5.11.2021

Leitin eilífa að valdinu

Bækur - Sjórnmálafræði, Morgunblaðið, föstudagur, 5. nóvember

 

Elítur og valdakerfi á Íslandi

Eft­ir Gunn­ar Helga Krist­ins­son. Há­skóla­út­gáf­an, Reykja­vík 2021. Kilja, 182 bls.

Hér er um að ræða fræðirit um valda­kerfi og þróun þeirra með elítu­kenn­ing­ar að leiðarljósi. Í inn­gangi seg­ir höf­und­ur­inn, Gunn­ar Helgi Krist­ins­son, pró­fess­or í stjórn­mála­fræði við Há­skóla Íslands:

„Viðfangs­efni þessa rits er ann­ars veg­ar að kort­leggja meg­in­út­lín­ur ís­lenska valda­kerf­is­ins og hins veg­ar að leita skýr­inga á því hvað hef­ur ráðið þróun þess frá ein­um tíma til ann­ars. Mark­miðið er að leita að meg­in­ein­kenn­um og lík­leg­um skýr­ing­um frek­ar en að prófa skýrt formaðar kenn­ing­ar. Það helg­ast af því að hvorki gögn­in né staða rann­sókna á sviðinu leyfa form­legri nálg­un. Verk­efnið af­mark­ast við tíma­bilið frá lok­um nítj­ándu ald­ar til dags­ins í dag.“ (16)

Eins og þessi hóg­væra lýs­ing á verk­inu gef­ur til kynna ber að líta á það sem vörðu á ferð sem ekki er lokið, enn hef­ur ekki verið full­rann­sakað hvar valdið ligg­ur í ís­lensku sam­fé­lagi. Bók­in snýst um eitt helsta viðfangs­efni stjórn­mála­fræðimanna, leit­ina að vald­inu.

Inn­gang­ur­inn ber heitið: Elít­ur og sam­fé­lag og síðan koma kafl­arn­ir: Íslensk­ar elítu­rann­sókn­ir; Stjórn­kerfiselít­ur; Efna­hag­selít­ur; Menntaelít­ur og loks: Niður­stöður og umræða. Meg­in­text­an­um fylg­ir heim­ilda­skrá en ekki nafna­skrá. Efn­is­yf­ir­lit hefði mátt vera ít­ar­lega til að auðvelda skoðun á ein­stök­um efn­isþátt­um.

Upp­hafs­setn­ing­ar bók­ar­inn­ar eru: „Á öld po­púl­ism­ans eru elít­ur hinn nýi óvin­ur alþýðunn­ar. Elít­um er lýst sem þröng­um hóp­um fólks sem í póli­tísk­um skúma­skot­um brugg­ar al­menn­ingi laun­ráð. Elítu­væðing og spill­ing eru lagðar að jöfnu en fórn­ar­lambið er hinn hrein­lyndi og óspillti al­menn­ing­ur.“ (9)

Í nú­tíma­málsorðabók Árna­stofn­un­ar seg­ir um orðið elítu „hóp­ur sem nýt­ur for­rétt­inda í krafti hæfi­leika sinna, valda eða auðs“.

Það er í takt við tíðarand­ann að snúa gam­al­grón­um skýr­ing­um á haus og gera lítið úr mönn­um með því að segja þá til­heyra hinni eða þess­ari elít­unni. Eng­ir skuli halda að þeir séu meiri eða betri en aðrir þótt þeir telj­ist til elítu.

Við lest­ur bók­ar Gunn­ars Helga blas­ir þó við að elít­ur eru drif­kraft­ur hver á sínu sviði. Ein­mitt þess vegna er verðugt rann­sókn­ar­efni að skoða þessa hópa. Það er hluti elítu­keppni að tala niður til annarra eða lýsa áhrif­um þeirra og ítök­um sem óeðli­leg­um. Í því felst raun­ar elít­ismi að mynda valdapól í and­stöðu við viðtekn­ar elít­ur.

Fræðilegi þátt­ur bók­ar­inn­ar bregður ljósi á kenn­ing­ar og rann­sókn­ir. Hann er almennum les­end­um að nokkru fram­andi en þegar höf­und­ur tek­ur til við að kryfja ís­lenskt sam­fé­lag ættu flest­ir að standa ná­lægt viðfangs­efn­inu og hafa á því skoðun.

Rann­sókn­araðferðir fræðimanns­ins leiða meðal ann­ars til sam­tala við ónafn­greinda ein­stak­linga úr elít­um. Text­inn ber með sér að vera end­ur­birt­ur hrár. Bet­ur hefði farið á að vinna text­ann án þess að hrófla við skoðun viðmæl­and­ans.

GQ91725HJHöf­und­ur still­ir „fyr­ir­greiðslupóli­tík“ og „fagþróun“ upp sem and­stæðum. Með því fyrra er vísað til beinna af­skipta stjórn­mála­manna og hið síðara vís­ar til þess að svo­nefnd fag­mennska nái und­ir­tök­un­um.

Þróun í þessa átt verður vegna áhrifa og ákv­arðana stjórn­mála­manna. Breyt­ing­ar urðu mikl­ar hér á tí­unda ára­tugn­um eft­ir að Davíð Odds­son varð for­sæt­is­ráðherra: aðild­in að EES 1. janú­ar 1994, gild­istaka stjórn­sýslu­laga 1. janú­ar 1994 og upp­lýs­ingalaga árið 1996. Þarna urðu þátta­skil í stjórn­ar­hátt­um. Aðhald al­menn­ings að stjórn­kerf­inu jókst. Kröf­ur til elíta gjör­breytt­ust.

Efnis­tök í bók­inni taka veru­legt mið af göml­um tíma. Grund­vall­ar­breyt­ing varð til dæm­is á há­skóla­starf­semi á tí­unda ára­tugn­um þegar „ein­ok­un“ Há­skóla Íslands (HÍ) var af­num­in. Höf­und­ur ger­ir há­skóla­bylt­ing­unni í raun eng­in skil. Hefði verið fróðlegt að sjá grein­ingu hans á viðbrögðum elít­unn­ar inn­an HÍ við henni.

Í niður­stöðukafla bók­ar­inn­ar seg­ir höf­und­ur að á 21. öld­inni hafi stjórn­málaelít­an glatað ítök­um og tengsl henn­ar við elít­ur viðskipta­lífs og hags­muna­sam­taka séu veik­ari en áður. Þá hafi stjórn­málaelít­an misst ítök í fjöl­miðlum og hún gegni „mjög litlu hlut­verki“ í fræða- og lista­heim­in­um. Mik­il­væg­ustu tengsl ís­lenskra elíta séu nú „fag­leg“. Hér ríki „margræði fag­mennsk­unn­ar“ þó njóti sjáv­ar­út­veg­ur­inn enn „sterkr­ar áhrifa­stöðu og elít­ur viðskipta­lífs­ins keppa um yf­ir­ráð í fjöl­miðlum“. (166)

Miðað við fyrri ítök sjáv­ar­út­vegs í ís­lensku sam­fé­lagi gef­ur alranga mynd að láta eins og út­gerðar­menn deili nú hér og drottni. Þeir kjósa ör­ugg­lega ekk­ert frek­ar en að starfa með margræði fag­mennsk­unn­ar að leiðarljósi í nú­tíma­legu, op­in­beru kerfi fisk­veiðistjórn­un­ar.

Á að flokka bar­átt­una gegn kvóta­kerf­inu eða fyr­ir „nýju stjórn­ar­skránni“ sem po­púl­isma gegn elít­um? Eða eru þetta inn­byrðis elítu-átök? Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn skap­ar sér sér­stöðu með breiðum og fjöl­menn­um próf­kjör­um. Ráða þar elít­ur í stað al­mennra kjós­enda í öðrum flokk­um?

Bók­in vek­ur spurn­ing­ar af þessu tagi og einnig hvort kraf­an um „fag­mennsku“ leiði til tæknikrat­isma. Stjórn­ar­hátta sem fest hafa ræt­ur í stjórn­kerfi Evr­ópu­sam­bands­ins og valda sí­fellt meiri spennu inn­an þess.

Rann­sókn­ir að baki bók­inni Elít­ur og valda­kerfi á Íslandi snú­ast eðli máls­ins sam­kvæmt um liðinn tíma. Valdið kann að leyn­ast ann­ars staðar nú en þá. Leit stjórn­mála­fræðinga að vald­inu er ei­líf.