25.6.2022

Landnýting í anda friðunar

Morgunblaðið, laugardagur 25. júní 2022.

Friðlýst svæði á Íslandi eru rúm­lega 130 tals­ins, seg­ir á vefsíðu Um­hverf­is­stofn­un­ar. Með friðun sé tryggður rétt­ur „okk­ar og kom­andi kyn­slóða til að njóta ósnort­inn­ar nátt­úru“. Hún er sögð tak­mörkuð auðlind sem fari þverr­andi á heimsvísu. Regl­ur um friðlýst svæði séu mis­mun­andi og fari eft­ir mark­miðum friðlýs­ing­ar, eðli svæðis­ins og sam­komu­lagi við þá sem hags­muna eiga að gæta.

Í apríl 2022 var um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðuneytið spurt hvort rík­is­sjóður myndi nýta sér for­kaups­rétt vegna sölu á jörðinni Heiði í Skaft­ár­hreppi. Inn­an jarðar­inn­ar er hluti Fjaðrár­gljúf­urs sem er á nátt­úru­m­inja­skrá og á ríkið þess vegna for­kaups­rétt.

Um­hverf­is­stofn­un ákvað í árs­byrj­un 2019 að loka Fjaðrár­gljúfri tíma­bundið, vegna tíðarfars og ágangs ferðamanna. „Gríðarlegt“ álag væri á svæðinu og hætta á um­tals­verðum skemmd­um á gróðri meðfram göngu­stíg­um. Í frétt­um sagði að bylt­ing hefði orðið í ásókn ferðamanna í gljúfrið eft­ir að tón­list­armaður­inn Just­in Bie­ber gerði þar mynd­band árið 2015, sem hundruð millj­óna manna sáu á net­inu. Fram að þeim tíma hefðu fáir lagt leið sína á þenn­an fal­lega stað.

Justin_bieber_1280Justin Bieber kom Fjaðrárgljúfri á heimskortið árið 2015.

Ríkið ákvað að nýta ekki for­kaups­rétt sinn á Heiði og þriðju­dag­inn 21. júní ritaði Guðlaug­ur Þór Þórðar­son ráðherra und­ir sam­komu­lag við kaup­anda jarðar­inn­ar, enda lýsti hann sig samþykk­an því að vinna að friðlýs­ingu svæðis­ins. Verður vernd svæðis­ins og nauðsyn­leg upp­bygg­ing sam­eig­in­legt verk­efni rík­is­ins og nýs eig­anda. Í frétt ráðuneyt­is­ins um málið seg­ir að eig­end­ur annarra jarða, sem Fjaðrár­gljúf­ur er hluti af, hafi einnig lýst vilja til að vinna að friðlýs­ingu gljúf­urs­ins.

Á vefsíðunni Kjarn­an­um var skýrt frá því að fé­lagið Hvera­berg ehf. hefði keypt Heiði fyr­ir 280 m. kr. Fé­lagið hefði verið stofnað árið 2017 og væri Brynj­ólf­ur Bald­urs­son eini eig­andi fé­lags­ins. Það hefði unnið að upp­bygg­ingu ferðaþjón­ustu í Reykja­dal ofan Hvera­gerðis og í bæn­um sjálf­um.

Hvera­berg ætlaði að reisa þjón­ustumiðstöð á Heiði, þar sem yrðu veit­ing­ar, sal­erni og versl­an­ir. Inn­heimt yrðu „hóf­leg bíla­stæðagjöld til að byggja upp þjón­ustu“. Gjöld­in tálmuðu ekki frjálsa för ein­stak­linga sem ekki nýttu bíla­stæði. Yrði farið að regl­um nátt­úru­vernd­ar­laga um al­manna­rétt. For­kaups­rétt­ur rík­is­ins hvíl­ir áfram á jörðinni, komi aft­ur til eig­enda­skipta.

Í vik­unni veittu ferðamálaráðherra og um­hverf­is­ráðherra þjóðgarðinum á Þing­völl­um viður­kenn­ingu sem fyrstu Vörðunni á Íslandi. Stjórn­andi áfangastaðar ferðamanna, sem er heiðraður á þenn­an hátt, skuld­bind­ur sig til að vera til fyr­ir­mynd­ar við stjórn­un og um­sjón staðar­ins og að vinna stöðugt að sjálf­bærni á öll­um sviðum.

Fram­sýni stjórn­enda þjóðgarðsins á Þing­völl­um var mik­il sum­arið 2015, þegar Þing­valla­nefnd, skipuð sjö alþing­is­mönn­um, setti regl­ur um gesta­gjöld vegna af­markaðra bíla­stæða inn­an þjóðgarðsins, með vís­an til heim­ild­ar í lög­um um þjóðgarðinn frá 2004. Þetta skipti ekki aðeins miklu fyr­ir all­an rekst­ur á Þing­völl­um held­ur er einnig for­dæmi fyr­ir stjórn­end­ur annarra ferðamannastaða.

Vörðum er lýst sem merk­is­stöðum á Íslandi, þar sem finna megi nátt­úru­fyr­ir­bæri og/​eða menn­ing­ar­sögu­leg­ar minj­ar sem mynda sér­stætt lands­lag eða lands­lags­heild­ir.

Í frétt ráðuneyt­anna er ekki sagt hverj­ir leggi mat á ein­staka staði. Nú séu í „svo­kölluðu prufu­ferli Vörðu“ Gull­foss, Geys­ir og Jök­uls­ár­lón, „áfangastaðir í eigu rík­is­ins“ og „í um­sjón rík­isaðila“. Tekið er fram að frá ára­mót­um eigi fleiri staðir, óháð um­sjón og eign­ar­haldi, að geta kom­ist í þetta ferli.

Það er hvorki skyn­sam­legt né æski­legt að ríkið eða „rík­isaðilar“ sitji ein­ir að öllu er varðar nátt­úru­fyr­ir­bæri og menn­ing­ar­sögu­leg­ar minj­ar. Með al­menn­um regl­um á að tryggja varðveislu en hún á ekki að verða til þess að hafnað sé eign­ar­rétti ein­stak­linga. Að ríkið sölsi und­ir sig land­ar­eign­ir lof­ar hvergi góðu. Ríkið á frek­ar að minnka land­ar­eign sína en auka. Stjórn­mála­menn ein­beiti sér að gerð skyn­sam­legra reglna um land­nýt­ingu í anda friðunar.

Ríkið er oft mjög svifa­seint, bæði þegar kem­ur að nýt­ingu nátt­úru­auðlinda og varðveislu. Það liðu til til dæm­is tæp 30 ár frá því að fyrst var op­in­ber­lega rætt á þingi Nátt­úru­vernd­ar­ráðs 1972 um friðlýs­ingu og stofn­un þjóðgarðs á ut­an­verðu Snæ­fellsnesi, þar til hann var form­lega stofnaður við hátíðlega at­höfn á Mal­arrifi 28. júní 2001.

Vatna­jök­ulsþjóðgarður er 13 ára göm­ul rík­is­stofn­un sem skipt­ist í fjög­ur rekstr­ar­svæði á ábyrgð þjóðgarðsvarða. Á hverju rekstr­ar­svæði starfa svæðisráð. Í stjórn­arsátt­mál­an­um frá 28. nóv­em­ber 2021 er boðað að stofnaður verði þjóðgarður á þegar friðlýst­um svæðum og jökl­um á þjóðlend­um á há­lend­inu, með breyt­ingu á lög­um um Vatna­jök­ulsþjóðgarð. Svæðisráðaskipu­lagið verði notað til að tryggja aðild sveit­ar­stjórna.

Í for­mála árs­skýrslu Vatna­jök­ulsþjóðgarðs, fyr­ir árið 2021, seg­ir Magnús Guðmunds­son fram­kvæmda­stjóri að í aðdrag­anda þing­kosn­ing­anna haustið 2021 hafi Vatna­jök­ulsþjóðgarður oft komið „við sögu í umræðum og skrif­um um miðhá­lend­isþjóðgarð og friðlýs­ing­ar“. Mik­il­vægt sé að ræða stór mál og tak­ast á um stefnu og aðferðir en mál­flutn­ing­inn megi ekki reisa „á vanþekk­ingu um starf­semi nú­ver­andi þjóðgarða“.

Í land­inu eru þrír þjóðgarðar. Um alla hef­ur verið deilt í ár­anna rás. Það vakti til dæm­is óánægju ým­issa leiðsögu­manna þegar Al­manna­gjá á Þing­völl­um var lokað fyr­ir bílaum­ferð á sjö­unda ára­tugn­um. Það yrði til þess að fólk hætti að sækja staðinn heim.