Lífsgæðaþjónusta verði efld
Morgunblaðið, laugardagur 14. maí 2022.
Átakalítilli kosningabaráttu lýkur í dag. Ekki er nýtt að þetta sé sagt í tilefni af sveitarstjórnarkosningum. Þær eru innhverfar, tekist er á um menn og málefni sem snúa að kjósendum á ákveðnum svæðum. Baráttumálin eiga ekki beint erindi til annarra. Af úrslitunum eru hins vegar gjarnan dregnar landspólitískar ályktanir.
Stjórnmálaflokkarnir hafa siglt undir hálfum seglum undanfarin misseri vegna heimsfaraldursins. Fjölmenn mannamót hafa verið bönnuð. Engir fjölmennir landsfundir til að bera saman bækur og losa um spennu. Lofta verður út reglulega, gera upp við það sem er liðið og setja stefnuna í samhengi við breyttar aðstæður heima og erlendis.
Áður en heimsfaraldurinn hófst í Kína í lok árs 2019 töluðu menn um alþjóðavæðinguna eins og eitthvað sem unnt væri að skjóta sér undan, velja og hafna. Þjóðir hefðu eitthvert val í því efni. Faraldurinn leiddi í ljós að það er ekkert val, engin undankomuleið. Veiran frá Wuhan tók á sig margar myndir og stakk sér niður um heim allan.
Þórólfur Guðnason, fráfarandi sóttvarnalæknir, taldi í byrjun vikunnar að hér gætum við hrósað happi yfir stöðu faraldursins. Skapast hefði gott hjarðónæmi í landinu. „Við höfum ekki verið með neinar takmarkanir núna frá því í lok febrúar þannig við getum bara hrósað happi yfir þessari stöðu,“ sagði Þórólfur við Vísi.
Stjórnvöldum má hrósa fyrir hvernig þau stóðu að málum frá febrúar 2020 til febrúar 2022. Vissulega mátti ýmislegt stundum betur fara en á heildina litið tókst vel að stýra þjóðarskútunni á þessum „fordæmalausu tímum“.
Sannaðist enn að dýrmætasta samfélagslega viðfangsefnið er sama og áður, að treysta grunninn í þágu góðrar og öflugrar heilbrigðisþjónustu. Það verður ekki gert nema með mun markvissari samvinnu einka- og opinberra aðila. Pólitísk andstaða við einkaframtak í heilbrigðismálum er dýrkeypt í öllu tilliti.
Þarna kemur einnig til sögunnar samvinna ríkis og sveitarfélaga, tengslin milli velferðarþjónustu sveitarfélaga og heilbrigðiskerfis ríkisins. Þessi samskipti eru ekki átakalaus. Að nokkru er þar um óskiljanlega kerfisflækju að ræða. Ágreiningur um lífsgæði í krafti góðrar heilbrigðisþjónustu birtist ekki í kosningabaráttunni.
Sveitarfélög sinna velferð og lífsgæðum á margvíslegan hátt. Heilbrigðistengt forvarnastarf ber þó ekki hátt í stefnuyfirlýsingum. Boðuð er aðstoð eftir að heilsa og kraftar dvína. Þetta er ekki algilt.
Lífsgæðasetið í Hafnarfirði (mynd: Hafnarfjordur.is).
Hafnarfjarðarkaupstaður keypti til dæmis hús St. Jósefsspítala í bænum árið 2017 eftir að það hafði staðið autt og í niðurníðslu frá 2011 þegar spítalanum var lokað fyrir fullt og allt eftir 85 ára starfsemi. Í kaupsamningi við ríkið skuldbatt kaupstaðurinn sig til að reka almannaþjónustu í fasteigninni.
Við þá skuldbindingu hefur verið staðið af miklum myndarbrag undir forystu Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra.
Í húsinu starfar nú Lífsgæðasetur St. Jó. sem var formlega opnað í september 2019 og voru 15 einkaaðilar með starfsemi í fyrsta áfanga þess, nú eru þeir á þriðja tug.
Mörg hundruð manns heimsóttu gæðasetrið fyrsta sumardag 2022 og fögnuðu að glæsilegri, sögufrægri byggingu Guðjóns Samúelssonar hefði verið bjargað í sem næst upprunalegri mynd. Hún iðar nú af lífi og blómlegri lífsgæðastarfsemi. Hóflegur kostnaður við endurbæturnar var að fullu í samræmi við kostnaðaráætlanir að sögn bæjarstjóra.
Meðal þeirra einkaaðila sem starfa í Lífsgæðasetri St. Jó. er Janus heilsuefling – Leið að farsælum efri árum. Stofnandinn dr. Janus Guðlaugsson hefur undanfarin ár átt samvinnu við sveitarfélög um að efla lífsgæði, heilsu og velferð eldri aldurshópa og stuðla að lengri sjálfstæðri búsetu og létta þannig undir með dvalar- og hjúkrunarheimilum.
Rannsóknir sýna að með hvers kyns heilsutengdum forvörnum má draga úr útgjöldum ríkis og sveitarfélaga og létta jafnframt undir með heilbrigðiskerfinu. Þarna skiptir forgangsröðun höfuðmáli.
Í júní 2019, fyrir heimsfaraldurinn, samþykkti alþingi ályktun um heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Þar segir í upphafi að framtíðarsýnin sé að heilbrigðisþjónustan „verði á heimsmælikvarða og lýðheilsustarf með áherslu á heilsueflingu og forvarnir verði hluti af allri þjónustu, sérstaklega þjónustu heilsugæslunnar“. Heilsugæslustöðvar þjóna einkum íbúum viðkomandi sveitarfélags eða hverfis. Heilbrigðisstefnan er þannig reist á nánu samstarfi ríkis og sveitarfélaga.
Miklu fé var varið til margvíslegra forvarna í faraldrinum. Má nefna að heildarkostnaður ríkisins vegna sýnatöku vegna COVID-19 frá því að faraldurinn hófst og fram í miðjan mars 2022 var rúmir ellefu milljarðar þ.e. 11.402.028.951 kr. Bólusetningin gegn veirunni kostaði ríkissjóð milljarða. Áhugi á sýnatökum og bólusetningum hér sýndi að öllum þorra fólks var annt um að nýta sér forvörnina enda sneri hún ekki aðeins að eigin heilsu heldur einnig varðstöðu um grunnstoðir heilbrigðiskerfisins.
Með lýðheilsustarfi og lífsgæðaþjónustu fyrir brot af forvarnarfénu vegna heimsfaraldursins mætti létta gífurlega á heilbrigðiskerfinu.
Í ljósi nýlegrar reynslu og vitneskju um ótvírætt gildi forvarna er magnað að áhersla á þann þátt í starfi sveitarfélaga hafi ekki sett meiri svip á umræður í aðdraganda kjördagsins í dag.
Velferðarkerfi sveitarfélaganna tæki stakkaskiptum ef áherslan væri ekki öll á afleiðingar heldur tæki einnig mið lífsgæðaþjónustu á borð við þá sem veitt er í St. Jó. í Hafnarfirði.