Leynd yfir skólastarfi
Morgunblaðið, laugardagur 27. júlí 2024.
Árið 2022 var ákveðið að afnema tímabundið lögbundna skyldu til að leggja fyrir samræmd könnunarpróf í grunnskólum. Hafin var vinna við þróun og innleiðingu á nýju námsmati í samræmi við tillögur í skýrslu starfshóps sem var skipaður árið 2018.
Í skýrslu hópsins sem kynnt var Lilju Dögg Alfreðsdóttur ráðherra árið 2020 voru lagðar til verulegar breytingar, meðal annars um að samræmd próf í núverandi mynd yrðu ekki þróuð frekar og að notkun þeirra yrði hætt. Í stað þeirra yrði til heildstætt safn matstækja í mörgum námsgreinum sem í grundvallaratriðum hefðu sama markmið og samræmd könnunarpróf. Þetta nýja tæki er kallað matsferill.
Smíði kerfisins hefur hins vegar tekið lengri tíma en ætlað var og án lagabreytingar yrði frá og með 1. janúar 2025 á ný skylt að leggja fyrir samræmd könnunarpróf. Hugsanlega verður ekki unnt að innleiða matsferilinn fyrr en árið 2026 eða jafnvel 2027.
Mennta- og barnamálaráðuneytið kynnti 5. júlí 2024 frumvarp í samráðsgátt stjórnvalda sem framlengir heimildina til að leggja ekki fyrir könnunarprófin. Jafnframt vill ráðuneytið lagaheimild til að innleiða matsferilinn.
Þá er óskað heimildar fyrir mennta- og barnamálaráðherra til að afla nauðsynlegra gagna um stöðu nemenda og skólakerfisins í heild. Er hugmyndin að ráðherra geti meðal annars gert það með ákvörðun um þátttöku í alþjóðlegum könnunum. Þarna er með öðrum orðum lagt í vald ráðherrans að ákveða til dæmis þátttöku í alþjóðlegri könnun eins og PISA sem stofnað er til af Efnahags- og framfarastofnuninni í París (OECD).
Ekki er ólíklegt að Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hafi talið frumvarpið tæknilegt mál sem hvorki vekti mikla eftirtekt né umræður, síst af öllu um hásumar. Ráðherrann og sérfræðingar hans virðast að minnsta kosti lítt búnir undir umræður um efni málsins og þann grunnþátt í skólastarfi sem snýr að leiðum til að sýna mælanlegan árangur.
Umræðurnar eru fagnaðarefni. Þar hafa Samtök iðnaðarins og Viðskiptaráð Íslands látið að sér kveða með markverðum umsögnum. Þær eru aðgengilegar í samráðsgátt stjórnvalda. Jafnframt hefur Morgunblaðið leitað umsagnar margra og birt fréttir og greinar um bága stöðu grunnskólans.
Allir sem hafa áhuga á skólamálum ættu að láta sig þetta mál varða. Í tveimur tillögum til breytinga á grunnskólalögunum er snert við lykilþætti í öllu skólastarfi: leiðinni að besta árangri nemenda.
Þegar alþjóðakannanir sýna hnignun í færni íslenskra nemenda er gjarnan sagt að fleira skipti máli í starfi skóla en að ná góðum árangri á prófum. – Það auki beinlínis vellíðan nemenda að þeim sé ekki íþyngt með prófum. Þar séu samræmd próf verri en önnur, svo ekki sé talað um birtingu upplýsinga sem gefi færi á samanburði milli skóla.
Nú ber hins vegar svo við, samkvæmt frétt sem birtist hér í blaðinu miðvikudaginn 24. júlí, að tilvísunum til Geðheilsumiðstöðvar barna hefur fjölgað um 160% frá árinu 2020. Staðan er sögð svipuð hjá öðrum stofnunum sem sinna börnum í vanda. Þá hefur álag á meðferðarúrræði Barna- og fjölskyldustofu aukist gífurlega.
„Í heildina endurspeglar þetta það að það virðist vera meiri vanlíðan og kannski ákveðinn óróleiki hjá börnum á Íslandi,“ sagði Linda Kristmundsdóttir, forstöðumaður Geðheilsumiðstöðvar barna, og að þar kæmi fleira til en það sem gerðist í kórónuveirufaraldrinum.
Meginhlutverk mennta- og barnamálaráðuneytisins er að tryggja að menntun, aðbúnaður og réttindi barna á Íslandi séu ávallt í fyrirrúmi. Starfssvið þess snýr því bæði að menntun og vellíðan barna. Á báðum sviðum hafa mál þróast á verri veg.
Björg Pétursdóttir, fyrrv. skrifstofustjóri í mennta- og barnamálaráðuneytinu, er meðal þeirra sem veita umsögn um ákvæðin í grunnskólafrumvarpinu sem verður opið í samráðsgáttinni til 6. ágúst.
Björg veltir fyrir sér hvort nýja kerfið – matsferill – verði áreiðanlegt, óhlutdrægt, heiðarlegt og sanngjarnt eins og krafist sé í aðalnámskrá. Til að námsmat sé heiðarlegt verði það að vera sambærilegt þannig að nemendur viti hvar þeir standi með hliðsjón af heildinni, ekki síst nemendur sem vanti hvatningu til að gera betur.
Margt er enn óljóst varðandi nýja kerfið en svo virðist sem það sé eitt af markmiðum höfunda þess að útiloka vitneskju um hvar einstaklingar í skólum eða heilir skólar standi með hliðsjón af heildinni.
Miðstöð menntunar og skólaþjónustu gegnir lykilhlutverki við mótun nýja matsferilsins. Þórdís Jóna Sigurðardóttir, forstjóri hennar, lagðist gegn miðlun og birtingu gagna um stöðu einstakra skóla vegna PISA-könnunarinnar og sagði í Morgunblaðinu að það væri „ekki góðs viti að fara að búa til einhvers konar samkeppni milli skóla“.
Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, er andvígur því að horft sé til árangurs í skólum „út frá afmörkuðu sjónarhorni og þá helst í formi einhvers konar keppni“. Miðlun upplýsinga um stöðu og árangur í skólastarfi er forsenda vitneskju um ástand skólakerfisins.
Stjórnmálamanna er að ákveða hve miklum upplýsingum skuli miðlað um árangur í skólastarfi. Tæknin leyfir mælaborð skólastarfs, gögnum er haldið leyndum.
Ferlið frá 2018 einkennist af töfum, óvissu og leynd. Taka verður pólitískar ákvarðanir um markmið áður en yfir lýkur. Nú er ljóst að lokaskrefið dregst fram yfir þingkosningar á árinu 2025. Þær verða að snúast um menntamál og hlut þingmanna við að móta grunnskólanum metnaðarfulla, opna umgjörð.