Löggjafar ekki álitsgjafar
Morgunblaðið, laugardagur, 28. maí 2022
Nú er nákvæmlega hálft ár frá því að Katrín Jakobsdóttir myndaði annað ráðuneyti sitt með Bjarna Benediktssyni og Sigurði Inga Jóhannssyni; þriggja flokka stjórn vinstri flokks, mið-hægri flokks og miðjuflokks. Flokkarnir áttu farsælt samstarf frá 2017 til kosninganna í 25. september 2021. Þeir fengu endurnýjað umboð kjósenda í þeim kosningunum og nýttu sér það til stjórnarmyndunar 28. nóv. 2021.
Tafirnar við stjórnarmyndunina urðu vegna þess að sumir þeirra sem voru í framboði sættu sig ekki við niðurstöðu talningar í NV-kjördæmi. Krafist var að allt yrði grand- og margskoðað, upphrópanir voru um lögbrot sem yrðu kærð til mannréttindadómstólsins í Strassborg. Upphlaupið skilaði að lokum engu en gaf til kynna nýtt yfirbragð stjórnmálanna: frambjóðendur og sumir þingmenn litu ekki á það sem hlutverk sitt að stuðla að stöðugleika og virðingu fyrir niðurstöðu opinberra aðila, grafið var undan trausti á þá með stóryrtum yfirlýsingum og útlistunum sem stóðust ekki gagnrýni.
Nú hálfu ári eftir að ríkisstjórnin var mynduð einkennast störf alþingis mjög af alls kyns upphlaupum og gauragangi. Nýir þingmenn í stjórnarandstöðuflokkum keppa eftir að komast í sviðsljós fjölmiðla og nýta sér þingsalinn til þess. Raunar þarf ekki nýja þingmenn til auglýsingamennsku í þingsalnum. Helga Vala Helgadóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, var í einkennisbol íþróttafélags þegar efnt var til úrslitaleiks í körfubolta.
Þingstörf einkennast af upphlaupum vegna frétta eða fréttaþátta. Stundum er greinilega um samspil milli fréttamanna og þingmanna að ræða. Markmiðið er að þjarma sem mest að einstökum ráðherrum. Eftir að hart hefur verið að þeim sótt í þingsalnum tekur sjálfur formaður Blaðamannafélags Íslands við þeim í Kastljósi og skipar sér í sæti ákærandans, jafnvel með þingmann úr stjórnarandstöðunni sér til halds og trausts.
Engu er líkara en þingmenn hafi gleymt því að þeir eru löggjafar en ekki álitsgjafar. Hlutverk þeirra er að vinna að lagasetningu og gerð formlegra ályktana. Fara í saumana á frumvörpum, grandskoða þau, leggja fram rökstuddar tillögur til breytinga eða umbóta. Í umboði þingmanna starfa eftirlitsstofnanir: ríkisendurskoðun og umboðsmaður alþingis til að hafa eftirlit með fjársýslu ríkisins annars vegar og opinberri stjórnsýslu hins vegar.
Fyrirspurnaflóð frá þingmönnum um opinber fjármál og störf ráðherra bendir til þess að þingmenn vantreysti þessum stofnunum eða viti hreinlega ekki hvert er hlutverk þeirra. Þá hafa lögskýringar þingmanna í ofstopafullum stíl ekkert raunverulegt gildi. Það er hlutverk dómara að túlka lögin og úrskurða um inntak þeirra.
Þingmenn eru kjörnir til að setja lög. Stundum er ákveðið í lögum að um ákveðin málefni sé ráðherrum skylt að hafa samráð við þingnefndir á ákvörðunarstigi. Þetta á við um ýmsar ákvarðanir utanríkisráðherra. Löngum hefur verið deilt um hve víðtæk skylda hans um samráð við utanríkismálanefnd er. Ekki er unnt að ráðast í sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum án aðkomu efnahags-og viðskiptanefndar þingsins og valdamikillar fjárlaganefndarinnar.
Þrátt fyrir að haft sé samráð við þingnefndir við töku ákvarðana útilokar það ekki umræður um mál eftir að ákvörðun er tekin og framkvæmd. Það fer hins vegar eftir því hvaða kröfur þingmenn gera til gæða eigin afstöðu og málflutnings hvernig þessum umræðum er háttað.
Eftir páska og fram að þinghléi vegna sveitarstjórnarkosninganna 14. maí sl. tóku stjórnarandstæðingar stóryrta syrpu í þingsalnum um sölu á eignarhlut í Íslandsbanka. Hafi flokkarnir ætlað að efla frambjóðendur sína og auka fylgið misheppnaðist það – nema kannski hjá Pírötum.
Nú í þessari viku var tekin jafnvel stóryrtari syrpa í þingsalnum vegna þess að ekki var unnt að framkvæma ákvarðanir um brottvísanir þeirra sem dveljast hér ólöglega á meðan strangar ferðareglur giltu í heimsfaraldrinum.
Þegar lönd kröfðust skírteinis um PCR-próf af þeim sem þangað komu bar svo við að einstaklingar sem dvöldust hér ólöglega vegna ákvörðunar yfirvalda neituðu að fara í PCR-próf og var þess vegna ekki unnt að senda þá úr landi. Þetta er meginuppistaðan í þeim 270 manna hópi sem nú bíður brottvísunar þegar krafa um PCR-próf vegna ferðalaga er úr sögunni.
Lögbundinn gangur er þessi: Útlendingastofnun afgreiðir umsókn á stjórnsýslustigi. Niðurstöðu hennar má áfrýja til úrskurðarnefndar útlendingamála. Í ferlinu nýtur hælisleitandi framfærslu og hefur löglærðan talsmann sér við hlið. Sé úrskurður umsækjanda í óhag ber honum að hlíta honum og fara úr landi, að öðrum kosti brýtur hann lög með dvöl sinni hér.
Stjórnarandstaðan vill að þessi lagaákvæði séu höfð að engu. Forsætisráðherra sagði í útvarpsviðtali miðvikudaginn 25. maí að það væri „mjög mikilvægt að horfa á samsetningu þessa hóps, reyna að meta aðstæður“. Hópurinn væri ekki einsleitur og yrðu málefnaleg sjónarmið að ráða niðurstöðunni. Málið hefði verið unnið innan gildandi laga sem samþykkt hefðu verið í víðtækri sátt. Nýta skyldi svigrúm innan lagarammans til að fylgja þeim meginleiðarljósum um mannúð sem mótuðu lögin. Nú væri Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra að fara yfir þessi atriði.
Í orðum forsætisráðherra felst að farið sé að stjórnsýslulögum um meðalhóf. Það orð er ekki til í bókum stjórnarandstöðunnar. Þar ræður ofstækið för. Í þingskapalögum ætti meðalhófsregla að gilda um þingmenn.