Kosningamál: jarðasöfnun og fjárfestingarýni
Morgunblaðið, föstudagur 6. ágúst 2021.
Undir lok maí 2021 skilaði fjölmennur stýrihópur sem forsætisráðherra skipaði í júní 2020 176 bls. lokaskýrslu sinni um heildstæða löggjöf og stjórnsýslu varðandi jarðir, land og aðrar fasteignir. Hópnum var ætlað að ræða leiðir til að nýtingu lands og réttindum sem tengjast landi yrði hagað í samræmi við landkosti með hagsmuni samfélagsins og komandi kynslóða að leiðarljósi, að teknu tilliti til efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra sjónarmiða.
Þarna er um grundvallarmál að ræða sem snertir marga samfélagsþætti. Hér skal drepið á tvo: jarðasöfnun og fjárfestingarýni.
Jarðasöfnun
Í skjali frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands er rætt um áhrif jarðasöfnunar á byggð. Með samþykkt jarðalaga árið 2004 var fólki sem ekki stundaði búskap auðveldað að eignast jarðir. Jarðaverð hækkaði enda tóku „fjáraflamenn“ að kaupa jarðir í fjárfestingarskyni. Fyrirtækið Lífsval átti til dæmis um tíma meirihluta í 45 jörðum áður en það hafnaði í höndum lánardrottna og segir hagfræðistofnun ekki „ljóst hvort fjárfestarnir horfðu til skamms tíma, en eftir á [sé] ljóst að bæði þeir og bankinn fóru óvarlega“. Erfitt sé að koma í veg fyrir glannalegar fjárfestingar jarðasafnara. Varla verði spornað við spákaupmennsku með jarðir nema með því að setja um leið hömlur á alla jarðasöfnun.
Með lagabreytingunni árið 2004 varð auðveldara fyrir erlenda ríkisborgara að kaupa land hér en víða í EES-löndum. Reglur EES-samstarfsins heimila því að setja landakaupum útlendinga þrengri skorður. Telur hagfræðistofnun hins vegar að kaup þeirra hér hafi „sennilega aldrei verið svo mikil að þau hafi haft veruleg áhrif á jarðaverð almennt“. Öðru máli kunni að gegna um staðbundin áhrif sem gætu hafa verið töluverð, bæði á verð jarða og mannlíf í sveitum.
„Tekjur manna eru skattlagðar þar sem þeir eiga heima og ef þeir flytja úr sveitinni flytjast skatttekjurnar með. Viðmælandi varpaði fram þeirri hugmynd að tekjur af hlunnindum yrðu skattlagðar heima í héraði,“ segir hagfræðistofnun. Að baki þessari skoðun liggur ótti við landauðn vegna jarðasöfnunar sé ekkert eftir af hlunnindatekjum í viðkomandi byggðarlagi.
Í fyrra samþykkti Alþingi lög sem heimila ráðherra að hindra jarðakaup ef kaupandinn á fyrir tiltekinn fjölda jarða hér á landi eða jarðirnar fara yfir tiltekna stærð. Í nýju skýrslunni er lagabreytingunni frá í fyrra fylgt eftir með drögum að ítarlegu frumvarpi.
Fjárfestingarýni
Íslensk lög um fjárfestingarýni (e. investmenn screening) standast ekki nútímakröfur. Fjárfestingarýni er stjórnsýsluferli til að skima ákveðna fjárfestingu t.d. í fyrirtæki sem stendur að samfélagslegu grunnvirki.
Í samhengi starfs stýrihóps forsætisráðherra hefur rýniferlið að markmiði að greina fjárfestingu í landi, auðlindum og mikilvægum grunnvirkjum með tilliti til þess hvort hún ógni öryggi, allsherjarreglu, varnarhagsmunum eða annars konar þjóðaröryggishagsmunum.
Víða um lönd gilda reglur um fjárfestingarýni vegna þjóðarhagsmuna þar sem samþætt eru annars vegar sjónarmið um mikilvægi fjárfestingar fyrir efnahagslífið og hins vegar nauðsyn þess að tryggja að fjárfestingin sé samrýmanleg þjóðaröryggishagsmunum. Reglurnar banna ekki fjárfestingu heldur tryggja stjórnvöldum tæki til að skima tilteknar tegundir fjárfestinga á sviði hervarna, orku, flutninga, vatns- og hitaveitu, heilbrigðisstarfsemi og fjarskipta.
Hér er engin heildstæð löggjöf um fjárfestingarýni í þágu þjóðaröryggis. Í lögum um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri er þó að finna svonefnt öryggisákvæði þar sem ráðherra er veitt heimild til að stöðva erlenda fjárfestingu í atvinnurekstri teljist hún ógna öryggi landsins eða ganga gegn allsherjarreglu, almannaöryggi eða almannaheilbrigði, að nánari skilyrðum uppfylltum.
Þetta ákvæði stenst ekki samanburð við nýjar reglur nágranna- og samstarfsríkja og veikir traust þessara ríkja í garð aðila hér á landi.
Ekki val heldur skylda
Fyrr í sumar sagði í Fréttablaðinu að Albert Guðmundsson laganemi hefði í nýrri meistaraprófsritgerð skoðað regluverk um skimun (fjárfestingarýni). Hvatti hann íslensk stjórnvöld til að taka upp skipulegar skimanir á erlendri fjárfestingu.
Í mörgu tilliti er þar ekki um val að ræða heldur skyldu. Samstarf vinveittra ríkja er reist á því að þau meti og skilyrði fjárfestingar með vísan til þjóðaröryggis.
Albert Guðmundsson sagði mikilvægt að lagareglur um skimunina væru skýrar og fyrirsjáanlegar og fælu ekki í sér dulda mismunun:
„Skimanir nágrannalanda taka iðulega til fjárfestinga innan ákveðinna geira eða þvert á geira og miða þá yfirleitt við ákveðinn þröskuld. Til dæmis ef fjárfestingar ná ákveðnum þröskuldi, segjum 10 til 25 prósenta eignarhlut, þá fer skimunarkerfið í gang.“
Albert Guðmundsson sagði að líta yrði til margra þátta við mat á hvenær fjárfesting ógnaði þjóðaröryggi. Í fyrsta lagi yrði að greina og samþykkja að öryggismunur væri á innlendum og erlendum fjárfestingum. Í öðru lagi yrðu íslensk stjórnvöld að lögfesta fjárfestingarýni. Í þriðja lagi yrðu lögin að taka mið af því að það „er alltaf á ábyrgð ríkja að tryggja sitt eigið þjóðaröryggi. Það er enginn annar að fara að passa upp á þjóðaröryggi okkar“.
Hér eru ekki til samræmd korta- og myndagögn af landi til að framkfylgja ákvörðunum stjórnvalda á markvissan hátt.
Kosningamál
Hafi einhver efast um gildi skimana í þágu þjóðaröryggis ætti reynslan af baráttunni við kórónuveiruna að þurrka út allan vafa. Skimun og mat á sýnum er lykilþáttur að baki ákvörðunum yfirvalda um sóttvarnaaðgerðir til að tryggja öryggi og heilbrigði þjóðarinnar.
Mælanlegur árangur í baráttu við veiruna ræður því hvernig ríki eru flokkuð til ferðalaga. Hallað hefur á ógæfuhlið hér undanfarið vegna slíkra mælinga.
Mælanlegur árangur við uppljóstrun peningaþvættis ræður miklu í samskiptum ríkja. Í október 2019 var Ísland sett á gráan lista FATF, alþjóðlegs starfshóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Við vorum skráð af listanum í október 2020 eftir átak af hálfu stjórnvalda.
Sé til grár listi til upplýsinga um skort á fjárfestingarýni er líklegt að Ísland lendi á honum verði ekki lögfestar nútímalegar heimildir til að skima fjárfestingar og tryggja virk stjórnsýsluúrræði á þessu sviði.
Þegar innan við tveir mánuðir eru til alþingiskosninga er rétti tíminn til að vekja athygli á þessum álitaefnum. Eignarhald á landi og hugmyndir um að útlendingar séu að sölsa undir sig óhóflega mikið land eru mikið hitamál. Umræðurnar eru þó oftast á tímum þegar almenningur hefur mun minni áhrif á niðurstöðuna en þegar tækifæri gefst til að knýja á um svör frambjóðenda í tengslum við kosningar.
Við stöndum nágrannaþjóðum að baki við rýni fjárfestinga og hér eru ekki fyrir hendi samræmd korta- og myndgögn af landi til að framfylgja ákvörðunum stjórnvalda á markvissan hátt. Vegna skorts á nútímalegum lögum, stjórnsýslureglum og miðlægum loftmyndagrunni um landamerki verða þessi mál áfram í lausu lofti þar til alþingi tekur af skarið.
Hér á löggjafinn og fjárveitingarvaldið mikið verk óunnið. Þetta er brýnt kosningamál. Verðmæti lands eykst og eftirspurnin vex.