4.5.2024

Kosið um menn en ekki málefni

Morgunblaðið, laugardagur 4. maí 2024.

Tólf fram­bjóðend­ur verða í kjöri til embætt­is for­seta Íslands 1. júní næst­kom­andi. Umræðurn­ar um ágæti þeirra eru hafn­ar og fjöl­miðlamenn spyrja þá um allt milli him­ins og jarðar. Skoðanakann­an­ir ráða miklu um and­rúms­loftið eins og eðli­legt er þegar valið stend­ur á milli ein­stak­linga en ekki stefnu þeirra eða flokka.

Vegna frétta um völd for­seta ann­ars staðar líta marg­ir ís­lensk­ir kjós­end­ur for­seta­embættið öðrum aug­um en rétt­mætt er. Í grunn­inn er for­seti Íslands valda­laus. Embættið er lif­andi þjóðar­tákn eins og þjóðfán­inn eða þjóðsöng­ur­inn sem ætlað er að sam­eina en ekki sundra. For­seti set­ur þjóðinni ekki dag­skrá.

Ólaf­ur Ragn­ar Gríms­son breytti þess­ari ímynd fyr­ir rétt­um tutt­ugu árum. Þá lék hér allt á reiðiskjálfi vegna stjórn­ar­frum­varps um fjöl­miðla og var miðlum Baugs­manna beitt hömlu­laust gegn rík­is­stjórn og ein­stök­um ráðherr­um vegna frum­varps­ins. Í Baugs­miðlun­um var kallað á Ólaf Ragn­ar Gríms­son, for­seta Íslands, til lands­ins enda skyldi hann neita að rita und­ir fjöl­miðlalög­in. Skipu­lögð var söfn­un und­ir­skrifta til að auðvelda hon­um það. For­set­inn hafnaði lög­un­um og rík­is­stjórn­in aft­ur­kallaði þau.

Þarna var ten­ing­um kastað og tala sum­ir eins og for­set­inn sé mót­vægi við þing­ræðið.

Ýtt er und­ir hug­mynd­ir um nýtt eðli for­seta­embætt­is­ins með vanga­velt­um um að ein­stak­ir fram­bjóðend­ur ætli að gera þetta eða hitt án þess að for­seti hafi nokkuð um viðkom­andi mál að segja í embætt­is­nafni. Full­yrðing­ar sem sýna brenglaða vitn­eskju um starfs­svið for­seta ýta bæði und­ir rang­hug­mynd­ir hjá kjós­end­um og hjá fram­bjóðend­um sjálf­um.

Kröf­ur hafa komið fram um að þrengja nál­ar­auga fram­bjóðenda til for­seta­embætt­is­ins með því að hækka tölu meðmæl­enda þeirra í stjórn­ar­skránni. Skerpa þarf á fleiri ákvæðum varðandi for­seta­embættið. Sé vilji til þess að for­seti skapi mót­vægi við lög­gjaf­ann ber að veita for­seta nýtt hlut­verk með breyt­ingu á stjórn­ar­skránni. Þá ætti einnig að breyta sér­ís­lensku regl­unni og ákveða að for­seti verði að njóta stuðnings meiri­hluta kjós­enda, það er taka upp tveggja um­ferða kosn­ingu.

986782Bessastaðir (mynd: mbl.is/Kristinn Magnússon).

Regl­an um tvö­falda kosn­ingu for­seta gild­ir í 18 Evr­ópu­lönd­um, í 11 Evr­ópu­lönd­um eru for­set­ar kjörn­ir óbeint, það er af þjóðþing­um eða kjör­mönn­um. Í aðeins tveim­ur Evr­ópu­ríkj­um, Bosn­íu-Her­segóvínu og Íslandi, er for­seti kjör­inn í einni um­ferð. Dreif­ist at­kvæði á marga get­ur þriðjung­ur at­kvæða eða minna dugað til að ná kjöri, sé ekki kraf­ist meiri­hluta kjós­enda að baki þeim sem embættið skip­ar.

Þessi gamla regla um eina um­ferð er sér­ís­lensk. Í Bosn­íu-Her­segóvínu, sem varð sjálf­stæð á fyrri hluta 10. ára­tug­ar­ins, var deila þjóðar­brota leyst með því að for­seta­embættið fær­ist á fjög­urra ára kjör­tíma­bili á átta mánaða fresti milli þriggja full­trúa Bosn­íu­manna, Serba og Króata sem hver um sig er kjör­inn beint af sínu þjóðar­broti.

Þegar fyr­ir­komu­lag um kjör for­seta er ákveðið má setja mis­mun­andi mark­mið. Mark­mið ís­lensku regl­unn­ar er að auðvelda sem flest­um fram­boð. Þar sem regl­an um tvær um­ferðir gild­ir er gjarn­an sagt að í fyrri um­ferðinni láti menn hjartað ráða en heil­ann í þeirri síðari. Í fyrri um­ferðinni má kasta at­kvæðum á glæ. Al­var­an birt­ist þegar tveir fram­bjóðend­ur tak­ast á um fylgi kjós­enda.

Tvö­falda kerfið get­ur leitt til óvæntr­ar niður­stöðu eins og varð í Frakklandi árið 2002 þegar Jean-Marie Le Pen, fram­bjóðandi Þjóðfylk­ing­ar­inn­ar, komst í aðra um­ferðina gegn Jacqu­es Chirac, sitj­andi for­seta.

Í fyrri um­ferðinni fékk Chirac ekki nema 20% at­kvæða og töldu flest­ir lík­legt að sósí­alist­inn Li­o­nel Jospin yrði keppi­naut­ur hans í seinni um­ferðinni en Le Pen skaust upp fyr­ir Jospin. Tvær vik­ur eru á milli kjör­daga í Frakklandi og á þeim tíma var stofnað til víðtæks sam­blást­urs gegn Le Pen án til­lits til flokks­banda. Fyr­ir vinst­ris­inna var mjög erfitt að kjósa Chirac en þeir létu sig hafa það und­ir slag­orðum eins og þess­um: Kjósið skúrk­inn en ekki fas­ist­ann! og Kjósið með nef­klemmu!

Chirac vann stór­sig­ur og fékk 82% at­kvæða en vin­sæld­ir hans hríðféllu eft­ir því sem leið á kjör­tíma­bilið og árið 2006 lýsti The Econom­ist hon­um sem óvin­sæl­asta íbúa for­seta­hall­ar­inn­ar í fimmta franska lýðveld­inu frá því að það var stofnað árið 1958.

Í frönsku for­seta­kosn­ing­un­um 2017 og 2022 sigraði Emm­anu­el Macron dótt­ur Jean-Marie Le Pen, Mar­ine Le Pen, í seinni um­ferðinni með 66,1% at­kvæða 2017 og 58,5% at­kvæða 2022. Var það í fyrsta sinn frá 2002 sem fransk­ur for­seti náði end­ur­kjöri.

Ekk­ert skal full­yrt um hvort hér láti menn hjartað eða heil­ann ráða þegar þeir kjósa for­seta í einni um­ferð. Aug­ljóst er af fjölda fram­bjóðenda að veðjað er á að mik­il dreif­ing at­kvæða geti opnað hverj­um sem er leiðina á Bessastaði.

Í Frakklandi hef­ur til þessa tek­ist að safna nægu liði á milli kjör­daga til að kjósa þann sem hall­ast að vilja hefðbund­inna valda­kjarna í land­inu og fylg­ir stefnu sem fell­ur að sjón­ar­miðum þeirra sem stjórna fjöl­miðlum meg­in­straums­ins.

Þar er því hins veg­ar spáð að bjóði Mar­ine Le Pen sig fram til for­seta árið 2027 kunni hún að ná tak­marki sínu. Í frönsku þing­kosn­ing­un­um 2022 felldi hún meiri­hluta Macrons á þingi. Nú hef­ur dregið úr öfg­um henn­ar og berst hún til dæm­is ekki leng­ur gegn aðild Frakk­lands að Evr­ópu­sam­band­inu.

Í Frakklandi er tek­ist á um stefnu og völd for­seta. Í for­seta­kosn­ing­um hér á landi er það ekki gert, kosið er um menn en ekki mál­efni. Enn á ný skal varað við að öðru­vísi sé látið í kosn­inga­bar­átt­unni.