11.12.2020

NATO lítur til norðurs

Morgunblaðið, 11. desember 2020

Umræður um varn­ar- og ör­ygg­is­mál eru tak­markaðar hér á landi. Er það und­ar­legt miðað við hve áhug­inn á þróun þess­ara mála í ná­grenni okk­ar eykst jafnt og þétt meðal stjórn­mála­manna, sér­fræðinga og fjöl­miðlamanna.

Fyr­ir skömmu sendi norska rík­is­stjórn­in frá sér nýja hvít­bók um norður­slóðir þar sem sér­stak­lega er áréttað að gjör­breyt­ing hafi orðið frá því að síðasta norska stefnu­skjalið um þetta ná­granna­svæði okk­ar Íslend­inga var birt árið 2011. Helsta breyt­ing­in snýr að hernaðarlega þætt­in­um, það er stefnu­breyt­ingu Rússa með auk­inni her­væðingu á öll­um sviðum og þar með kjarn­orku­her­væðingu á Kóla­skag­an­um.

Þögn hér á landi breyt­ir engu um þessa þróun. Hún eyk­ur aðeins hættu á að blekk­ing­ar­trú verði rót­fast­ari. Blekk­ing um að sé setið auðum hönd­um „redd­ist þetta“ eða þró­un­in verði á ann­an veg hér en ann­ars staðar.

Ships-norway-nato-trident-junctureUmræður á NATO-þingi

Nokkru áður en norska norður­slóðastefn­an birt­ist hitt­ust þing­menn frá 30 aðild­ar­lönd­um NATO á fjar­fundi NATO-þings­ins. Meðal viðmæl­enda þing­mann­anna var Jens Stolten­berg, fram­kvæmda­stjóri NATO. Hann sat fyr­ir svör­um og breski íhaldsþingmaður­inn Alec Shel­brooke beindi at­hygli Stolten­bergs og þing­mann­anna að norður­slóðum.

Shel­brooke vék sér­stak­lega að fram­göngu Rússa og Kín­verja og hvernig hún sneri að NATO. Kín­verj­ar litu á sig sem ná­granna norður­slóða. Þeir hefðu áform um silki­leið í Norður-Íshafi og efndu til flotaæf­inga á Eystra­salti. Hann sagði að kaf­bátaum­svif Rússa í Norður-Atlants­hafi væru nú meiri en árið 1983. (Um þær mund­ir hófst end­ur­nýj­un alls búnaðar í Kefla­vík­ur­stöðinni vegna útþenslu Sov­ét­manna.) Áætl­un Rússa um skipa­smíðar væri þriðja stærsta í heimi, nú væri verið að end­ur­vopna rúss­neska Norður­flot­ann, nýir ís­brjót­ar væru í smíðum og sigl­ing­ar í norðri og auðlinda­nýt­ing yrðu Rúss­um mik­il­væg­ari á næstu ára­tug­um.

Í sept­em­ber 2020 hefðu Bret­ar sýnt áhuga sinn á ör­yggi á norður­slóðum í verki með því að stjórna fjölþjóðlegri flota- og flugsveit við æf­ing­ar á Bar­ents­hafi. Svo­nefnd­ur norður­hóp­ur 12 ríkja lyti for­ystu Breta til að auka hernaðarlegt ör­yggi í norðri með virku varn­ar­sam­starfi. Spurði hann Stolten­berg hver væru áform NATO í bráð og lengd til að gæta eig­in strategískra hags­muna á þessu svæði. Hvernig ætlaði NATO að hvetja aðild­ar­rík­in til að styrkja getu sína vegna nýrra norðlægra verk­efna.

Jens Stolten­berg svaraði að norður­slóðir skiptu mjög miklu fyr­ir NATO. Þær yrðu aðeins enn mik­il­væg­ari við stækk­un ís­lausra hafsvæða og vegna auk­inna hernaðar­um­svifa Rússa og vax­andi áhuga Kín­verja. Það hefði jafn­an verið litið á norður­slóðir sem lág­spennusvæði. Hann vildi að það yrði gert áfram sem yrði auðvitað erfiðara með vax­andi hernaðar­um­svif­um. Hann vildi fylgja tvíþættri stefnu: sam­tals og hernaðarlegr­ar staðfestu.

NATO hefði þess vegna styrkt viðveru sína á norður­slóðum. Þess væri vænst að banda­lags­rík­in fylgdu þessu fram með tækj­um og mannafla. Bret­ar hefðu þegar styrkt flota sinn og keypt kaf­báta­leit­ar­vél­ar. Sömu sögu væri að segja um Dani, Norðmenn, Kan­ada­menn og Banda­ríkja­menn. „Við verðum að vernda Norður-Atlants­haf, við verðum að verja alla kapl­ana“ sem Stolten­berg sagði að tryggðu nær öll sta­f­ræn sam­skipti milli ríkja. Þá yrði að efna til fleiri æf­inga á borð við Tri­dent Junct­ure-æf­ing­una árið 2018.

Í fyrsta sinn á mörg­um ára­tug­um væri nú haldið úti flug­móður­skipi á norður­hluta Atlants­hafs. Flot­ar Breta og Banda­ríkja­manna létu auk þess að sér kveða á ann­an hátt en áður. Unnið væri að gerð varn­aráætl­ana á veg­um NATO fyr­ir hvert eitt aðild­ar­ríki og sér­stak­lega væri litið til flota­mála í norðri. Ekki mætti gleyma því að NATO hefði komið á fót nýrri her­stjórn í Nor­folk í Virg­in­íu-ríki í Banda­ríkj­un­um sem sinnti verk­efn­um á Norður-Atlants­hafi. Þar birt­ist einnig auk­in áhersla NATO á Norður-Atlants­haf.

 

Lofts­lag og ör­yggi

Þessi orðaskipti um norður­slóðir eru skarp­ari en þau hafa verið á op­in­ber­um NATO-vett­vangi um langt ára­bil. Um ára­tug­ur er síðan þáver­andi rík­is­stjórn Kan­ada vildi ekki nein NATO-af­skipti af norður­slóðum. Und­an­far­in ár má hins veg­ar greina ákveðna stig­mögn­un í orðalagi NATO um nauðsyn þess að auka styrk og viðveru und­ir merkj­um banda­lags­ins í norðri. Jens Stolten­berg er sömu skoðunar og nor­ræn­ir varn­ar­málaráðherr­ar sem vilja einnig að litið sé á norður­slóðir (e. Arctic) sem lág­spennusvæði. Í orðum allra nor­rænna ráðamanna um þetta má þó greina und­ir­tón um að lík­lega versni þó ástandið.

Norður­skauts­ráðið er sam­starfs­vett­vang­ur átta ríkja, nú und­ir for­mennsku Íslend­inga. Þar er ekki fjallað um varn­ar- og ör­ygg­is­mál. Dansk­ir fræðimenn hafa hreyft hug­mynd um að komið verði á fót óform­leg­um sam­ráðsvett­vangi um arktísk ör­ygg­is­mál með þátt­töku fleiri en ríkj­anna átta.

Í lok nóv­em­ber 2020 var lögð fram 67 bls. skýrsla, NATO 2030, sem hef­ur að geyma ábend­ing­ar 10 manna hóps sem starfaði á veg­um Stolten­bergs í umboði rík­is­odd­vita­fund­ar banda­lags­ins í des­em­ber 2019.

Í kafla um lofts­lags­mál seg­ir meðal ann­ars að áréttað skuli af hálfu NATO að lofts­lags­breyt­ing­ar hafi áhrif á ör­ygg­is­um­hverfi banda­lags­ins og að sjá verði til þess að sú staðreynd seti svip á strategísk stefnu­skjöl. Þá seg­ir:

„NATO á að styrkja aðgerðir til ástands­mats á norður­slóðum og á Norður­skauts­svæðinu (e. Arctic) og að því er varðar norður­slóðir, sem falla und­ir ábyrgðarsvæði SACEURs [Evr­ópu­her­stjórn­ar NATO], ætti að móta strategíu sem nær til víðtæk­ari fæl­ing­ar og varn­aráætl­ana. Gerð þess­ar­ar svæðis­bundnu strategíu taki sam­stillt til­lit til viðkvæmni og inn­sýn­ar NATO-aðild­ar­ríkj­anna sem eiga land að Norður-Íshafi. Í henni fel­ist áætlan­ir til að tryggja sigl­inga­frelsi í norður­höf­um og á ná­læg­um höf­um þar á meðal Norður-Atlants­hafi auk ákvæða um hvernig brugðist skuli við her­ská­um aðgerðum ríkja. Til að styðja við þessi áform verði flota­stefna banda­lags­ins frá 2011 upp­færð svo að hún end­ur­spegli nýj­ar ógn­ir við tengsl­in yfir Atlants­haf og ósk NATO um að Arktik/​norður­slóðasvæðið hald­ist sem lág­spennusvæði.“

Þá seg­ir einnig í þess­um kafla framtíðar­skýrslu NATO að lofts­lags­breyt­ing­ar móti áfram ör­ygg­is­um­hverfi NATO. Þótt það sé einkum verk­efni ein­stakra aðild­ar­ríkja að hafa stjórn á út­blæstri gegni NATO þar hlut­verki vegna vax­andi þarfar fyr­ir ástands­mat, tíma­bær­ar viðvar­an­ir og upp­lýs­inga­skipti. Legg­ur ráðgjaf­ar­hóp­ur­inn til að hugað verði að því að koma á fót önd­veg­is­setri NATO um lofts­lag og ör­yggi. Í störf­um set­urs­ins yrði lagt upp með reynslu NATO af því að fjalla um lofts­lags­breyt­ing­ar og aðrar ekki-hernaðarleg­ar ógn­ir eins og far­sótt­ir við úr­vinnslu NATO-áætl­ana um viðnámsþrótt og áfalla­stjórn­un, þar verði sér­stök áhersla lögð á að styrkja orku­virki og fjar­skipta­virki til að stand­ast veðurálag.

Þarna er vikið að borg­ara­leg­um ör­ygg­isþátt­um sem snerta hags­muni okk­ar Íslend­inga beint eins og sannaðist fyr­ir ári. Íslensk stjórn­völd ættu að láta sig þenn­an þátt sér­stak­lega varða í starfi NATO.