Mikilvægi árangursmælinga í skólum
Morgunblaðið, laugardagur 26. apríl 2025.
Umræður um mælanlegan árangur í skólakerfinu snúast eðlilega mest um hvernig eigi að mennta nemendur – þá sem kerfið á að þjóna.
Þó eru fleiri hliðar á málinu sem vert er að skoða. Mæla má til dæmis hvort skólakerfið stuðli að jafnrétti, félagsfærni og lýðræðislegri þátttöku; hvernig árangur nemenda endurspeglar kennsluhætti og starfsframmistöðu kennara, hvort prófa- og árangursmiðað mat þrengi námskrá og dragi úr rými fyrir sköpun og gagnrýna hugsun og loks hvort fjármunum sé varið á árangursríkan hátt í menntakerfinu.
Helstu rök gegn stöðluðum eða samræmdum prófum í grunnskólum eru að þau stýri of mikið hvernig námi er háttað á kostnað sköpunar. Þá er bent á að of mikil áhersla á mælingar geti þrengt námskrána og haft neikvæð áhrif á námsumhverfi. Þessi gagnrýni hefur meðal annars leitt til vinnu hér við nýtt kerfi – svonefndan matsferil.
Markmiðið með matsferlinum er að búa til heildstætt og fjölbreytt námsmat sem nær yfir framfarir nemenda á ýmsum sviðum. Hins vegar hefur útfærslan á kerfinu verið mun tímafrekari en ætlað var og miðlun upplýsinga um eðli matsins er lítil. Tafirnar hafa skapað of langt og óviðunandi óvissuástand um hvernig námslok verði í grunnskóla.
Unnið er að smíði nýja mælitækisins í Miðstöð menntunar og skólaþjónustu á ábyrgð mennta- og barnamálaráðherra, Guðmundar Inga Kristinssonar. Hann hefur lýst yfir því að ekki standi til að hætta að horfa til námsárangurs við innritun í framhaldsskóla, á hinn bóginn vilji hann að einnig verði tekið mið af fleiri þáttum en bara einkunnum. Við innritun í framhaldsskóla sé nú litið til námsárangurs og þannig verði það áfram, meðal annars á grundvelli nýs matsferils.
Þarna er falið bil beggja sem gefur til kynna að málið sé ekki hugsað til enda.
Þegar frumvarp um matsferilinn fór til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda haustið 2024 komu fram ábendingar frá sérfræðingum við menntavísindasvið Háskóla Íslands. Þeir töldu mikilvægt að lögð yrðu fyrir skyldubundin samræmd könnunarpróf í 4., 6. og 9. bekk samhliða matsferlinum. Einnig bentu þeir á að börn ættu að geta þreytt samræmt lokapróf við námslok í grunnskóla. Þótt matsferillinn gæti reynst gagnlegt tæki í skólastarfi væri varasamt að líta á hann sem samræmt námsmat í eiginlegri merkingu.
Á þessu stigi má segja að margt sé enn óljóst varðandi matsferilinn og framkvæmd hans. Orð ráðherrans sýna einnig að ekki er unnt að fella endanlegan dóm um það hver leiðin úr grunnskóla í framhaldsskóla verður.
Allir vilja að opinbert fé sé nýtt á ábyrgan hátt. Þá er meðal annars spurt hvort unnt sé að mæla námsárangur og greina þannig nýtingu á opinberum fjármunum. Lögbundið er að þriggja manna fjármálaráð meti hvort fjármálastefna og fjármálaáætlun ríkisstjórna og alþingis séu reistar á grunngildum opinberra fjármála en þau eru sjálfbærni, varfærni, stöðugleiki, festa og gagnsæi.
Í dymbilvikunni 2025 gaf fjármálaráð út umsögn um fjármálaáætlun Daða Más Kristóferssonar fjármála- og efnahagsráðherra fyrir árin 2026-2030. Þar birtist rökstudd gagnrýni á skort á mælikvörðum á árangur opinberra útgjalda. Ráðið benti á að oftar en ekki væri litið svo á að aukin útgjöld jafngiltu sjálfkrafa auknum árangri – sem væri misskilningur.
Ráðið tók grunnskólakerfið sérstaklega sem dæmi. Þar væri reksturinn dýr í alþjóðlegum saman-burði en námsárangur nemenda væri ekki í samræmi við útgjöldin. Því væri nauðsynlegt að leita skýringa utan fjárhagslegra þátta – svo sem í námsmati, kennsluháttum og skipulagi kerfisins.
Einnig fann ráðið að því að samanburðarhæfar mælingar á námsárangri væru sjaldgæfar. Það torveldaði mat á árangri menntakerfisins, bæði út frá fjármunum og faglegum gæðum. Þarna vísar ráðið meðal annars til PISA-kannana OECD, þar sem niðurstöður íslenskra nemenda hafa oft valdið vonbrigðum. Þau hafa síðan leitt til þess að innan menntakerfisins hefur jafnvel verið vegið að gildi þessara prófa eins og annarra samræmdra mælitækja.
Fjármálaráð segir réttilega að til að byggja upp gott og skilvirkt menntakerfi þurfi reglulegir og samræmdir mælikvarðar að vera fyrir hendi – annars sé erfitt að sjá hvort fjármunum sé rétt varið.
Sé ætlunin að minnka mælingar á árangri nemenda má þyngja mælingar á kennsluháttum og starfsframmistöðu kennara. Í því efni ber að hafa sama leiðarljós og í umræðum um samræmd próf að mælingarnar einar og sér segja ekki alla söguna. Þær hafa þó engu að síður mikið gildi.
Finnland er gjarnan nefnt sem land þar sem unnt sé að ná framúrskarandi árangri með því að treysta á fagmennsku kennara og einstaklingsmiðað mat þeirra á námsframvindu nemenda án þess að reiða sig á stöðluð próf.
Sé matferilskerfi hrundið í framkvæmd hér í stað staðlaðra mælinga á getu nemenda aukast kröfur í garð kennara og um gagnsæja vitneskju um færni þeirra.
Krafan um mælanlegan árangur er skýr. Álit fjármálaráðs sýnir að við henni verður að bregðast í skólastarfi eins og annars staðar þar sem um nýtingu á skattfé almennings er að ræða.
Skólakerfið á að styðja við þroska nemenda, stuðla að jafnrétti, félagsfærni og lýðræðislegri þátttöku. Til þess að vita hvort svo sé þarf gagnsæi í öllu námsmati. Nemendur, foreldrar og samfélagið í heild á að geta treyst því að matið endurspegli raunverulegan árangur, jafnt þann sem er tölfræðilega mælanlegur og annan.
Lykilákvarðanir um þetta örlagaríka efni eru enn á ný á borðum þingmanna.