25.1.2019

Línur skýrast vegna ESB-þingkosninganna

Morgunblaðið 25. janúar 2019.

egar kosningabarátta Donalds Trumps var í molum í ágúst 2016 birtist Steve Bannon. Hann náði þráðum saman og bjó í haginn fyrir frambjóðandann sem náði kjöri í nóvember 2016.

Nú þegar tvö ár eru liðin frá því að Trump tók við forsetaembættinu er Bannon ekki lengur í náðinni í Hvíta húsinu. Ákafi baráttumaðurinn hefur snúið sér að evrópskum stjórnmálum. Hann vill láta að sér kveða í kosningum til ESB-þingsins í maí 2019.

Steve Bannon og belgíski fjármála-lögfræðingurinn Mischaël Modrikamen reka Hreyfinguna, stjórnmálaráðgjöf fyrir hægri flokka. Þeir hafa aðsetur í ríkmannlegri byggingu í úthverfi Brussel og vilja mynda öflugan hóp á ESB-þinginu sem tileinki sér markmið Hreyfingarinnar. Ætlun þeirra er að í nýja þingflokknum verði um þriðjungur 700+ manna á ESB-þinginu.

Þeir lofa samherjum að aðstoða þá við skoðanakannanir, mat á gögnum, nýtingu samfélagsmiðla og val á frambjóðendum. Bannon segir að hann kosti starfsemina að hluta úr eigin vasa en upplýsir ekki um aðra fjárhagslega bakhjarla. Í hans huga er Hreyfingin svar við stofnun George Soros sem kennd er við opið þjóðfélag. Bannon lýsir Soros sem „snjöllu illmenni“. Bannon vill þjóðernishyggju (e. nationalism) í stað hnattvæðingar (e. globalization). Raddir í þessa veru heyrast víða, einnig hér á landi.

EU-Parliament-Chamber-credit-European-ParliamentFlokkar þjóðernissinnaðra popúlista í Evrópu falla ekki allir fyrir Hreyfingunni. Tengsl hennar eru mest við Bandalagið, flokk Matteos Salvinis á Ítalíu.

Tilboð Hreyfingarinnar um ókeypis ráðgjöf brýtur í bága við lög í níu af löndunum 13 þar sem hún vill láta að sér kveða. Sterk rök hníga að því að Bannon skipti sér að flóknum evrópskum stjórnmálum til að draga athygli að sjálfum sér frekar en einstökum frambjóðendum til ESB-þingsins.

Bannon telur Busselmenn lykil-andstæðinga sína „í þeim [slái] hjarta globalismans“, takist sér að „reka flein í gegnum vampíruna [Brusselvaldið]“ hefjist upplausnin. Modrikamen segir markmiðið ekki að leggja ESB niður heldur breyta sambandinu með því að vinna sigur á elítunum.

Pútín ágreiningsefni

Matteo Salvini, vara-forsætisráðherra og innanríkisráðherra Ítalíu, reynir nú að mynda samstöðu með stjórnmálamönnum í ríkjum innan ESB sem gagnrýna stjórnarhætti innan sambandsins. Markmið hans er að mynda öflugan fjölþjóðlegan þingflokk í anda Bannons eftir ESB-þingkosningarnar í maí.

Í ársbyrjun fór Salvini til Varsjár og hitti meðal annarra Jaroslaw Kaczynski, leiðtoga pólska stjórnarflokksins. Boðaði Salvini að Ítalir og Pólverjar yrðu í forystu þeirra sem vildu „nýtt evrópskt vor“. Áherslan yrði lögð á hagvöxt, öryggi, fjölskylduna og kristnar rætur Evrópu, sagði hann.

Jaroslaw Kaczynski og flokkur hans deila ekki aðdáun Salvinis á Vladimir Pútin Rússlandsforseta. Í huga pólsku ráðamannanna hefur Rússlandsforseti ekki hreinsað sig og stjórn sína af ábyrgð á dauða þáverandi forseta Póllands, tvíburabróður Jaroslaws Kaczynskis, í flugslysi skammt frá Smólensk í Rússlandi árið 2010.  

Tortryggni pólskra yfirvalda í garð Rússa er „áþreifanleg“. Andrzej Duda, forseti Póllands, mæltist til þess á fundi með Donald Trump í Washington í september 2018 að Bandaríkjaher ætti stöð til varanlegrar dvalar í Póllandi og mundi hún heita Trump-virkið. Á tveggja ára forsetaafmæli Donalds Trumps er pólsku tilmælanna sérstaklega getið. Þau sýni að þrátt fyrir allt sé Bandaríkjaforseti ekki vinalaus í Evrópu.

Ágreiningur um afstöðuna til Pútíns er ekki eina deiluefnið í hópi gagnrýnna ESB-stjórnmálamanna. Þeir deila til dæmis einnig um útlendingamál. Salvini vill að kvótaregla gildi innan ESB. Ítalir geti sent útlendinga til annarra ESB-landa á grundvelli hlutfallsreglu. Þetta er eitur í beinum Austur-Evrópumanna.

Þá vill Salvini að Ítalir fái styrki úr sjóðum ESB í stað þess að greiða meira en þeir fá til baka. Þetta fellur ekki að skoðunum Pólverja sem notið hafa hæstu uppbyggingarstyrkja úr sjóðum ESB. Þeir bregðast einnig illa við þegar Þjóðverjar og Frakkar viðra hugmyndir um að setja pólitísk skilyrði fyrir veitingu slíkra styrkja.

Ítalir gegn Frökkum

Frakkar og Þjóðverjar minntu enn á sérstöðu sína og forystuhlutverk innan ESB þriðjudaginn 22. janúar þegar Angela Merkel Þýskalandskanslari og Emmanuel Macron Frakklandsforseti „uppfærðu“ tvíhliða sáttargjörð forvera sinna Konrads Adenauers og Charles de Gaulles frá 22. janúar 1963.

Matteo Salvini neitar að viðurkenna „aflgjafa Þjóðverja og Frakka“ í ESB og segir að í hans stað komi nú „öxull Ítala og Pólverja“.

Frakkar kölluðu í vikunni ítalska sendiherrann í París á teppið vegna ummæla sem Luigi Di Maio, vara-forsætisráðherra Ítalíu og leiðtogi Fimmstjörnu-hreyfingarinnar, lét falla á stjórnmálafundi sunnudaginn 20. janúar um Frakka sem nýlenduþjóð í Afríku. Þeir hefðu verið helstu kúgarar Afríkumanna. Afleiðingar þess birtust nú í ólöglegum straumi fólks frá Afríku yfir Miðjarðarhaf. Vill Di Maio að ESB refsi Frökkum fyrir að „arðræna Afríku“.

Matteo Salvini vill ekki vera minni maður en Di Maio í þessu efni. Hann sagði þriðjudaginn 22. febrúar að Frakkar hefðu engan áhuga á stöðugleika í Líbíu, líklega vegna þess að olíuhagsmunir Frakka þar stöngðust á við hagsmuni Ítala. Frakkar hefðu ekki efni á að hneykslast á neinum í útlendingamálum, þeir hefðu hrakið tugi þúsunda farandfólks á brott frá frönsku landamærunum, út á guð og gaddinn eins og skepnur. „Ég þarf ekki neina leiðsögn um mannúð og mildi frá Macron,“ sagði Salvini.

Hörð valdabarátta

Innan ESB er Þjóðverjum lýst sem forystumönnum þjóðanna í norðri og Frökkum í suðri. Þegar ítalskir ráðamenn beina spjótum sínum sérstaklega að Emmanuel Macron Frakklandsforseta er um meira en málefnaágreining að ræða ­– þetta er valdabarátta innan suðurríkjahópsins og einnig gegn Macron á heimavelli. Salvini og félagar vilja búa í haginn fyrir Marine Le Pen, skoðanasystur sína og helsta andstæðing Macrons.

Þegar Emmanuel Macron flutti ræðu í steypiregni við Sigurbogann í París 11. nóvember 2018 á 100 ára afmæli vopnahlésins eftir fyrri heimsstyrjöldina sagði hann þjóðernishyggju andstæðu föðurlandsástar.

Forsetinn gaf þá tóninn fyrir kosningabaráttuna til ESB-þingsins. Macron telur hana háða  milli „framfarasinna“ og „þjóðernissinna“. Hann ætlar að leiða fyrri hópinn. Í anda Bannons er sótt hart að Macron frá Ítalíu. Á heimavelli stendur hann illa. Þar hafa gulvestungar efnt til mótmæla 10 helgar í röð.

Norðurarmur ESB veikist við að Bretar hverfa úr sambandinu. Úrsagnarraunir Breta hafa örugglega orðið til þess að ESB-efasemdarmenn boða ekki úrsögn heldur breytingar á æðstu stjórn, meira sjálfstæði aðildarríkja og aukna hörku í útlendingamálum.

Baráttan um völdin innan ESB snýst um tilfinningar, að embættismenn án lýðræðislegs umboðs ráðskist um of með hag almennings. Hann fái ekki rönd við reist nema hann kjósi gegn elítunni.