Lærum af farsóttinni
Morgunblaðið, laugardag 22. janúar 2022
Á tveggja ára afmæli Covid-19-heimsfaraldursins eru víða líflegar umræður um hvort hann sé á lokasprettinum. Hér ala þó sumir á tortryggni í garð þeirra sem telja endalokin nálgast, rýmka beri frelsi borgaranna en ekki skerða í nafni sóttvarna. Miðað við upphrópanir mætti halda að íslenskar sóttvarnareglur nái einnig til málfrelsis. Að grafið sé undan vilja til að hlíta skynsamlegum reglum með því að ræða þær stenst ekki.
Stóra spurningin núna er: Boðar Ómíkron-afbrigðið endalok faraldursins? Dr. Anthony Fauci, aðalráðgjafi Bandaríkjaforseta, sagði á alþjóðlegum fjarfundi mánudaginn 17. janúar of snemmt að fullyrða það.
Fauci sagði hraða útbreiðslu Ómíkron kunna að ráða miklu um að hjarðónæmi myndaðist. Hann bætti svo við að óvíst væri að víðtækara ónæmi vegna Ómíkron-útbreiðslunnar dygði til þess sem allir vonuðu, breytilegur fjöldi afbrigða veirunnar væri svo mikill. Ómíkron leiddi vonandi til endaloka farsóttarinnar, kæmi ekki annað afbrigði sem bryti sér nýja leið.
Stutta svarið hjá Fauci var: „Við vitum þetta ekki.“
Albert Bourla, forstjóri Pfizer, framleiðanda bóluefnis og taflna gegn Covid-19, ræddi við franska blaðið Le Figaro sunnudaginn 16. janúar. Hann var einnig spurður hvort Ómíkron boðaði endalok Covid-19-faraldursins. Bourla svaraði:
„Það veit enginn, svo margt hefur komið okkur á óvart frá því að farsóttin hófst. Ég vil ekki vera svartsýnn en við verðum vafalaust að lifa árum saman með veiru sem verður mjög erfitt að uppræta. Hún hefur dreifst um allan heim, hún getur mörgum sinnum smitað sömu manneskjuna og hún hefur stökkbreyst svo oft að við verðum að enduruppgötva gríska stafrófið ... Spurningin snýst ekki um að vita hvort veiran hverfi eða ekki heldur hitt: getum við hafið eðlilegt líf að nýju? Ég trúi að svo sé. Við getum fljótlega hafið eðlilegt líf að nýju. Við ættum að geta gert það með vorinu, þökk sé öllum verkfærunum sem við höfum í höndunum: sýnatökum, mjög öflugum bóluefnum – eigi Ómíkron í hlut draga þau úr hættu á innlögnum á sjúkrahús og dauðsföllum – og fyrstu lyfjunum til að sigra sjúkdóminn heima hjá okkur. Paxlovid-töflur koma í franskar lyfjaverslanir í lok janúar. Þær eru lyf fyrir þá sem mælast jákvæðir við sýnatöku og gjörbreytir stöðunni innan heilbrigðiskerfisins og léttir á sjúkrahúsunum.“
Bandaríska lyfjaeftirlitið samþykkti Paxlovid skömmu fyrir jól. Lyfjaeftirlit Kanada gerði það nú í vikunni. Í Ísrael sýndi notkun lyfsins að sóttin hjaðnaði hjá 92% og hjá 60% einstaklinga varð líðanin betri á fyrsta degi. Í fréttum frá Ísrael segir jafnframt að gæta verði tímamarka við inntöku lyfsins og huga vel að áhrifum þess á önnur lyf. Notkun þess sé því ekki með öllu hindrunarlaus.
Sérfróðir menn vilja með öðrum orðum ekki slá neinu föstu um hvenær Covid-19 hverfur en verkfærin til að gera sóttina meinlausa og létta á heilbrigðiskerfi og sjúkrahúsum eru fyrir hendi og þeim fjölgar.
Hundruð þúsunda hafa farið í bólusetningu og sýnatöku (mynd: mbl.is).
Í fyrradag (20. janúar) voru 6% þjóðarinnar í einangrun (10.637 manns) og sóttkví (12.438). Þann dag ræddu alþingismenn skýrslu heilbrigðisráðherra um stöðu sóttvarna og voru sammála um að þrátt fyrir þessar háu tölur væri „bjartara yfir“. Stíga ætti skref fyrir skref út úr sóttvarnahömlunum.
Af umræðunum mátti ráða að þingmenn væru nú með hugann við uppgjör vegna þróunar og áhrifa farsóttarinnar.
Faraldurinn sýnir hve íslenska heilbrigðiskerfið er megnugt. Hann sýnir einnig styrkinn í því hve margir eru fúsir til að leggja mikið á sig til að ná samfélagslegum markmiðum á hættustund. Það verður aldrei metið eða þakkað til fulls.
Athygli beinist einnig að brotalömum í heilbrigðiskerfinu. Þær verður að lagfæra. Hluti uppgjörs vegna faraldursins er að farið sé í saumana á ákvörðunum sem teknar hafa verið um viðbrögð og starfsemi Landspítalans. Tillitið til spítalans hefur ráðið miklu um allar sóttvarnaaðgerðir.
Sumu má vafalaust kippa í liðinn án þess að beðið sé eftir niðurstöðu rannsóknarskýrslu. Án slíkrar skýrslu birtist þó ekki stóra myndin.
Eftir annað stóráfall, bankahrunið, sameinaðist þingheimur um að gerð yrði rannsóknarskýrsla fyrir alþingi. Af henni var dreginn margvíslegur lærdómur.
Bankahrunið var hluti af heimsáfalli í fjármálaheiminum. Vegna þess hefur allt starfsumhverfi fjármálastofnana í Evrópu og víðar tekið stakkaskiptum til að auka traust og öryggi.
Enginn vafi er á að reynt verður að styrkja alþjóðasamvinnu í heilbrigðismálum. Grunsemdir um að kínversk stjórnvöld leyni upplýsingum um uppruna veirunnar grafa á hinn bóginn undan gildi alþjóðasamstarfs í þessu efni.
Mikilvægur liður almannavarna er að lærdómur sé dreginn af því sem gerst hefur. Eftir snjóflóð og skriðuföll var stofnaður sérstakur sjóður, ofanflóðasjóður, til að fjármagna gerð varnargarða og annað sem spornar gegn flóðum á hættulegum stöðum. Verkin tala í því efni.
Alþingi ætti að kjósa rannsóknarnefnd farsóttarinnar til að semja skýrslu um allar aðgerðir vegna hennar, skoða það sem betur má fara og gera tillögur til úrbóta. Við því er ekki að búast að þingmenn geti óstuddir komist til botns í öllu sem á dagana hefur drifið frá því að óvissustigi almannavarna var lýst yfir 27. janúar 2020. Fyrir framhaldsvinnu þeirra í þágu almannaöryggis skiptir miklu að geta stuðst við slíka skýrslu.