Kosningar kalla á uppgjör
Morgunblaðið, laugardag 12. nóvember 2022.
Tvennar kosningar fóru á annan veg í byrjun vikunnar en ætla mátti af umræðum fyrir þær.
Það lá víða í loftinu fyrir 44. landsfund sjálfstæðismanna að áhöld væru um hvor mundi sigra í formannskjöri þar sunnudaginn 6. nóvember, Bjarni Benediktsson eða Guðlaugur Þór Þórðarson.
Þá var gengið að því sem vísu að demókratar fengju vondan skell í bandarísku kosningunum þriðjudaginn 8. nóvember.
Bjarni sigraði örugglega í formannskosningunni 6. nóvember með 59,4% atkvæða en Guðlaugur Þór fékk 40,4%. Alls greiddu 1.723 atkvæði á þessum fjölmennasta landsfundi frá því að Sjálfstæðisflokkurinn var stofnaður árið 1929. Bjarni fékk 1.010 atkvæði en Guðlaugur Þór 687.
Um langt skeið hafði Guðlaugur Þór unnið markvisst að því að nýta sér skipulag og félagakerfi Sjálfstæðisflokksins til að tryggja sér landsfundarfulltrúa og þar með formennsku í Sjálfstæðisflokknum. Er óútskýrt hver vegna kosningavélin var virkjuð núna þegar þingkosningar verða ekki fyrr en 2025.
Í stjórnmálabaráttu skipta réttar tímasetningar miklu ekki síður en málstaðurinn. Guðlaugur Þór sagði engan málefnaágreining milli sín og Bjarna. Það skipti hins vegar mestu máli að þeir tækjust núna á um formennskuna.
Hvort nokkurn tíma fáist viðhlítandi skýring á því hvers vegna Guðlaugur Þór ákvað að láta til skarar skríða núna kemur í ljós. Kenningar eru uppi um að hann hafi ekki viljað bíða eftir kynslóðaskiptum í forystu flokksins. Að þeim hlýtur að koma þótt Bjarni og Guðlaugur Þór séu báðir á besta aldri.
Við blasir eftir bandarísku kosningarnar að þjóðin skiptist í tvær álíka stórar fylkingar um þungunarrof, efnahagsmál, glæpi og hvernig fulltrúalýðræðinu skuli háttað. Þessi málefni bar hæst í boðskap flokkanna fyrir kosningar.
Sýnir það styrk að flokkur sitjandi forseta skuli standa svo fast gegn sókn stjórnarandstöðunnar á tímum þegar verðbólga er í kringum 8%. Í 40 ár hefur verðbólga ekki verið hærri á einu ári í Bandaríkjunum en liðna 12 mánuði.
Bandarísk stjórnvöld standa frammi fyrir því sama þegar kemur að verðbólgu og við blasir hér á landi: hefur tekist að koma böndum á hana eða ekki. Um það veit enginn með vissu. Á hinn bóginn er ljóst að bandarískir kjósendur vildu ekki neina kollsteypu. Þegar kosið var að hálfnuðum kjörtímabilum forsetanna Baracks Obama og Donalds Trumps töpuðu flokkar þeirra mun fleiri þingmönnum í fulltrúadeildinni en flokkur Bidens núna.
Demókratinn og forsetinn Joe Biden verður 80 ára eftir níu daga, 20. nóvember 2022. Hann sagðist í vikunni stefna á framboð til endurkjörs í nóvember 2024, ákvörðun yrði tekin snemma á næsta ári. Repúblikaninn og fyrrverandi forsetinn Donald Trump sagði fyrir kjördag 8. nóvember að þriðjudaginn 15. nóvember ætlaði hann að gefa „gífurlega mikilvæga yfirlýsingu“.
Eftir kosningarnar 8. nóvember verður ekki sami glans yfir því sem Trump kann að segja um framtíð sína og áður en kosningaúrslitin voru kunn. Kjósendur veittu repúblikönum ekki stuðninginn sem þeir væntu. Flokkarnir standa jafnfætis. Samdóma álit er að einn hafi þó örugglega tapað, Donald Trump.
Ólíklegt er að Biden og Trump takist að nýju á um forsetastólinn 2024. Sá sem þetta ritar verður ekki sakaður um aldursfordóma þótt hann segi tímabært að þeir snúi sér að öðru en að berjast áfram um völd í Bandaríkjunum.
Repúblikaninn Ron DeSantis (44 ára) ríkisstjóri Flórída er
talinn hafa styrkt stöðu sína svo mjög í kosningunum núna að hann
komi sterklega til greina sem forsetaframbjóðandi 2024. Trump gaf
honum gott orð þegar DeSantis bauð sig fram sem ríkisstjóri 2018.
Síðan hefur kólnað á milli þeirra og styrkti það stöðu DeSantis núna
að Trump hafði horn í síðu hans.
The New York Post sem Trump lýsti einhverju sinni sem eftirlætisblaði sínu birti að morgni 9. nóvember forsíðumynd frá sigurhátíð DeSantis í Flórída kvöldið áður og lýsti hann „DeFuture“ - framtíð - flokks repúblikana. Í blaðinu var grínast með Trumpty Dumpty.
Sjálfsdýrkandinn Trump tekur ekki svona gríni vel. Honum er ekki heldur skemmt yfir ummælum um að í kosningunum hafi þeim sem hann studdi helst vegnað verst. Herma fréttir að náfölur hafi hann rekið upp reiðiöskur í Mar-a-Lago, setri sínu í Flórída, þegar kosningatölurnar tóku að berast.
Fyrir viku var komist þannig að orði hér að enginn gæti sagt fyrir um áhrif kosninga. Þá lá í loftinu að yrðu formannsskipti í Sjálfstæðisflokknum drægi það dilk á eftir sér varðandi stjórnarsamstarfið. Afdráttarlausa stuðninginn við Bjarna Benediktsson má túlka sem stuðning flokksmanna við óbreytta aðild flokksins að ríkisstjórn. Nú snýst spurningin frekar um hver verði áhrif formannsátakanna innan Sjálfstæðisflokksins. Heldur Guðlaugur Þór áfram að leggja rækt við kosningavél sína þar? Er hann með áform um að bjóða sig fram aftur 2024 eins og Biden og Trump? Mörgum eru svör við þessum spurningum ofarlega í huga.
Við blasir að Trump tókst ekki að festa sig og MAGA-stefnu (Make America Great Again) sína í sessi. Einhverjir binda vonir við að Trump sé ekki svo heillum horfinn að hann ætli að bjóða sig fram að nýju þegar jafnmargir af skjólstæðingum hans hafa fengið slæma útreið hjá kjósendum og um 55% Bandaríkjamanna eru honum óvinsamleg.
Áhrif kosninganna í Bandaríkjunum eru mest innan flokks repúblikana. Þeir sem fram til þessa hafa haft hægt um sig þar í gagnrýni á Donald Trump færast í aukana. Við blasir löngu tímabært átakauppgjör.