1.9.2018

Ljósakvöld í Múlakoti

1. september 2018

Ég býð ykkur velkomin hingað í kvöld í nafni Vinafélags gamla bæjarins í Múlakoti. Þetta er í þriðja sinn sem félagið stendur að því að efna til ljósakvölds hér í þjóðkunnum Guðbjargargarði.

Vil ég í upphafi máls míns þakka öllum sem gera okkur þetta kleift með hvers kyns aðstoð, án hennar kæmum við ekki saman hér í kvöld – innilegar þakkir til þeirra og ykkar kæru gestir fyrir að koma.

*

Vinafélagið starfar til stuðnings sjálfseignarstofnuninni sem stendur að endurreisn gamla bæjarins hér við hliðina. Endurreisnin hófst skipulega haustið 2014 eftir að hjónin í Múlakoti, Sigríður Hjartar og Stefán Guðbergsson, gáfu stofnuninni gömlu bæjatorfuna, húsakynni og garðinn.

Ný stjórn tók við í sjálfseignarstofnuninni nú í vikunni. Stefán er áfram formaður en nýir í stjórn eru Anton Kári Halldórsson sveitarstjóri fyrir Rangárþing eystra og Andri Guðmundsson, forstöðumaður Skógasafns, fyrir safnið.

Félag okkar, Vinafélagið, var stofnað í febrúar árið 2015 og vill það sjá til þess að endurbætur og varðveisla hér í Múlakoti nýtist sem best öllum almenningi auk þess að stuðla að öflun fjár svo að það markmið náist.

*

Ljósakvöldið er liður í þessari viðleitni okkar og gefur einnig tækifæri til að skýra frá því sem áunnist hefur á sumrinu og þakka þeim sem þar hafa átt hlut að máli.

Framkvæmdir sumarið 2018 snúa bæði að húsi og garði. Við frásögn mína af framkvæmdunum styðst ég við greinargerð Sigríðar Hjartar. Hún hefur lagt á sig ómælda vinnu í þágu staðarins, meðal annars með miðlun upplýsinga og ljósmynda til okkar í vinafélaginu fyrir utan að taka á móti sívaxandi fjölda fólks sem hingað kemur í skoðunarferðir – í ár hafa 160 greitt fyrir leiðsögn og fimm til sex hundruð komið að auki til að skoða garðinn.

 *

Elsta húsið er frá 1897, sama ári og Guðbjörg plantaði fyrstu reyniviðarhríslunni í garðinn. Hafa Sigmundur Felixsson og Sigurður Sigurðsson, smiðir á Hvolsvelli, unnið að því að gera við þak hússins. Skipt hefur verið um ónýta burðarviði og timbur í klæðningu og lagður nýr pappi og bárujárn á allt þakið. Sama var gert við þak tengigangsins milli elsta hússins og veitingahússins frá 1928. Viðir hafa verið endurnýjaðir í báðum göflum sem snúa að tengigangi og sömuleiðis gluggarammar. Eftir að bárujárn verður sett á gaflana er líklegt að hugað verði að innviðum elsta hússins.

*

Elsti hluti garðsins tók stakkaskiptum í sumar. Það er sá hluti þar sem við erum nú.

Hér austast í garðinum voru leifar af bekk úr torfi og grjóti, sem voru fjarlægðar, sama er að segja um lysthúsið, sem var að falli komið. Eftir að skipt hafði verið um jarðveg var steypt ný plata undir væntanlegt endurnýjað lysthús.

Nú á mánudaginn, 27. ágúst, var hér hópur nemenda og kennara frá Landbúaðarháskóla Íslands, Garðyrkjuskólanum að Reykjum í Hveragerði. Þeir komu að hellulögn, torfþekju, mótuðu ný gróðurbeð og gróðursettu í þau fjölærar blómplöntur sem uxu á Íslandi á tíma Guðbjargar. Konur á Hvolsvelli og í Fljótshlíð lögðu fram plönturnar.

Img_6957Gestir á ljósakvöldinu við nýju borðin á nýju bekkjunum á nýju stéttinni.

Velvild stjórnenda, kennara og nemenda skólans í garð gamla garðsins í Múlakoti er ómetanleg og það munar um minna en nær 50 manna hóp þegar hann leggur allan sig fram.

Hellurnar eru styrkur frá Steypustöðinni hf. og þegar sandur var settur undir þær var tækifærið jafnframt nýtt til að jafna mestu misfellur í garðinum með mold og sandi áður en sérvalið torf frá Borgareyrum var lagt yfir sárin. Drýgstir við jarðvinnuna voru Bjarni Ingvarsson og Svavar Bjarnason en Steina-Steinn, Þorsteinn Jónsson, átti lokahönd að hellulögninni.

Hans Magnússon í Kirkjulækjarkoti, stjórnarmaður í Vinafélaginu, kom í vikunni með endurgerða hliðgrind fyrir gamla garðinn og ber hún handbragði hans fallegt vitni.

*

Í fyrrasumar fór félag skógareigenda á Suðurlandi í kynnisferð að Giljalandi i Skaftártungu. Þar sáu Sigríður og Stefán forláta flettisög sem lék í höndunum á Sigurði Ólafssyni, skógarbónda. Fyrir einu ári eða 26. ágúst 2017 héldu þau til hans með fulla kerru af reyniviðarbolum úr Guðbjargargarði.

Þeim þótti þetta fallega timbur beinlínis kalla á að breytast í garðhúsgögn. Smiðinn fundu þau í Landbrotinu, Skúla Jónsson á Þykkvabæ. Um miðjan nóvember náðu Sigríður og Stefán svo í afrakstur vinnu Skúla og fluttu heim: þrjú stór borð, sex bekki við borðin, tvö minni borð með bekkjum og lítinn bekk með baki, sem fékk strax nafnið harmonikkubekkurinn.

Img_6967Grétar Geirsson þenur harmonikkuna á nýja sérsmíðaða bekknum.

Tæknimenn, Málningar hf, styrktarfélags Múlakots, veittu ráð um hvernig best væri að varðveita húsögnin fyrir veðri og vindum án þess að fegurð viðarins glataðist. Var farið að forsögn þeirra í einu og öllu.  Glæsilegur árangurinn blasir við okkur hér í kvöld.

Það voru ekki síst ljósakvöldin sem höfð voru í huga við gerð húsgagnanna og njótum við þeirra nú í fyrsta sinn. Húsgögnin eru sannkölluð garðprýði og gjöf vinafélagsins til staðarins, gjöf sem aldrei hefði orðið til án frumkvæðis Múlakotshjónanna. Færum við þeim innilegar þakkir fyrir framtakið.

*

Stærsti fjárstyrkur til framkvæmda við húsið kom í ár frá Minjastofnun, 5 milljónir króna. Þá veitti Héraðsnefnd Rangæinga 2 milljónir króna í lok síðasta árs sem komu til útborgunar á árinu. Er framkvæmdum haldið innan fjárhagsramma hverju sinni.

Vinafélagið hlaut 300 þúsund kr. styrk frá hjónum í félaginu sem vilja ekki láta nafns síns getið. SASS, Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, veittu 300.000 kr styrk til gerðar heimasíðu Múlakots. Smíði hennar er ekki fulllokið en vefslóðin er mulakot.is

*

Eins og af þessu má heyra hefur ekki verið setið auðum höndum við endurreisnina í Múlakoti í sumar og fullt tilefni til að þakka það sem áunnist hefur með því að koma hér saman í kvöld. Við þökkum einnig öllum sem hafa veitt framtakinu fjárhagslegt lið.

*

Við höldum áfram á sömu braut. Áhugi einstaklinga og hópa á að heimsækja staðinn er mikill og vaxandi. Betri hvatningu er varla unnt að hugsa sér þegar unnið er að endurreisn sem þessari.

*

Mikilvægur liður í ljósakvöldinu er fá hingað ræðumenn sem bera góðan hug til staðarins. Vigdís Jónsdóttir sagnfræðingur flytur ávarp hér í kvöld og þökkum við henni fyrir að fræða okkur um tengsl sín við staðinn.

Þá leikur Grétar Geirsson á Áshóli á harmonikku og nú í fyrsta sinn á sérsmíðuðum bekk.

Borið verður fram kaffi og ástarpungar.

Ég vona að við eigum ánægjulega stund hér saman og býð ykkur að nýju öll velkomin.