12.11.2022

Kosningar kalla á uppgjör

Morgunblaðið, laugardag 12. nóvember 2022.

Tvenn­ar kosn­ing­ar fóru á ann­an veg í byrj­un vik­unn­ar en ætla mátti af umræðum fyr­ir þær.

Það lá víða í loft­inu fyr­ir 44. lands­fund sjálf­stæðismanna að áhöld væru um hvor mundi sigra í for­manns­kjöri þar sunnu­dag­inn 6. nóv­em­ber, Bjarni Bene­dikts­son eða Guðlaug­ur Þór Þórðar­son.

Þá var gengið að því sem vísu að demó­krat­ar fengju vond­an skell í banda­rísku kosn­ing­un­um þriðju­dag­inn 8. nóv­em­ber.

Bjarni sigraði ör­ugg­lega í for­manns­kosn­ing­unni 6. nóv­em­ber með 59,4% at­kvæða en Guðlaug­ur Þór fékk 40,4%. Alls greiddu 1.723 at­kvæði á þess­um fjöl­menn­asta lands­fundi frá því að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn var stofnaður árið 1929. Bjarni fékk 1.010 at­kvæði en Guðlaug­ur Þór 687.

Um langt skeið hafði Guðlaug­ur Þór unnið mark­visst að því að nýta sér skipu­lag og fé­laga­kerfi Sjálf­stæðis­flokks­ins til að tryggja sér lands­fund­ar­full­trúa og þar með for­mennsku í Sjálf­stæðis­flokkn­um. Er óút­skýrt hver vegna kosn­inga­vél­in var virkjuð núna þegar þing­kosn­ing­ar verða ekki fyrr en 2025.

Í stjórn­mála­bar­áttu skipta rétt­ar tíma­setn­ing­ar miklu ekki síður en málstaður­inn. Guðlaug­ur Þór sagði eng­an mál­efna­ágrein­ing milli sín og Bjarna. Það skipti hins veg­ar mestu máli að þeir tækj­ust núna á um for­mennsk­una.

Hvort nokk­urn tíma fá­ist viðhlít­andi skýr­ing á því hvers vegna Guðlaug­ur Þór ákvað að láta til skar­ar skríða núna kem­ur í ljós. Kenn­ing­ar eru uppi um að hann hafi ekki viljað bíða eft­ir kyn­slóðaskipt­um í for­ystu flokks­ins. Að þeim hlýt­ur að koma þótt Bjarni og Guðlaug­ur Þór séu báðir á besta aldri.

Við blas­ir eft­ir banda­rísku kosn­ing­arn­ar að þjóðin skipt­ist í tvær álíka stór­ar fylk­ing­ar um þung­un­ar­rof, efna­hags­mál, glæpi og hvernig full­trúa­lýðræðinu skuli háttað. Þessi mál­efni bar hæst í boðskap flokk­anna fyr­ir kosn­ing­ar.

Sýn­ir það styrk að flokk­ur sitj­andi for­seta skuli standa svo fast gegn sókn stjórn­ar­and­stöðunn­ar á tím­um þegar verðbólga er í kring­um 8%. Í 40 ár hef­ur verðbólga ekki verið hærri á einu ári í Banda­ríkj­un­um en liðna 12 mánuði.

Banda­rísk stjórn­völd standa frammi fyr­ir því sama þegar kem­ur að verðbólgu og við blas­ir hér á landi: hef­ur tek­ist að koma bönd­um á hana eða ekki. Um það veit eng­inn með vissu. Á hinn bóg­inn er ljóst að banda­rísk­ir kjós­end­ur vildu ekki neina kollsteypu. Þegar kosið var að hálfnuðum kjör­tíma­bil­um for­set­anna Baracks Obama og Don­alds Trumps töpuðu flokk­ar þeirra mun fleiri þing­mönn­um í full­trúa­deild­inni en flokk­ur Bidens núna.

Demó­krat­inn og for­set­inn Joe Biden verður 80 ára eft­ir níu daga, 20. nóv­em­ber 2022. Hann sagðist í vik­unni stefna á fram­boð til end­ur­kjörs í nóv­em­ber 2024, ákvörðun yrði tek­in snemma á næsta ári. Re­públi­kan­inn og fyrr­ver­andi for­set­inn Don­ald Trump sagði fyr­ir kjör­dag 8. nóv­em­ber að þriðju­dag­inn 15. nóv­em­ber ætlaði hann að gefa „gíf­ur­lega mik­il­væga yf­ir­lýs­ingu“.

Eft­ir kosn­ing­arn­ar 8. nóv­em­ber verður ekki sami glans yfir því sem Trump kann að segja um framtíð sína og áður en kosn­inga­úr­slit­in voru kunn. Kjós­end­ur veittu re­públi­kön­um ekki stuðning­inn sem þeir væntu. Flokk­arn­ir standa jafn­fæt­is. Sam­dóma álit er að einn hafi þó ör­ugg­lega tapað, Don­ald Trump.

Ólík­legt er að Biden og Trump tak­ist að nýju á um for­seta­stól­inn 2024. Sá sem þetta rit­ar verður ekki sakaður um ald­urs­for­dóma þótt hann segi tíma­bært að þeir snúi sér að öðru en að berj­ast áfram um völd í Banda­ríkj­un­um.

Re­públi­kan­inn Ron DeS­ant­is (44 ára) rík­is­stjóri Flórída er tal­inn hafa styrkt stöðu sína svo mjög í kosn­ing­un­um núna að hann komi sterk­lega til greina sem for­setafram­bjóðandi 2024. Trump gaf hon­um gott orð þegar DeS­ant­is bauð sig fram sem rík­is­stjóri 2018. Síðan hef­ur kólnað á milli þeirra og styrkti það stöðu DeS­ant­is núna að Trump hafði horn í síðu hans.

FhLFyUoVEAEaWIZThe New York Post sem Trump lýsti ein­hverju sinni sem eft­ir­læt­is­blaði sínu birti að morgni 9. nóv­em­ber forsíðumynd frá sig­ur­hátíð DeS­ant­is í Flórída kvöldið áður og lýsti hann „DeFut­ure“ - framtíð - flokks re­públi­kana. Í blaðinu var grín­ast með Trumpty Dumpty.

Sjálfs­dýrk­and­inn Trump tek­ur ekki svona gríni vel. Hon­um er ekki held­ur skemmt yfir um­mæl­um um að í kosn­ing­un­um hafi þeim sem hann studdi helst vegnað verst. Herma frétt­ir að ná­föl­ur hafi hann rekið upp reiðiösk­ur í Mar-a-Lago, setri sínu í Flórída, þegar kosn­inga­töl­urn­ar tóku að ber­ast.

Fyr­ir viku var kom­ist þannig að orði hér að eng­inn gæti sagt fyr­ir um áhrif kosn­inga. Þá lá í loft­inu að yrðu for­manns­skipti í Sjálf­stæðis­flokkn­um drægi það dilk á eft­ir sér varðandi stjórn­ar­sam­starfið. Af­drátt­ar­lausa stuðning­inn við Bjarna Bene­dikts­son má túlka sem stuðning flokks­manna við óbreytta aðild flokks­ins að rík­is­stjórn. Nú snýst spurn­ing­in frek­ar um hver verði áhrif for­mann­sátak­anna inn­an Sjálf­stæðis­flokks­ins. Held­ur Guðlaug­ur Þór áfram að leggja rækt við kosn­inga­vél sína þar? Er hann með áform um að bjóða sig fram aft­ur 2024 eins og Biden og Trump? Mörg­um eru svör við þess­um spurn­ing­um of­ar­lega í huga.

Við blas­ir að Trump tókst ekki að festa sig og MAGA-stefnu (Make America Great Again) sína í sessi. Ein­hverj­ir binda von­ir við að Trump sé ekki svo heill­um horf­inn að hann ætli að bjóða sig fram að nýju þegar jafn­marg­ir af skjól­stæðing­um hans hafa fengið slæma út­reið hjá kjós­end­um og um 55% Banda­ríkja­manna eru hon­um óvin­sam­leg.

Áhrif kosn­ing­anna í Banda­ríkj­un­um eru mest inn­an flokks re­públi­kana. Þeir sem fram til þessa hafa haft hægt um sig þar í gagn­rýni á Don­ald Trump fær­ast í auk­ana. Við blas­ir löngu tíma­bært áta­ka­upp­gjör.