3.12.2020

Lögmál bókaútgáfu og Laxness

Morgunblaðið, 3. desember 2020

Í bók­inni Spegli fyr­ir skugga­bald­ur vitn­ar dr. Ólína Kjer­úlf Þor­varðardótt­ir af velþókn­un í sjón­varpsþátt frá 18. mars 2007 um að Bjarni Bene­dikts­son, þáv. ut­an­rík­is­ráðherra, hafi und­ir lok fimmta ára­tug­ar­ins „lagt stein í götu“ út­gáfu bóka Hall­dórs Lax­ness í Banda­ríkj­un­um. Þá vitn­ar hún í Kast­ljós sjón­varps­ins frá 2010 um að bæk­ur Lax­ness hafi hætt að selj­ast í Banda­ríkj­un­um „laust eft­ir miðbik síðustu ald­ar, vegna þess að Bjarni Bene­dikts­son hefði gengið á fund sendi­herra Banda­ríkj­anna í Reykja­vík og leit­ast þar við að „eyðileggja mann­orð“ Hall­dórs í Banda­ríkj­un­um. Ástæðan hafi verið óánægja ís­lenskra ráðamanna með bók skálds­ins Atóm­stöðina, sem kom út 1948.“ (153)

Bók­in lýs­ir vand­ræðum dr. Ólínu við að fá fast starf hjá ís­lenska rík­inu. Höfn­un á henni sanni spillt stjórn­ar­far í land­inu. Spill­ing­in hafi svo einnig birst þegar Þor­vald­ur Gylfa­son pró­fess­or varð ekki rit­stjóri nor­ræns tíma­rits um efna­hags­mál þrátt fyr­ir sniðgöngu við ráðning­ar­regl­ur. Dr. Ólína seg­ir:

„Í máli Hall­dórs Lax­ness sem reifað er hér fram­ar var Bjarni Bene­dikts­son eldri í hlut­verki ger­anda, en í máli Þor­vald­ar Gylfa­son­ar var það nafni hans Bjarni Bene­dikts­son yngri. Náfrænd­ur og flokks­bræður, af­sprengi ólíkra tíma en sömu stjórn­mála­hefðar sem þró­ast hef­ur í ár­anna rás inn­an Sjálf­stæðis­flokks­ins – valda­flokks­ins.“ (227)

Kjarni sam­særis­kenn­ing­ar dr. Ólínu er reist­ur á póli­tískri og per­sónu­legri óvild henn­ar í garð frænda og flokks, þar eru skjalfest gögn og mál­efna­leg rök höfð að engu.

Kilbane_CB_Interior_CroppedMorg­un­blaðið birti tvö banda­rísk skeyti með grein dr. Ólínu í blaðinu 20. nóv­em­ber. Þau áttu að sanna rétt­mæti orða henn­ar. Blaðið sagði hins veg­ar í for­ystu­grein 22. nóv­em­ber: „Ólína gríp­ur til þess bragðs að slá sam­an efni skeyt­anna til þess að fá sína út­komu um hlut­verk Bjarna [Bene­dikts­son­ar], sem varð síðar rit­stjóri Morg­un­blaðsins. Ólína seg­ir í grein sinni að frum­heim­ild­irn­ar tali sínu máli. Þær segja bara ekki það sama og hún held­ur fram.“

Hall­dór Guðmunds­son seg­ir í Morg­un­blaðsgrein 25. nóv­em­ber að skjöl sem hann skoðaði við rit­un ævi­sögu Lax­ness segi ekk­ert um að af­skipti ís­lenskra yf­ir­valda hafi haft áhrif á út­gáfu bóka Hall­dórs Lax­ness í Banda­ríkj­un­um, mönn­um sé hins veg­ar „frjálst að draga sín­ar álykt­an­ir“.

Í lok grein­ar­inn­ar ger­ir Hall­dór Guðmunds­son því skóna að ein­hverj­ir forðist að „horf­ast í augu við fram­göngu ís­lenskra stjórn­valda“ í lok fimmta ára­tug­ar­ins og reyni frek­ar að „að fegra hana eft­ir okk­ar póli­tísku henti­semi“.

Hann­es Hólm­steinn Giss­ur­ar­son, ævi­sögu­höf­und­ur Lax­ness, árétt­ar í Morg­un­blaðsgrein 27. nóv­em­ber að ís­lensk­um yf­ir­völd­um bar á þess­um árum að beita ströng­um regl­um vegna gjald­eyr­is­hafta og skatta­reglna, náði það til Lax­ness eins og annarra.

Að ís­lensk­ir ráðamenn fram­fylgdu ís­lensk­um gjald­eyr­is­lög­um gagn­vart Hall­dóri Lax­ness fell­ur ekki að póli­tískri henti­semi þeirra sem vilja ræða allt annað. Hörð átök voru milli lýðræðissinna og komm­ún­ista hér á landi, þarf eng­in banda­rísk sendi­ráðsskjöl til að upp­lýsa það. Frá­sagn­ir sendi­manna end­ur­spegla oft von um frama vegna af­stöðu mót­tak­and­ans.

 

Banda­rísk­ur fræðimaður, Chay Lemo­ine, rann­sakaði út­gáfu­sögu Lax­ness í Banda­ríkj­un­um. Um 1950 var banda­ríska þjóðin, að hans sögn, hald­in svo mikl­um og al­menn­um ótta við „rauðu hætt­una“ að ekki þurfti Joe McCart­hy, drykk­felld­an öld­unga­deild­arþing­mann, til að hvetja til aðgerða gegn henni.

The New York Times birti 28. októ­ber 1955 forsíðufrétt um að Lax­ness hefði fengið Nó­bels­verðlaun­in. Þar er stjórn­mála­skoðunum hans lýst og hann sagður „rík­ur, hræsn­is­full­ur, and-banda­rísk­ur og vinst­ris­inni“. Þá vitn­ar blaðið í trausta heim­ild­ar­menn sem segi að þrátt fyr­ir and­stöðu sumra í sænsku aka­demí­unni við stjórn­mála­skoðanir Lax­ness hafi verið „ákveðið að veita hon­um verðlaun­in í ár, ein­ung­is vegna minni spennu í sam­skipt­um aust­urs og vest­urs“.

Að ís­lensk stjórn­völd hafi stjórnað bóka­út­gáfu í Banda­ríkj­un­um, af­stöðu þeirra sem gættu þar þjóðarör­ygg­is eða frétta­skrif­um The New York Times er hrein firra.

Al­menn lög­mál bóka­út­gáfu ráða niður­stöðu frjálsra álykt­ana um út­gáfu á bók­um Hall­dórs Lax­ness í Banda­ríkj­un­um. Fyr­ir ligg­ur að banda­rísk­ur út­gef­andi Lax­ness, Al­fred A. Knopf, var ein­læg­ur kapí­talisti. Hann gaf út bæk­ur teldi hann þær gefa eitt­hvað í aðra hönd. Stjórn­mála­skoðanir höf­unda skiptu hann engu. Knopf bar fyr­ir sig að hann hefði eng­an les­anda á nor­ræn tungu­mál þegar hann var spurður um Lax­ness.

Lýs­ing Lax­ness sjálfs á ör­lög­um þýðand­ans á Sjálf­stæðu fólki á fimmta ára­tugn­um er til marks um hve erfitt var að snúa bók­inni á ensku. Und­ir lok sjötta ára­tug­ar­ins komst þó skriður á ensk­ar þýðing­ar á verk­um Lax­ness vegna dugnaðar og ís­lenskukunn­áttu Magnús­ar Magnús­son­ar, sjón­varps­manns í Bretlandi. Hann þýddi t.d. Atóm­stöðina. Hún kom út á Englandi árið 1961 og árið 1982 í Banda­ríkj­un­um.

Minn­ing þeirra sem koma hér við sögu á annað skilið en mál­flutn­ing dr. Ólínu Kjer­úlf Þor­varðardótt­ur. Ómak­legt er að hún geri Hall­dór Lax­ness að fórn­ar­lambi til að upp­hefja sjálfa sig.