28.5.2022

Löggjafar ekki álitsgjafar

Morgunblaðið, laugardagur, 28. maí 2022

Nú er ná­kvæm­lega hálft ár frá því að Katrín Jak­obs­dótt­ir myndaði annað ráðuneyti sitt með Bjarna Bene­dikts­syni og Sig­urði Inga Jó­hanns­syni; þriggja flokka stjórn vinstri flokks, mið-hægri flokks og miðju­flokks. Flokk­arn­ir áttu far­sælt sam­starf frá 2017 til kosn­ing­anna í 25. sept­em­ber 2021. Þeir fengu end­ur­nýjað umboð kjós­enda í þeim kosn­ing­un­um og nýttu sér það til stjórn­ar­mynd­un­ar 28. nóv. 2021.

Taf­irn­ar við stjórn­ar­mynd­un­ina urðu vegna þess að sum­ir þeirra sem voru í fram­boði sættu sig ekki við niður­stöðu taln­ing­ar í NV-kjör­dæmi. Kraf­ist var að allt yrði grand- og margskoðað, upp­hróp­an­ir voru um lög­brot sem yrðu kærð til mann­rétt­inda­dóm­stóls­ins í Strass­borg. Upp­hlaupið skilaði að lok­um engu en gaf til kynna nýtt yf­ir­bragð stjórn­mál­anna: fram­bjóðend­ur og sum­ir þing­menn litu ekki á það sem hlut­verk sitt að stuðla að stöðug­leika og virðingu fyr­ir niður­stöðu op­in­berra aðila, grafið var und­an trausti á þá með stór­yrt­um yf­ir­lýs­ing­um og út­list­un­um sem stóðust ekki gagn­rýni.

Nú hálfu ári eft­ir að rík­is­stjórn­in var mynduð ein­kenn­ast störf alþing­is mjög af alls kyns upp­hlaup­um og gaura­gangi. Nýir þing­menn í stjórn­ar­and­stöðuflokk­um keppa eft­ir að kom­ast í sviðsljós fjöl­miðla og nýta sér þingsal­inn til þess. Raun­ar þarf ekki nýja þing­menn til aug­lýs­inga­mennsku í þingsaln­um. Helga Vala Helga­dótt­ir, þing­flokks­formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, var í ein­kenn­is­bol íþrótta­fé­lags þegar efnt var til úr­slita­leiks í körfu­bolta.

Þing­störf ein­kenn­ast af upp­hlaup­um vegna frétta eða fréttaþátta. Stund­um er greini­lega um sam­spil milli frétta­manna og þing­manna að ræða. Mark­miðið er að þjarma sem mest að ein­stök­um ráðherr­um. Eft­ir að hart hef­ur verið að þeim sótt í þingsaln­um tek­ur sjálf­ur formaður Blaðamanna­fé­lags Íslands við þeim í Kast­ljósi og skip­ar sér í sæti ákær­and­ans, jafn­vel með þing­mann úr stjórn­ar­and­stöðunni sér til halds og trausts.

Engu er lík­ara en þing­menn hafi gleymt því að þeir eru lög­gjaf­ar en ekki álits­gjaf­ar. Hlut­verk þeirra er að vinna að laga­setn­ingu og gerð form­legra álykt­ana. Fara í saum­ana á frum­vörp­um, grandskoða þau, leggja fram rök­studd­ar til­lög­ur til breyt­inga eða um­bóta. Í umboði þing­manna starfa eft­ir­lits­stofn­an­ir: rík­is­end­ur­skoðun og umboðsmaður alþing­is til að hafa eft­ir­lit með fjár­sýslu rík­is­ins ann­ars veg­ar og op­in­berri stjórn­sýslu hins veg­ar.

Fyr­ir­spurna­flóð frá þing­mönn­um um op­in­ber fjár­mál og störf ráðherra bend­ir til þess að þing­menn vantreysti þess­um stofn­un­um eða viti hrein­lega ekki hvert er hlut­verk þeirra. Þá hafa lög­skýr­ing­ar þing­manna í of­stopa­full­um stíl ekk­ert raun­veru­legt gildi. Það er hlut­verk dóm­ara að túlka lög­in og úr­sk­urða um inn­tak þeirra.

AlthingishusÞing­menn eru kjörn­ir til að setja lög. Stund­um er ákveðið í lög­um að um ákveðin mál­efni sé ráðherr­um skylt að hafa sam­ráð við þing­nefnd­ir á ákvörðun­arstigi. Þetta á við um ýms­ar ákv­arðanir ut­an­rík­is­ráðherra. Löng­um hef­ur verið deilt um hve víðtæk skylda hans um sam­ráð við ut­an­rík­is­mála­nefnd er. Ekki er unnt að ráðast í sölu eign­ar­hluta rík­is­ins í fjár­mála­fyr­ir­tækj­um án aðkomu efna­hags-og viðskipta­nefnd­ar þings­ins og valda­mik­ill­ar fjár­laga­nefnd­ar­inn­ar.

Þrátt fyr­ir að haft sé sam­ráð við þing­nefnd­ir við töku ákv­arðana úti­lok­ar það ekki umræður um mál eft­ir að ákvörðun er tek­in og fram­kvæmd. Það fer hins veg­ar eft­ir því hvaða kröf­ur þing­menn gera til gæða eig­in af­stöðu og mál­flutn­ings hvernig þess­um umræðum er háttað.

Eft­ir páska og fram að þing­hléi vegna sveit­ar­stjórn­ar­kosn­ing­anna 14. maí sl. tóku stjórn­ar­and­stæðing­ar stór­yrta syrpu í þingsaln­um um sölu á eign­ar­hlut í Íslands­banka. Hafi flokk­arn­ir ætlað að efla fram­bjóðend­ur sína og auka fylgið mis­heppnaðist það – nema kannski hjá Pír­öt­um.

Nú í þess­ari viku var tek­in jafn­vel stór­yrt­ari syrpa í þingsaln­um vegna þess að ekki var unnt að fram­kvæma ákv­arðanir um brott­vís­an­ir þeirra sem dvelj­ast hér ólög­lega á meðan strang­ar ferðaregl­ur giltu í heims­far­aldr­in­um.

Þegar lönd kröfðust skír­tein­is um PCR-próf af þeim sem þangað komu bar svo við að ein­stak­ling­ar sem dvöld­ust hér ólög­lega vegna ákvörðunar yf­ir­valda neituðu að fara í PCR-próf og var þess vegna ekki unnt að senda þá úr landi. Þetta er meg­in­uppistaðan í þeim 270 manna hópi sem nú bíður brott­vís­un­ar þegar krafa um PCR-próf vegna ferðalaga er úr sög­unni.

Lög­bund­inn gang­ur er þessi: Útlend­inga­stofn­un af­greiðir um­sókn á stjórn­sýslu­stigi. Niður­stöðu henn­ar má áfrýja til úr­sk­urðar­nefnd­ar út­lend­inga­mála. Í ferl­inu nýt­ur hæl­is­leit­andi fram­færslu og hef­ur lög­lærðan tals­mann sér við hlið. Sé úr­sk­urður um­sækj­anda í óhag ber hon­um að hlíta hon­um og fara úr landi, að öðrum kosti brýt­ur hann lög með dvöl sinni hér.

Stjórn­ar­andstaðan vill að þessi laga­ákvæði séu höfð að engu. For­sæt­is­ráðherra sagði í út­varps­viðtali miðviku­dag­inn 25. maí að það væri „mjög mik­il­vægt að horfa á sam­setn­ingu þessa hóps, reyna að meta aðstæður“. Hóp­ur­inn væri ekki eins­leit­ur og yrðu mál­efna­leg sjón­ar­mið að ráða niður­stöðunni. Málið hefði verið unnið inn­an gild­andi laga sem samþykkt hefðu verið í víðtækri sátt. Nýta skyldi svig­rúm inn­an lag­aramm­ans til að fylgja þeim meg­in­leiðarljós­um um mannúð sem mótuðu lög­in. Nú væri Jón Gunn­ars­son dóms­málaráðherra að fara yfir þessi atriði.

Í orðum for­sæt­is­ráðherra felst að farið sé að stjórn­sýslu­lög­um um meðal­hóf. Það orð er ekki til í bók­um stjórn­ar­and­stöðunn­ar. Þar ræður of­stækið för. Í þing­skap­a­lög­um ætti meðal­hófs­regla að gilda um þing­menn.