6.3.2021

Lært af reynslunni

Morgunblaðið, laugardagur 6. mars 2021.

Al­manna­varna­kerfið hér á landi stend­ur nú frammi fyr­ir tveim­ur stór­verk­efn­um: heims­far­aldr­in­um og jarðskjálft­um á Reykja­nesi. Kerfið ræður vel við verk­efn­in þegar litið er til stjórn­sýsl­unn­ar.

Tek­ist hef­ur að halda svo vel á bar­átt­unni gegn Covid-19-far­sótt­inni að á upp­lýs­inga­fundi al­manna­varna fimmtu­dag­inn 4. mars 2021 sagði Þórólf­ur Guðna­son sótt­varna­lækn­ir góðar lík­ur á að veir­an hefði „verið upp­rætt hér inn­an­lands“ þótt við gæt­um ekki verið viss um það. Hann sagði einnig:

„Kannski [er] svo­lítið erfitt að koma inn núna með upp­lýs­inga­fund um Covid vegna óró­ans og yf­ir­vof­andi eld­goss [á Reykja­nesi]. Það er nauðsyn­legt að við höld­um vöku okk­ar og miss­um ekki ein­beit­ingu okk­ar á verk­efn­inu um Covid, svo Covid fari ekki að læðast aft­an að okk­ur með al­var­leg­um af­leiðing­um.“

Forsíður og frétta­tím­ar snú­ast nú um það sem ger­ist í iðrum jarðar á Reykja­nesi og hugs­an­leg­ar af­leiðing­ar þess, hvort held­ur þær birt­ast sem skjálft­ar eða kviku­hlaup. Þar er ekki sótt­varna­lækn­ir í aðal­hlut­verki sér­fræðings held­ur Krist­ín Jóns­dótt­ir, nátt­úru­vár­sér­fræðing­ur hjá Veður­stofu Íslands, og jarð- og eld­fjalla­fræðing­ar.

Almannavarnir

Á hinn bóg­inn er sama hvort rætt er um veiruna eða skjálft­ana, í báðum til­vik­um er Víðir Reyn­is­son, deild­ar­stjóri al­manna­varna­deild­ar rík­is­lög­reglu­stjóra, til taks. Viðvera Víðis er í sam­ræmi við lyk­il­hlut­verkið sem embætti rík­is­lög­reglu­stjóra gegn­ir í al­manna­varna­kerf­inu.

Þetta kerfi tók stakka­skipt­um eft­ir brott­för banda­ríska varn­ar­liðsins í sam­ræmi við yf­ir­lýs­ingu sem rík­is­stjórn­in sendi frá sér 26. sept­em­ber 2006 nokkr­um dög­um áður en dvöl banda­rísku her­mann­anna lauk hér form­lega. Í henni sagði meðal ann­ars:

„Til að efla al­mennt ör­yggi verður við end­ur­skoðun laga um al­manna­varn­ir hugað að því að koma á fót miðstöð þar sem tengd­ir verði sam­an all­ir aðilar sem koma að ör­ygg­is­mál­um inn­an lands, hvort held­ur vegna nátt­úru­ham­fara eða vegna hættu af manna­völd­um. [...] Dag­leg stjórn miðstöðvar­inn­ar verður á veg­um dóms- og kirkju­málaráðherra og mun hann leggja fram frum­varp til nýrra al­manna­varna­laga.“

Þegar yf­ir­lýs­ing­in var gef­in giltu hér að meg­in­stofni al­manna­varna­lög frá ár­inu 1962. Nýju lög­in tóku gildi 1. júní 2008 og eru í grunn­inn óbreytt síðan. Þau tóku mið af öfl­ugu björg­un­ar­miðstöðinni sem þá var tek­in til starfa við Skóg­ar­hlíð í Reykja­vík. Þar var í senn að finna stöð til sam­hæf­ing­ar á aðgerðum og stjórn­stöð til að tak­ast á við ein­stök at­vik. Nýju lög­in end­ur­spegluðu mik­il­vægi þess­ar­ar stöðvar og festu kjarna henn­ar í sessi án þess að draga úr nauðsyn­leg­um sveigj­an­leika í viðbrögðum.

Sam­hæf­ing­ar­stöðvar al­manna­varna í Skóg­ar­hlíð er jafn­an getið þegar al­manna­varna­kerfið er virkjað, þar fer fram sam­hæf­ing og yf­ir­stjórn al­manna­varnaaðgerða með hliðsjón af al­manna­varna­stigi og viðeig­andi viðbragðsáætl­un.

Inn­an al­manna­varna­kerf­is­ins starfa einnig aðgerðastjórn og vett­vangs­stjórn. Stjórn aðgerða í héraði í al­manna­varna­ástandi er í hönd­um lög­reglu­stjóra í viðkom­andi lög­reglu­um­dæmi.

Í lög­un­um eru lagðar rík­ar skyld­ur á rík­is­stofn­an­ir, sveit­ar­fé­lög og í ein­stök­um til­vik­um einkaaðila um gerð viðbragðsáætl­ana eða þróun ör­ygg­is­ráðstaf­ana. Þannig er stuðlað að því að al­manna­varna­kerfið sé reiðubúið á hættu­stund og viðbrögð séu sem best skil­greind þegar aðgerða er þörf.

Allt þetta sést í fram­kvæmd hér um þess­ar mund­ir: áætlan­ir eru fyr­ir hendi á veg­um land­lækn­is og sótt­varna­lækn­is, Land­spít­al­ans, Veður­stofu og ein­stakra sveit­ar­fé­laga. Ætíð þegar spurt er um viðbrögð er vísað til þess að farið sé eft­ir áætl­un­um viðkom­andi aðila. Þeim er hrundið í fram­kvæmd á ábyrgð þeirra í sam­ræmi við hættu­stig en rík­is­lög­reglu­stjóri tek­ur ákvörðun um það í hverju tilkviki að höfðu sam­ráði við sér­fræðinga.

Í frétt­um vegna jarðhrær­ing­anna er rætt við bæj­ar­stjóra í ná­læg­um bæj­um og segja þeir að farið sé að áætl­un­um í sam­ræmi við hættu­stig og sama seg­ir lög­reglu­stjór­inn á Suður­nesj­um.

Neyðarstig er hæsta stigið á skal­an­um og á einu ári lýsti rík­is­lög­reglu­stjóri tvisvar yfir því vegna Covid-19 í sam­ráði við sótt­varna­lækni: 6. mars til 25. maí 2020 og 5. októ­ber 2020 til 12. fe­brú­ar 2021.

Þá var lýst yfir neyðarstigi á Seyðis­firði í des­em­ber 2020 vegna skriðufalla og enn halda full­trú­ar al­manna­varna­deild­ar rík­is­lög­reglu­stjóra, lög­reglu­stjór­ans á Aust­ur­landi, Múlaþingi, Veður­stofu, heima­stjórn­ar á Seyðis­firði og fleiri reglu­lega fundi vegna nátt­úru­ham­far­anna á Seyðis­firði.

Eld­gosið í Vest­manna­eyj­um 23. janú­ar 1973 og mann­skætt snjóflóð í Nes­kaupstað 20. des­em­ber 1974 urðu til þess að Viðlaga­trygg­ingu Íslands var komið á fót 1. sept­em­ber 1975, nafn henn­ar breytt­ist 1. júlí 2018 í Nátt­úru­ham­fara­trygg­ingu Íslands. Á þessa stofn­un reyn­ir þegar tjón verður vegna skriðufalla, jarðskjálfta eða annarra nátt­úru­ham­fara.

Í heims­far­aldr­in­um hef­ur stjórn­kerfið sýnt veru­leg­an innri styrk og sveigj­an­leika. Efna­hags­áfallið á ár­inu 2020 var tölu­vert minna en spáð var. Staða þjóðarbús­ins var sterk þegar áfallið varð og hag­stjórn­in hef­ur reynst far­sæl. Von­brigði tengj­ast helst skorti á bólu­efni – sam­flotið við ESB hindr­ar að þjóðlífið nái sér eins fljótt á strik og verða má.

Á átt­unda ára­tugn­um kallaði reynsl­an á ham­fara­trygg­ing­ar, á tí­unda ára­tugn­um urðu mann­skæð snjóflóð til að ráðist var í stór­tæk­ar of­an­flóðavarn­ir og brott­för varn­ar­liðsins á nýrri öld kallaði á ný­skip­an al­manna­varna. Hér skal engu slegið föstu um hvað heims­far­ald­ur­inn kenn­ir okk­ur. Hon­um er því miður ekki lokið þótt ná­kvæm­lega sé eitt ár 6. mars 2021 frá því að neyðarstig al­manna­varna var fyrst ákveðið vegna hans.