Norrænar varnir í austri og vestri
Morgunblaðið. laugardagur 11. júní 2022
Viðburðaríkir dagar eru nú í öryggis- og varnarmálum hér og umhverfis Ísland. Minnir það enn á hve mikil áhrif innrásar Rússa í Úkraínu eru. Brugðist er við á allt annan veg en gert var þegar Vladimír Pútín Rússlandsforseti hóf hernað sinn gagnvart Úkraínu árið 2014 í anda rússneskra stórveldisdrauma. Viðbrögðin þá voru ómarkviss og máttlaus. Í allri raunsærri umfjöllun um þau felst mikill áfellisdómur yfir ráðamönnum á Vesturlöndum á þeim tíma.
Ben Wallace, varnarmálaráðherra Breta, sem var hér í vikunni, er talsmaður allt annarra og harðari viðbragða nú af hálfu Vestursins en var árið 2014. Hann er þeirrar skoðunar að svara verði árás Pútíns nægilega harkalega til að arftakar hans heillist ekki af blóðugri ofbeldis- og ævintýramennskunni.
Wallace vill að Vestrið standi á þann veg að baki Úkraínumönnum að þeir verði ekki beittir nauðung við samningsgerð í stríðslok. Þá standi þeir uppréttir gagnvart rússnesku ofbeldismönnunum sem sæta eigi refsingu fyrir stríðsglæpi.
Fyrir utan stuðning við varnir Úkraínumanna ber þrennt hátt í ræðum vestrænna ráðamanna um stríðið: (1) með aðgerðum og samningi verði tryggt að Rússar raski ekki öryggi Evrópu á nýjan leik með tilefnislausri innrás í nágrannaríki þeirra, (2) með 75 ára gamla Marshall-aðstoðina sem fordæmi verði Úkraínumönnum og öðrum í neyð veitt aðstoð til að taka stökk inn í samtíð og framtíð og (3) séð verði til þess að Rússum líðist ekki að hindra siglingar eða eyðileggja korn og uppskeru til að vekja hungurvofuna sér til stuðnings.
Ákvarðanir Finna og Svía um aðild að NATO staðfesta hve fráleitur málflutningur þeirra er sem segja að stækkun NATO austur á bóginn í Evrópu réttlæti innrás Pútíns. Enginn þrýsti á Finna og Svía annar en Pútín sjálfur með ofbeldisverknaði sínum. Á ótrúlega skömmum tíma varð kúvending meðal almennings og stjórnmálamanna í afstöðunni til NATO-aðildar.
Umsókn þjóðanna var lögð fram 18. maí 2022 og 7. júní 2022 samþykkti alþingi með 44 samhljóða atkvæðum að styðja aðild þeirra á vettvangi NATO.
Í einróma áliti utanríkismálanefndar alþingis sagði að norræn gildi lýðræðis og frelsis væru jafnframt grunngildi Atlantshafsbandalagsins. Nefndin fagnaði aðildarumsóknum Finna og Svía og lagði áherslu á að aðild þeirra mundi „auka öryggi og stöðugleika í norðanverðri Evrópu á viðsjárverðum tímum“. Fyrir utan að „efla norrænt samstarf í öryggis- og varnarmálum“. Áherslumálum Íslands í NATO yrði betur borgið, það er öryggi og vörnum á Norður-Atlantshafi, loftslagsbreytingum og öryggi, friðsamlegum lausnum deilumála, afvopnunarmálum og framkvæmd ályktunar öryggisráðs SÞ, um konur, frið og öryggi. Vildi nefndin að ríkisstjórnin beitti sér fyrir því að aðildarferli Finna og Svía gengi eins hratt fyrir sig og mögulegt væri.
Bjarni Jónsson, þingmaður VG, er formaður utanríkismálanefndar alþingis og skrifar undir álit nefndarinnar með öðrum sem þar sitja. Verður óskiljanlegra með hverri samþykktinni sem gerð er í nafni íslenskra stjórnvalda eftir innrás Pútíns að forystumenn VG með forsætisráðherra í fararbroddi skuli halda fast í andstöðu sína við aðild Íslands að NATO. Þverstæða af þessu tagi er ekki nokkrum stjórnmálaflokki til framdráttar.
Í vikunni var hér tveggja daga fundur 12 varnarmálaráðherra Norðurhópsins svonefnda undir formennsku utanríkisráðherra Íslands. Hópurinn er vettvangur fyrir reglubundið samráð líkt þenkjandi ríkja um öryggis- og varnartengd málefni.
Morten Bødskov, varnarmálaráðherra Dana, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir handsala samkomulag um varnarmál í Reykjavík 7. júní 2022..
Í tengslum við fundinn rituðu Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra og Morten Bødskov, varnarmálaráðherra Dana, undir viljayfirlýsingu um skipti á upplýsingum og gögnum til að efla eftirlit á norðurslóðum. Þá segir í tilkynningu danska varnarmálaráðuneytisins að samkomulagið verði til þess að auðvelda Dönum að auka eftirlitsstörf sín sem gagnist þeim mikið.
Héðan hélt Morten Bødskov til Færeyja og ritaði í Þórshöfn fimmtudaginn 9. júní með Jenis av Rana, utanríkisráðherra í landstjórn Færeyja, undir samkomulag um ratsjá til loftvarna í Færeyjum. Vísað er til sérstakra fjárveitinga Dana frá 2021 um eflingu varna á norðurslóðum en þar er gert ráð fyrir 390 milljónum danskra króna (7,2 milljörðum ísl. kr.) vegna ratsjárinnar.
Ratsjánni er ætlað að fylgjast með flugi á svæðinu milli Íslands, Noregs og Bretlands og mun geisli hennar ná 3-400 km. Ratsjáin verður á Sornfelli þar sem enn standa mannvirki ratsjárstöðvarinnar sem lokað var næsta fyrirvaralítið árið 2007.
Ratsjá er ekki aðeins að rísa innan danska konungdæmisins austan við Ísland heldur stefnir í að Bandaríkjamenn hafi nú frumkvæði í samvinnu við Dani og Grænlendinga að því að reisa ratsjár á Grænlandi. Til þess hafa þeir heimild innan ramma varnarsamnings um Grænland frá 1951.
Innrás Pútíns í Úkraínu verður ekki aðeins til þess að efla norrænar NATO-varnir á Eystrasalti heldur einnig á Norður-Atlantshafi.
Bandaríkjaher yfirgaf Keflavíkurstöðina árið 2006 án þess að hafa áhuga á að halda ratsjárkerfinu á Íslandi opnu. Í samráði við NATO ákvað íslenska ríkisstjórnin að reka ratsjárstöðvarnar fjórar áfram, annast landhelgisgæslan reksturinn í umboði utanríkisráðuneytisins.
Stjórnvöld í Færeyjum og Grænlandi stíga nú fyrstu skref sín á þessari braut. Hér er mikil reynsla af samstarfi af þessu tagi. Henni ber að miðla með sameiginlegan hag og öryggi norrænu eyþjóðanna að leiðarljósi.