20.8.2022

NATO mótar norrænt samstarf

Morgunblaðið, laugardagur 20. ágúst 2022.


Óvenju­legt er að for­sæt­is­ráðherra Íslands standi á sama sumr­inu að tveim­ur fjölþjóðleg­um yf­ir­lýs­ing­um sem marka sögu­leg tíma­mót í varn­ar- og ör­ygg­is­mál­um.

Katrín Jak­obs­dótt­ir sat topp-fund NATO-ríkj­anna í Madrid í lok júní og ritaði þar und­ir nýja grunn­stefnu NATO. Henni er líkt við stofn­sátt­mála banda­lags­ins frá 4. apríl 1949. Stefn­an end­urstaðfest­ir svo ræki­lega gildi banda­lags­ins að leng­ir líf þess að minnsta kosti um næstu 70 ár.

Nú mánu­dag­inn 15. ág­úst tók Katrín Jak­obs­dótt­ir þátt í sum­ar­fundi for­sæt­is­ráðherra Norður­landa í boði Norðmanna í Osló. Þar bar hæst að ráðherr­arn­ir komu sér sam­an um yf­ir­lýs­ingu um varn­ar- og ör­ygg­is­mál vegna um­sókn­ar Finna og Svía um aðild að NATO.

Fund­ar­stjór­inn og gest­gjaf­inn Jon­as Gahr Støre, for­sæt­is­ráðherra Nor­egs, sagði NATO-um­sókn þjóðanna marka „sögu­leg þátta­skil í nor­ræn­um ör­ygg­is­mál­um og varn­ar­sam­starfi“. Metnaður hans sneri að því að nor­rænu rík­in þéttu enn frek­ar gott sam­starf sitt á þessu sviði. Nú mætti „líta til nor­rænna varna í stærra og meira skuld­bind­andi sam­hengi“. Sam­einuð Norður­lönd í NATO yki þunga þeirra inn­an NATO-sam­starfs­ins og leiddi til þess að sam­eig­in­leg gildi þeirra yrðu sýni­legri og fengju auk­inn slag­kraft.

Sam­eig­in­leg yf­ir­lýs­ing nor­rænu for­sæt­is­ráðherr­anna um nor­ræna sam­vinnu í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um er sögu­legt skjal sem mark­ar póli­tísk tíma­mót í nor­rænu sam­starfi.

Næsta ár, 2023, eru rétt 500 ár síðan Kalm­arsam­bandið leið und­ir lok. Þetta kon­ungs­sam­band milli Svíþjóðar, Nor­egs og Dan­merk­ur sam­einaði lönd­in und­ir einn kon­ung árin 1397-1523. Þá stóðu rík­in sam­an út á við til að tryggja stöðug­leika í krafti sam­eig­in­legra varna, einkum gegn Han­sa­kaup­mönn­um.

Í ár fagn­ar Nor­ræna fé­lagið á Íslandi 100 ára af­mæli sínu. Á vefsíðu þess eru til­drög fé­lags­ins rak­in til þess að vegna ótryggs stjórn­mála­ástands í Evr­ópu í byrj­un síðustu ald­ar hafi kon­ung­ar Dan­merk­ur, Nor­egs og Svíþjóðar ákveðið að efna til form­legs sam­starfs milli ríkj­anna. Þegar fyrri heims­styrj­öld­in var nýhaf­in und­ir­rituðu þeir í des­em­ber 1914 yf­ir­lýs­ingu um hlut­leysi Norður­land­anna. Varð þetta hvatn­ing til sam­starfs al­mennra borg­ara og til sög­unn­ar komu nor­rænu fé­lög­in, árið 1919 í Svíþjóð, Nor­egi og Dan­mörku, árið 1922 á Íslandi og 1924 í Finn­landi. Nor­ræna fé­lagið í Fær­eyj­um var stofnað árið 1951, á Álands­eyj­um 1970 og í Græn­landi 1991.

Und­ir lok fimmta ára­tug­ar­ins þegar þjóðir tóku að rétta úr sér eft­ir síðari heims­styrj­öld­ina var á ár­un­um 1948-1949 rætt af al­vöru um að stofna nor­rænt hernaðar- eða varn­ar­banda­lag. Úr því varð ekki og þrjú ríkj­anna, Dan­mörk, Ísland og Nor­eg­ur, urðu stofn­ríki NATO vorið 1949. Sví­ar völdu hlut­leysi utan hernaðarbanda­laga og Finn­ar hlut­leysi með vináttu­samn­ing við Sov­ét­rík­in.

Fyr­ir rétt­um 70 árum, árið 1952, kom síðan Norður­landaráð til sög­unn­ar, þing­manna­vett­vang­ur land­anna fimm. Nor­ræna ráðherra­nefnd­in var stofnuð árið 1971. For­sæt­is­ráðherr­arn­ir bera megin­á­byrgð á nor­rænu sam­starfi en fela sam­starfs­ráðherr­um Norður­landa fram­kvæmd­ina. Nú starfa 11 fagráðherra­nefnd­ir auk ráðherra­nefnd­ar sam­starfs­ráðherr­anna. Form­legt varn­ar­sam­starf, NOR­D­EFCO, kom til sög­unn­ar 2009.

Varn­ar- og ör­ygg­is­mál voru ekki á dag­skrá á sam­eig­in­leg­um vett­vangi nor­rænna stjórn­mála­manna í kalda stríðinu.

MmindexÁrið 1972 komu út fimm rit­gerðir sem ári síðar birt­ust í bók­inni Five Roads to Nordic Secu­rity – Fimm leiðir til nor­ræns ör­ygg­is – þar sem lýst er ólíkri stefnu ríkj­anna fimm í ör­ygg­is­mál­um. Joh­an Jør­gen Holst, síðar varn­ar­málaráðherra og ut­an­rík­is­ráðherra Nor­egs, rit­stýrði bók­inni og seg­ir í for­mála að með henni sé leit­ast við að fylla í eyðu, ekk­ert rit sé fyr­ir hendi þar sem á ein­um stað sé gerð til­raun til að bera sam­an ólík viðhorf þjóðanna fimm í þess­um mál­um. Eng­an sem að þessu verki stóð grunaði að hálfri öld síðar yrðu Finn­ar og Sví­ar á leið inn í NATO sum­arið 2022. Raun­ar sá það ekki held­ur neinn fyr­ir í byrj­un þessa árs.

Það er ein­mitt vegna ótt­ans og óviss­unn­ar sem leiðir af inn­rás Pútíns í Úkraínu sem nú ligg­ur fyr­ir af­drátt­ar­laus sam­eig­in­leg ör­ygg­is- og varn­ar­yf­ir­lýs­ing nor­rænu for­sæt­is­ráðherr­anna:

„Árás­ar­stríð Rússa gegn Úkraínu hef­ur gjör­breytt stöðu ör­ygg­is­mála í Evr­ópu. Nor­rænu þjóðirn­ar eiga það sam­eig­in­lega mark­mið að viðhalda stöðug­leika og efla ör­yggi á okk­ar svæði. Við mun­um halda áfram að dýpka sam­tal okk­ar um hvert stefn­ir í ör­ygg­is­mál­um. Nor­rænu rík­in ógna eng­um en þau verða þó að taka hönd­um sam­an til að vernda full­veldi okk­ar, frelsi og sam­eig­in­leg gildi.“

Í yf­ir­lýs­ing­unni er tekið af skarið um að aðild Finna og Svía að NATO auki styrk NATO og ör­yggi Evr­ópu. Með Finn­land og Svíþjóð í NATO séu öll nor­rænu rík­in skuld­bund­in til að aðstoða hvert annað sam­kvæmt 5. gr. Norður-Atlants­hafs­sátt­mál­ans. Þetta dýpki varn­ar­sam­starf ríkj­anna um­tals­vert og styrki varn­ir Norður­landa, Eystra­salts­svæðis­ins, norður­vængs NATO og banda­lags­ins í heild.

Boðað er að rík­in ætli að þróa frek­ar sam­vinnu sína í ör­yggi og vörn­um og eru nefnd sex sér­greind atriði á því sviði. Fyrst að þau ætli að taka virk­an þátt í að þróa og styrkja NATO sem hernaðarlegt og stjórn­mála­legt banda­lag.

Mik­il­vægt er fyr­ir okk­ur Íslend­inga, herlausa þjóðina, að finna leið til virkr­ar þátt­töku í þessu sam­starfi með aðild að æf­ing­um og þjálf­un. Gæsla friðar og ör­ygg­is borg­ar­anna er meg­in­skylda hverr­ar rík­is­stjórn­ar. Orðin ein duga þó ekki, verk­in verða líka að tala.