Með Trump í 100 daga
Morgunblaðið, laugardagur 3. maí 2025.
Þess var minnst 29. apríl að Donald Trump hafði setið 100 daga í embætti Bandaríkjaforseta eftir að hann var kjörinn í það öðru sinni.
Á dögunum 100 hefur hann gefið 143 forsetafyrirmæli (e. executive order) og átta sinnum lýst yfir þjóðarneyðarástandi. Hann hefur valdið uppnámi með hagræðingu og uppsögnum í alríkiskerfinu; gripið til fjöldabrottvísana; sett McDonalds á matseðil forsetaflugvélarinnar, Air Force One; sýnt Teslur í garði Hvíta hússins; skipt um nafn á Mexíkóflóa sem nú heitir Ameríkuflói; leyft plaströr að nýju í staðinn fyrir papparör og að margra mati stofnað til stjórnlagadeilna og stjórnskipunarvanda.
Upptalningin er fengin af bandarísku vefsíðunni Free Press sem lét mikið rými undir greinar um fyrstu 100 daga Trumps í vikunni.
Þar birtist meðal annars löng grein eftir skoska sagnfræðinginn Sir Niall Ferguson sem taldi fyrir kosningarnar 5. nóvember 2024 að Trump myndi vinna og segist undrandi á því hve margir séu hissa vegna þess hvernig forsetinn taki nú á málum. Hann hafi boðað þetta allt fyrir kosningarnar.
Sir Niall segist á sínum tíma hafa skoðað 37 stutt en hnitmiðuð myndskeið sem Trump hafi tekið upp sem frambjóðandi á tímabilinu frá desember 2022 til desember 2023 og lýst næstum hverju skrefi sem hann hafi stigið á 100 dögunum frá því að hann tók við embætti sínu.
Nú spáir sagnfræðingurinn því að þegar fram líði stundir muni menn í fræðigrein hans vísa til þessa verkefnalista Trumps sem einhvers afdrifaríkasta lista af þessu tagi í sögu Bandaríkjanna. Við það bætist síðan að á fyrstu 100 dögunum í embætti hafi Trump hreinsað listann.
Verkefnin sem Trump setti sér og lofaði kjósendum að inna af hendi snúa öll að þeirri meginstefnu hans að gera veg Bandaríkjanna sem mestan að nýju. Þetta ætlar hann sér að gera með breytingum á bandarísku þjóðfélagi og nýrri stöðu Bandaríkjanna á alþjóðavettvangi.
Hér í norðri hefur stefna Trumps á fyrstu 100 dögunum leitt til óvenjulegri pólitískra umskipta fyrir vestan Íslands en við sem nú lifum höfum áður kynnst.
Í fyrstu héldu Kanadamenn að Trump talaði í hálfkæringi þegar hann sagðist sem forseti vilja að Kanada yrði 51. ríki Bandaríkjanna.
Justin Trudeau, þáverandi forsætisráðherra Kanada, snæddi kvöldverð með Trump, verðandi forseta, í Mar-a-Largo á Flórída í desember 2024. Eftir að þeir hittust kallaði Trump forsætisráðherrann „Trudeau ríkisstjóra“ 51. ríkisins.
Um þetta leyti höfðu íhaldsmenn í Kanada um 25% forskot á Trudeau.
Pierre Poilievre, gamalreyndur stjórnmálamaður og leiðtogi Íhaldsflokksins, höfðaði sterkt til kjósenda í gagnrýni á stjórnleysið undir forystu frjálslyndra. Hann skipaði sér á svipaða bylgjulengd og Trump gerði í kosningabaráttu sinni.
Þetta kom Poilievre í koll þegar Trump hóf tollastríð við Kanada snemma í febrúar. Þjóðernisbylgja fór um þjóðfélagið. Þegar keppt var í íshokkí bauluðu Kanadamenn á bandaríska þjóðsönginn. Þeir hættu að kaupa bandarískar vörur og ferðum þeirra yfir landamærin snarfækkaði. Allt tók þetta vindinn úr seglum Poilievres. Sjálfur náði hann ekki endurkjöri í kosningunum.
Justin Trudeau tilkynnti 6. janúar 2025 að hann ætlaði að segja af sér. Frjálslyndir komu saman 9. mars 2025 og kusu Mark Carney (59 ára) sem leiðtoga sinn og forsætisráðherra, hlaut hann 85,9% atkvæða.
Mark Carney fagnar sigri í Kanada,
Carney hafði aldrei áður leitast eftir neinu kjöri. Hann var seðlabankastjóri Kanada í fjármálakreppunni 2008 og Englandsbanka á Brexit-árunum. Hann er jarðbundnari en Trudeau, hófsamur og raunsær. Eitt af því fyrsta sem Carney gerði var að hverfa frá óvinsælli tillögu Trudeaus um kolefnaskatt, þar með misstu íhaldsmenn helsta árásarefnið í kosningabaráttunni.
Kjörtímabilið átti að renna út í október en 23. mars var kanadíska þingið rofið og boðað til kosninga 28. apríl. Frjálslyndir unnu án þess þó að fá hreinan þingmeirihluta.
Í sigurræðu sinni áréttaði Carney boðskap sinn um nauðsyn þess að veita Trump viðnám. Fyrir honum vekti að knésetja Kanadamenn til að eignast land þeirra, auðlindir og vatn. Hét forsætisráðherrann því að það myndi aldrei verða.
Full ástæða er til þess fyrir okkur Íslendinga að fylgjast vel með því sem gerist í Kanada vegna náinna þjóðræknislegra tengsla og nú skarpari viðhorfa í garð Bandaríkjanna samhliða því sem Kanadamenn árétta nauðsyn aukinnar öryggisvitundar vegna hættuboða á norðurslóðum. Carney, sem fæddist á þessum slóðum, vill efla öryggis- og varnarhlutverk Kanada þar og á norðvesturvæng NATO.
Dramatíska stjórnmálaþróunin í Kanada líkist því sem Trump hefur kallað fram hjá næstu nágrönnum okkar í vestri. Þeir hafa brugðist við tali forsetans um að Grænland verði hluti Bandaríkjanna, með góðu eða illu, á þann veg að leggja meiri rækt við danska konungsríkið. Sannaðist það vel í heimsókn Friðriks Danakonungs til Grænlands í vikunni.
Danskir og grænlenskir stjórnmálaskýrendur segja að í heimsókn konungs felist skýr skilaboð til Bandaríkjamanna og ekki síst Donalds Trump um hve Danir og Grænlendingar standi þétt saman.
Dæmin frá Kanada og Grænlandi eru sýnishorn af uppnáminu sem Trump hefur valdið utan landamæra Bandaríkjanna á fyrstu 100 dögunum. Í báðum löndum hefur verið gengið til þingkosninga sem boðaðar voru með skömmum fyrirvara vegna ögrandi ummæla Trumps og í hvorugu tilvikanna vegnaði þeim vel í kosningunum sem hölluðu sér helst að skoðunum hans.
Vonandi hleypur Trump fljótt af sér hornin.