NATO mótar norrænt samstarf
Morgunblaðið, laugardagur 20. ágúst 2022.
Óvenjulegt er að forsætisráðherra Íslands standi á sama sumrinu
að tveimur fjölþjóðlegum yfirlýsingum sem marka söguleg tímamót í
varnar- og öryggismálum.
Katrín Jakobsdóttir sat topp-fund NATO-ríkjanna í Madrid í lok júní og ritaði þar undir nýja grunnstefnu NATO. Henni er líkt við stofnsáttmála bandalagsins frá 4. apríl 1949. Stefnan endurstaðfestir svo rækilega gildi bandalagsins að lengir líf þess að minnsta kosti um næstu 70 ár.
Nú mánudaginn 15. ágúst tók Katrín Jakobsdóttir þátt í sumarfundi forsætisráðherra Norðurlanda í boði Norðmanna í Osló. Þar bar hæst að ráðherrarnir komu sér saman um yfirlýsingu um varnar- og öryggismál vegna umsóknar Finna og Svía um aðild að NATO.
Fundarstjórinn og gestgjafinn Jonas Gahr Støre, forsætisráðherra Noregs, sagði NATO-umsókn þjóðanna marka „söguleg þáttaskil í norrænum öryggismálum og varnarsamstarfi“. Metnaður hans sneri að því að norrænu ríkin þéttu enn frekar gott samstarf sitt á þessu sviði. Nú mætti „líta til norrænna varna í stærra og meira skuldbindandi samhengi“. Sameinuð Norðurlönd í NATO yki þunga þeirra innan NATO-samstarfsins og leiddi til þess að sameiginleg gildi þeirra yrðu sýnilegri og fengju aukinn slagkraft.
Sameiginleg yfirlýsing norrænu forsætisráðherranna um norræna samvinnu í öryggis- og varnarmálum er sögulegt skjal sem markar pólitísk tímamót í norrænu samstarfi.
Næsta ár, 2023, eru rétt 500 ár síðan Kalmarsambandið leið undir lok. Þetta konungssamband milli Svíþjóðar, Noregs og Danmerkur sameinaði löndin undir einn konung árin 1397-1523. Þá stóðu ríkin saman út á við til að tryggja stöðugleika í krafti sameiginlegra varna, einkum gegn Hansakaupmönnum.
Í ár fagnar Norræna félagið á Íslandi 100 ára afmæli sínu. Á vefsíðu þess eru tildrög félagsins rakin til þess að vegna ótryggs stjórnmálaástands í Evrópu í byrjun síðustu aldar hafi konungar Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar ákveðið að efna til formlegs samstarfs milli ríkjanna. Þegar fyrri heimsstyrjöldin var nýhafin undirrituðu þeir í desember 1914 yfirlýsingu um hlutleysi Norðurlandanna. Varð þetta hvatning til samstarfs almennra borgara og til sögunnar komu norrænu félögin, árið 1919 í Svíþjóð, Noregi og Danmörku, árið 1922 á Íslandi og 1924 í Finnlandi. Norræna félagið í Færeyjum var stofnað árið 1951, á Álandseyjum 1970 og í Grænlandi 1991.
Undir lok fimmta áratugarins þegar þjóðir tóku að rétta úr sér eftir síðari heimsstyrjöldina var á árunum 1948-1949 rætt af alvöru um að stofna norrænt hernaðar- eða varnarbandalag. Úr því varð ekki og þrjú ríkjanna, Danmörk, Ísland og Noregur, urðu stofnríki NATO vorið 1949. Svíar völdu hlutleysi utan hernaðarbandalaga og Finnar hlutleysi með vináttusamning við Sovétríkin.
Fyrir réttum 70 árum, árið 1952, kom síðan Norðurlandaráð til sögunnar, þingmannavettvangur landanna fimm. Norræna ráðherranefndin var stofnuð árið 1971. Forsætisráðherrarnir bera meginábyrgð á norrænu samstarfi en fela samstarfsráðherrum Norðurlanda framkvæmdina. Nú starfa 11 fagráðherranefndir auk ráðherranefndar samstarfsráðherranna. Formlegt varnarsamstarf, NORDEFCO, kom til sögunnar 2009.
Varnar- og öryggismál voru ekki á dagskrá á sameiginlegum vettvangi norrænna stjórnmálamanna í kalda stríðinu.
Árið 1972 komu út fimm ritgerðir sem ári síðar birtust í bókinni Five Roads to Nordic Security – Fimm leiðir til norræns öryggis – þar sem lýst er ólíkri stefnu ríkjanna fimm í öryggismálum. Johan Jørgen Holst, síðar varnarmálaráðherra og utanríkisráðherra Noregs, ritstýrði bókinni og segir í formála að með henni sé leitast við að fylla í eyðu, ekkert rit sé fyrir hendi þar sem á einum stað sé gerð tilraun til að bera saman ólík viðhorf þjóðanna fimm í þessum málum. Engan sem að þessu verki stóð grunaði að hálfri öld síðar yrðu Finnar og Svíar á leið inn í NATO sumarið 2022. Raunar sá það ekki heldur neinn fyrir í byrjun þessa árs.
Það er einmitt vegna óttans og óvissunnar sem leiðir af innrás Pútíns í Úkraínu sem nú liggur fyrir afdráttarlaus sameiginleg öryggis- og varnaryfirlýsing norrænu forsætisráðherranna:
„Árásarstríð Rússa gegn Úkraínu hefur gjörbreytt stöðu öryggismála í Evrópu. Norrænu þjóðirnar eiga það sameiginlega markmið að viðhalda stöðugleika og efla öryggi á okkar svæði. Við munum halda áfram að dýpka samtal okkar um hvert stefnir í öryggismálum. Norrænu ríkin ógna engum en þau verða þó að taka höndum saman til að vernda fullveldi okkar, frelsi og sameiginleg gildi.“
Í yfirlýsingunni er tekið af skarið um að aðild Finna og Svía að NATO auki styrk NATO og öryggi Evrópu. Með Finnland og Svíþjóð í NATO séu öll norrænu ríkin skuldbundin til að aðstoða hvert annað samkvæmt 5. gr. Norður-Atlantshafssáttmálans. Þetta dýpki varnarsamstarf ríkjanna umtalsvert og styrki varnir Norðurlanda, Eystrasaltssvæðisins, norðurvængs NATO og bandalagsins í heild.
Boðað er að ríkin ætli að þróa frekar samvinnu sína í öryggi og vörnum og eru nefnd sex sérgreind atriði á því sviði. Fyrst að þau ætli að taka virkan þátt í að þróa og styrkja NATO sem hernaðarlegt og stjórnmálalegt bandalag.
Mikilvægt er fyrir okkur Íslendinga, herlausa þjóðina, að finna leið til virkrar þátttöku í þessu samstarfi með aðild að æfingum og þjálfun. Gæsla friðar og öryggis borgaranna er meginskylda hverrar ríkisstjórnar. Orðin ein duga þó ekki, verkin verða líka að tala.