Leitin að Grími Thomsen
Umsögn, Morgunblaðið 13. febrúar 2023.
Ritgerðasafn Feiknstafir ★★★★· Ritstjórar Sveinn Yngvi Egilsson og Þórir Óskarsson. Hið íslenska bókmenntafélag, 2022. Innb. 412 bls.
Heiti bókarinnar Feiknstafir – Ráðgátan Grímur Thomsen gefur til kynna að leiða eigi lesandann í sannleika um söguhetjuna, Grím Thomsen (1820–1896). Aftan á bókarkápu er spurt: „En hver var hann, þessi maður sem mörgum hefur reynst ráðgáta?... Hvað leynist á bak við feiknstafina sem einkenna svipmót hans og skrif?“
Bókarheitið er sótt í kvæði Gríms um Goðmund á Glæsivöllum, feiknstafir eru eins konar ógnarrúnir eða galdratákn, segir í formála. Lesandinn er leiddur inn í völundarhús þar sem hópur hugvísindafólks undir forystu ritstjóranna Sveins Yngva Egilssonar, prófessors við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, og Þóris Óskarssonar bókmenntafræðings leiðir hann að Grími Thomsen, sviptum grímunni – eða hvað?
Fyrir utan ritstjórana tvo og Guðna Th. Jóhannesson forseta Íslands sem fylgir bókinni úr hlaði eiga þessir fræðimenn efni í bókinni: Ármann Jakobsson skrifar um Grím og Fornmannasögur; Erla Hulda Halldórsdóttir um Jakobínu Jónsdóttur Thomsen, eiginkonu Gríms; Guðmundur Hálfdanarson um Grím og þjóðernið; Gunnar Ágúst Harðarson um hugsunarhátt Gríms; Gylfi Gunnlaugsson um æskuskrif Gríms; Helgi Skúli Kjartansson um Grím og Pétur Gaut; Hjalti Snær Ægisson um tragedíuþýðingar Gríms; Kristján Jóhann Jónsson um ljóðagerð Gríms; Margrét Eggertsdóttir um sálma og kvæði Hallgríms Péturssonar í útgáfu Gríms; Már Jónsson um eyðsluklóna Grím og meðvirkni foreldra; Svavar Hrafn Svavarsson um Grím og aristótelíska hughyggju.
Ritstjórarnir eiga einnig greinar í bókinni. Sveinn Yngvi Egilsson skrifar um dramatískar einræður í kvæðum Gríms og Þórir Óskarsson ritar annars vegar yfirlitsgrein um ævi Gríms og störf og hins vegar um fyrsta íslenska bókmenntafræðinginn.
Grímur fæddist á Bessastöðum á Álftanesi, stúdent úr heimaskóla hjá Árna biskupi Helgasyni 1837. Hóf nám í lögfræði við Hafnarháskóla, en lagði brátt stund á heimspeki og bókmenntir, varð mag. art. 1845, en sú nafnbót hækkuð í dr. phil. með konungsúrskurði 1854. Hlaut 1846 konungsstyrk til kynnisfarar um Evrópu og stóð sú ferð í tvö ár.
Hann var í þjónustu utanríkismálaráðuneytisins danska 1848–1866, síðast skrifstofustjóri. Var meðal annars um skeið aðstoðarmaður sendiherra Dana í Brussel og Lundúnum. Bóndi á Bessastöðum á Álftanesi frá 1868 til æviloka.
Alþingismaður Rangæinga 1869–1874, alþingismaður Gullbringu- og Kjósarsýslu 1874–1880, alþingismaður Borgfirðinga 1880–1892.
Þorgrímur Tómasson, faðir Gríms, var iðnaðarmaður, gullsmiður og ráðsmaður á Bessastöðum. Kristján Jóhann Jónsson segir að stöðu Þorgríms hafi fylgt „ávinningur í dönsku samfélagi“ enda hafi stéttarstaða iðnaðarmanna verið nokkuð sterk. Þeir töldust til borgarastéttar „og þar voru gullsmiðir settir efst handverksmanna“. Stéttarstaða Gríms hafi lengst af vafist fyrir Íslendingum. Staða hans í Danmörku hafi verið hliðstæð við fræga menn í Kaupmannahöfn, til dæmis skósmiðssoninn H. C. Andersen eða Søren Kierkegaard, son ullarkaupmanns, sokkasala.
Grímur tengdist dönsku stéttarsamfélagi á allt annan hátt en íslenskir bændasynir, þótt þeir væru synir presta eða sýslumanna.
„Frásagnir af glæstum klæðaburði, fjármálum og kvenhylli Gríms Thomsen benda ef til vill til þess að frekar eitruð blanda af öfund og aðdáun hafi frá upphafi ráðið miklu um þær sagnir sem af honum eru. Þær hafa lengst af talist heilagur sannleikur og orðið hluti af ævisögu hans,“ segir Kristján Jóhann (224-225).
Þórir Óskarsson segir að Grímur hafi svo sjaldan flíkað persónulegum högum sínum og tilfinningum að Jakobínu sem hann kvæntist árið 1870 „þótti stundum nóg um“ (20). Þá reyndi hann iðulega að „má út eigin spor hvort heldur í einkalífi, opinberum störfum eða skrifum“. Engar dag- eða minnisbækur hans hafa varðveist, hann innkallaði og eyðilagði eigin sendibréf til annarra eða sá til þess að þeim yrði fargað, ekki síst ef þar var greint frá einkahögum hans eða viðkvæmum persónulegum málefnum (22).
Grímur aðhylltist skandínavismann um miðja 19. öldina í Kaupmannahöfn, samstarf sem nú er vitnað til þegar leitað er uppsprettu norrænnar samvinnu. Greinir Guðmundur Hálfdanarson frá þeim þætti í ritgerð sinni og að skoðanir Gríms í þessum efnum hafi mælst illa fyrir meðal Íslendinga í Kaupmannahöfn og „markað afstöðu manna til hans allar götur síðan“ (97). Hann var ekki samstiga Jóni Sigurðssyni.
Í upphafi ritgerðarinnar um eyðsluklóna Grím í Kaupmannahöfn segir Már Jónsson: „Þar lét hann fátt á móti sér og án þess nokkru sinni að skammast sín safnaði hann skuldum sem faðir hans varð að gjöra svo vel að borga. Móðirin sýndi gremju sína í bréfum en var ávallt tilbúin að fyrirgefa drengnum“ (269).
Eins og fram kemur hér að ofan snúast ritgerðirnar í bókinni að mestu um bókmenntaleg eða heimspekileg efni og eru sumar harðar undir tönn fyrir leikmann. Grímur lifði og hrærðist í menningarstraumum samtíma síns og virkjaði þá með sínum íslensku gáfum. Þá lagði hann sig fram um að kynna annarra þjóða mönnum íslenskar fornbókmenntir. Skáldskapur Gríms er brotinn til mergjar í bókinni. Einnig þar er hann fjarlægur og notar aðra sem einskonar grímur.
Bókin Feiknstafir er vönduð að allri gerð og frágangi, prentuð á þungan pappír, fjölmargar myndir njóta sín vel. Heimildaskrá fylgir hverri ritgerð og stuttur útdráttur á ensku. Þá er birt ritaskrá Gríms og skrá yfir myndir í bókinni en nafnaskrá vantar.
Grímur naut virðingar sem fræðimaður, komst til metorða sem embættismaður, lagði góðan skerf af mörkum sem skáld og var vel stæður Bessastaðabóndi samhliða þingmennsku. Bókin varpar skýrara ljósi á framlag hans sem fræðimanns og skálds en maðurinn Grímur Thomsen er áfram ráðgáta eins og hann sjálfur ákvað.