Minningarorð um fjölmiðla
Morgunblaðið, laugardagur 23. desember 2023.
Í stríði og friði fréttamennskunnar ★★½·· Eftir Sigmund Erni Rúnarsson. Sæmundur, 2023. Kilja, 231 bls., ljósmyndir.
Það er hressilegur stíll í minningabók Sigmundar Ernis Rúnarssonar (f. 1961) um ár hans í blaða- og fréttamennsku á fjölmiðlum sem flestir eru horfnir.
Kostur bókar Sigmundar Ernis Í stríði og friði fréttamennskunnar – eða uppgjörið við alla mína fjölmiðlatíð er að hann heldur til haga lýsingu á öllum miðlunum þar sem hann starfaði frá árunum 1981 til mars 2023. Hann sat á þingi fyrir Samfylkinguna í Norðausturkjördæmi 2009 til 2013.
Sigmundur Ernir var blaðamaður á Vísi 1981 og DV 1981-1983. Ritstjórnarfulltrúi á Helgarpóstinum 1983-1985. Þáttastjórnandi hjá ríkissjónvarpinu 1985-1986. Fréttamaður og síðar varafréttastjóri á Stöð 2 1987-2001. Ritstjóri DV 2001-2003. Þáttastjórnandi á Skjá 1 2003-2004. Fréttaritstjóri á Fréttablaðinu 2004-2005. Fréttastjóri á Stöð 2 2005-2007 og forstöðumaður fréttasviðs á sömu stöð 2007-2009. Stofnandi og stjórnandi sjónvarpsstöðvarinnar Hringbrautar 2014 sem sameinaðist Fréttablaðinu 2020 og varð hann aðalritstjóri fjölmiðla Torgs, þ. á m. Fréttablaðsins til mars 2023.
Þetta er skrautlegur listi yfir fjölmiðla, enn lifa Stöð 2 og ríkissjónvarpið. Heiti Vísis og DV eru á vefsíðum.
Þetta er þrítugasta ritverk Sigmundar Ernis. Andspænis titilblaði bókarinnar er listi sem sýnir að hann hefur áður sent frá sér 14 ljóð og prósa, 12 sögur og minningar og þrjár sýningar og sviðsverk. Hér handleikur því vanur maður tölvuborðið sem hann hamrar á með tveimur vísifingrum, hamhleypa til verka. Bókin hefur verið unnin með hraði því að þar er hvorki að finna efnisyfirlit né nafnaskrá. Þar er hins vegar fjöldi mynda.
Sigmundi Erni er ljúft að endurtaka það sem Sveinn R. Eyjólfsson blaðaútgefandi segir neikvætt um samskipti sín við forvígismenn Sjálfstæðisflokksins. Þar ráða viðskiptaraunir heimildarmannsins og stjórnmálaviðhorf sögumannsins. Skilningsleysi annarra veldur þeim stöðugum vandkvæðum.
Sigmundur Ernir lítur óvinsamlegum öfundaraugum til Morgunblaðsins. Ritstjórn þess þurfti aldrei að selja blaðið með upphrópunum eða uppljóstrunum á forsíðu eins og blöðin þar sem Sigmundur Ernir starfaði. Drifkrafturinn að baki Fréttablaðsins, fríblaðsins sem upphaflega var dreift ókeypis, var að skáka Morgunblaðinu.
Það hlakkar í Sigmundi Erni vegna þess hve hann telur útbreiðslu Morgunblaðsins hafa minnkað mikið vegna Fréttablaðsins (71). Þessi tónn blaðamanns í garð eina dagblaðsins sem heldur enn velli á landinu er illskiljanlegur. Það er forðast að horfa til ólíkra aðferða við öflun og miðlun frétta en einblínt á rekstrarlegu hliðina. Hún ræður vissulega miklu en ekki endilega úrslitum, gæði og ritstjórnarstefna kalla á öfluga fjárfesta hér eins og hvarvetna annars staðar.
Sigmundur Ernir segir að vitað sé (!) að „forráðamenn Sjálfstæðisflokksins“ hafi verið „á nálum“ vegna þess hve illa hafi verið komið fyrir „málgagninu“, þ. e. Morgunblaðinu undir árslok 2008. Samfylkingarráðherrar hafi heyrt „þessa kveinstafi á ríkisstjórnarfundi, skömmu eftir að efnahagshrunið reið yfir. En þá munu ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa étið upp sömu tugguna hver á eftir öðrum í örvinglan sinni: „Það bara má ekki fara með Moggann í þrot,“ var haft á orði, en harmagráturinn hljómaði eins og móðursýkiskast að sögn tilhlýðenda“ (73).
Sigmundur Ernir birtir ekki nöfn heimildarmanna meðal ráðherra Samfylkingarinnar. Frásögnin sýnir að þeir sátu ekki sömu ríkisstjórnarfundi og ég á þessum tíma. Minnist ég ekki neinna umræðna þar um örlög Morgunblaðsins og því síður kveinstafa.
Höfundur segir frá viðbrögðunum við verkfalli fréttamanna ríkisútvarpsins 1984, þá hafi Frjáls fjölmiðlun (Sveinn R. Eyjólfsson o.fl.) stofnað Fréttaútvarpið. Þá segir hann að „nokkrir stuttbuxnadrengir úr Valhöll“ hafi einnig „reynt að reka álíka sjóræningjastöðvar“. Á þennan ódýra hátt afgreiðir hann Frjálst útvarp sem starfaði með mikla hlustun á þessum verkfallstíma. Stöðinni var lokað með lögregluvaldi og opinbert mál höfðað gegn Hannesi H. Gissurarsyni og Kjartani Gunnarssyni fyrir brot á útvarpslögum. Hlutu þeir dóm. Frjálst útvarp leiddi til þess að forysta Sjálfstæðisflokksins snerist til fylgis við afnám ríkiseinokunar á útvarpsrekstri.
Hlutdrægni Sigmundar Ernis er ljóður á bók hans, sé henni ætlað annað hlutverk en að vera pólitísk málsvörn fyrir hrunið í íslenskri fjölmiðlun. Því verður ekki við snúið með óhróðri í garð Morgunblaðsins.
Auðvelt hefði verið fyrir Sigmund Erni að skrifa læsilega bók um þá fjölmiðla sem hann þekkti og segja sögu þeirra án þess að ónotast út í Morgunblaðið. Það er ekki við Morgunblaðið eða aðstandendur þess að sakast vegna dauða annarra miðla. Þeir voru einfaldlega ekki reistir á nógu traustum grunni. Þeir áunnu sér hvorki traust né áhuga lesenda, áskrifenda eða auglýsenda. Þeim var siglt í þrot.