13.2.2023

Leitin að Grími Thomsen

Umsögn, Morgunblaðið 13. febrúar 2023.

Rit­gerðasafn Feiknstaf­ir ★★★★· Rit­stjór­ar Sveinn Yngvi Eg­ils­son og Þórir Óskars­son. Hið íslenska bók­mennta­fé­lag, 2022. Innb. 412 bls.

Heiti bók­ar­inn­ar Feiknstaf­ir – Ráðgát­an Grím­ur Thomsen gef­ur til kynna að leiða eigi les­and­ann í sann­leika um sögu­hetj­una, Grím Thomsen (1820–1896). Aft­an á bók­ar­kápu er spurt: „En hver var hann, þessi maður sem mörg­um hef­ur reynst ráðgáta?... Hvað leyn­ist á bak við feiknstaf­ina sem ein­kenna svip­mót hans og skrif?“

Bók­ar­heitið er sótt í kvæði Gríms um Goðmund á Glæsi­völl­um, feiknstaf­ir eru eins kon­ar ógn­ar­rún­ir eða galdra­tákn, seg­ir í for­mála. Les­and­inn er leidd­ur inn í völ­und­ar­hús þar sem hóp­ur hug­vís­inda­fólks und­ir for­ystu rit­stjór­anna Sveins Yngva Eg­ils­son­ar, pró­fess­ors við ís­lensku- og menn­ing­ar­deild Há­skóla Íslands, og Þóris Óskars­son­ar bók­mennta­fræðings leiðir hann að Grími Thomsen, svipt­um grím­unni – eða hvað?

Fyr­ir utan rit­stjór­ana tvo og Guðna Th. Jó­hann­es­son for­seta Íslands sem fylg­ir bók­inni úr hlaði eiga þess­ir fræðimenn efni í bók­inni: Ármann Jak­obs­son skrif­ar um Grím og Forn­manna­sög­ur; Erla Hulda Hall­dórs­dótt­ir um Jakobínu Jóns­dótt­ur Thomsen, eig­in­konu Gríms; Guðmund­ur Hálf­dan­ar­son um Grím og þjóðernið; Gunn­ar Ágúst Harðar­son um hugs­un­ar­hátt Gríms; Gylfi Gunn­laugs­son um æsku­skrif Gríms; Helgi Skúli Kjart­ans­son um Grím og Pét­ur Gaut; Hjalti Snær Ægis­son um tra­gedíuþýðing­ar Gríms; Kristján Jó­hann Jóns­son um ljóðagerð Gríms; Mar­grét Eggerts­dótt­ir um sálma og kvæði Hall­gríms Pét­urs­son­ar í út­gáfu Gríms; Már Jóns­son um eyðsluklóna Grím og meðvirkni for­eldra; Svavar Hrafn Svavars­son um Grím og arist­ótelíska hug­hyggju.

Rit­stjór­arn­ir eiga einnig grein­ar í bók­inni. Sveinn Yngvi Eg­ils­son skrif­ar um drama­tísk­ar ein­ræður í kvæðum Gríms og Þórir Óskars­son rit­ar ann­ars veg­ar yf­ir­lits­grein um ævi Gríms og störf og hins veg­ar um fyrsta ís­lenska bók­mennta­fræðing­inn.

527c5a6f-df04-4a4b-9a80-873321b2a5c1

Grím­ur fædd­ist á Bessa­stöðum á Álfta­nesi, stúd­ent úr heima­skóla hjá Árna bisk­upi Helga­syni 1837. Hóf nám í lög­fræði við Hafn­ar­há­skóla, en lagði brátt stund á heim­speki og bók­mennt­ir, varð mag. art. 1845, en sú nafn­bót hækkuð í dr. phil. með kon­ungs­úrsk­urði 1854. Hlaut 1846 kon­ungs­styrk til kynn­is­far­ar um Evr­ópu og stóð sú ferð í tvö ár.

Hann var í þjón­ustu ut­an­rík­is­málaráðuneyt­is­ins danska 1848–1866, síðast skrif­stofu­stjóri. Var meðal ann­ars um skeið aðstoðarmaður sendi­herra Dana í Brus­sel og Lund­ún­um. Bóndi á Bessa­stöðum á Álfta­nesi frá 1868 til æviloka.

Alþing­ismaður Ran­gæ­inga 1869–1874, alþing­ismaður Gull­bringu- og Kjós­ar­sýslu 1874–1880, alþing­ismaður Borg­f­irðinga 1880–1892.

Þorgrím­ur Tóm­as­son, faðir Gríms, var iðnaðarmaður, gullsmiður og ráðsmaður á Bessa­stöðum. Kristján Jó­hann Jóns­son seg­ir að stöðu Þorgríms hafi fylgt „ávinn­ing­ur í dönsku sam­fé­lagi“ enda hafi stétt­arstaða iðnaðarmanna verið nokkuð sterk. Þeir töld­ust til borg­ara­stétt­ar „og þar voru gullsmiðir sett­ir efst hand­verks­manna“. Stétt­arstaða Gríms hafi lengst af vaf­ist fyr­ir Íslend­ing­um. Staða hans í Dan­mörku hafi verið hliðstæð við fræga menn í Kaup­manna­höfn, til dæm­is skósmiðsson­inn H. C. And­er­sen eða Søren Kierkega­ard, son ull­ar­kaup­manns, sokka­sala.

Grím­ur tengd­ist dönsku stétt­ar­sam­fé­lagi á allt ann­an hátt en ís­lensk­ir bænda­syn­ir, þótt þeir væru syn­ir presta eða sýslu­manna.

„Frá­sagn­ir af glæst­um klæðaburði, fjár­mál­um og kven­hylli Gríms Thomsen benda ef til vill til þess að frek­ar eitruð blanda af öf­und og aðdáun hafi frá upp­hafi ráðið miklu um þær sagn­ir sem af hon­um eru. Þær hafa lengst af tal­ist heil­ag­ur sann­leik­ur og orðið hluti af ævi­sögu hans,“ seg­ir Kristján Jó­hann (224-225).

Þórir Óskars­son seg­ir að Grím­ur hafi svo sjald­an flíkað per­sónu­leg­um hög­um sín­um og til­finn­ing­um að Jakobínu sem hann kvænt­ist árið 1870 „þótti stund­um nóg um“ (20). Þá reyndi hann iðulega að „má út eig­in spor hvort held­ur í einka­lífi, op­in­ber­um störf­um eða skrif­um“. Eng­ar dag- eða minn­is­bæk­ur hans hafa varðveist, hann innkallaði og eyðilagði eig­in sendi­bréf til annarra eða sá til þess að þeim yrði fargað, ekki síst ef þar var greint frá einka­hög­um hans eða viðkvæm­um per­sónu­leg­um mál­efn­um (22).

Grím­ur aðhyllt­ist skandína­v­is­mann um miðja 19. öld­ina í Kaup­manna­höfn, sam­starf sem nú er vitnað til þegar leitað er upp­sprettu nor­rænn­ar sam­vinnu. Grein­ir Guðmund­ur Hálf­dan­ar­son frá þeim þætti í rit­gerð sinni og að skoðanir Gríms í þess­um efn­um hafi mælst illa fyr­ir meðal Íslend­inga í Kaup­manna­höfn og „markað af­stöðu manna til hans all­ar göt­ur síðan“ (97). Hann var ekki sam­stiga Jóni Sig­urðssyni.

Í upp­hafi rit­gerðar­inn­ar um eyðsluklóna Grím í Kaup­manna­höfn seg­ir Már Jóns­son: „Þar lét hann fátt á móti sér og án þess nokkru sinni að skamm­ast sín safnaði hann skuld­um sem faðir hans varð að gjöra svo vel að borga. Móðirin sýndi gremju sína í bréf­um en var ávallt til­bú­in að fyr­ir­gefa drengn­um“ (269).

Eins og fram kem­ur hér að ofan snú­ast rit­gerðirn­ar í bók­inni að mestu um bók­mennta­leg eða heim­speki­leg efni og eru sum­ar harðar und­ir tönn fyr­ir leik­mann. Grím­ur lifði og hrærðist í menn­ing­ar­straum­um sam­tíma síns og virkjaði þá með sín­um ís­lensku gáf­um. Þá lagði hann sig fram um að kynna annarra þjóða mönn­um ís­lensk­ar forn­bók­mennt­ir. Skáld­skap­ur Gríms er brot­inn til mergjar í bók­inni. Einnig þar er hann fjar­læg­ur og not­ar aðra sem einskon­ar grím­ur.

Bók­in Feiknstaf­ir er vönduð að allri gerð og frá­gangi, prentuð á þung­an papp­ír, fjöl­marg­ar mynd­ir njóta sín vel. Heim­ilda­skrá fylg­ir hverri rit­gerð og stutt­ur út­drátt­ur á ensku. Þá er birt rita­skrá Gríms og skrá yfir mynd­ir í bók­inni en nafna­skrá vant­ar.

Grím­ur naut virðing­ar sem fræðimaður, komst til met­orða sem emb­ætt­ismaður, lagði góðan skerf af mörk­um sem skáld og var vel stæður Bessastaðabóndi sam­hliða þing­mennsku. Bók­in varp­ar skýr­ara ljósi á fram­lag hans sem fræðimanns og skálds en maður­inn Grím­ur Thomsen er áfram ráðgáta eins og hann sjálf­ur ákvað.