11.6.2022

Norrænar varnir í austri og vestri

Morgunblaðið. laugardagur 11. júní 2022

 

Viðburðarík­ir dag­ar eru nú í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um hér og um­hverf­is Ísland. Minn­ir það enn á hve mik­il áhrif inn­rás­ar Rússa í Úkraínu eru. Brugðist er við á allt ann­an veg en gert var þegar Vla­dimír Pútín Rúss­lands­for­seti hóf hernað sinn gagn­vart Úkraínu árið 2014 í anda rúss­neskra stór­veld­is­drauma. Viðbrögðin þá voru ómark­viss og mátt­laus. Í allri raun­særri um­fjöll­un um þau felst mik­ill áfell­is­dóm­ur yfir ráðamönn­um á Vest­ur­lönd­um á þeim tíma.

Ben Wallace, varn­ar­málaráðherra Breta, sem var hér í vik­unni, er talsmaður allt annarra og harðari viðbragða nú af hálfu Vest­urs­ins en var árið 2014. Hann er þeirr­ar skoðunar að svara verði árás Pútíns nægi­lega harka­lega til að arf­tak­ar hans heill­ist ekki af blóðugri of­beld­is- og æv­in­týra­mennsk­unni.

Wallace vill að Vestrið standi á þann veg að baki Úkraínu­mönn­um að þeir verði ekki beitt­ir nauðung við samn­ings­gerð í stríðslok. Þá standi þeir upp­rétt­ir gagn­vart rúss­nesku of­beld­is­mönn­un­um sem sæta eigi refs­ingu fyr­ir stríðsglæpi.

Fyr­ir utan stuðning við varn­ir Úkraínu­manna ber þrennt hátt í ræðum vest­rænna ráðamanna um stríðið: (1) með aðgerðum og samn­ingi verði tryggt að Rúss­ar raski ekki ör­yggi Evr­ópu á nýj­an leik með til­efn­is­lausri inn­rás í ná­granna­ríki þeirra, (2) með 75 ára gamla Mars­hall-aðstoðina sem for­dæmi verði Úkraínu­mönn­um og öðrum í neyð veitt aðstoð til að taka stökk inn í samtíð og framtíð og (3) séð verði til þess að Rúss­um líðist ekki að hindra sigl­ing­ar eða eyðileggja korn og upp­skeru til að vekja hung­ur­vof­una sér til stuðnings.

Ákvarðanir Finna og Svía um aðild að NATO staðfesta hve frá­leit­ur mál­flutn­ing­ur þeirra er sem segja að stækk­un NATO aust­ur á bóg­inn í Evr­ópu rétt­læti inn­rás Pútíns. Eng­inn þrýsti á Finna og Svía ann­ar en Pútín sjálf­ur með of­beld­is­verknaði sín­um. Á ótrú­lega skömm­um tíma varð kúvend­ing meðal al­menn­ings og stjórn­mála­manna í af­stöðunni til NATO-aðild­ar.

Um­sókn þjóðanna var lögð fram 18. maí 2022 og 7. júní 2022 samþykkti alþingi með 44 sam­hljóða at­kvæðum að styðja aðild þeirra á vett­vangi NATO.

Í ein­róma áliti ut­an­rík­is­mála­nefnd­ar alþing­is sagði að nor­ræn gildi lýðræðis og frels­is væru jafn­framt grunn­gildi Atlants­hafs­banda­lags­ins. Nefnd­in fagnaði aðild­ar­um­sókn­um Finna og Svía og lagði áherslu á að aðild þeirra mundi „auka ör­yggi og stöðug­leika í norðan­verðri Evr­ópu á viðsjár­verðum tím­um“. Fyr­ir utan að „efla nor­rænt sam­starf í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um“. Áherslu­mál­um Íslands í NATO yrði bet­ur borgið, það er ör­yggi og vörn­um á Norður-Atlants­hafi, lofts­lags­breyt­ing­um og ör­yggi, friðsam­leg­um lausn­um deilu­mála, af­vopn­un­ar­mál­um og fram­kvæmd álykt­un­ar ör­ygg­is­ráðs SÞ, um kon­ur, frið og ör­yggi. Vildi nefnd­in að rík­is­stjórn­in beitti sér fyr­ir því að aðild­ar­ferli Finna og Svía gengi eins hratt fyr­ir sig og mögu­legt væri.

Bjarni Jóns­son, þingmaður VG, er formaður ut­an­rík­is­mála­nefnd­ar alþing­is og skrif­ar und­ir álit nefnd­ar­inn­ar með öðrum sem þar sitja. Verður óskilj­an­legra með hverri samþykkt­inni sem gerð er í nafni ís­lenskra stjórn­valda eft­ir inn­rás Pútíns að for­ystu­menn VG með for­sæt­is­ráðherra í far­ar­broddi skuli halda fast í and­stöðu sína við aðild Íslands að NATO. Þverstæða af þessu tagi er ekki nokkr­um stjórn­mála­flokki til fram­drátt­ar.

Í vik­unni var hér tveggja daga fund­ur 12 varn­ar­málaráðherra Norður­hóps­ins svo­nefnda und­ir for­mennsku ut­an­rík­is­ráðherra Íslands. Hóp­ur­inn er vett­vang­ur fyr­ir reglu­bundið sam­ráð líkt þenkj­andi ríkja um ör­ygg­is- og varn­artengd mál­efni.

Hensigtserklaering-island-2022-artikelMorten Bødskov, varnarmálaráðherra Dana, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir handsala samkomulag um varnarmál í Reykjavík 7. júní 2022..

Í tengsl­um við fund­inn rituðu Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir ut­an­rík­is­ráðherra og Morten Bødskov, varn­ar­málaráðherra Dana, und­ir vilja­yf­ir­lýs­ingu um skipti á upp­lýs­ing­um og gögn­um til að efla eft­ir­lit á norður­slóðum. Þá seg­ir í til­kynn­ingu danska varn­ar­málaráðuneyt­is­ins að sam­komu­lagið verði til þess að auðvelda Dön­um að auka eft­ir­lits­störf sín sem gagn­ist þeim mikið.

Héðan hélt Morten Bødskov til Fær­eyja og ritaði í Þórs­höfn fimmtu­dag­inn 9. júní með Jen­is av Rana, ut­an­rík­is­ráðherra í land­stjórn Fær­eyja, und­ir sam­komu­lag um rat­sjá til loft­varna í Fær­eyj­um. Vísað er til sér­stakra fjár­veit­inga Dana frá 2021 um efl­ingu varna á norður­slóðum en þar er gert ráð fyr­ir 390 millj­ón­um danskra króna (7,2 millj­örðum ísl. kr.) vegna rat­sjár­inn­ar.

Rat­sjánni er ætlað að fylgj­ast með flugi á svæðinu milli Íslands, Nor­egs og Bret­lands og mun geisli henn­ar ná 3-400 km. Rat­sjá­in verður á Sorn­felli þar sem enn standa mann­virki rat­sjár­stöðvar­inn­ar sem lokað var næsta fyr­ir­vara­lítið árið 2007.

Rat­sjá er ekki aðeins að rísa inn­an danska kon­ung­dæm­is­ins aust­an við Ísland held­ur stefn­ir í að Banda­ríkja­menn hafi nú frum­kvæði í sam­vinnu við Dani og Græn­lend­inga að því að reisa rat­sjár á Græn­landi. Til þess hafa þeir heim­ild inn­an ramma varn­ar­samn­ings um Græn­land frá 1951.

Inn­rás Pútíns í Úkraínu verður ekki aðeins til þess að efla nor­ræn­ar NATO-varn­ir á Eystra­salti held­ur einnig á Norður-Atlants­hafi.

Banda­ríkja­her yf­ir­gaf Kefla­vík­ur­stöðina árið 2006 án þess að hafa áhuga á að halda rat­sjár­kerf­inu á Íslandi opnu. Í sam­ráði við NATO ákvað ís­lenska rík­is­stjórn­in að reka rat­sjár­stöðvarn­ar fjór­ar áfram, ann­ast land­helg­is­gæsl­an rekst­ur­inn í umboði ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins.

Stjórn­völd í Fær­eyj­um og Græn­landi stíga nú fyrstu skref sín á þess­ari braut. Hér er mik­il reynsla af sam­starfi af þessu tagi. Henni ber að miðla með sam­eig­in­leg­an hag og ör­yggi nor­rænu eyþjóðanna að leiðarljósi.