Lögmál bókaútgáfu og Laxness
Morgunblaðið, 3. desember 2020
Í bókinni Spegli fyrir skuggabaldur vitnar dr. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir af velþóknun í sjónvarpsþátt frá 18. mars 2007 um að Bjarni Benediktsson, þáv. utanríkisráðherra, hafi undir lok fimmta áratugarins „lagt stein í götu“ útgáfu bóka Halldórs Laxness í Bandaríkjunum. Þá vitnar hún í Kastljós sjónvarpsins frá 2010 um að bækur Laxness hafi hætt að seljast í Bandaríkjunum „laust eftir miðbik síðustu aldar, vegna þess að Bjarni Benediktsson hefði gengið á fund sendiherra Bandaríkjanna í Reykjavík og leitast þar við að „eyðileggja mannorð“ Halldórs í Bandaríkjunum. Ástæðan hafi verið óánægja íslenskra ráðamanna með bók skáldsins Atómstöðina, sem kom út 1948.“ (153)
Bókin lýsir vandræðum dr. Ólínu við að fá fast starf hjá íslenska ríkinu. Höfnun á henni sanni spillt stjórnarfar í landinu. Spillingin hafi svo einnig birst þegar Þorvaldur Gylfason prófessor varð ekki ritstjóri norræns tímarits um efnahagsmál þrátt fyrir sniðgöngu við ráðningarreglur. Dr. Ólína segir:
„Í máli Halldórs Laxness sem reifað er hér framar var Bjarni Benediktsson eldri í hlutverki geranda, en í máli Þorvaldar Gylfasonar var það nafni hans Bjarni Benediktsson yngri. Náfrændur og flokksbræður, afsprengi ólíkra tíma en sömu stjórnmálahefðar sem þróast hefur í áranna rás innan Sjálfstæðisflokksins – valdaflokksins.“ (227)
Kjarni samsæriskenningar dr. Ólínu er reistur á pólitískri og persónulegri óvild hennar í garð frænda og flokks, þar eru skjalfest gögn og málefnaleg rök höfð að engu.
Morgunblaðið birti tvö bandarísk skeyti með grein dr. Ólínu í blaðinu 20. nóvember. Þau áttu að sanna réttmæti orða hennar. Blaðið sagði hins vegar í forystugrein 22. nóvember: „Ólína grípur til þess bragðs að slá saman efni skeytanna til þess að fá sína útkomu um hlutverk Bjarna [Benediktssonar], sem varð síðar ritstjóri Morgunblaðsins. Ólína segir í grein sinni að frumheimildirnar tali sínu máli. Þær segja bara ekki það sama og hún heldur fram.“
Halldór Guðmundsson segir í Morgunblaðsgrein 25. nóvember að skjöl sem hann skoðaði við ritun ævisögu Laxness segi ekkert um að afskipti íslenskra yfirvalda hafi haft áhrif á útgáfu bóka Halldórs Laxness í Bandaríkjunum, mönnum sé hins vegar „frjálst að draga sínar ályktanir“.
Í lok greinarinnar gerir Halldór Guðmundsson því skóna að einhverjir forðist að „horfast í augu við framgöngu íslenskra stjórnvalda“ í lok fimmta áratugarins og reyni frekar að „að fegra hana eftir okkar pólitísku hentisemi“.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson, ævisöguhöfundur Laxness, áréttar í Morgunblaðsgrein 27. nóvember að íslenskum yfirvöldum bar á þessum árum að beita ströngum reglum vegna gjaldeyrishafta og skattareglna, náði það til Laxness eins og annarra.
Að íslenskir ráðamenn framfylgdu íslenskum gjaldeyrislögum gagnvart Halldóri Laxness fellur ekki að pólitískri hentisemi þeirra sem vilja ræða allt annað. Hörð átök voru milli lýðræðissinna og kommúnista hér á landi, þarf engin bandarísk sendiráðsskjöl til að upplýsa það. Frásagnir sendimanna endurspegla oft von um frama vegna afstöðu móttakandans.
Bandarískur fræðimaður, Chay Lemoine, rannsakaði útgáfusögu Laxness í Bandaríkjunum. Um 1950 var bandaríska þjóðin, að hans sögn, haldin svo miklum og almennum ótta við „rauðu hættuna“ að ekki þurfti Joe McCarthy, drykkfelldan öldungadeildarþingmann, til að hvetja til aðgerða gegn henni.
The New York Times birti 28. október 1955 forsíðufrétt um að Laxness hefði fengið Nóbelsverðlaunin. Þar er stjórnmálaskoðunum hans lýst og hann sagður „ríkur, hræsnisfullur, and-bandarískur og vinstrisinni“. Þá vitnar blaðið í trausta heimildarmenn sem segi að þrátt fyrir andstöðu sumra í sænsku akademíunni við stjórnmálaskoðanir Laxness hafi verið „ákveðið að veita honum verðlaunin í ár, einungis vegna minni spennu í samskiptum austurs og vesturs“.
Að íslensk stjórnvöld hafi stjórnað bókaútgáfu í Bandaríkjunum, afstöðu þeirra sem gættu þar þjóðaröryggis eða fréttaskrifum The New York Times er hrein firra.
Almenn lögmál bókaútgáfu ráða niðurstöðu frjálsra ályktana um útgáfu á bókum Halldórs Laxness í Bandaríkjunum. Fyrir liggur að bandarískur útgefandi Laxness, Alfred A. Knopf, var einlægur kapítalisti. Hann gaf út bækur teldi hann þær gefa eitthvað í aðra hönd. Stjórnmálaskoðanir höfunda skiptu hann engu. Knopf bar fyrir sig að hann hefði engan lesanda á norræn tungumál þegar hann var spurður um Laxness.
Lýsing Laxness sjálfs á örlögum þýðandans á Sjálfstæðu fólki á fimmta áratugnum er til marks um hve erfitt var að snúa bókinni á ensku. Undir lok sjötta áratugarins komst þó skriður á enskar þýðingar á verkum Laxness vegna dugnaðar og íslenskukunnáttu Magnúsar Magnússonar, sjónvarpsmanns í Bretlandi. Hann þýddi t.d. Atómstöðina. Hún kom út á Englandi árið 1961 og árið 1982 í Bandaríkjunum.
Minning þeirra sem koma hér við sögu á annað skilið en málflutning dr. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur. Ómaklegt er að hún geri Halldór Laxness að fórnarlambi til að upphefja sjálfa sig.