27.7.2024

Leynd yfir skólastarfi

Morgunblaðið, laugardagur 27. júlí 2024.

Árið 2022 var ákveðið að af­nema tíma­bundið lög­bundna skyldu til að leggja fyr­ir sam­ræmd könn­un­ar­próf í grunn­skól­um. Haf­in var vinna við þróun og inn­leiðingu á nýju náms­mati í sam­ræmi við til­lög­ur í skýrslu starfs­hóps sem var skipaður árið 2018.

Í skýrslu hóps­ins sem kynnt var Lilju Dögg Al­freðsdótt­ur ráðherra árið 2020 voru lagðar til veru­leg­ar breyt­ing­ar, meðal ann­ars um að sam­ræmd próf í nú­ver­andi mynd yrðu ekki þróuð frek­ar og að notk­un þeirra yrði hætt. Í stað þeirra yrði til heild­stætt safn mats­tækja í mörg­um náms­grein­um sem í grund­vall­ar­atriðum hefðu sama mark­mið og sam­ræmd könn­un­ar­próf. Þetta nýja tæki er kallað mats­fer­ill.

Smíði kerf­is­ins hef­ur hins veg­ar tekið lengri tíma en ætlað var og án laga­breyt­ing­ar yrði frá og með 1. janú­ar 2025 á ný skylt að leggja fyr­ir sam­ræmd könn­un­ar­próf. Hugs­an­lega verður ekki unnt að inn­leiða mats­fer­il­inn fyrr en árið 2026 eða jafn­vel 2027.

Mennta- og barna­málaráðuneytið kynnti 5. júlí 2024 frum­varp í sam­ráðsgátt stjórn­valda sem fram­leng­ir heim­ild­ina til að leggja ekki fyr­ir könn­un­ar­próf­in. Jafn­framt vill ráðuneytið laga­heim­ild til að inn­leiða mats­fer­il­inn.

Þá er óskað heim­ild­ar fyr­ir mennta- og barna­málaráðherra til að afla nauðsyn­legra gagna um stöðu nem­enda og skóla­kerf­is­ins í heild. Er hug­mynd­in að ráðherra geti meðal ann­ars gert það með ákvörðun um þátt­töku í alþjóðleg­um könn­un­um. Þarna er með öðrum orðum lagt í vald ráðherr­ans að ákveða til dæm­is þátt­töku í alþjóðlegri könn­un eins og PISA sem stofnað er til af Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­inni í Par­ís (OECD).

Ekki er ólík­legt að Ásmund­ur Ein­ar Daðason, mennta- og barna­málaráðherra, hafi talið frum­varpið tækni­legt mál sem hvorki vekti mikla eft­ir­tekt né umræður, síst af öllu um há­sum­ar. Ráðherr­ann og sér­fræðing­ar hans virðast að minnsta kosti lítt bún­ir und­ir umræður um efni máls­ins og þann grunnþátt í skóla­starfi sem snýr að leiðum til að sýna mæl­an­leg­an ár­ang­ur.

Umræðurn­ar eru fagnaðarefni. Þar hafa Sam­tök iðnaðar­ins og Viðskiptaráð Íslands látið að sér kveða með markverðum um­sögn­um. Þær eru aðgengi­leg­ar í sam­ráðsgátt stjórn­valda. Jafn­framt hef­ur Morg­un­blaðið leitað um­sagn­ar margra og birt frétt­ir og grein­ar um bága stöðu grunn­skól­ans.

All­ir sem hafa áhuga á skóla­mál­um ættu að láta sig þetta mál varða. Í tveim­ur til­lög­um til breyt­inga á grunn­skóla­lög­un­um er snert við lyk­ilþætti í öllu skóla­starfi: leiðinni að besta ár­angri nem­enda.

1033762

Þegar alþjóðak­ann­an­ir sýna hnign­un í færni ís­lenskra nem­enda er gjarn­an sagt að fleira skipti máli í starfi skóla en að ná góðum ár­angri á próf­um. – Það auki bein­lín­is vellíðan nem­enda að þeim sé ekki íþyngt með próf­um. Þar séu sam­ræmd próf verri en önn­ur, svo ekki sé talað um birt­ingu upp­lýs­inga sem gefi færi á sam­an­b­urði milli skóla.

Nú ber hins veg­ar svo við, sam­kvæmt frétt sem birt­ist hér í blaðinu miðviku­dag­inn 24. júlí, að til­vís­un­um til Geðheilsumiðstöðvar barna hef­ur fjölgað um 160% frá ár­inu 2020. Staðan er sögð svipuð hjá öðrum stofn­un­um sem sinna börn­um í vanda. Þá hef­ur álag á meðferðarúr­ræði Barna- og fjöl­skyldu­stofu auk­ist gíf­ur­lega.

„Í heild­ina end­ur­spegl­ar þetta það að það virðist vera meiri van­líðan og kannski ákveðinn óró­leiki hjá börn­um á Íslandi,“ sagði Linda Krist­munds­dótt­ir, for­stöðumaður Geðheilsumiðstöðvar barna, og að þar kæmi fleira til en það sem gerðist í kór­ónu­veirufar­aldr­in­um.

Meg­in­hlut­verk mennta- og barna­málaráðuneyt­is­ins er að tryggja að mennt­un, aðbúnaður og rétt­indi barna á Íslandi séu ávallt í fyr­ir­rúmi. Starfs­svið þess snýr því bæði að mennt­un og vellíðan barna. Á báðum sviðum hafa mál þró­ast á verri veg.

Björg Pét­urs­dótt­ir, fyrrv. skrif­stofu­stjóri í mennta- og barna­málaráðuneyt­inu, er meðal þeirra sem veita um­sögn um ákvæðin í grunn­skóla­frum­varp­inu sem verður opið í sam­ráðsgátt­inni til 6. ág­úst.

Björg velt­ir fyr­ir sér hvort nýja kerfið – mats­fer­ill – verði áreiðan­legt, óhlut­drægt, heiðarlegt og sann­gjarnt eins og kraf­ist sé í aðal­nám­skrá. Til að náms­mat sé heiðarlegt verði það að vera sam­bæri­legt þannig að nem­end­ur viti hvar þeir standi með hliðsjón af heild­inni, ekki síst nem­end­ur sem vanti hvatn­ingu til að gera bet­ur.

Margt er enn óljóst varðandi nýja kerfið en svo virðist sem það sé eitt af mark­miðum höf­unda þess að úti­loka vitn­eskju um hvar ein­stak­ling­ar í skól­um eða heil­ir skól­ar standi með hliðsjón af heild­inni.

Miðstöð mennt­un­ar og skólaþjón­ustu gegn­ir lyk­il­hlut­verki við mót­un nýja mats­fer­ils­ins. Þór­dís Jóna Sig­urðardótt­ir, for­stjóri henn­ar, lagðist gegn miðlun og birt­ingu gagna um stöðu ein­stakra skóla vegna PISA-könn­un­ar­inn­ar og sagði í Morg­un­blaðinu að það væri „ekki góðs viti að fara að búa til ein­hvers kon­ar sam­keppni milli skóla“.

Magnús Þór Jóns­son, formaður Kenn­ara­sam­bands Íslands, er and­víg­ur því að horft sé til ár­ang­urs í skól­um „út frá af­mörkuðu sjón­ar­horni og þá helst í formi ein­hvers kon­ar keppni“. Miðlun upp­lýs­inga um stöðu og ár­ang­ur í skóla­starfi er for­senda vitn­eskju um ástand skóla­kerf­is­ins.

Stjórn­mála­manna er að ákveða hve mikl­um upp­lýs­ing­um skuli miðlað um ár­ang­ur í skóla­starfi. Tækn­in leyf­ir mæla­borð skóla­starfs, gögn­um er haldið leynd­um.

Ferlið frá 2018 ein­kenn­ist af töf­um, óvissu og leynd. Taka verður póli­tísk­ar ákv­arðanir um mark­mið áður en yfir lýk­ur. Nú er ljóst að loka­skrefið dregst fram yfir þing­kosn­ing­ar á ár­inu 2025. Þær verða að snú­ast um mennta­mál og hlut þing­manna við að móta grunn­skól­an­um metnaðarfulla, opna um­gjörð.