2.10.2020

Norræn skýrsla sögð marka kaflaskil

Morgunblaðið, föstudagur, 2. október 2020

Varn­ar­málaráðherr­ar Nor­egs, Svíþjóðar og Finn­lands rituðu miðviku­dag­inn 23. sept­em­ber und­ir sam­komu­lag um að auka hernaðarlegt sam­starf sitt á norður­slóðum. Með því var stigið enn eitt skrefið til að styrkja sam­stöðu nor­rænna þjóða, inn­an NATO og utan, í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um.

Nor­rænu rík­is­stjórn­irn­ar vilja að norður­slóðir séu lág­spennusvæði. Grípi þær hins veg­ar til aðgerða þar í ör­ygg­is­skyni saka Rúss­ar stjórn­irn­ar um að vinna gegn lág­spennu­stefn­unni. Þetta eru dæmi­gerð leik­brögð. Rúss­ar vita sem er að auk­in um­svif rúss­neska hers­ins kalla á nor­ræn viðbrögð, eða eins og Peter Hultqvist, varn­ar­málaráðherra Svíþjóðar, sagði við und­ir­rit­un sam­komu­lags­ins:

„Þetta teng­ist auðvitað ástandi ör­ygg­is­mála sem hef­ur breyst und­an­farið. Við erum vitni að aukn­um flota­her­styrk Rússa á Múrm­ansk-svæðinu auk ann­ars viðbúnaðar þeirra, við sjá­um upp­bygg­ingu her­stöðvar ná­lægt finnsku landa­mær­un­um [...] hvert sem litið er á norður­slóðum sjá­um við Rússa styrkja stöðu sína.“

Frank Bakke-Jen­sen, varn­ar­málaráðherra Nor­egs, var sömu skoðunar og Hultqvist. Hann sagði að vegna auk­inna hernaðar­um­svifa Rússa yrði að styrkja nor­rænt varn­ar­sam­starf. Menn þyrftu að horf­ast í augu við þá staðreynd að myndaðist hættu­ástand eða til átaka kæmi í framtíðinni snerti það ekki aðeins eitt Norður­land­anna held­ur þau öll, það hvetti þau til æ meiri sam­vinnu.

Finnski varn­ar­málaráðherr­ann Antti Kaik­kon­en sagði að þessi þríhliða sam­vinna félli inn­an þess ramma sem rík­in hefðu sett sér í NOR­D­EFCO-varn­ar­sam­starf­inu og miðaði að því að efla sam­eig­in­legt bol­magn ríkj­anna á tím­um friðar, hættu­ástands og átaka.

1229971Frá ráðherrafundinum á Borgundarhólmi 17. september 2020: Jeppe Kofod. utanríkisáðherra Dana, Björn Bjarnason, Guðlaugur Þór Þórðarson, Ann Linde, utanríkisráðherra Svía (mynd: Stjórnarráðið).

Ný Atlants­hafs­her­stjórn NATO

Í þessu sam­bandi er einnig ástæða til að líta til þess að 17. sept­em­ber sl. tók ný Atlants­hafs­her­stjórn NATO form­lega til starfa í Nor­folk í Virg­in­íu­ríki í Banda­ríkj­un­um. Hlut­verk henn­ar er að tryggja ör­yggi og varn­ir sigl­inga­leiða yfir Norður-Atlants­haf, í GIUK-hliðinu og norður í Íshaf. Fyrri Atlants­hafs­her­stjórn NATO í Nor­folk var lokað árið 2003.
Nú starfa hlið við hlið í Nor­folk Atlants­hafs­her­stjórn NATO og yf­ir­stjórn 2. flota Banda­ríkj­anna, Atlants­hafs­flot­ans, sem varð að fullu starf­hæf­ur að nýju í árs­byrj­un 2020.

Sem NATO- og norður­slóðaþjóðir eiga Íslend­ing­ar, Norðmenn og Dan­ir mikið und­ir sam­starfi við Atlants­hafs­her­stjórn­ina og Atlants­hafs­flot­ann. Sví­ar og Finn­ar hafa gert sam­starfs­samn­inga við NATO og tví­hliða samn­inga um varn­ar­mál við Banda­ríkja­menn.

NOR­D­EFCO-sam­starfið kom til sög­unn­ar síðla árs 2009, sama ár og Stolten­berg-skýrsl­an svo­nefnda birt­ist. Í henni voru sett­ar fram rót­tæk­ar til­lög­ur um nor­rænt sam­starf í ut­an­rík­is- og ör­ygg­is­mál­um miðað við það sem áður var þegar ekki þótti við hæfi að ræða varn­ar­mál á sam­eig­in­leg­um vett­vangi ríkj­anna. Nú er gengið að NOR­D­EFCO-sam­starf­inu sem vísu og áform eru um að efla það stig af stigi eins og nýja sam­komu­lagið frá 23. sept­em­ber sýn­ir.

 Fund­ur á Borg­und­ar­hólmi

Nor­ræni þátt­ur­inn í öllu er varðar ör­yggi Íslands vex jafnt og þétt. Hann kem­ur þó hvorki í stað NATO-aðild­ar­inn­ar né tví­hliða varn­ar­samn­ings­ins við Banda­rík­in. All­ar ákv­arðanir hér á landi um varn­ar- og ör­ygg­is­mál hafa hins veg­ar áhrif á sam­skipti okk­ar við hinar nor­rænu rík­is­stjórn­irn­ar. Við erum ekki aðeins þiggj­end­ur í þessu sam­starfi held­ur gerend­ur. Það krefst virkr­ar ígrundaðrar þátt­töku inn­an þess borg­ara­lega ramma sem við höf­um mótað um ör­yggi okk­ar. Þannig treyst­um við eigið full­veldi og hags­muna­gæslu.

Ein­mitt þetta gerðist haustið 2019 þegar nor­rænu ut­an­rík­is­ráðherr­arn­ir samþykktu til­lögu Guðlaugs Þórs Þórðar­son­ar ut­an­rík­is­ráðherra um að á ár­inu 2020 skyldi mér falið að semja nýja skýrslu um frek­ari þróun nor­ræns sam­starfs á sviði ut­an­rík­is- og ör­ygg­is­mála. Í skýrsl­unni ætti að leggja áherslu á lofts­lags­mál, fjölþátta­ógn­ir og netör­yggi og fjölþjóðasam­starf og virðingu fyr­ir alþjóðaregl­um. Hún átti með öðrum orðum að snú­ast um borg­ara­lega þætti ör­ygg­is­mál­anna, enda er tekið á hernaðarlega þætt­in­um inn­an NOR­D­EFCO.

Eins og óskað var lágu til­lög­urn­ar, 14 tals­ins, fyr­ir í júlí 2020 og birt­ust þá op­in­ber­lega. Fyr­ir rúm­um tveim­ur vik­um, 17. sept­em­ber, var efnt til nor­ræns ut­an­rík­is­ráðherra­fund­ar á Borg­und­ar­hólmi til að ræða til­lög­urn­ar og úr­vinnslu þeirra. Skil­greind­ar verða boðleiðir og ferl­ar í þessu skyni á milli landa og milli ráðuneyta í ein­stök­um lönd­um. Verka­skipt­ing verður milli ríkja við fram­kvæmd til­lagna. Fylgst verður með fram­vind­unni með skýrslu­gjöf á fund­um ut­an­rík­is­ráðherr­anna. Fasta­nefnd­ir Norður­land­anna hjá Sam­einuðu þjóðunum í New York styðjast þegar við til­lög­urn­ar í störf­um sín­um.

Fund­ar­menn sögðu að skýrsl­an og til­lög­urn­ar skiptu jafn­vel meira máli um þess­ar mund­ir, vegna COVID-19, held­ur en þegar lagt var á ráðin um skýrslu­gerðina. Það væri mik­ils virði að eiga þenn­an efnivið til úr­vinnslu bæði til að styrkja nor­rænt sam­starf inn­byrðis og til að auka nor­ræn áhrif út á við.

Í til­kynn­ingu frá ut­an­rík­is­ráðherra­fund­in­um seg­ir að með skýrsl­unni hefj­ist „nýr kafli nor­rænn­ar sam­vinnu í ut­an­rík­is- og ör­ygg­is­mál­um“.

 Ný heims­mynd

Til­lög­ur skýrsl­unn­ar taka mið af nýrri heims­mynd þar sem áhrif Kína hafa marg­fald­ast miðað við það sem var árið 2009 þegar Stolten­berg-skýrsl­an birt­ist. Ein til­lag­an ger­ir ráð fyr­ir því að nor­rænu rík­is­stjórn­irn­ar leit­ist við að sam­ræma af­stöðu sína til auk­ins áhuga Kín­verja á norður­slóðum nú þegar lofts­lags­breyt­ing­ar opna þar sigl­inga­leiðir og aðgang að auðlind­um.

Fyrsta skref stefnu­mót­un­ar er að sjálf­sögðu að koma sér sam­an um for­send­ur og skil­greina þær. Lagt er til í skýrsl­unni að stuðlað verði að aukn­um samn­or­ræn­um rann­sókn­um á sviði ut­an­rík­is- og ör­ygg­is­mála. Þannig má móta sam­eig­in­leg­an staðreynda­grunn að baki ákvörðunum.

Inn­an Norður­land­anna allra tak­ast sér­fræðing­ar og stofn­an­ir á um áhersl­ur og mark­mið við mót­un norður­slóðastefnu og ein­staka þætti ör­ygg­is­mála. Umræður um þessi mál eru miklu tak­markaðri hér en ann­ars staðar á Norður­lönd­un­um. Segja má að frá því að Örygg­is­mála­nefnd var af­lögð fyr­ir tæp­um 30 árum starfi eng­in inn­lend rann­sókn­ar­stofn­un á sviði ut­an­rík­is- og ör­ygg­is­mála hér á landi. Fjöl­miðla- og stjórn­má­laum­ræður um þessa mik­il­vægu mála­flokka eru auk þess miklu minni á inn­lend­um vett­vangi en áður var. Að ís­lensk­ir hags­mun­ir séu greind­ir og skýrðir út frá nýrri heims­mynd heyr­ir til und­an­tekn­inga.

Spurn­ing­ar hafa vaknað um þörf á samn­or­ræn­um viðbúnaði vegna heims­far­aldra. Þar sem nor­rænu ut­an­rík­is­ráðherr­arn­ir vildu ekki til­lög­ur um nýj­ar stofn­an­ir er í skýrsl­unni hvergi minnst á samn­or­ræna viðbragðsmiðstöð í þágu alls­herj­ar­varna. COVID-19-far­ald­ur­inn hvet­ur þó til umræðna um slíka miðstöð.

Í skýrsl­unni er hins veg­ar bent á að COVID-19-ástandið kalli á aukna ár­vekni vegna fjölþátta­ógna eða netör­ygg­is. Rétt­mæti ábend­ing­ar­inn­ar hef­ur margsann­ast. Þannig grípa rík­is­stjórn­ir ým­issa landa til sér­stakra ráðstaf­ana til að verja heil­brigðis­stofn­an­ir gegn tölvu­árás­um nú á tím­um heims­far­ald­urs­ins.

Nú í októ­ber verður efnt til sér­stakr­ar ráðstefnu í Dan­mörku til að skerpa umræður um tölvu­varn­ir í heil­brigðis­kerf­inu. Sí­fellt meiri sta­f­ræn um­svif, æ meiri tölvu­vinna að heim­an, notk­un sta­f­rænna mynd­skeiða og aðrar sta­f­ræn­ar sam­skipta­leiðir geri strang­ari kröf­ur til tölvu- og netör­ygg­is auk ár­vekni starfs­fólks. Tölvuþrjót­ar reyni að nýta sér heims­far­ald­ur­inn til alls kyns árása.

Þetta er enn ein áminn­ing­in til ís­lenskra stjórn­valda um nauðsyn stór­átaks til að efla netör­yggi hér á landi. Íslend­ing­ar eru ekki full­gild­ir í nor­rænu netör­ygg­is-sam­starfi eins og nú hátt­ar.