Landnýting í anda friðunar
Morgunblaðið, laugardagur 25. júní 2022.
Friðlýst svæði á Íslandi eru rúmlega 130 talsins, segir á vefsíðu Umhverfisstofnunar. Með friðun sé tryggður réttur „okkar og komandi kynslóða til að njóta ósnortinnar náttúru“. Hún er sögð takmörkuð auðlind sem fari þverrandi á heimsvísu. Reglur um friðlýst svæði séu mismunandi og fari eftir markmiðum friðlýsingar, eðli svæðisins og samkomulagi við þá sem hagsmuna eiga að gæta.
Í apríl 2022 var umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið spurt hvort ríkissjóður myndi nýta sér forkaupsrétt vegna sölu á jörðinni Heiði í Skaftárhreppi. Innan jarðarinnar er hluti Fjaðrárgljúfurs sem er á náttúruminjaskrá og á ríkið þess vegna forkaupsrétt.
Umhverfisstofnun ákvað í ársbyrjun 2019 að loka Fjaðrárgljúfri tímabundið, vegna tíðarfars og ágangs ferðamanna. „Gríðarlegt“ álag væri á svæðinu og hætta á umtalsverðum skemmdum á gróðri meðfram göngustígum. Í fréttum sagði að bylting hefði orðið í ásókn ferðamanna í gljúfrið eftir að tónlistarmaðurinn Justin Bieber gerði þar myndband árið 2015, sem hundruð milljóna manna sáu á netinu. Fram að þeim tíma hefðu fáir lagt leið sína á þennan fallega stað.
Justin Bieber kom Fjaðrárgljúfri á heimskortið árið 2015.
Ríkið ákvað að nýta ekki forkaupsrétt sinn á Heiði og þriðjudaginn 21. júní ritaði Guðlaugur Þór Þórðarson ráðherra undir samkomulag við kaupanda jarðarinnar, enda lýsti hann sig samþykkan því að vinna að friðlýsingu svæðisins. Verður vernd svæðisins og nauðsynleg uppbygging sameiginlegt verkefni ríkisins og nýs eiganda. Í frétt ráðuneytisins um málið segir að eigendur annarra jarða, sem Fjaðrárgljúfur er hluti af, hafi einnig lýst vilja til að vinna að friðlýsingu gljúfursins.
Á vefsíðunni Kjarnanum var skýrt frá því að félagið Hveraberg ehf. hefði keypt Heiði fyrir 280 m. kr. Félagið hefði verið stofnað árið 2017 og væri Brynjólfur Baldursson eini eigandi félagsins. Það hefði unnið að uppbyggingu ferðaþjónustu í Reykjadal ofan Hveragerðis og í bænum sjálfum.
Hveraberg ætlaði að reisa þjónustumiðstöð á Heiði, þar sem yrðu veitingar, salerni og verslanir. Innheimt yrðu „hófleg bílastæðagjöld til að byggja upp þjónustu“. Gjöldin tálmuðu ekki frjálsa för einstaklinga sem ekki nýttu bílastæði. Yrði farið að reglum náttúruverndarlaga um almannarétt. Forkaupsréttur ríkisins hvílir áfram á jörðinni, komi aftur til eigendaskipta.
Í vikunni veittu ferðamálaráðherra og umhverfisráðherra þjóðgarðinum á Þingvöllum viðurkenningu sem fyrstu Vörðunni á Íslandi. Stjórnandi áfangastaðar ferðamanna, sem er heiðraður á þennan hátt, skuldbindur sig til að vera til fyrirmyndar við stjórnun og umsjón staðarins og að vinna stöðugt að sjálfbærni á öllum sviðum.
Framsýni stjórnenda þjóðgarðsins á Þingvöllum var mikil sumarið 2015, þegar Þingvallanefnd, skipuð sjö alþingismönnum, setti reglur um gestagjöld vegna afmarkaðra bílastæða innan þjóðgarðsins, með vísan til heimildar í lögum um þjóðgarðinn frá 2004. Þetta skipti ekki aðeins miklu fyrir allan rekstur á Þingvöllum heldur er einnig fordæmi fyrir stjórnendur annarra ferðamannastaða.
Vörðum er lýst sem merkisstöðum á Íslandi, þar sem finna megi náttúrufyrirbæri og/eða menningarsögulegar minjar sem mynda sérstætt landslag eða landslagsheildir.
Í frétt ráðuneytanna er ekki sagt hverjir leggi mat á einstaka staði. Nú séu í „svokölluðu prufuferli Vörðu“ Gullfoss, Geysir og Jökulsárlón, „áfangastaðir í eigu ríkisins“ og „í umsjón ríkisaðila“. Tekið er fram að frá áramótum eigi fleiri staðir, óháð umsjón og eignarhaldi, að geta komist í þetta ferli.
Það er hvorki skynsamlegt né æskilegt að ríkið eða „ríkisaðilar“ sitji einir að öllu er varðar náttúrufyrirbæri og menningarsögulegar minjar. Með almennum reglum á að tryggja varðveislu en hún á ekki að verða til þess að hafnað sé eignarrétti einstaklinga. Að ríkið sölsi undir sig landareignir lofar hvergi góðu. Ríkið á frekar að minnka landareign sína en auka. Stjórnmálamenn einbeiti sér að gerð skynsamlegra reglna um landnýtingu í anda friðunar.
Ríkið er oft mjög svifaseint, bæði þegar kemur að nýtingu náttúruauðlinda og varðveislu. Það liðu til til dæmis tæp 30 ár frá því að fyrst var opinberlega rætt á þingi Náttúruverndarráðs 1972 um friðlýsingu og stofnun þjóðgarðs á utanverðu Snæfellsnesi, þar til hann var formlega stofnaður við hátíðlega athöfn á Malarrifi 28. júní 2001.
Vatnajökulsþjóðgarður er 13 ára gömul ríkisstofnun sem skiptist í fjögur rekstrarsvæði á ábyrgð þjóðgarðsvarða. Á hverju rekstrarsvæði starfa svæðisráð. Í stjórnarsáttmálanum frá 28. nóvember 2021 er boðað að stofnaður verði þjóðgarður á þegar friðlýstum svæðum og jöklum á þjóðlendum á hálendinu, með breytingu á lögum um Vatnajökulsþjóðgarð. Svæðisráðaskipulagið verði notað til að tryggja aðild sveitarstjórna.
Í formála ársskýrslu Vatnajökulsþjóðgarðs, fyrir árið 2021, segir Magnús Guðmundsson framkvæmdastjóri að í aðdraganda þingkosninganna haustið 2021 hafi Vatnajökulsþjóðgarður oft komið „við sögu í umræðum og skrifum um miðhálendisþjóðgarð og friðlýsingar“. Mikilvægt sé að ræða stór mál og takast á um stefnu og aðferðir en málflutninginn megi ekki reisa „á vanþekkingu um starfsemi núverandi þjóðgarða“.
Í landinu eru þrír þjóðgarðar. Um alla hefur verið deilt í áranna rás. Það vakti til dæmis óánægju ýmissa leiðsögumanna þegar Almannagjá á Þingvöllum var lokað fyrir bílaumferð á sjöunda áratugnum. Það yrði til þess að fólk hætti að sækja staðinn heim.