6.8.2021

Kosningamál: jarðasöfnun og fjárfestingarýni

Morgunblaðið, föstudagur 6. ágúst 2021.

Und­ir lok maí 2021 skilaði fjöl­menn­ur stýri­hóp­ur sem for­sæt­is­ráðherra skipaði í júní 2020 176 bls. loka­skýrslu sinni um heild­stæða lög­gjöf og stjórn­sýslu varðandi jarðir, land og aðrar fast­eign­ir. Hópn­um var ætlað að ræða leiðir til að nýt­ingu lands og rétt­ind­um sem tengj­ast landi yrði hagað í sam­ræmi við land­kosti með hags­muni sam­fé­lags­ins og kom­andi kyn­slóða að leiðarljósi, að teknu til­liti til efna­hags­legra, fé­lags­legra og menn­ing­ar­legra sjón­ar­miða.

Þarna er um grund­vall­ar­mál að ræða sem snert­ir marga sam­fé­lagsþætti. Hér skal drepið á tvo: jarðasöfn­un og fjár­fest­ingarýni.

 

Jarðasöfn­un

Í skjali frá Hag­fræðistofn­un Há­skóla Íslands er rætt um áhrif jarðasöfn­un­ar á byggð. Með samþykkt jarðalaga árið 2004 var fólki sem ekki stundaði bú­skap auðveldað að eign­ast jarðir. Jarðaverð hækkaði enda tóku „fjár­afla­menn“ að kaupa jarðir í fjár­fest­ing­ar­skyni. Fyr­ir­tækið Lífs­val átti til dæm­is um tíma meiri­hluta í 45 jörðum áður en það hafnaði í hönd­um lán­ar­drottna og seg­ir hag­fræðistofn­un ekki „ljóst hvort fjár­fest­arn­ir horfðu til skamms tíma, en eft­ir á [sé] ljóst að bæði þeir og bank­inn fóru óvar­lega“. Erfitt sé að koma í veg fyr­ir glanna­leg­ar fjár­fest­ing­ar jarðasafn­ara. Varla verði spornað við spá­kaup­mennsku með jarðir nema með því að setja um leið höml­ur á alla jarðasöfn­un.

Með laga­breyt­ing­unni árið 2004 varð auðveld­ara fyr­ir er­lenda rík­is­borg­ara að kaupa land hér en víða í EES-lönd­um. Regl­ur EES-sam­starfs­ins heim­ila því að setja landa­kaup­um út­lend­inga þrengri skorður. Tel­ur hag­fræðistofn­un hins veg­ar að kaup þeirra hér hafi „senni­lega aldrei verið svo mik­il að þau hafi haft veru­leg áhrif á jarðaverð al­mennt“. Öðru máli kunni að gegna um staðbund­in áhrif sem gætu hafa verið tölu­verð, bæði á verð jarða og mann­líf í sveit­um.

„Tekj­ur manna eru skattlagðar þar sem þeir eiga heima og ef þeir flytja úr sveit­inni flytj­ast skatt­tekj­urn­ar með. Viðmæl­andi varpaði fram þeirri hug­mynd að tekj­ur af hlunn­ind­um yrðu skattlagðar heima í héraði,“ seg­ir hag­fræðistofn­un. Að baki þess­ari skoðun ligg­ur ótti við landauðn vegna jarðasöfn­un­ar sé ekk­ert eft­ir af hlunn­inda­tekj­um í viðkom­andi byggðarlagi.

Í fyrra samþykkti Alþingi lög sem heim­ila ráðherra að hindra jarðakaup ef kaup­and­inn á fyr­ir til­tek­inn fjölda jarða hér á landi eða jarðirn­ar fara yfir til­tekna stærð. Í nýju skýrsl­unni er laga­breyt­ing­unni frá í fyrra fylgt eft­ir með drög­um að ít­ar­legu frum­varpi.

 

Fjár­fest­ingarýni

Íslensk lög um fjár­fest­ingarýni (e. in­vest­menn screen­ing) stand­ast ekki nú­tíma­kröf­ur. Fjár­fest­ingarýni er stjórn­sýslu­ferli til að skima ákveðna fjár­fest­ingu t.d. í fyr­ir­tæki sem stend­ur að sam­fé­lags­legu grunn­virki.

Í sam­hengi starfs stýri­hóps for­sæt­is­ráðherra hef­ur rýni­ferlið að mark­miði að greina fjár­fest­ingu í landi, auðlind­um og mik­il­væg­um grunn­virkj­um með til­liti til þess hvort hún ógni ör­yggi, alls­herj­ar­reglu, varn­ar­hags­mun­um eða ann­ars kon­ar þjóðarör­ygg­is­hags­mun­um.

Víða um lönd gilda regl­ur um fjár­fest­ingarýni vegna þjóðar­hags­muna þar sem samþætt eru ann­ars veg­ar sjón­ar­mið um mik­il­vægi fjár­fest­ing­ar fyr­ir efna­hags­lífið og hins veg­ar nauðsyn þess að tryggja að fjár­fest­ing­in sé sam­rýman­leg þjóðarör­ygg­is­hags­mun­um. Regl­urn­ar banna ekki fjár­fest­ingu held­ur tryggja stjórn­völd­um tæki til að skima til­tekn­ar teg­und­ir fjár­fest­inga á sviði hervarna, orku, flutn­inga, vatns- og hita­veitu, heil­brigðis­starf­semi og fjar­skipta.

Hér er eng­in heild­stæð lög­gjöf um fjár­fest­ingarýni í þágu þjóðarör­ygg­is. Í lög­um um fjár­fest­ingu er­lendra aðila í at­vinnu­rekstri er þó að finna svo­nefnt ör­ygg­is­ákvæði þar sem ráðherra er veitt heim­ild til að stöðva er­lenda fjár­fest­ingu í at­vinnu­rekstri telj­ist hún ógna ör­yggi lands­ins eða ganga gegn alls­herj­ar­reglu, al­manna­ör­yggi eða al­manna­heil­brigði, að nán­ari skil­yrðum upp­fyllt­um.

Þetta ákvæði stenst ekki sam­an­b­urð við nýj­ar regl­ur ná­granna- og sam­starfs­ríkja og veik­ir traust þess­ara ríkja í garð aðila hér á landi.

 

Ekki val held­ur skylda

Fyrr í sum­ar sagði í Frétta­blaðinu að Al­bert Guðmunds­son laga­nemi hefði í nýrri meist­ara­prófs­rit­gerð skoðað reglu­verk um skimun (fjár­fest­ingarýni). Hvatti hann ís­lensk stjórn­völd til að taka upp skipu­leg­ar skiman­ir á er­lendri fjár­fest­ingu.

Í mörgu til­liti er þar ekki um val að ræða held­ur skyldu. Sam­starf vin­veittra ríkja er reist á því að þau meti og skil­yrði fjár­fest­ing­ar með vís­an til þjóðarör­ygg­is.

Al­bert Guðmunds­son sagði mik­il­vægt að laga­regl­ur um skimun­ina væru skýr­ar og fyr­ir­sjá­an­leg­ar og fælu ekki í sér dulda mis­mun­un:

„Skiman­ir ná­granna­landa taka iðulega til fjár­fest­inga inn­an ákveðinna geira eða þvert á geira og miða þá yf­ir­leitt við ákveðinn þrösk­uld. Til dæm­is ef fjár­fest­ing­ar ná ákveðnum þrösk­uldi, segj­um 10 til 25 pró­senta eign­ar­hlut, þá fer skimun­ar­kerfið í gang.“

Al­bert Guðmunds­son sagði að líta yrði til margra þátta við mat á hvenær fjár­fest­ing ógnaði þjóðarör­yggi. Í fyrsta lagi yrði að greina og samþykkja að ör­ygg­is­mun­ur væri á inn­lend­um og er­lend­um fjár­fest­ing­um. Í öðru lagi yrðu ís­lensk stjórn­völd að lög­festa fjár­fest­ingarýni. Í þriðja lagi yrðu lög­in að taka mið af því að það „er alltaf á ábyrgð ríkja að tryggja sitt eigið þjóðarör­yggi. Það er eng­inn ann­ar að fara að passa upp á þjóðarör­yggi okk­ar“.

LmagesHér eru ekki til samræmd korta- og myndagögn af landi til að framkfylgja ákvörðunum stjórnvalda á markvissan hátt.

 

Kosn­inga­mál

Hafi ein­hver ef­ast um gildi skim­ana í þágu þjóðarör­ygg­is ætti reynsl­an af bar­átt­unni við kór­ónu­veiruna að þurrka út all­an vafa. Skimun og mat á sýn­um er lyk­ilþátt­ur að baki ákvörðunum yf­ir­valda um sótt­varnaaðgerðir til að tryggja ör­yggi og heil­brigði þjóðar­inn­ar.

Mæl­an­leg­ur ár­ang­ur í bar­áttu við veiruna ræður því hvernig ríki eru flokkuð til ferðalaga. Hallað hef­ur á ógæfu­hlið hér und­an­farið vegna slíkra mæl­inga.

Mæl­an­leg­ur ár­ang­ur við upp­ljóstrun pen­ingaþvætt­is ræður miklu í sam­skipt­um ríkja. Í októ­ber 2019 var Ísland sett á grá­an lista FATF, alþjóðlegs starfs­hóps um aðgerðir gegn pen­ingaþvætti og fjár­mögn­un hryðju­verka. Við vor­um skráð af list­an­um í októ­ber 2020 eft­ir átak af hálfu stjórn­valda.

Sé til grár listi til upp­lýs­inga um skort á fjár­fest­ingarýni er lík­legt að Ísland lendi á hon­um verði ekki lög­fest­ar nú­tíma­leg­ar heim­ild­ir til að skima fjár­fest­ing­ar og tryggja virk stjórn­sýslu­úr­ræði á þessu sviði.

Þegar inn­an við tveir mánuðir eru til alþing­is­kosn­inga er rétti tím­inn til að vekja at­hygli á þess­um álita­efn­um. Eign­ar­hald á landi og hug­mynd­ir um að út­lend­ing­ar séu að sölsa und­ir sig óhóf­lega mikið land eru mikið hita­mál. Umræðurn­ar eru þó oft­ast á tím­um þegar al­menn­ing­ur hef­ur mun minni áhrif á niður­stöðuna en þegar tæki­færi gefst til að knýja á um svör fram­bjóðenda í tengsl­um við kosn­ing­ar.

Við stönd­um ná­grannaþjóðum að baki við rýni fjár­fest­inga og hér eru ekki fyr­ir hendi sam­ræmd korta- og mynd­gögn af landi til að fram­fylgja ákvörðunum stjórn­valda á mark­viss­an hátt. Vegna skorts á nú­tíma­leg­um lög­um, stjórn­sýslu­regl­um og miðlæg­um loft­mynda­grunni um landa­merki verða þessi mál áfram í lausu lofti þar til alþingi tek­ur af skarið.

Hér á lög­gjaf­inn og fjár­veit­ing­ar­valdið mikið verk óunnið. Þetta er brýnt kosn­inga­mál. Verðmæti lands eykst og eft­ir­spurn­in vex.