Norræn skýrsla sögð marka kaflaskil
Morgunblaðið, föstudagur, 2. október 2020
Varnarmálaráðherrar Noregs, Svíþjóðar og Finnlands rituðu miðvikudaginn 23. september undir samkomulag um að auka hernaðarlegt samstarf sitt á norðurslóðum. Með því var stigið enn eitt skrefið til að styrkja samstöðu norrænna þjóða, innan NATO og utan, í öryggis- og varnarmálum.
Norrænu ríkisstjórnirnar vilja að norðurslóðir séu lágspennusvæði. Grípi þær hins vegar til aðgerða þar í öryggisskyni saka Rússar stjórnirnar um að vinna gegn lágspennustefnunni. Þetta eru dæmigerð leikbrögð. Rússar vita sem er að aukin umsvif rússneska hersins kalla á norræn viðbrögð, eða eins og Peter Hultqvist, varnarmálaráðherra Svíþjóðar, sagði við undirritun samkomulagsins:
„Þetta tengist auðvitað ástandi öryggismála sem hefur breyst undanfarið. Við erum vitni að auknum flotaherstyrk Rússa á Múrmansk-svæðinu auk annars viðbúnaðar þeirra, við sjáum uppbyggingu herstöðvar nálægt finnsku landamærunum [...] hvert sem litið er á norðurslóðum sjáum við Rússa styrkja stöðu sína.“
Frank Bakke-Jensen, varnarmálaráðherra Noregs, var sömu skoðunar og Hultqvist. Hann sagði að vegna aukinna hernaðarumsvifa Rússa yrði að styrkja norrænt varnarsamstarf. Menn þyrftu að horfast í augu við þá staðreynd að myndaðist hættuástand eða til átaka kæmi í framtíðinni snerti það ekki aðeins eitt Norðurlandanna heldur þau öll, það hvetti þau til æ meiri samvinnu.
Finnski varnarmálaráðherrann Antti Kaikkonen sagði að þessi þríhliða samvinna félli innan þess ramma sem ríkin hefðu sett sér í NORDEFCO-varnarsamstarfinu og miðaði að því að efla sameiginlegt bolmagn ríkjanna á tímum friðar, hættuástands og átaka.
Frá ráðherrafundinum á Borgundarhólmi 17. september 2020: Jeppe Kofod. utanríkisáðherra Dana, Björn Bjarnason, Guðlaugur Þór Þórðarson, Ann Linde, utanríkisráðherra Svía (mynd: Stjórnarráðið).
Ný Atlantshafsherstjórn NATO
Í þessu sambandi er einnig ástæða til að líta til þess að 17. september sl. tók ný Atlantshafsherstjórn NATO formlega til starfa í Norfolk í Virginíuríki í Bandaríkjunum. Hlutverk hennar er að tryggja öryggi og varnir siglingaleiða yfir Norður-Atlantshaf, í GIUK-hliðinu og norður í Íshaf. Fyrri Atlantshafsherstjórn NATO í Norfolk var lokað árið 2003.
Nú starfa hlið við hlið í Norfolk Atlantshafsherstjórn NATO og yfirstjórn 2. flota Bandaríkjanna, Atlantshafsflotans, sem varð að fullu starfhæfur að nýju í ársbyrjun 2020.
Sem NATO- og norðurslóðaþjóðir eiga Íslendingar, Norðmenn og Danir mikið undir samstarfi við Atlantshafsherstjórnina og Atlantshafsflotann. Svíar og Finnar hafa gert samstarfssamninga við NATO og tvíhliða samninga um varnarmál við Bandaríkjamenn.
NORDEFCO-samstarfið kom til sögunnar síðla árs 2009, sama ár og Stoltenberg-skýrslan svonefnda birtist. Í henni voru settar fram róttækar tillögur um norrænt samstarf í utanríkis- og öryggismálum miðað við það sem áður var þegar ekki þótti við hæfi að ræða varnarmál á sameiginlegum vettvangi ríkjanna. Nú er gengið að NORDEFCO-samstarfinu sem vísu og áform eru um að efla það stig af stigi eins og nýja samkomulagið frá 23. september sýnir.
Fundur á Borgundarhólmi
Norræni þátturinn í öllu er varðar öryggi Íslands vex jafnt og þétt. Hann kemur þó hvorki í stað NATO-aðildarinnar né tvíhliða varnarsamningsins við Bandaríkin. Allar ákvarðanir hér á landi um varnar- og öryggismál hafa hins vegar áhrif á samskipti okkar við hinar norrænu ríkisstjórnirnar. Við erum ekki aðeins þiggjendur í þessu samstarfi heldur gerendur. Það krefst virkrar ígrundaðrar þátttöku innan þess borgaralega ramma sem við höfum mótað um öryggi okkar. Þannig treystum við eigið fullveldi og hagsmunagæslu.
Einmitt þetta gerðist haustið 2019 þegar norrænu utanríkisráðherrarnir samþykktu tillögu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra um að á árinu 2020 skyldi mér falið að semja nýja skýrslu um frekari þróun norræns samstarfs á sviði utanríkis- og öryggismála. Í skýrslunni ætti að leggja áherslu á loftslagsmál, fjölþáttaógnir og netöryggi og fjölþjóðasamstarf og virðingu fyrir alþjóðareglum. Hún átti með öðrum orðum að snúast um borgaralega þætti öryggismálanna, enda er tekið á hernaðarlega þættinum innan NORDEFCO.
Eins og óskað var lágu tillögurnar, 14 talsins, fyrir í júlí 2020 og birtust þá opinberlega. Fyrir rúmum tveimur vikum, 17. september, var efnt til norræns utanríkisráðherrafundar á Borgundarhólmi til að ræða tillögurnar og úrvinnslu þeirra. Skilgreindar verða boðleiðir og ferlar í þessu skyni á milli landa og milli ráðuneyta í einstökum löndum. Verkaskipting verður milli ríkja við framkvæmd tillagna. Fylgst verður með framvindunni með skýrslugjöf á fundum utanríkisráðherranna. Fastanefndir Norðurlandanna hjá Sameinuðu þjóðunum í New York styðjast þegar við tillögurnar í störfum sínum.
Fundarmenn sögðu að skýrslan og tillögurnar skiptu jafnvel meira máli um þessar mundir, vegna COVID-19, heldur en þegar lagt var á ráðin um skýrslugerðina. Það væri mikils virði að eiga þennan efnivið til úrvinnslu bæði til að styrkja norrænt samstarf innbyrðis og til að auka norræn áhrif út á við.
Í tilkynningu frá utanríkisráðherrafundinum segir að með skýrslunni hefjist „nýr kafli norrænnar samvinnu í utanríkis- og öryggismálum“.
Ný heimsmynd
Tillögur skýrslunnar taka mið af nýrri heimsmynd þar sem áhrif Kína hafa margfaldast miðað við það sem var árið 2009 þegar Stoltenberg-skýrslan birtist. Ein tillagan gerir ráð fyrir því að norrænu ríkisstjórnirnar leitist við að samræma afstöðu sína til aukins áhuga Kínverja á norðurslóðum nú þegar loftslagsbreytingar opna þar siglingaleiðir og aðgang að auðlindum.
Fyrsta skref stefnumótunar er að sjálfsögðu að koma sér saman um forsendur og skilgreina þær. Lagt er til í skýrslunni að stuðlað verði að auknum samnorrænum rannsóknum á sviði utanríkis- og öryggismála. Þannig má móta sameiginlegan staðreyndagrunn að baki ákvörðunum.
Innan Norðurlandanna allra takast sérfræðingar og stofnanir á um áherslur og markmið við mótun norðurslóðastefnu og einstaka þætti öryggismála. Umræður um þessi mál eru miklu takmarkaðri hér en annars staðar á Norðurlöndunum. Segja má að frá því að Öryggismálanefnd var aflögð fyrir tæpum 30 árum starfi engin innlend rannsóknarstofnun á sviði utanríkis- og öryggismála hér á landi. Fjölmiðla- og stjórnmálaumræður um þessa mikilvægu málaflokka eru auk þess miklu minni á innlendum vettvangi en áður var. Að íslenskir hagsmunir séu greindir og skýrðir út frá nýrri heimsmynd heyrir til undantekninga.
Spurningar hafa vaknað um þörf á samnorrænum viðbúnaði vegna heimsfaraldra. Þar sem norrænu utanríkisráðherrarnir vildu ekki tillögur um nýjar stofnanir er í skýrslunni hvergi minnst á samnorræna viðbragðsmiðstöð í þágu allsherjarvarna. COVID-19-faraldurinn hvetur þó til umræðna um slíka miðstöð.
Í skýrslunni er hins vegar bent á að COVID-19-ástandið kalli á aukna árvekni vegna fjölþáttaógna eða netöryggis. Réttmæti ábendingarinnar hefur margsannast. Þannig grípa ríkisstjórnir ýmissa landa til sérstakra ráðstafana til að verja heilbrigðisstofnanir gegn tölvuárásum nú á tímum heimsfaraldursins.
Nú í október verður efnt til sérstakrar ráðstefnu í Danmörku til að skerpa umræður um tölvuvarnir í heilbrigðiskerfinu. Sífellt meiri stafræn umsvif, æ meiri tölvuvinna að heiman, notkun stafrænna myndskeiða og aðrar stafrænar samskiptaleiðir geri strangari kröfur til tölvu- og netöryggis auk árvekni starfsfólks. Tölvuþrjótar reyni að nýta sér heimsfaraldurinn til alls kyns árása.
Þetta er enn ein áminningin til íslenskra stjórnvalda um nauðsyn stórátaks til að efla netöryggi hér á landi. Íslendingar eru ekki fullgildir í norrænu netöryggis-samstarfi eins og nú háttar.