5.2.2021

Navalní ógnar og hræðir Pútín

Morgunblaðið, föstudagur 5. febrúar 2021

Þegar Al­ex­ei Navalní, kunn­asti stjórn­ar­and­stæðing­ur Rússa, var að ná sér í Þýskalandi, eft­ir að Vladimir Pútín Rúss­lands­for­seti reyndi að láta drepa hann með eitri, fór hann til Dres­den við gerð mynd­bands um Pútín, valda- og eigna­græðgi hans.

Í mynd­band­inu er rifjað upp að Pútín var KGB-for­ingi í Dres­den þegar Berlín­ar­múr­inn hrundi. Þar varð hann vitni að af­leiðing­um þess fyr­ir ein­ræðis­stjórn að hún spornaði ekki af hörku við mót­mælaaðgerðum. Minn­ing­ar um það hljóta að sækja að Rúss­lands­for­seta nú þegar hann sig­ar lög­regl­unni hvað eft­ir annað á friðsama borg­ara sem vilja að stjórn­kerfi Pútíns virði borg­ara­leg rétt­indi og gæti hags al­menn­ings en þjóni ekki aðeins hags­mun­um þeirra sem sópa til sín fé og eign­um í krafti valds og aðstöðu.

Fyrst reyndi Pútín að láta drepa Navalní (44 ára) með gömlu sov­ésku efna­vopni. Síðan reyndi hann að losa sig við hann með því að leyfa þýsk­um hjálp­ar­sam­tök­um að fljúga með hann til Berlín­ar frá Omsk í Síberíu und­ir lok ág­úst. Þýsk­ir lækn­ar björguðu lífi Navalnís sem sneri heim til Moskvu frá Berlín 17. janú­ar 2021. Hann var hand­tek­inn á flug­vell­in­um fyr­ir að hafa ekki komið til skrán­ing­ar á skil­orðsskrif­stofu á rétt­um tíma þótt hann væri und­ir lækn­is­hendi í Berlín. Navalní var loks dæmd­ur 2. fe­brú­ar 2021 til tveggja og hálfs ár fang­elsis­vist­ar fyr­ir brot á skil­orði.

Mynd­band Navalnís, Höll Pútíns, sem meira en 100 millj­ón sinn­um hef­ur verið skoðað á YouTu­be, sýn­ir risa­höll og glæsiaðstöðu á skaga við Svarta­haf. Navalní seg­ir að þar megi sjá minn­is­varða um spill­ing­una sem ein­kenni stjórn­ar­hætti Pútíns. For­set­inn seg­ir höll­ina ekki sína eign. Laug­ar­dag­inn 30. janú­ar sagðist rúss­nesk­ur auðmaður, Arka­díj Roten­berg, bygg­ing­ar­verktaki og æsku­vin­ur Pútíns, eiga öll mann­virk­in sem sýnd eru á mynd­band­inu. Roten­berg hef­ur í fimm ár verið á refsil­ista Vest­ur­landa vegna skugga­legra um­svifa í þágu Pútíns.

_116804862_hi065491250Alexei Navalní í glerbúri við réttarhöldin 2. febrúar 2021. Hann sendir eiginkonu sinni, Júlíu, kveðju með því að mynda hjarta með fingrunum.

Í varn­ar­ræðu við rétt­ar­höld­in 2. fe­brú­ar 2021 sagði Navalní:

„Skýr­ing­in [á rétt­ar­höld­un­um] er hat­ur og ótti eins manns – eins manns sem fel­ur sig í byrgi. Ég móðgaði hann ákaf­lega með því að halda lífi. Ég hélt lífi, þökk sé góðu fólki, flug­mönn­um og lækn­um. Og síðan bætti ég gráu ofan á svart með því að hlaupa ekki í fel­ur. Loks gerðist það sem er sann­ar­lega hroll­vekj­andi: ég tók þátt í rann­sókn á eiturárás á sjálf­an mig og okk­ur tókst að sanna að í raun bar Pútín ábyrgð á þess­ari morðtil­raun með því að nota rúss­nesku ör­ygg­is­lög­regl­una [FSB]. Og þess vegna er þjó­fótta smá­mennið í byrg­inu að verða viti sínu fjær. Vegna þessa er hann ein­fald­lega að ganga af göfl­un­um.“

 

Fjölda­mót­mæl­in

Mynd­bandið magnaða og hvatn­ing­ar Navalnís leiddu til mót­mæla um allt Rúss­land sunnu­dag­inn 24. janú­ar. Örygg­is­lög­regla hand­tók um fjög­ur þúsund manns og mynd­ir birt­ust af hörku­legri fram­göngu henn­ar.

Þegar dró að sunnu­deg­in­um 31. janú­ar birti Navalní bréf á vefsíðu sinni og sagði: „Drífið ykk­ur út, ekk­ert er að ótt­ast. Eng­inn vill búa í landi harðstjórn­ar og spill­ing­ar. Meiri­hlut­inn stend­ur með okk­ur.“ Tugþúsund­ir manna urðu við áskor­un Navalnís og drifu sig út til mót­mæla sunnu­dag­inn 31. janú­ar. Lög­regl­an hand­tók þá rúm­lega 5.000 manns og sýndi meiri hörku en áður.

Vegna rétt­ar­hald­anna 2. fe­brú­ar var fjöl­mennt ör­ygg­is­lið á göt­um Moskvu og vegatálm­ar voru víða um borg­ina. Fólki var haldið sem lengst frá dóm­hús­inu. Um 1.400 voru hand­tekn­ir víðs veg­ar um landið, þar af 1.000 í Moskvu.

Allt sýn­ir þetta að Pútín ætl­ar ekki að brenna sig á því sama og gerðist í Aust­ur-Þýskalandi sum­arið og haustið 1989 þegar lög­reglu­ríkið hrundi allt í einu inn­an frá vegna mátt­leys­is yf­ir­vald­anna og skorts á stuðningi frá Moskvu. Pútín hef­ur oft­ar en einu sinni harmað þá at­b­urðarás alla.

 

Mót­mæli mennta­manna

Vegna mót­mæl­anna og hörku lög­regl­unn­ar í til­efni af hand­töku Navalnís tóku vís­inda- og fræðimenn inn­an og utan Rúss­lands hönd­um sam­an og birtu opið bréf í byrj­un þess­ar­ar viku.

Þar er mót­mælt beit­ingu efna­vopna gegn Navalní og þar með broti gegn alþjóðalög­um. Litið er á hörk­una gegn Navalní sem dæmi um hnign­andi réttarör­yggi rúss­neskra borg­ara, yf­ir­völd rann­saki hvorki mál né upp­lýsi, loki menn inni eða drepi, banni op­in­ber­ar umræður og beiti valdi í stað viðræðna til þess að treysta sig í sessi með al­menn­um stuðningi. Þetta valdi ein­ung­is meiri spennu í þjóðfé­lag­inu og kunni auðveld­lega að leiða til „þjóðar­upp­reisn­ar“. Hætta verði refsiaðgerðum gegn friðsöm­um mót­mæl­end­um.

Minnt er á nauðsyn alþjóðlegr­ar sam­stöðu til að sigr­ast á Covid-19-far­sótt­inni. Inn­an Rúss­lands hafi mistek­ist að sam­eina fræði- og vís­inda­menn og al­menn­ing gegn far­sótt­inni. Þjóðinni hafi þar með ekki nýst mik­il­væg leið til að draga úr alþjóðasp­ennu með sam­vinnu gegn veirunni. Þess í stað megi greina viðleitni stjórn­valda til að virkja al­menna borg­ara til átaka við sam­eig­in­leg­an ytri óvin. Þetta hafi al­var­leg áhrif á fræði- og vís­inda­störf sem ekki sé unnt að stunda á ár­ang­urs­rík­an hátt í ein­angr­un. Rúss­land megi sín einskis án vís­inda.

Mennta­menn­irn­ir vitna í lok­in til orða fræg­asta sov­éska and­ófs­manns­ins, mann­vin­ar­ins, vís­inda­manns­ins og Nó­bels­verðlauna­haf­ans Andreis Sak­harovs, sem sagði: „Friður, fram­far­ir, mann­rétt­indi – þessi þrjú mark­mið eru órjúf­an­lega tengd: Það er ekki unnt að ná einu þeirra séu hin tvö höfð að engu.“ Þetta verði rúss­nesk yf­ir­völd að hafa að leiðarljósi.

 

Minsk og Moskva

Í ná­granna­ríkj­un­um Hvíta-Rússlandi og Rússlandi tak­ast ein­ræðis­herr­ar á við borg­ara landa sinna. Al­ex­and­er Lúka­sj­en­kó var kjör­inn for­seti Hvíta-Rúss­lands 9. ág­úst 2020. Síðan hafa mót­mæl­end­ur farið út á stræti og torg og sakað for­set­ann um kosn­inga­-svindl. Stig af stigi hef­ur for­set­inn hert gagnaðgerðir lög­reglu með aðstoð frá Vla­dimir Pútín sem lét eins og hann hefði framtíð Lúka­sj­en­kós í hendi sér. Nú glíma ein­ræðis­herr­arn­ir í Minsk og Moskvu við svipaðan vanda á heima­velli. Þótt upp­tök­in séu ólík er hvat­inn sá sami. Fólk sætt­ir sig ekki við stjórn­ar­hætti vald­hafa sem treysta á efna­vopn, pynt­ing­ar og skipu­lega aðför að mann­rétt­ind­um til að halda völd­um.

Rétt­ar­höld­un­um yfir Navalní er líkt við sýnd­ar­rétt­ar­höld­in í Moskvu á fjórða ára­tugn­um þegar Jósep Stalín út­rýmdi and­stæðing­um sín­um. Mun­ur­inn er þó sá að áróður­svél­in í þágu ein­ræðis­herr­ans er veik­ari nú en þá, þar á meðal utan Rúss­lands. Meira að segja hér á landi heyr­ast þó hjáróma radd­ir um að Navalní sé lodd­ari en ekki hugaður og snjall bar­áttu- og áróðursmaður sem hætt­ir eig­in lífi á þágu málstaðar­ins.

Frá­leitt er að líkja mót­mæl­um í tveim­ur síðustu ein­ræðis­ríkj­um Evr­ópu við það sem ger­ist í rétt­ar- og lýðræðis­ríkj­um þegar þjóðfé­lags­spenna mynd­ast. Þar treysta menn því að grunn­gildi séu virt og velja sér nýja for­ystu á lýðræðis­leg­an hátt.