Landhelgi í takti við alþjóðalög
Bækur - Sagnfræði, Morgunblaðið 22. október 2022
Stund milli stríða ****-
Eftir Guðna Th. Jóhannesson. Innb. 518 bls. myndir og skrár. Sögufélag, Reykjavík 2022.Á sjöunda áratugnum skapaði viðreisnarstjórnin festu í íslenskum stjórnmálum. Tveggja flokka stjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokksins sat frá 1959 til 1971. Þjóðfélagið breyttist og samskipti við aðrar þjóðir tóku nýja stefnu.
Við myndun stjórnarinnar átti þjóðin í harðri deilu við Breta vegna útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 12 sjómílur. Fyrsta vinstri stjórn lýðveldistímans færði lögsöguna út 1. september 1958. Viðreisnarstjórnin leysti deiluna og kom á friði á fiskimiðunum með sátt við Breta sem alþingi samþykkti 9. mars 1961 með 33 atkv. gegn 27.
Bretar viðurkenndu 12 mílna lögsöguna. Breskir togarar fengu tímabundnar veiðiheimildir. Ríkisstjórn Íslands lýsti yfir að hún mundi vinna áfram að útfærslu fiskveiðilögsögunnar en ágreiningi um hugsanlegar aðgerðir skyldi vísa til Alþjóðadómstólsins í Haag.
Íslendingar fögnuðu sigri í Icesave-málinu 28. janúar 2013
þegar EFTA-dómstóllinn dæmdi þeim í vil. Í umræðum um málið töldu
áhrifamiklir álitsgjafar engan dómstól geta leyst málið,
Íslendingar yrðu einfaldlega úrhrak meðal þjóða heims yrðu þeir
ekki við kröfum bresku ríkisstjórnarinnar og greiddu
Icesave-skuldina. Vegna aðildar að EES-samstarfinu tókst að skjóta
málinu til alþjóðlegs dómstóls og hafa sigur. Sannaðist þar enn að
alþjóðasamstarf reist á lögum er besta vörn smáþjóða.
Guðni Th. Jóhannesson ræðir eðlilega mikið um samninginn við Breta í bók sinni Stund milli stríða – saga landhelgismálsins, 1961-1971 . Hann er hallur undir þá skoðun að ekki hefði átt að nefna málskot til Alþjóðadómstólsins í sáttargjörðinni. Er þetta leiðarstef í frásögn hans.
Eiríkur Kristófersson, þjóðkunnur skipherra og hetja í landhelgisbaráttunni, studdi eindregið samkomulagið við Breta í samtali við Morgunblaðið . Guðni Th. vitnar til þeirra orða og segir: „Blaðamaður lætur vera að spyrja um málskotið til Haag.“ (83) Milli lína: afstaða Eiríks kynni að hafa orðið önnur hefði hann verið spurður um málskotið.
Um það veit enginn. Ég var nokkru síðar skipverji um borð í Óðni undir stjórn Eiríks. Þá gramdist gæslumönnum sakaruppgjöf bresku landhelgisbrjótanna sem náðst höfðu, oft við hættulegar aðstæður. Málskotið var þeim ekki ofarlega í huga.
Guðni Th. nefnir nokkrum sinnum að tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Gísli Jónsson og Pétur Ottesen, hafi verið ósáttir við samkomulagið. Pétur hætti á þingi 1959. Gísli greiddi atkvæði með samkomulaginu.
Þá segir höfundur frá samtali sínu árið 2019 við sjálfstæðismann í hópi Öldungaráðs Landhelgisgæslunnar í móttöku á Bessastöðum. Segist Guðni Th. viss um „að mjótt hefði orðið á munum meðal þjóðarinnar, rétt eins og raun var á þingi. Mig grunar að samningurinn hefði jafnvel verið felldur.“ (132)
Miðað við margar atkvæðagreiðslur á þingi um umdeild mál er ekki unnt að segja að mjótt sé á munum þar þegar atkvæði falla 33:27. Í bókinni er ítarlega lýst hvernig tilraunir til fjöldamótmæla á Austurvelli runnu út í sandinn.
Í febrúar 1963 var samið um lausn á deilu við Breta vegna fiskveiða við Færeyjar. Þá sagði Per Hækkerup, utanríkisráðherra Dana, að þeir hefðu ætíð viðurkennt lögsögu dómstólsins í Haag á alþjóðavettvangi. Því væri alger óþarfi að nefna slíkt sérstaklega í samkomulagi um fiskveiðilögsöguna við Færeyjar.
Við ritun sögulegs verks á borð við það sem hér er til umsagnar skiptir val á leiðarstefi miklu. Sannfærandi hefði til dæmis verið að velja sem stef að viðreisnarstjórnin opnaði þjóðfélagið bæði inn á við og út á við. Á fyrstu árum sínum kannaði hún hvort aðild að Evrópubandalaginu þjónaði hagsmunum þjóðarinnar, varð niðurstaðan neikvæð. Stjórnin lagði áherslu á gildi aðildarinnar að NATO og varnarsamstarfsins við Bandaríkin. Hún átti aðild að viðræðum á norrænum vettvangi um efnahagssamstarf þjóðanna fimm undir merkjum NORDEK. Þegar þær runnu út í sandinn beitti stjórnin sér fyrir aðild að EFTA, Fríverslunarsamtökum Evrópu. Þá kynnti hún stefnu í landhelgismálinu sem tók mið af þróun alþjóðalaga og fyrirhugaðri hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna árið 1973 sem gat af sér 200 mílna efnahagslögsöguna og hafréttarsáttmálann árið 1985.
Bókin Stund milli stríða er vönduð að allri gerð. Hún skiptist í þrjá meginkafla: I. Átján dagar. Landhelgissamningurinn 1961 (19 til 143); II. Lognið á undan storminum, 1961-1971 (143 til 331) og III. Örlagasumar. Útfærsla í vændum (331 til 432). Síðan kemur eftirmáli, tilvísanir, útdráttur á ensku, heimildaskrá, myndaskrá, nöfn og efnisorð, alls 518 bls. með kortum og miklum fjölda mynda – umbrot á myndatextum (44 og víðar) er misheppnað. Thorvald Stoltenberg er (397) sagður ráðuneytisstjóri í norska utanríkisráðuneytinu. Hann var það aldrei. Þarna (1971) var hann statssekretær norska utanríkisráðherrans. Vefst fyrir mörgum að íslenska starfsheitið.
Hverjum meginkafla bókarinnar er skipt í fjölda undirkafla og þar eru fyrirsagnir oftast dagsetningar enda er frásögnin í tímaröð. Hún snýst að verulegu leyti um stjórnmálaþátt viðfangsefnisins en einnig eru lýsingar á átökum íslenskra yfirvalda við breska landhelgisbrjóta og er saga sumra þeirra færð til samtímans.
Við ritun verksins leitar höfundur mjög víða fanga. Hann hefur árum saman unnið að heimildaöflun. Hann ritar greinargóðan stíl. Bókin er almennt auðveld aflestrar.
Í bókarlok boðar Guðni Th. Jóhannesson tvær bækur til viðbótar um landhelgismálið, útfærsluna í 50 sjómílur og loks í 200 sjómílur. Leiðarhnoðað þar verður forvitnilegt.
Þeir sem spáðu því árið 1961 að alþjóðalög yrðu stefnu og hagsmunum Íslands hliðholl höfðu rétt fyrir sér en hinir rangt sem töldu að dómarar við alþjóðadómstól mundu næstu áratugi frá 1961 ekki treysta sér til að löggilda meira en 12 mílna landhelgi. Sú hrakspá varð endanlega úr sögunni um 15 árum síðar og aðeins um fimm árum eftir að frásögn þessarar bókar lýkur.