29.4.2021

Kristófer Már - minningarorð

Morgunblaðið, fimmtudagur 29. apríl 2021

Ávallt var hress­andi að hitta Kristó­fer Má og ræða við hann um lands­ins gagn og nauðsynj­ar. Hann var skemmti­leg­ur, marg­fróður og lýsti oft skoðunum frá öðru og skarp­ara sjón­ar­horni en aðrir.

GJ216GIBGKristófer Már Kristinsson

Við kynnt­umst þegar hann tók að sér að rita frétt­ir fyr­ir Morg­un­blaðið frá Brus­sel und­ir lok ní­unda ára­tug­ar­ins og ég fór þar með rit­stjórn er­lendra frétta. Fyr­ir þá sem þekkja ekki fjöl­miðla frá fyrri tíð er erfitt að setja sig í spor þeirra sem skrifuðu er­lend­ar frétt­ir á þess­um árum. Þær voru ekki auka­stærð eins og stund­um núna held­ur fylltu til dæm­is að jafnaði forsíðu Morg­un­blaðsins.

Evr­ópu­sam­starfið var í gerj­un, aðild­ar­viðræður Íslend­inga að sam­eig­in­lega markaðnum, EES, á döf­inni. Hlut­ur Evr­ópu­mál­anna varð sí­fellt meiri og heit­ari á ís­lensk­um stjórn­mála­vett­vangi. Áhug­inn á því sem gerðist í Brus­sel jókst í sam­ræmi við það.

Sem Brus­sel-blaðamaður Morg­un­blaðsins fjallaði Kristó­fer Már um þessi mál af mikl­um áhuga og sí­fellt meiri þekk­ingu eft­ir því sem tengslanet hans í Evr­ópu­heimi Brus­sel­borg­ar stækkaði. Það var ekki heigl­um hent þá frek­ar en núna að átta sig á gangi Evr­ópu­mál­anna og átök­um um hags­muni ein­stakra ríkja á bak við tjöld­in eða á opn­um vett­vangi.

Þeir voru þarna sam­tím­is við blaðamennsku Kristó­fer Már og Bor­is John­son, síðar for­sæt­is­ráðherra Breta, sem varð Brus­sel-frétta­rit­ari The Daily Tel­egraph. Íslend­ing­ar töldu Jacqu­es Del­ors, for­seta fram­kvæmda­stjórn­ar ESB, sér hliðholl­an enda mótaði hann póli­tísk­an grunn EES-samn­ings­ins af hálfu sam­bands­ins. Bor­is John­son lagði hins veg­ar fæð á Del­ors vegna evr­ópskra samruna­áforma hans.

Eft­ir fimm ára blaðamennsku í Brus­sel varð Kristó­fer Már í sept­em­ber 1993 fyrsti for­stöðumaður Evr­ópu­skrif­stofu at­vinnu­lífs­ins í Brus­sel, að henni stóðu Fé­lag ísl. iðnrek­enda og Vinnu­veit­enda­sam­band Íslands. Þegar Kristó­fer Már réðst þar til starfa lá EES-samn­ing­ur­inn fyr­ir og Íslend­ing­ar urðu að fylgj­ast náið með fram­kvæmd hans og gæta hags­muna sinna á þess­um nýja sam­starfs­vett­vangi sem síðan opnaði ís­lenskt sam­fé­lag og leiddi til já­kvæðra breyt­inga á því.

Kristó­fer Már var frum­kvöðull í sam­skipt­um Íslend­inga utan op­in­bera kerf­is­ins við ESB á mót­un­ar­ár­um EES-sam­starfs­ins. Hann vildi ganga lengra og var ekki alltaf sátt­ur við að sitja utan dyra þegar full­trú­ar ESB-ríkj­anna réðu ráðum sín­um en það spillti ekki áhuga hans á að miðla upp­lýs­ing­um um fram­vindu mála í Brus­sel.

Það auðveldaði Kristó­fer Má að vinna þetta brautryðjand­astarf hve hann átti auðvelt með að skapa tengsl við fólk og naut sín í líf­leg­um sam­ræðum. Hann var kank­vís og vin­gjarn­leg­ur. Minn­ing­in um hann er björt og ánægju­leg.

Und­ir lok­in var sjúk­dóms­lega hans stutt og höggið því þyngra en ella fyr­ir hans nán­ustu sem við Rut vott­um inni­lega samúð.

Blessuð sé minn­ing Kristó­fers Más Krist­ins­son­ar.