því, að fjárveitingar til þessa skólastigs hefðu frekar vaxið undanfarin ár heldur en hitt, að minnsta kosti í samanburði við grunnskólann og háskólastigið.

Vegna þessarar stefnu ráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar voru málefni framhaldsskólanna meira til umræðu við fjárlagagerðina á Alþingi en oft áður. Frramhaldsskólanemar hafa einnig látið að sér kveða í þessum umræðum auk skólameistara og kennara. Hver hefur eftir öðrum, að um stórfelldan niðurskurð til menntunar sé að ræða og látið er í veðri vaka, að framhaldsskólarnir séu að komast á vonarvöl.

Á sama tíma og þessi neikvæði tónn er sleginn á Alþingi og í fjölmiðlaumræðum um framhaldsskólana kemur það hins vegar í hlut minn sem menntamálaráðherra að taka þátt í því að opna nýtt skólahús við Menntaskólann á Akureyri, ýta nýjum skóla úr vör í Borgarholti í Reykjavík, þar sem bíliðngreinum og málmiðnaði er sköpuð prýðileg umgjörð við hlið bóknámsbrauta, og nú að ávarpa ykkur hér af þessu ánægjulega tilefni.

Má enn árétta þverstæðuna í þessum neikvæða málflutningi um stöðu framhaldsskólastigsins og fjárveitingar til þess, með því að minna á, að úrtölumenn telja einkum að verkmenntun vegið. Ég leyfi mér hins vegar að fullyrða, að líklega hafi aldrei á jafnskömmum tíma verið gert jafnmikið átak til að styrkja verkmenntun í sessi með fjárfestingu í nýjum framhaldsskólum eins og með því að reisa verknámshúsið hér og byggja Borgarholtsskólann. Áætlað er, að heildarkostnaður vegna framkvæmda hér sé um einn milljarður króna, koma 77,1% í hlut ríkisins en Kópavogsbær ber hinn hluta kostnaðarins.

Mannvirkin eru umgjörð, en á síðustu stigum, þegar gengið hefur verið til þess að flytja verkefni úr öðrum skólum í þetta nýja húsnæði, hefur þurft að taka erfiðar ákvarðanir um viðkvæm mál og fylgja þeim fram með markvissum hætti. Það er flóknara en sýnist í fyrstu að skilgreina verkaskiptingu milli framhaldsskóla. Hún er þó að mínu mati forsenda þess, að okkur takist byggja upp góða aðstöðu á einum stað. Dreifum við kröftunum um of komumst við aldrei af stigi meðalmennskunnar. Verknám er auk þess dýrara en bóknám og allra hagur er, að skattfé almennings nýtist sem best.

Brautin frá því að ákveðið var að hótel- og matvælanám yrði hér í þessum skóla að því markmiði, sem nú er náð, hefur ekki alltaf verið bein. Á einu stigi málsins kom til álita, að Hótel- og veitingaskólinn yrði fluttur úr Reykjavík að Laugarvatni vegna húsnæðisskorts í Kópavogi. Fyrir réttum 10 árum eða einmitt hinn 17. janúar 1987 birtist hins vegar frétt um það í Morgunblaðinu, að Sverrir Hermannsson, þáverandi menntamálaráðherra, ætlaði ekki að neyða nemendur, kennara og skólastjóra að fara til Laugarvatns, eins og hann orðaði það.

Um sama leyti var lagt á ráðin um, að um haustið 1987 gæti hótel- og matvælanám hafist hér í Kópavogi í bráðabirgðahúsnæði. Til þess kom sem betur ekki. Skömmu fyrir þingkosningar 1991 sömdu fráfarandi fjármálaráðherra og menntamálaráðherra við Kópavogsbæ um að hefja framkvæmdir við nýbyggingu hér við skólann og tók Sigurður Geirdal bæjarstjóri fyrstu skóflustunguna undir lok júní 1991. Þá gerðu menn sér vonir um, að unnt yrði að hefja hér einhverja kennslu fyrir árið 2000.

Góðir áheyrendur!

Framkvæmdum hefur miðað hraðar, því að kennsla hófst hér síðastliðið haust, þegar starfsemi Hótel- og veitingaskólans flutti hingað og bakaraiðn úr Iðnskólanum í Reykjavík. Er þannig búið að þessu námi, að á fáum stöðum í heiminum er aðbúnaður betri.Í því efni njótum við góðs af samvinnu arkitekts, bygginganefndar og fagfélaga.

Á næsta skólaári flyst kennsla í kjötiðn hingað úr Iðnskólanum í Reykjavík, einnig í matvælagreinum úr Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Þá er unnið að því að koma á skipulegu samstarfi milli Hússtjórnarskólans í Reykjavík og Menntaskólans í Kópavogi. Er það markmið menntamálaráðuneytisins, að tæki og búnaður hér verði sem best nýttur og af sem flestum.

Menntaskólinn í Kópavogi tekur nú á sig nýja mynd í öllum skilningi. Er ég ekki í neinum vafa um, að flutningur á verknámi í tæplega 25 ára gamlan bóknámsskóla verður einn til að skapa eitthvað nýtt, bæði bóknámi og verknámi til góðs. Þar treystum við á framtak og framsýni skólastjórnenda og kennara.

Eins og áður segir vinnur menntamálaráðuneytið nú að endurskoðun á samskiptaháttum sínum við framhaldsskólana. Er það markmið mitt, að skólarnir verði jafnt í orði sem á borði sjálfstæðar stofnanir, sem geri áætlanir um eigin starfsemi og fái til hennar fé á grundvelli samnings við menntamálaráðuneytið og eftir ákvörðunum Alþingis. Skólarnir starfi í samræmi við námskrár undir fjárhagslegu og faglegu eftirliti ráðuneytisins, sem meðal annars byggist á samræmdum prófum. Skólanefndir gegna mikilvægu hlutverki við að koma á þessari nýskipan ekki síður en skólameistarar og aðrir starfsmenn skólanna. Samvinna verknámsskóla og fagfélaga þarf að vera náin og byggjast á gagnkvæmu trausti.

Ég þakka byggingarnefnd og öllum, sem að hönnun og byggingu þessa nýja verknámshúss hafa komið. Er óhætt að segja, að verkið lofi meistarann. Ég flyt bæjaryfirvöldum í Kópavogi sérstakar þakkir fyrir gott samstarf, án stórhugs þeirra væri ýmislegt líklega hér með öðru sniði. Skólinn á góða að, þar sem íbúar Kópavogs og bæjarstjórn eru. Vona ég, að hinn nýi og stækkaði skóli falli vel að bæjarlífi í Kópavogi og verði því lyftistöng. Þá vil ég flytja þeim þakkir, sem hafa komið að því að skipuleggja námið hér við nýjar aðstæður, ekki síst fagfélögunum. Að sjálfsögðu skiptir mestu að lokum, að allur umbúnaður nýtist sem best fyrir kennara og nemendur. Ég óska þeim, skólameistara, skólanefnd og öllum starfsmönnum Menntaskólans í Kópavogi til hamingju með að því langþráða markmiði skuli loks náð, að hér sé opnað verknámshús yfir hótel- og matvælagreinar.