1.4.2021

Litakóðar – frelsi fullbólusettra

Morgunblaðið, fimmtudagur 1. apríl 2021.


Covid-19-far­ald­ur­inn er erfiðasta viðfangs­efni alþjóðasam­fé­lags­ins frá því á fimmta ára­tugn­um. Með þess­um orðum hefst grein sem 24 for­ystu­menn ríkja- og alþjóðasam­taka birtu í nokkr­um blöðum um heim all­an þriðju­dag­inn 30. sept­em­ber.

Sér­stök­um tíðind­um sæt­ir að sam­eig­in­lega standa Bor­is John­son, for­sæt­is­ráðherra Breta, Ang­ela Merkel Þýska­landskansl­ari og Emm­anu­el Macron Frakk­lands­for­seti að text­an­um. Erna Sol­berg, for­sæt­is­ráðherra Nor­egs, er full­trúi Norður­land­anna í hópn­um. Þar eru einnig: Char­les Michel, for­seti leiðtogaráðs ESB, Pedro Sánchez, for­sæt­is­ráðherra Spán­ar, Joko Widodo, for­seti Indó­nes­íu og dr. Tedros Adhanom Ghebr­eyes­us, for­stjóri Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­ar­inn­ar (WHO).

Minnt er á að eft­ir eyðilegg­ingu tveggja heims­styrj­alda hafi stjórn­mála­leiðtog­ar landa heims sam­ein­ast um að koma á fót fjölþjóðlegu kerfi til að færa þjóðir sam­an, sporna við freist­ing­um ein­angr­un­ar- og þjóðern­is­hyggju og tak­ast á við verk­efni sem aðeins megi leysa með sam­stöðu og sam­vinnu, það er vinna að friði, far­sæld, heil­brigði og ör­yggi. Lýst er þeirri von að eft­ir sam­eig­in­leg­an sig­ur á Covid-19-far­aldr­in­um tak­ist að mynda kerfi alþjóðlegr­ar heilsu­vernd­ar í þágu kom­andi kyn­slóða.

Eng­in spurn­ing sé um að aft­ur verði vegið að heil­brigði manna um víða ver­öld, hitt sé óljóst hvernig það ger­ist. Þess vegna sé nauðsyn­legt að þjóðir heims séu bet­ur í stakk bún­ar til að sjá fyr­ir, hindra, finna, meta og bregðast á þaul­skipu­lagðan hátt við faröldr­um. Covid-19-far­ald­ur­inn sé öfl­ug og sárs­auka­full áminn­ing um að eng­inn sé ör­ugg­ur fyrr en all­ir séu ör­ugg­ir.

Hvatt er til þess að gerður verði nýr alþjóðasátt­máli sem snúi að viðbúnaði og viðbrögðum vegna heims­far­aldra. Ræt­ur hans séu í stofn­sátt­mála WHO með það meðal ann­ars að mark­miði að fyr­ir hendi sé viðvör­un­ar­kerfi, áætlan­ir um dreif­ingu rann­sókn­ar­gagna, bólu­efna, lyfja og skjól­bún­inga fyr­ir hjúkr­un­ar­fólk.

At­hygli vek­ur að hvorki banda­rísk­ir né kín­versk­ir ráðamenn eiga nöfn sín und­ir grein­inni. Veir­an vaknaði þó í Kína og hún hef­ur orðið flest­um að ald­ur­tila í Banda­ríkj­un­um. Stjórn­völd stórþjóðanna verða þó að leggja sitt af mörk­um sé raun­hæft að vænta alþjóðasamn­ings til varn­ar heims­faröldr­un­um en ekki er óeðli­legt að hvatn­ing­in um samn­ings­gerðina komi frá stjórn­end­um annarra landa.

Þarna er tæki­færi fyr­ir Norður­landaþjóðirn­ar að láta veru­lega að sér kveða. Al­mennt njóta heil­brigðis­kerfi þeirra virðing­ar á heims­mæli­kv­arða og í Covid-19-far­aldr­in­um hafa heil­brigðis­yf­ir­völd land­anna ekki öll beitt sömu aðferð. Þess vegna er unnt að kynna ár­ang­ur ólíkra leiða. Af Íslands hálfu mætti til dæm­is miðla gögn­um um ár­ang­ur landa­mæra­lok­ana. Hér hef­ur sótt­varna­yf­ir­völd­um gengið brös­ug­lega að fóta sig á ör­uggu landa­mæra­úr­ræði.

UK-Bakes-In-Record-Spring-Weather-1309934653-960x638Bretar nutu þess í vikunni að fá heimild til að setjast út í almenningsgarða og njóta sólar í hitabylgju.

 

Landa­mær­a­regl­ur og litakóði

Nú í dag ganga í gildi regl­ur um að við komu til lands­ins skuli farþegar sem fram­vísa bólu­setn­ing­ar­vott­orði eða vott­orði um fyrri sýk­ingu fara í eina sýna­töku. Ferðamenn frá skil­greind­um áhættu­svæðum skulu dvelja í sótt­kví eða ein­angr­un í sótt­varna­húsi milli fyrri og síðari sýna­töku. Krafa um sýna­töku hjá ein­stak­ling­um með bólu­setn­ing­ar­vott­orð eða vott­orð um fyrri sýk­ingu er sett vegna vís­bend­inga um að þess­ir ein­stak­ling­ar geti borið smit. Þeir þurfa ekki að sæta sótt­kví en skulu bíða niður­stöðu úr sýna­töku á dval­arstað.

Í nýju landa­mær­a­regl­un­um eru áhættu­svæði skil­greind með litakóða. Lönd eru dökkrauð eða grá sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Sótt­varna­stofn­un Evr­ópu.

Þegar litið er til þess­ara reglna vakn­ar spurn­ing um hvort ein­hverj­um þyki „glæp­sam­legt“ að setja þær. Á dög­un­um var rekið upp slíkt rama­kvein vegna áforma um aðild að sam­ræmd­um evr­ópsk­um landa­mær­a­regl­um 1. maí eða síðar á grund­velli „litakóða“.

Spurt var hvort við ætt­um síður að hleypa full­bólu­sett­um Breta til lands­ins en Þjóðverja, þótt Bret­ar stæðu utan Schengen-sam­starfs­ins. Þetta er ágæt spurn­ing, til þess ber þó að líta að mánu­dag­inn 29. mars var Bret­um bannað að ferðast til út­landa. Án „viðun­andi ástæðu“ til ut­an­lands­ferða eiga þeir á hættu að verða sektaðir um allt að 5.000 pund (880.000 ISK). Bannið gild­ir til 30. júní en verður ef til vill end­ur­skoðað svo að heim­ila megi ut­an­lands­ferðir eft­ir 17. maí.

Þjóðverj­ar búa ekki við ferðabann og streyma til dæm­is til Mall­orka um páska­helg­ina. Hér gild­ir ekki held­ur bann við ut­an­lands­ferðum án er­ind­is. Íslend­ing­ar mega til dæm­is ferðast til Teneri­fe um pásk­ana. Þeir urðu þó að af­lýsa skíðaferðum til Siglu­fjarðar eða Ak­ur­eyr­ar. Þúsund­um sam­an ganga svo Íslend­ing­ar og er­lend­ir ferðamenn að jarðeld­un­um í Geld­inga­döl­um.

 

Minni heima­höml­ur

Sama dag og bann­regl­an vegna ut­an­lands­ferða gekk í gildi í Bretlandi var smá­skref stigið þar til að létta á fram­kvæmd sótt­varna inn­an­lands. Nú mega allt að sex koma sam­an utan dyra í einka­görðum, borg­ar­görðum og á strönd­um. Þá mega menn ganga sam­an í fá­menn­um hóp­um og grilla utan dyra með öðrum ef svo ber und­ir. Útisund­laug­ar verða opnaðar, tenn­is­vell­ir og golf­vell­ir. Fólk er þó varað við að faðmast, hvatt til að virða tveggja metra regl­una utan dyra og forðast að hitt­ast inn­an dyra.

Öllum þess­um varúðarregl­um ber að fylgja í Bretlandi þótt bólu­setn­ing þar gangi bet­ur en ann­ars staðar í Evr­ópu. Meira en 30 millj­ón­ir manna hafa verið bólu­sett­ir í Bretlandi eða um 57% allra full­orðna.

Hér höfðu aðeins 20.734 ein­stak­ling­ar verið full­bólu­sett­ir 29. mars eða tæp 7%, hlut­falls­lega aðeins fleiri en í Dan­mörku þar sem um helg­ina var losað um höml­ur fyr­ir þá sem eru full­bólu­sett­ir. Dönsk heil­brigðis­yf­ir­völd af­námu tveggja metra fjar­lægðarregl­una í sam­skipt­um full­bólu­settra og heim­iluðu þeim að knúsa aðra væru þeir á heim­ili sínu. Lauk þar með ein­angr­un hjá mörg­um sem höfðu búið við hana í eitt ár.

Dansk­ir sér­fræðing­ar segja að það séu sára­litl­ar lík­ur á að smit ber­ist á milli tveggja full­bólu­settra ein­stak­linga. Hugs­an­lega geti menn þó borið smit í aðra þótt þeir séu bólu­sett­ir. Í al­manna­rými eins og til dæm­is versl­un­um verði full­bólu­sett­ir því að virða tveggja metra regl­una, þrátt fyr­ir eig­in vörn kunni þeir að geta borið smit í aðra, eng­inn viti þetta þó ná­kvæm­lega en all­ur sé var­inn góður. Þegar full­bólu­sett­um fjölgi verði regl­urn­ar um um­gengni í al­manna­rými lagaðar að nýj­um aðstæðum.

Nú í mars­mánuði fengu full­bólu­sett­ir Banda­ríkja­menn heim­ild til sam­skipta við aðra bólu­setta án þess að bera grímu eða virða fjar­lægðarmörk.

Í byrj­un dymb­il­vik­unn­ar boðaði Joe Biden Banda­ríkja­for­seti að frá og með 19. apríl ættu 90% Banda­ríkja­manna rétt til bólu­setn­ing­ar og bólu­setn­inga­stöð yrði í inn­an við 8 km fjar­lægð frá heim­ili hvers og eins. Þetta er metnaðarfullt mark­mið en fyr­ir 1. maí fá all­ir Banda­ríkja­menn þenn­an rétt.

Á sama tíma og bólu­setn­ing­ar í Bretlandi hafa minnkað sókn veirunn­ar þar í landi hef­ur hún sótt í sig veðrið í Banda­ríkj­un­um. Þar er þó dreift 33 millj­ón­um bólu­efna­skammta í þess­ari viku.

Bólu­efnið sem hef­ur verið notað hér til þessa og í Bretlandi og Banda­ríkj­un­um krefst þess að stungið sé tvisvar með nokk­urra vikna bili til að virkni efn­is­ins skili sér að fullu. Nýbirt­ar banda­rísk­ar niður­stöður sýna á hinn bóg­inn að fyrri stung­an minnk­ar hætt­una á smiti um 80% þegar tvær vik­ur eru liðnar frá henni.

Þótt hægt fari mjak­ast hér til réttr­ar átt­ar.