9.12.2023

Könnun nýtist í þágu nemenda

Morgunblaðið, laugardagur, 9. desember 2023

Í PISA-könn­un­inni 2022 birt­ast upp­lýs­ing­ar um hæfni 15 ára nem­enda í 81 landi í lesskiln­ingi, læsi á nátt­úru­vís­indi og læsi á stærðfræði. Ekk­ert aðild­ar­ríki Efna­hags- og fram­fara­stofn­un­ar­inn­ar, OECD, lækk­ar jafn mikið milli PISA-kann­ana 2018 og 2022 og Ísland.

Íslend­ing­ar eru lægst­ir nor­rænu þjóðanna og nálg­ast nú botn­inn meðal 37 OECD-ríkja af 81 ríki sem tók þátt í könn­un­inni. Aðeins fimm OECD-ríki fá lægri ein­kunn: Grikk­land, Chile, Mexí­kó, Kosta Ríka og Kól­umbía.

Hrap ís­lenskra nem­enda er mikið í lesskiln­ingi. Í reglu­gerð mennta­málaráðherra, aðal­nám­skrá leik- og grunn­skóla frá 2011, er læsi skil­greint á eft­ir­far­andi hátt:

„Meg­in­mark­mið læsis er að nem­end­ur séu virk­ir þátt­tak­end­ur í að um­skapa og umskrifa heim­inn með því að skapa eig­in merk­ingu og bregðast á per­sónu­leg­an og skap­andi hátt við því sem þeir lesa með hjálp þeirra miðla og tækni sem völ er á.“

Í lesskiln­ingi ná 60% ís­lenskra ung­linga grunn­hæfni, en á Norður­lönd­un­um, eins og í OECD-lönd­un­um að meðaltali, er hlut­fallið 74%. Strák­ar búa hér yfir verri lesskiln­ingi en stúlk­ur. Aðeins rúm­lega helm­ing­ur þeirra, 53%, býr yfir grunn­hæfni í lesskiln­ingi, en 68% stúlkna.

Það er mikið áhyggju­efni sé svo komið að nem­end­ur telji sig geta notið sín í lífi og starfi án þess að hafa náð tök­um á lestri og skiln­ingi á því sem þeir lesa.

Ms_skolastarf-1

Skort­ur á lesskiln­ingi býður heim hættu á að alið sé á rang­hug­mynd­um og haldið sé að fólki blekk­ing­um sem það hef­ur ekki kunn­áttu til að verj­ast. Nú á tím­um ber hátt umræður um fals­frétt­ir og upp­lýs­inga­óreiðu. Reynt er að grafa und­an trú á frjáls­lynd­um, lýðræðis­leg­um stjórn­ar­hátt­um með alls kyns bá­bilj­um, þjóðarör­yggi kann að verða ógnað.

Á vefsíðunni Læsi er lyk­ill­inn, sem er vistuð hjá Ak­ur­eyr­ar­bæ, seg­ir að lest­ur og lesskiln­ing­ur séu tengd hug­tök, merk­ing þeirra sé hins veg­ar ekki sú sama. Tök á lestri séu nauðsyn­leg til að hægt sé að lesa sér til skiln­ings en fleira þurfi til að lesskiln­ing­ur sé tryggður, svo sem málskiln­ing, bak­grunnsþekk­ingu, rök­hugs­un og álykt­un­ar­hæfni. Al­menn þekk­ing og reynsla geti því skipt sköp­um fyr­ir skiln­ing á texta og kenna þurfi börn­um að nýta rök­hugs­un og álykt­un­ar­hæfni til að lesa á milli lín­anna og ráða í merk­ingu text­ans.

Menntavís­inda­svið Há­skóla Íslands hef­ur gert Lesvef­inn í sam­starfi við mennta­málaráðuneytið. Þar seg­ir að lesskiln­ing­ur sé „afar flókið ferli“ sem feli í sér fjölþætta, hug­ræna úr­vinnslu. Ótalmarg­ir áhrifaþætt­ir komi þar við sögu. Þess vegna geti marg­ar ólík­ar en jafn­framt sam­verk­andi ástæður legið fyr­ir því að börn lendi í erfiðleik­um með lesskiln­ing.

Hér verður ekki vikið að fræðilegri út­list­un en bent á að þarna seg­ir einnig að „all­ir“ séu sam­mála um „að mark­mið bekkjar­kenn­ara, sér­kenn­ara, for­eldra og annarra sem koma að námi barna og ung­linga skuli bein­ast að því að kenna börn­um að skilja það sem lesið er“. Fyrsta skrefið að því mark­miði sé að átta sig á að börn og ung­menni séu mis­vel und­ir­bú­in „til að skilja hinn óend­an­lega fjöl­breyti­leika rit­máls­ins og vinna með þá ólíku texta sem nám í leik-, grunn- og fram­halds­skóla legg­ur þeim á herðar“.

Þarna er hvergi minnst á að ein­hverj­ar sér­stak­ar kerf­is­læg­ar aðstæður ráði því hvort tak­ist að ýta und­ir áhuga á lestri og skapa lesskiln­ing. Þess vegna kom á óvart að mennta- og barna­málaráðherra Ásmund­ur Ein­ar Daðason brást við lé­leg­um ár­angri í PISA-könn­un­inni 2022 með því að ræða „um­gjörð mennta­kerf­is­ins“ í sam­tali við mbl.is 5. des­em­ber. Á alþingi hefðu 4. des­em­ber verið greidd at­kvæði um nýja mennta­mála­stofn­un, þá væri unnið að skólaþjón­ustu­lög­gjöf sem yki stuðning við kenn­ara og skól­ana auk nýs mat­s­kerf­is. „All­ar þess­ar breyt­ing­ar eru meðal ann­ars til­komn­ar vegna niður­stöðu síðustu kann­ana,“ sagði Ásmund­ur.

Hafi ráðherr­ann með orðum sín­um vísað til PISA-könn­un­ar­inn­ar frá 2018 þar sem lesskiln­ing­ur ís­lenskra nem­enda mæld­ist einnig lít­ill og heit­streng­inga um um­bæt­ur af þeim sök­um er hann fimm árum of seinn með um­bæt­ur sín­ar. Fall ís­lenskra nem­enda milli 2018 og 2022 er mikið. Vörn­in frá 2018 mistókst. Það skap­ar hvorki fót­festu né sókn­ar­stöðu núna að líta á „um­gjörð mennta­kerf­is­ins“. Það verður að skoða innra starfið, hvers vegna mark­mið aðal­nám­skrár­inn­ar nást ekki.

Magnús Þór Jóns­son, formaður Kenn­ara­sam­bands Íslands (KÍ), sagði við mbl.is þriðju­dag­inn 5. des­em­ber að frá 2009 hefði sigið á ógæfu­hliðina þótt mik­il vinna hefði verið „lögð í lesskiln­ing en ein­hverra hluta vegna virðist það ekki hafa skilað sér“. Velti hann fyr­ir sér hvort ákvæði aðal­nám­skrár um „minna vægi heild­ar­náms­mats“ – það er t.d. sam­ræmdra prófa – hefði áhrif á út­komu fyr­ir utan upp­setn­ingu PISA-prófs­ins. Það væri langt skrif­legt próf „sem ís­lenskt skóla­kerfi hef­ur svo­lítið ýtt til hliðar í grunn­skól­an­um vegna nýrr­ar nám­skrár,“ sagði formaður KÍ.

Íslensk­ir grunn­skóla­nem­end­ur eru sem sagt ekki þjálfaðir í vinnu­brögðum sem auðvelda þeim að ná ár­angri í sam­an­b­urði við aðra. Þeir kynn­ast ekki ag­an­um við að taka löng skrif­leg próf.

Mennta­mála­stofn­un stend­ur gegn því að stjórn­end­ur ein­stakra skóla fái með PISA vitn­eskju um stöðu síns skóla og nem­enda hans. PISA-könn­un­in sé ekki til þess fall­in að veita áreiðan­leg­ar upp­lýs­ing­ar um frammistöðu fá­mennra nem­enda­hópa í ein­stök­um skól­um. Hún sýni kerf­is­ár­ang­ur.

PISA-könn­un­in er ekki gerð í þágu kerf­is­ins held­ur nem­enda. Nýti kerfið hins veg­ar könn­un­ina aðeins fyr­ir sig og loki á annað, gjalda nem­end­ur þess.