27.2.2021

NATO-strengir gegn Huawei

Umræðan - grein í Morgunblaðinu, 27. febrúar 2021.

Í vik­unni skilaði starfs­hóp­ur und­ir for­mennsku Har­alds Bene­dikts­son­ar, þing­manns Sjálf­stæðis­flokks­ins, Guðlaugi Þór Þórðar­syni ut­an­rík­is­ráðherra skilagrein um ljós­leiðara­mál­efni og útboð ljós­leiðaraþráða. Þar er um að ræða ráðstöf­un á tveim­ur ljós­leiðaraþráðum af þrem­ur í streng um­hverf­is landið sem oft er kallaður NATO-ljós­leiðar­inn og lagður var á ár­un­um 1989 til 1991 vegna rat­sjár­stöðvanna á öll­um lands­horn­um. Ætl­un­in er að bjóða þessa þræði út til borg­ara­legra nota og snú­ast til­lög­ur starfs­hóps­ins einkum um aðferð við það.

Á NATO-ljós­leiðar­an­um hef­ur frá upp­hafi verið póli­tísk hlið. Þegar unnið var að lagn­ingu hans var Stein­grím­ur J. Sig­fús­son, þingmaður Alþýðubanda­lags­ins, sam­gönguráðherra (1988-1991). Þá var Alþýðubanda­lagið and­vígt aðild Íslands að NATO eins og VG er nú en þann flokk stofnaði Stein­grím­ur J. árið 1999 þegar ætl­un­in var að sam­eina alla vinstri menn í einn flokk, Sam­fylk­ing­una. Stein­grím­ur J., Svavar Gests­son og Hjör­leif­ur Gutt­orms­son, fyrr­ver­andi ráðherr­ar Alþýðubanda­lags­ins, vildu ekki ganga til slíks sam­starfs og beittu sér fyr­ir flokki lengra til vinstri, meðal ann­ars vegna and­stöðu við NATO og annarr­ar sér­stöðu í ut­an­rík­is­mál­um.

Þessi sérstaða hef­ur horfið smátt og smátt í ár­anna rás. Hjör­leif­ur Gutt­orms­son talaði manna harðast gegn aðild Íslands að Evr­ópska efna­hags­svæðinu (EES) fyr­ir tæp­um 30 árum. Eft­ir ald­ar­fjórðung inn­an EES er hann enn þeirr­ar skoðunar að aðild­in brjóti í bága við stjórn­ar­skrána. Stein­grím­ur J. stóð hins veg­ar að mynd­un rík­is­stjórn­ar með sam­fylk­ing­ar­kon­unni Jó­hönnu Sig­urðardótt­ur vorið 2009 og sóttu þau sam­an um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu. Þá var ekki talað um að stjórn­ar­skrá­in truflaði þau áform. ESB-um­sókn­in rann út í sand­inn eins og fleira hjá þess­ari rík­is­stjórn, þar á meðal Ices­a­ve-samn­ing­arn­ir sem Svavar Gests­son gerði. Eng­in rík­is­stjórn hef­ur fengið verri út­reið í kosn­ing­um en eina „hreina vinstri­stjórn­in“ vorið 2013.

Eft­ir að Alþýðubanda­lagið og síðar VG féll í verki frá því að gera NATO-aðild­ina eða varn­ar­sam­starfið við Banda­rík­in að úr­slita­atriði við stjórn­ar­mynd­un hafa þing­menn flokks­ins gjarn­an minnt á sér­stöðu sína í ut­an­rík­is- og ör­ygg­is­mál­um með því að fetta fing­ur út í ein­stak­ar fram­kvæmd­ir í þágu varna lands­ins. Því var þó ekk­ert and­mælt þótt á veg­um NATO væri lagður ljós­leiðari um­hverf­is landið árin 1989 til 1991 þegar Stein­grím­ur J. var sam­gönguráðherra.

IMG_0222-minniHaraldur Benediktsson alþingismaður og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra kynna skilagreinina um ljósleiðaramálefni (mynd utanríkisráðuneytið).

Í skilagrein Har­alds Bene­dikts­son­ar er rætt um fleira en tækni­lega hlið ljós­leiðara­mála og bent á að ör­yggi fjar­skipta séu grund­vall­ar­atriði í ör­yggi og vörn­um hvers rík­is. Þá hafi ör­yggi ís­lenskra fjar­skipta­kerfa áhrif á ör­yggi okk­ar nán­ustu vina- og banda­lags­ríkja. Minnt er á að á NATO-leiðtoga­fundi í Var­sjá í júlí 2016 hafi NATO-rík­in skuld­bundið sig til að gera allt sem í þeirra valdi stæði til að efla varn­ir innviða og net­kerfa. Fjar­skipta- og net­kerfi yrðu að geta staðið af sér hættu­ástand. Við þetta verk­efni verða ís­lensk stjórn­völd að glíma.

Meg­in­stef skilagrein­ar starfs­hóps­ins end­ur­spegl­ar þá staðreynd að á sviði sta­f­rænn­ar tækni treyst­ir rík­is­valdið á sam­starf við einkaaðila. Mark­miðið er að einkaaðilar fái af­not af tveim­ur strengj­um af þrem­ur sem falla und­ir for­ræði NATO. Þetta verði til þess að auka innri styrk sam­fé­lags­ins.

Þráðunum tveim­ur verður þó ekki ráðstafað til markaðsaðila nema farið sé að sam­eig­in­leg­um ör­yggis­kröf­um NATO-ríkj­anna. Kraf­ist er ör­ygg­is­vott­un­ar á búnað og að hann sé fram­leidd­ur í sam­starfs­ríki Íslend­inga í ör­ygg­is­mál­um eða ríki inn­an EES. Er gert ráð fyr­ir að kröf­ur um þetta verði sett­ar í útboðsgögn vegna strengj­anna. Mik­il­vægt sé að hafa í huga að útboðið og niðurstaða þess geti haft mik­il áhrif á fjar­skipta­markaðinn, seg­ir starfs­hóp­ur­inn, og legg­ur áherslu á að efla verði þekk­ingu inn­an stjórn­sýsl­unn­ar á gæslu ör­ygg­is á þessu sviði.

Minnt er á ör­ygg­is­áskor­an­ir sem fylgja til­komu 5G-far­neta og sagt: „Í því sam­hengi er nauðsyn­legt að taka mið af þeirri staðreynd að mörk­in á milli borg­ara­legs og hernaðarlegs ör­ygg­is og inn­an­rík­is- og ut­an­rík­is­mála eru að verða sí­fellt óskýr­ari. Kall­ar það á öfl­uga sam­stöðu og sam­starf milli hins op­in­bera og einka­geir­ans.“

NATO-rík­in líta á 5G-tækni frá kín­verska fyr­ir­tæk­inu Huawei sem ógn við ör­yggi far­kerfa. Nú er boðaður svo hár þrösk­uld­ur í ör­ygg­is­mál­um net- og fjar­skipta­kerfa hér að viðskipti við Huawei vegna 5G eru úr sög­unni. Ná­grannaþjóðir okk­ar, Græn­lend­ing­ar og Fær­ey­ing­ar, hafna 5G-viðskipt­um við Huawei. Lík­legt er að fjar­skipta­fyr­ir­tæk­in hér sem skipta við Huawei fái umþótt­un­ar­tíma til að taka upp viðskipti við selj­end­ur inn­an EES á 5G-tækni en þar eru Erics­son og Nokia í fremstu röð.

Sam­starf rík­is­valds­ins og einka­fyr­ir­tækja er ár­ang­urs­ríkt í fjar­skipt­um, net­notk­un og dreif­ingu alls efn­is hljóðvarps og sjón­varps. Þar rík­ir meira jafn­vægi en við gerð efn­is til dreif­ing­ar. Sjö millj­örðum króna á ári er varið í rík­is­út­varps­stöð í stað þess að nota féð til að styðja efn­is­gerð einkaaðila. Þarna ætti að skil­greina þátt rík­is­ins á al­veg nýj­an hátt og stofna til allt ann­ars kon­ar verka­skipt­ing­ar milli rík­is og einkaaðila. Frekja rík­is­ins á fjöl­miðlamarkaði geng­ur ein­fald­lega af einka­rekstri þar dauðum.