18.9.2021

Landbúnaðarstefnan Ræktum Ísland!

Morgunblaðið, laugardag 18. september 2021

 

Í því fólst fram­sýni hjá Kristjáni Þór Júlí­us­syni, sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra, fyr­ir þrem­ur árum þegar hann hratt af stað vinnu við mót­un land­búnaðar­stefnu í sam­ráði við Bænda­sam­tök Íslands. Þetta var sam­vinnu­verk­efni stjórn­valda, bænda, neyt­enda og at­vinnu­lífs und­ir for­ystu sam­ráðshóps um end­ur­skoðun bú­vöru­samn­inga. Har­ald­ur Bene­dikts­son alþing­ismaður, fyrr­ver­andi formaður Bænda­sam­tak­anna, og Bryn­hild­ur Pét­urs­dótt­ir frá Neyt­enda­sam­tök­un­um leiddu hóp­inn.

Í vinnu Har­alds og Bryn­hild­ar var stuðst við aðferðarfræði sviðsmynda­grein­inga sem KPMG vann. Efnt var til fjöl­margra funda og ít­ar­legra viðtala. Um 400 manns komu að verk­inu. Ein meg­in­til­laga sam­ráðshóps­ins var að mótuð yrði stefna úr miklu verki hans. Ráðherr­ann fól okk­ur Hlé­dísi H. Sveins­dótt­ur, verk­efna­stjóra og þátta­stjóra sjón­varps, að gera til­lög­ur um land­búnaðar­stefnu.

Við Hlé­dís tók­um við kefl­inu 15. sept­em­ber 2020. Verk­efni okk­ar völd­um við heitið Rækt­um Ísland! Vorið 2021 var gefið út sam­nefnt umræðuskjal.

Skjalið var lagt inn á sam­ráðsgátt stjórn­valda auk þess sem Kristján Þór boðaði til 10 funda um land allt frá 1. til 16. júní 2021 til að ræða efni þess. Við svo búið sett­umst við að smíði til­lagna að stefnu og kynnti ráðherra land­búnaðar­stefn­una Rækt­um Ísland! í rík­is­stjórn þriðju­dag­inn 14. sept­em­ber. Í 96 bls. riti með stefn­unni er að finna rök­stuðning, út­drátt úr um­sögn­um sem bár­ust á sam­ráðsgátt­ina, frá­sögn af fund­un­um 10 í byrj­un júní og skrá yfir ít­ar­efni.

QM8UvK3AKristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kynnir landbúnaðarstefnuna Ræktum Ísland!

Fyr­ir liggja til­lög­ur, vilji Alþingi taka af skarið og samþykkja í fyrsta sinn land­búnaðar­stefnu fyr­ir Ísland. „Ég ef­ast að nokk­ur at­vinnu­grein eigi slíka vinnu sem stefn­an bygg­ir á. Löngu tíma­bært og mik­il­vægt,“ seg­ir Har­ald­ur Bene­dikts­son rétti­lega.

Fjöl­miðlar þegja al­mennt um það sem nú ligg­ur fyr­ir um stefnu í einni af höfuðat­vinnu­grein­um þjóðar­inn­ar. Ástæðan kann að vera hve mik­il sátt hef­ur náðst um mark­miðin.

Íslensk­ur land­búnaður stend­ur ein­fald­lega á tíma­mót­um. Gildi hans vex í öllu til­liti.

Um það er ekki deilt að ís­lensku þjóðinni ber að rækta Ísland og skapa skil­yrði til bú­setu um land allt. Land­búnaðar­stefna verður að taka mið af því að þjóðin standi við þessa skyldu.

Land­búnaður er grunnstoð allra sam­fé­laga. Framtíð og sjálf­bærni ís­lensks land­búnaðar ræðst af því að litið sé til þeirra sókn­ar­færa sem fel­ast í hreinni orku og auðlind­um ís­lenskr­ar mold­ar og vatns.

Í stefn­unni er lögð áhersla á að skapa beri bænd­um fjár­hags­legt og stjórn­sýslu­legt svig­rúm til að nýta lands­ins gæði, m.a. með mennt­un, ráðgjöf, stuðningi, ný­sköp­un, vöruþróun og aðlög­un að kröf­um markaðar­ins. Á öll­um þess­um þátt­um er tekið í stefn­unni Rækt­um Ísland!.

Minnt er á að bænd­ur séu sjálf­stæðir at­vinnu­rek­end­ur. Sam­fé­lagið allt hafi hag af því að þekk­ing og reynsla þeirra, afrakst­ur jarða þeirra og bú­skap­ar nýt­ist þjóðhags­lega sem best. Í því skyni beri að auðvelda kyn­slóðaskipti og nýliðun í land­búnaði.

Fram­far­ir í hefðbundn­um bú­grein­um ráðast af nýrri tækni og fræðslu á grund­velli hag­nýtra rann­sókna. Vikið er að fjórðu iðnbylt­ing­unni og áhrif­um henn­ar í land­búnaði til dæm­is með hluta­net­notk­un og gervi­greind.

Í stuttu máli mót­ast stefn­an Rækt­um Ísland! af bjart­sýni. Mark­visst ber að vinna að því að laga ís­lensk­an land­búnað að breytt­um kröf­um. Þar skipt­ir stefna stjórn­valda í lofts­lags­mál­um miklu og vilji til að nýta krafta bænda til að ná mark­miðum henn­ar.

Tryggja verður að það sem bænd­ur leggja af mörk­um til kol­efnis­jöfn­un­ar njóti alþjóðlega viður­kenndr­ar vott­un­ar. Hér dug­ar ekki vott­un til heima­brúks sem þó tíðkast. Ber að vara við ófull­nægj­andi vott­un. Hún kem­ur öll­um í koll.

Frá því að varnaðarorð um þetta birt­ust í umræðuskjal­inu Rækt­um Ísland! vorið 2021 hef­ur inn­lenda fyr­ir­tækið Lofts­lags­skrá (e. In­ternati­onal Car­bon Reg­is­try) komið til sög­unn­ar, ra­f­rænn skrán­ing­ar­grunn­ur fyr­ir lofts­lags­verk­efni. Til að geta skráð verk­efni í Lofts­lags­skrá og gefið út kol­efnisein­ing­ar er nauðsyn­legt að upp­fylla ít­ar­leg­ar kröf­ur í sam­ræmi við alþjóðleg­ar meg­in­regl­ur.

Þetta er grunn­ur að því að hér verði til lög­verndaður markaður fyr­ir alþjóðlega vottaðar kol­efnisein­ing­ar.

Markaðsöfl­in verður að virkja í þágu lofts­lags­mála svo að raun­veru­leg­ur ár­ang­ur ná­ist. Í lok ág­úst 2021 gerðu Lofts­lags­skrá­in og eign­ar­halds­fé­lagið Festi hf. tíma­móta­samn­ing um skrán­ingu fyrsta vottaða kol­efn­is­bind­ing­ar­verk­efn­is­ins sam­kvæmt gæðakerf­inu Skóg­ar­kol­efni. Skóg­rækt­in veit­ir ráð og hef­ur eft­ir­lit með kol­efn­is­skóg­rækt Festi hf. að Fjarðar­horni í Hrútaf­irði, skammt frá Staðarskála. Þetta er fyrsta verk­efni ís­lensks fyr­ir­tæk­is af þess­um toga.

Marg­ar aðrar aðferðir til að nýta jarðveg og beit til kol­efn­is­bind­ing­ar eru á rann­sókna- og fram­kvæmda­stigi. Bænd­ur geta látið veru­lega að sér kveða á þessu sviði enda efl­ist kol­efn­is­bú­skap­ur (e. car­bon farm­ing) mjög í Evr­ópu og N-Am­er­íku auk Ástr­al­íu og Nýja-Sjá­lands sem hef­ur tekið for­ystu á þessu sviði eins og svo mörg­um öðrum með vel rekn­um land­búnaði.

Nýir vind­ar leika um ís­lensk­an land­búnað. Þá er unnt að virkja í þágu breyt­inga um leið og staðinn er vörður um menn­ing­ar­legt og til­finn­inga­legt gildi þess að allt landið sé í byggð. Þar blómgist fjöl­breytni reist á fram­taki bónd­ans.