2.6.2017

Merkel og Trump valda uppnámi

Morgunblaðsgrein föstudag 2. júní 2017

Eftir mikilvæga fundi í NATO og hópi G7-ríkjaleiðtoga í síðustu viku var Angela Merkel Þýskalandskanslari sunnudaginn 28. maí í úthverfi München í Bæjarlandi og flutti bjórtjaldsræðu. Um 2.400 manns voru í kæfandi hita tjaldsins og stór hópur sem rúmaðist ekki inni stóð utan dyra.

Fundinn átti upphaflega að halda þriðjudaginn 23. maí. Honum var frestað vegna hryðjuverksins í Manchester á Englandi kvöldið áður. Þarna skyldi sýnd samstaða Merkel, leiðtoga kristilegra demókrata (CDU), og Horsts Seehofers, leiðtoga kristilegra sósíalista (CSU). Þau hefðu grafið stríðsöxina og gengju saman til baráttunnar vegna þingkosninganna í september. 

Bjórtjaldsfundir eru vinsælir í Þýskalandi, ekki síst í Bæjarlandi. Þar klæðast menn þjóðbúningum, veifa fánum og lúðrasveitir leika. Bjórinn flæðir og er borinn fram í stórum könnum. 

Þýskir stjórnmálamenn eru frægir fyrir langar ræður, Bierzelt-Reden, á slíkum samkomum og fundarmenn knýja þá áfram með lófataki, hlátri eða bauli. Á ræðupúltinu á þessum fundi stóð: Klar für unser land. Fundarmenn risu hvað eftir annað upp og veifuðu bláum spjöldum þar sem stóð: Klar für Merkel!

Kosningabaráttan var að hefjast og Merkel fagnaði eftir sigur CDU í þrennum sambandslandskosningum á árinu: í Saarlandi, Slesvík-Holstein og Nordrhein-Westfalen. Sambandslöndum þar sem síður en svo er sjálfgefið að CDU vegni vel og sé í stjórnarforystu. 

Merkel hefur tekist að slá á vinsældir sem Martin Schulz, kanslaraefni jafnaðarmanna (SPD), naut eftir að samstarfsflokkur hennar tilnefndi hann sem keppinaut hennar. Schulz var forseti ESB-þingsins áður en hann sneri sér beint að þýsku landsmálabaráttunni. Hann flaggar Evrópumálum í von um slá um sig á kostnað Merkel, hún sé einfaldlega taglhnýtingur Bandaríkjamanna. Með bjórtjaldsræðunni sló Merkel Evrópuvopnið úr hendi Schulz. Orð hennar vöktu heimsathygli:

„Tíminn þegar við gátum fyllilega treyst á aðra er að nokkru liðinn, það hef ég reynt undanfarna daga. Þess vegna get ég aðeins sagt: Við Evrópumenn verðum hreinlega sjálf að gæta okkar eigin örlaga.“ Hún sagði að þetta gerðist ekki nema í vináttu við Bandaríkjamenn og Breta en Þjóðverjar yrðu sem Evrópumenn að berjast á eigin forsendum fyrir framtíð sína, fyrir örlög sín.

Fundarmenn risu úr sætum og dynjandi lófatak ríkti í eina mínútu í tjaldinu.

Gabriel gerir betur

Jafnaðarmaðurinn Sigmar Gabriel, varakanslari og utanríkisráðherra Þýskalands, lét sitt ekki eftir liggja. Hann sagði mánudaginn 29. maí og átti við Trump: „Hver sem flýtir fyrir loftslagsbreytingum með minni umhverfisvernd, sem eykur vopnasölu til átakasvæða og sem vill ekki leysa trúarleg átök á stjórnmálavettvangi vegur að friði í Evrópu. Stöndum við Evrópumenn ekki af festu gegn þessu mun farandfólki fjölga enn í Evrópu. Þeir sem hafa ekki hafnað þessari stefnu Bandaríkjastjórnar eru einnig meðsekir.“

Í aðalfréttatíma þýsku sjónvarpsstöðvarinnar ZDF mánudaginn 29. maí sagði Gabriel að Trump hefði talað niður til viðmælanda sinna í fyrstu utanlandsferðinni og stjakað við einum forsætisráðherranna á NATO-fundinum auk þess sem hann fjarlægðist „vestrænar hugmyndir“,  þar á meðal alþjóðalög.

„Bandarískir starfsbræður átta sig greinilega ekki á því að þegar þeir hverfa á brott koma aðrir, til dæmis Kínverjar. Þeir eru með allt önnur viðhorf,“ sagði utanríkisráðherrann. Vegna alls þessa yrðu Evrópumenn að „standa saman og styrkjast“ og verja lýðræði, frjálslyndi og hreinskilni. Þjóðverjar ættu einnig að leggja meira af mörkum til að þjóðir eins og Frakkar og Ítalir bættu efnahag sinn.

„Mestu skiptir að við hættum að gera lítið úr eða tala niður til annarra,“ sagði Gabriel.

Óvildarmenn Donalds Trumps, einkum í Bandaríkjunum, töldu orð Merkel sýna að Bandaríkjaforseti hefði kallað yfir sig andúð meðal evrópskra ráðamanna. Hann gæti ekki fagnað fyrstu utanlandsför sinni sem forseti og sagt hana árangursríka.

Þriðjudaginn 30. maí birtist Trump á Twitter og kvartaði undan því að Þjóðverjar seldu meira til Bandaríkjanna en þeir keyptu af Bandaríkjamönnum og borguðu ekki nógu mikið til NATO og sameiginlegra varna. Á fundi með ríkisoddvitum NATO-ríkjanna í síðustu viku kvartaði Trump undan „risavöxnum skuldum“ 23 af 28 bandalagsríkjum og þetta væri ekki „sanngjarnt gagnvart almenningi og skattgreiðendum í Bandaríkjunum“

Opinber orðaskipti af þessu tagi milli æðstu manna Þýskalands og Bandaríkjanna eru einsdæmi. Á þessari stundu veit enginn hver áhrifin verða á samskipti þjóðanna. Í fréttum af ferð Trumps til  Brussel var sagt að hann hefði sagt Þjóðverja „vonda, verulega vonda“ vegna jákvæðs viðskiptajöfnuðar þeirra gagnvart Bandaríkjunum.

Ekki bara til heimabrúks


Flutti Angela Merkel ræðu sína eingöngu til heimabrúks? Taldi hún að utan Þýskalands hefðu menn ekki áhuga á því sem hún segði í bjórtjaldi í úthverfi München? Hafi hún haldið það, kom annað í ljós.

Sigmar Gabriel segir í raun að svo virðist sem Trump telji sér fært að láta annarra þjóða menn sitja og standa eins og honum sýnist – hann ýti þeim til hliðar sem séu í vegi hans og tali niður til þeirra sem séu honum ósammála. Hann virði ekki hugsjónir Vesturlanda og hunsi alþjóðalög. Þetta eru þung orð og ásakanir.

Telji þýskir stjórnmálamenn nauðsynlegt að tala á þennan veg um Trump og stjórn hans til að njóta trausts þýskra kjósenda er það áhyggjuefni, róttækt andsvar við stefnu Trumps um Bandaríkin í fyrsta sæti. 

Ekki eru aðeins þingkosningar í Þýskalandi á næstu mánuðum. Í næstu viku ganga Bretar til kosninga sem boðaðar voru af Theresu May forsætisráðherra til að treysta samningsstöðu hennar við útgöngu Breta úr ESB. Þremur dögum síðar, 11. júní, er fyrri umferð frönsku þingkosninganna. Emmanuel Macron, nýr Frakklandsforseti, vonar að kjósendur skapi meirihluta að baki stefnu sinni sem miðar að því að efla samstarf við Þjóðverja til að endurnýja og styrkja Evrópusambandið.

Hvernig sem kosningarnar fara í Bretlandi halda Bretar áfram ferð sinni úr ESB. Við brottför Breta hverfur andstaða innan sambandsins við að varnarsamstarf ESB-ríkjanna eflist, til verði ESB-herafli. Stofnun hans hefur lengi verið á dagskrá Þjóðverja. Þá yrði franski kjarnorkuheraflinn hluti ESB-varna. Sérfræðingar benda á að Þjóðverjar sætti sig raunar illa við að eiga öryggi sitt undir kjarnorkuvopnum Frakka sem kunni að ofmetnast. Þjóðverjar kjósi frekar kjarnorku-regnhlíf Bandaríkjamanna.

Áhrifin á N-Atlantshafi       


Uppnám í sambandi Evrópumanna og Bandaríkjamanna í öryggis- og varnarmálum er ekki nýtt. Ávallt hefur þó tekist að jafna ágreining hafi hann risið. Takist leiðtogum stóru þjóðanna sem hlut eiga að máli ekki að finna sameiginlega niðurstöðu er hætta á að upp úr rakni.

Raunverulegur fleygur á Norður-Atlantshafi skapar óþekkta stöðu frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Landfræðilegir hagsmunir Íslendinga falla að hagsmunum Breta og Bandaríkjamanna, Ísland yrði auk þess stólpi í brú ESB út á hafið.