Ljósakvöld í Guðbjargargarði
Múlakoti, 3. september 2022.
Fyrir hönd Vinafélags gamla bæjarins í Múlakoti býð ég ykkur velkomin til þessa Ljósakvölds. Það er okkur fagnaðarefni að geta efnt til þess að nýju eftir tveggja ára hlé vegna heimsfaraldursins.
Eins og sjá má af þessum fagra garði sem Guðbjörg Þorleifsdóttir húsmóðir hér í Múlakoti stofnaði til með reyniviði árið 1897 kemur hann vel frá faraldrinum.
Undir forystu frú Sigríðar Hjartar og með hjálp úr Garðyrkjuskólanum í Hveragerði og ungs fólks á vegum sveitarfélagsins hér í Rangárþingi eystra blómstrar garðurinn vel á hverju sumri.
Ávarpið flutt í Guðbjargargarði
Framkvæmdir í gamla bænum ganga hægt en örugglega eftir því sem fjárhagur leyfir. Elsta hluta hússins er borgið og herbergi í honum hafa þegar verið máluð í upprunalegum litum.
Nú er unnið að smíði nýrra glugga í aðra hluta hússins. Þannig verður stig af stigi unnið að endurgerðinni.
Vinafélagið efndi nú í sumar í fyrsta sinn til aðalfundar í gamla bænum.
Þar var meðal annars skýrt frá því að velunnarar Guðbjargargarðs og endurreisnar á staðnum hafa gefið fjármuni svo að í samstarfi við vinafélagið verður lysthúsið í garðinum endurgert. Við endurgerðina er stuðst við gamlar heimildir til að tryggja að húsið sem rís líkist sem mest frumgerðinni.
Margir sem hingað komu á árum áður, Íslendingar og erlendir ferðamenn, minnast góðra stunda í lysthúsinu.
Finnskur jarðfræðiprófessor, Iivari Leiviskä, var hér á ferð um miðjan þriðja áratuginn. Í bók um ferðir sínar Ísland – land frosts og funa, sem kom út í íslenskri þýðingu Borgþórs Kjærnsteds árið 2005, segir prófessorinn frá komu sinni hingað í garðinn.
Hann tók sér far í þéttsetnum langferðabíl í lok júní 1925. Endastöðin hér í Fljótshlíð var þar sem vegurinn endaði „við læk nálægt kirkjunni að Hlíðarenda“, ekið var yfir lækinn og staðnæmst á grasbala á eyri í ánni, Þverá.
Þar stóð prófessorinn einn og vegalaus en ung stúlka sem hafði skemmt farþegum í bílnum með „fjörlegum söng“ kallaði til hans þegar hún fór og sagði að hann ætti að líta við á þriðja bænum innar í hlíðinni og spyrja eftir Lilju Túbals, þá skyldi hann fá gott kaffi.
Ferðalangurinn fékk inni á Neðri-Þverá þar sem honum var vingjarnlega tekið. Þaðan fór hann fótgangandi hingað í Múlakot eftir snarbrattri hlíðinni fyrir austan Hlíðarendi. Hann varð strandaglópur í brekkunum. Fyrir neðan þær var Svanhildur Þorsteinsdóttir Erlingssonar skálds í Hlíðarendakoti, með bendingum gat hún hjálpað Finnanum að komast niður á jafnsléttu.
Svanhildur var þá gestkomandi í Múlakoti og urðu þau „samferða að fallega húsinu í Múlakoti, þar sem Lilja og móðir hennar biðu mín og tóku mér fagnandi,“ segir Leiviskä og síðan: „Við húsið var að finna sjaldgæft fyrirbæri á Íslandi, en það er laufskrúðugur lundur reynitrjáa. Nú var mér vísað á milli þéttlaufgaðra trjárunna til að þiggja kaffið í laufskýli úr reynitrjám.“
Við erum nú í þessum sporum og hér verður dagskrá og síðan kaffi í garðinum góða.
Ég þakka öllum sem hafa aðstoðað vinafélagið við að undirbúa ljósakvöldið og þeim sem tóku vel tilmælum okkar um að flytja hér talað mál og tónlist fyrir utan að standa að kaffiveitingunum.
Sr. Sigríður Kristín Helgadóttur á Breiðabólstað flytur ræðu.
Þórður Helgason, fyrrv. dósent, fer með ljóð.
Grétar Geirsson leikur á harmonikku.