Minningaleiftur menningarmanns
Umsögn í Morgunblaðinu 12. febrúar 2018
Sveinn Einarsson leikstjóri hefur skrifað 224 bls. bók undir hógværa heitinu Mitt litla leiksvið. Hann leyfir lesendum að kynnast brotum úr eigin ævi og formæðra sinna og feðra. Vettvangur hans er þó síður en svo bundinn við Ísland því að Sveinn sótti menntun sína til Stokkhólms og Parísar fyrir utan að hafa skapað sér sess í evrópsku og alþjóðlegu leiklistar- og menningarstarfi.
Sveinn var á sínum tíma frambjóðandi Íslands og þar með einnig Norðurlandanna í stjórn UNESCO, Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Hann hafði lýst efasemdum um að Íslendingar sæktust eftir þessu sæti en tók áskoruninni um framboð þegar á reyndi. Þótt UNESCO-framboð sé ekki eins stórt í sniðum og að sækjast eftir sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna verður að standa skipulega að því og afla fylgis meðal allra aðildarþjóðanna. Auk frambjóðandans reyndi þar mest á Sigríði Snævarr sem þá var sendiherra Íslands í París, meðal annars gagnvart UNESCO.
Sveinn náði kjöri, átti farsæla setu í stjórninni frá 2001 til 2005 og fékk ýmsu áorkað. Við alþjóðlega stjórnsýslu á menningarsviðinu verður varla lengra komist en í stjórn UNESCO. Bar það vott um fjölhæfni Sveins og hve víða hann hafði áunnið sér virðingu meðal stjórnenda menningarmála að Ísland náði þessum árangri með hann sem frambjóðanda.
Sveinn segir að sig hafi dreymt um að verða rithöfundur en heillast af leiklistinni og helgað henni listræna krafta sína. Hann hefur skrifað mikið um íslenska leiklist. Má þar nefna bækurnar Leikhúsið við Tjörnina (1972), Níu ár í neðra (1984), Íslensk leiklist I, II og III (1985,1996 og 2016), Ellefu ár í efra, Þjóðleikhúsárin (2000), A People‘s Theatre Comes of Age (doktorsrit 2006) Af sjónarhóli leikstjóra (2013) og Kamban (2013) auk þess sem hann hefur samið barnasögur, skáldsögur og fjölda leikrita.
Öllu þessu hefur hann áorkað samhliða störfum leikhússtjóra, leikstjóra, stjórnanda innlendrar dagskrár ríkissjónvarpsins og menningarráðgjafa í menntamálaráðuneytinu. Þá hafa þau Sveinn og Þóra Kristjánsdóttir, fréttamaður og listfræðingur, kona hans verið einstaklega virkir þátttakendur í íslensku og alþjóðlegu menningarlífi. Telur Sveinn sig hafa séð um 3.000 leiksýningar um ævina þar að auki eru svo málverkasýningar, tónleikar, bókmenntakynningar og aðrir menningarviðburðir.
Sá sem kynnst hefur sögumanninum Sveini finnst eins og hann sitji með honum á kaffihúsi. Hann heldur óskertri athygli – kannski einmitt vegna þess að sögumaðurinn kemur á óvart þegar hann fer óhikað úr einu í annað. Hann er stundum á Íslandi en er fyrr en varir kominn á fjarlæga staði, meira að segja á fíl í Nepal eða á skuggaleik á Balí. Fjallað er af jafnnæmri tilfinningu um það þegar höfundurinn heyrði Birgit Nilsson syngja í fyrsta sinn í óperunni í Stokkhólmi og samskipti hans við eigin heimilisketti og annarra.
Í samtali við blaðamann Morgunblaðsins um bókina sagði Sveinn: „Þetta er hvorki ævisaga né endurminningar í hefðbundnum stíl. Þetta eru minningaleiftur. Eiginlega er þetta samsafn af örsögum eða dæmisögum sem margar hverjar eru líka skemmtisögur.“
Snert er við lesandanum af því að orðin koma beint frá hjartanu, umbúðalaust og ætíð af velvild og umhyggju, ekki síst þegar Sveinn skrifar um Þóru, Ástu Kristjönu, dóttur þeirra, og Þóru Djunu, dótturdóttur. Stundum sækir á hugann að bókin sé skrifuð fyrir þær en okkur hinum sé boðið að hlusta á sögumanninn góða.
Bókin er snotur í litlu broti, textinn er lifandi og auðlesinn á hvítum pappír. Prófarkalestur hefði mátt vera betri.
Sveinn skrifar texta sinn ekki til að gera upp við menn og málefni heldur til að miðla og skemmta. Hvergi er vegið að neinum heldur litið til þess sem samtímamenn heima og erlendis gefa. Virðing Sveins fyrir menningararfinum og ræktun hans leynir sér hvergi.