15.12.2017

Kjarnorkustefna íslenskra stjórnvalda er skýr

Morgunblaðið 15. desember 2017

lþjóðasamtök um útrýmingu kjarnavopna (ICAN) hlutu friðarverðlaun Nóbels í ár og voru þau afhent í ráðhúsinu í Osló sunnudaginn 10. desember. Þetta er árleg, hátíðleg athöfn sem sótt er af norskum fyrirmennum og öðrum gestum. Nóbelsverðlaunahafinn eða fulltrúi hans flytur ræðu og að þessu sinni kom það í hlut Beatrice Fihn, formanns ICAN, að gera það.

Í fréttum af athöfninni og ræðunni var þess getið i norrænum blöðum að Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, hefði ekki klappað Fihn lof í lófa jafnoft og aðrir áheyrendur í hátíðarsal ráðhússins.

Í ræðunni sagði hún meðal annars: „Karlar ekki konur smíðuðu kjarnorkuvopn til að hafa stjórn á öðrum, en þess í stað tóku þau að stjórna þeim. [...] Við þjóðirnar sem telja sig njóta verndar kjarnorkuhlífarinnar segi ég: Stuðningur ykkar við kjarnorkuveldin dregur ekki úr samábyrgð ykkar á eyðileggingu á öðrum í ykkar nafni.“

Ágreiningur um leiðir


Beatrice Fihn hitti Solberg í morgunverði í ráðherrabústað Norðmanna mánudaginn 11. desember og þá spurðu blaðamenn hana hvað henni þætti um að ræða við forsætisráðherra sem hefði ekki hyllt hana með lófataki eins og aðrir sem hlustuðu á ræðu hennar.

Fihn svaraði að hún hefði ekki tekið eftir „hjásetu“ forsætisráðherrans í lófatakinu. Hún hefði einfaldlega fundið mikla hlýju frá salnum.

Erna Solberg sagði að hún hefði látið hjá líða að klappa fyrir tveimur atriðum í ræðu Fihn. Þetta hefði hún gert af því að hún væri ósammála Fihn um þessi atriði. „Ég tel að ekki sé rétt að klappa hvað eftir annað á meðan ræða er flutt því að það þýðir að maður sé að öllu leyti sammála. Mér fannst þetta því heiðarleg aðferð,“ sagði Solberg.

Hún áréttaði að Norðmenn væru sammála markmiðinu um kjarnorkuvopnalausan heim en uppi væru ólík sjónarmið um hvernig því mætti ná. Hér væri um að ræða langtíma markmið sem næðist ekki nema með samvinnu milli kjarnorkuveldanna og ríkja sem ekki ráða yfir kjarnorkuvopnum.

Norðmenn styðja ekki kröfu ICAN um að öll lönd verði aðilar að sáttmála Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum sem samþykktur var í sumar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna með atkvæðum 122 ríkja. Norska ríkisstjórnin telur að alþjóðasamningurinn sé lítils virði því að niðurstaða fáist ekki í þessu máli nema um sé að ræða gagnkvæma samninga milli kjarnorkuveldanna sjálfra.

Í samtalinu við Fihn nefndi Erna Solberg að staðan í Norður-Kóreu drægi nú sérstaka athygli að kjarnorkuvopnum, sem aðildarþjóð NATO gætu Norðmenn ekki gerst aðilar að sáttmála sem veikti bandalagið.

Beatrice Fihn lagði áherslu á að Norðmenn hefðu forystuhlutverki að gegna í baráttunni gegn kjarnorkuvopnum og þeir væru stórþjóð þegar kæmi að mannúðarmálum.

„Við höfum unnið náið með norskum yfirvöldum frá því árið 2013 þegar þau skipulögðu Osló-ráðstefnuna um afleiðingar af kjarnorkuvopnum fyrir mannlegt líf  og teljum að við getum unnið áfram með þeim að markmiðinu um kjarnorkuvopnalausan heim,“ sagði Fihn og hét að þrýsta áfram á norsk stjórnvöld í von um að þau samþykktu sáttmála SÞ.

Þrýst á Ísland


ICAN-samtökin ætla ekki aðeins að þrýsta á norsk stjórnvöld eftir að þau hafa fengið friðarverðlaun Nóbels heldur sækja þau fram víðar til að vinna að framgangi ályktunar SÞ.

Mánudaginn 11. desember sendi Alþjóðamálastofnun HÍ frá sér tilkynningu um opinn fund á vegum Höfða friðarseturs, Samtaka hernaðarandstæðinga, Menningar- og friðarsamtaka íslenskra kvenna og Róttæka sumarháskólans undir fyrirsögninni: Kjarnorkuvopn: Er Ísland með eða á móti? Þar sagði:

„Þann 7. júlí síðastliðinn greiddu 122 þjóðir atkvæði með samningi Sameinuðu þjóðanna um bann við kjarnorkuvopnum. Ísland var ekki í þeim hópi. Þess í stað skipaði það sér í flokk NATO-ríkja sem sniðgengu undirbúningsviðræðurnar í þeirri trú að bandarísk kjarnorkuvopn geti tryggt heimsfrið. Ray Acheson og Tim Wright frá alþjóðasamtökunum um útrýmingu kjarnavopna (ICAN) munu ræða hinn nýja alþjóðasáttmála og færa rök fyrir því hvers vegna Ísland ætti að styðja hann. ICAN-samtökin hlutu friðarverðlaun Nóbels árið 2017 fyrir störf sín.“

Þarna stingur ein setning í stúf við annað: „ Þess í stað skipaði það [Ísland] sér í flokk NATO-ríkja sem sniðgengu undirbúningsviðræðurnar í þeirri trú að bandarísk kjarnorkuvopn geti tryggt heimsfrið.“ Þetta eru tilbúin rök í áróðursskyni. Í ætt við rangar yfirlýsingar á sínum tíma um að kjarnorkuvopn væru í Keflavíkurstöðinni.

Skýrt afstaða íslenskra stjórnvalda


Afstaða íslenskra stjórnvalda til kjarnorkuvopna er skýr. Hún var rædd á alþingi í aðdraganda samþykktar Sameinuðu þjóðanna 7. júlí 2017. Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG, spurði  Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra og hann svaraði meðal annars á þennan veg:

„Afstaða Íslands til kjarnavopna er skýr, sú að stefna skuli að kjarnorkuvopnalausri veröld og að kjarnavopnum sé eytt með markvissum og gagnkvæmum hætti. Við teljum líklegast til árangurs og raunhæfustu leiðina að styðjast við þá samninga og ferli sem fyrir liggja, til að mynda samninginn um bann við útbreiðslu kjarnavopna, NPT. Í þessu tilliti hefur Ísland í gegnum tíðina stutt margvíslegar ályktanir á vettvangi Sameinuðu þjóðanna sem lúta að þessu markmiði.

Við studdum hins vegar ekki þá ályktun sem liggur að baki þeim viðræðum sem hefjast í næsta mánuði og spurt er um. Ástæðan er m.a. sú að fyrir fram var ljóst að kjarnorkuvopnaveldin tækju ekki þátt í því ferli. Við teljum nauðsynlegt að þau sitji við borðið þegar samið er um fækkun kjarnavopna. Öðruvísi næst ekki árangur.

Ég get hins vegar vel tekið undir að of hægt gangi í þeim efnum og ýmsar blikur séu á lofti í öryggismálum. Við skulum þó ekki gleyma því að margvíslegur árangur hefur náðst. Síðastliðið haust fögnuðum við 30 ára afmæli leiðtogafundarins í Höfða sem var aflvaki meiri háttar fækkunar í kjarnavopnabúrum risaveldanna á þeim tíma. Þannig hefur kjarnavopnum undir stjórn Atlantshafsbandalagsins fækkað um allt að 90% frá lokum kalda stríðsins.“

Þarna kemur fram sama sjónarmið og hjá Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, að án þátttöku kjarnorkuveldanna séu ályktanir um útrýmingu kjarnorkuvopna marklitlar. Þegar rætt er um afstöðu NATO-ríkjanna er ástæðulaust að gleyma því að auk Bandaríkjamanna eiga Bretar og Frakkar kjarnorkuvopn. Þessar þjóðir hafa fækkað vopnum sínum um allt að 90% undanfarinn aldarfjórðung.

Barátta fyrir aðild Norðmanna eða Íslendinga að sáttmála SÞ frá 7. júlí breytir engu um stöðuna í kjarnorkumálum. Markmið hennar er fyrst og síðast pólitískt: að sundra samstöðu NATO-ríkjanna. Það fellur ekki að þjóðaröryggisstefnu Íslands.