Könnun nýtist í þágu nemenda
Morgunblaðið, laugardagur, 9. desember 2023
Í PISA-könnuninni 2022 birtast upplýsingar um hæfni 15 ára nemenda í 81 landi í lesskilningi, læsi á náttúruvísindi og læsi á stærðfræði. Ekkert aðildarríki Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD, lækkar jafn mikið milli PISA-kannana 2018 og 2022 og Ísland.
Íslendingar eru lægstir norrænu þjóðanna og nálgast nú botninn meðal 37 OECD-ríkja af 81 ríki sem tók þátt í könnuninni. Aðeins fimm OECD-ríki fá lægri einkunn: Grikkland, Chile, Mexíkó, Kosta Ríka og Kólumbía.
Hrap íslenskra nemenda er mikið í lesskilningi. Í reglugerð menntamálaráðherra, aðalnámskrá leik- og grunnskóla frá 2011, er læsi skilgreint á eftirfarandi hátt:
„Meginmarkmið læsis er að nemendur séu virkir þátttakendur í að umskapa og umskrifa heiminn með því að skapa eigin merkingu og bregðast á persónulegan og skapandi hátt við því sem þeir lesa með hjálp þeirra miðla og tækni sem völ er á.“
Í lesskilningi ná 60% íslenskra unglinga grunnhæfni, en á Norðurlöndunum, eins og í OECD-löndunum að meðaltali, er hlutfallið 74%. Strákar búa hér yfir verri lesskilningi en stúlkur. Aðeins rúmlega helmingur þeirra, 53%, býr yfir grunnhæfni í lesskilningi, en 68% stúlkna.
Það er mikið áhyggjuefni sé svo komið að nemendur telji sig geta notið sín í lífi og starfi án þess að hafa náð tökum á lestri og skilningi á því sem þeir lesa.
Skortur á lesskilningi býður heim hættu á að alið sé á ranghugmyndum og haldið sé að fólki blekkingum sem það hefur ekki kunnáttu til að verjast. Nú á tímum ber hátt umræður um falsfréttir og upplýsingaóreiðu. Reynt er að grafa undan trú á frjálslyndum, lýðræðislegum stjórnarháttum með alls kyns bábiljum, þjóðaröryggi kann að verða ógnað.
Á vefsíðunni Læsi er lykillinn, sem er vistuð hjá Akureyrarbæ, segir að lestur og lesskilningur séu tengd hugtök, merking þeirra sé hins vegar ekki sú sama. Tök á lestri séu nauðsynleg til að hægt sé að lesa sér til skilnings en fleira þurfi til að lesskilningur sé tryggður, svo sem málskilning, bakgrunnsþekkingu, rökhugsun og ályktunarhæfni. Almenn þekking og reynsla geti því skipt sköpum fyrir skilning á texta og kenna þurfi börnum að nýta rökhugsun og ályktunarhæfni til að lesa á milli línanna og ráða í merkingu textans.
Menntavísindasvið Háskóla Íslands hefur gert Lesvefinn í samstarfi við menntamálaráðuneytið. Þar segir að lesskilningur sé „afar flókið ferli“ sem feli í sér fjölþætta, hugræna úrvinnslu. Ótalmargir áhrifaþættir komi þar við sögu. Þess vegna geti margar ólíkar en jafnframt samverkandi ástæður legið fyrir því að börn lendi í erfiðleikum með lesskilning.
Hér verður ekki vikið að fræðilegri útlistun en bent á að þarna segir einnig að „allir“ séu sammála um „að markmið bekkjarkennara, sérkennara, foreldra og annarra sem koma að námi barna og unglinga skuli beinast að því að kenna börnum að skilja það sem lesið er“. Fyrsta skrefið að því markmiði sé að átta sig á að börn og ungmenni séu misvel undirbúin „til að skilja hinn óendanlega fjölbreytileika ritmálsins og vinna með þá ólíku texta sem nám í leik-, grunn- og framhaldsskóla leggur þeim á herðar“.
Þarna er hvergi minnst á að einhverjar sérstakar kerfislægar aðstæður ráði því hvort takist að ýta undir áhuga á lestri og skapa lesskilning. Þess vegna kom á óvart að mennta- og barnamálaráðherra Ásmundur Einar Daðason brást við lélegum árangri í PISA-könnuninni 2022 með því að ræða „umgjörð menntakerfisins“ í samtali við mbl.is 5. desember. Á alþingi hefðu 4. desember verið greidd atkvæði um nýja menntamálastofnun, þá væri unnið að skólaþjónustulöggjöf sem yki stuðning við kennara og skólana auk nýs matskerfis. „Allar þessar breytingar eru meðal annars tilkomnar vegna niðurstöðu síðustu kannana,“ sagði Ásmundur.
Hafi ráðherrann með orðum sínum vísað til PISA-könnunarinnar frá 2018 þar sem lesskilningur íslenskra nemenda mældist einnig lítill og heitstrenginga um umbætur af þeim sökum er hann fimm árum of seinn með umbætur sínar. Fall íslenskra nemenda milli 2018 og 2022 er mikið. Vörnin frá 2018 mistókst. Það skapar hvorki fótfestu né sóknarstöðu núna að líta á „umgjörð menntakerfisins“. Það verður að skoða innra starfið, hvers vegna markmið aðalnámskrárinnar nást ekki.
Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands (KÍ), sagði við mbl.is þriðjudaginn 5. desember að frá 2009 hefði sigið á ógæfuhliðina þótt mikil vinna hefði verið „lögð í lesskilning en einhverra hluta vegna virðist það ekki hafa skilað sér“. Velti hann fyrir sér hvort ákvæði aðalnámskrár um „minna vægi heildarnámsmats“ – það er t.d. samræmdra prófa – hefði áhrif á útkomu fyrir utan uppsetningu PISA-prófsins. Það væri langt skriflegt próf „sem íslenskt skólakerfi hefur svolítið ýtt til hliðar í grunnskólanum vegna nýrrar námskrár,“ sagði formaður KÍ.
Íslenskir grunnskólanemendur eru sem sagt ekki þjálfaðir í vinnubrögðum sem auðvelda þeim að ná árangri í samanburði við aðra. Þeir kynnast ekki aganum við að taka löng skrifleg próf.
Menntamálastofnun stendur gegn því að stjórnendur einstakra skóla fái með PISA vitneskju um stöðu síns skóla og nemenda hans. PISA-könnunin sé ekki til þess fallin að veita áreiðanlegar upplýsingar um frammistöðu fámennra nemendahópa í einstökum skólum. Hún sýni kerfisárangur.
PISA-könnunin er ekki gerð í þágu kerfisins heldur nemenda. Nýti kerfið hins vegar könnunina aðeins fyrir sig og loki á annað, gjalda nemendur þess.