9.7.2022

Kjarnorka, gas og jarðvarmi

Morgunblaðið, laugardagur 9. júlí 2022.

Á þingi Evr­ópu­sam­bands­ins voru miðviku­dag­inn 6. júlí greidd at­kvæði um mikið hita­mál. Meiri­hluti þing­manna (328:278 – 33 sátu hjá) samþykkti um­deilda til­lögu um að skil­greina fjár­fest­ing­ar í kjarn­orku­ver­um og nýt­ingu á gasi sem „sjálf­bær­ar“.

Frakk­ar hafa lengi viljað að litið sé á fjár­fest­ing­ar í kjarn­orku­ver­um sem sjálf­bær­ar og græn­ar. Þjóðverj­ar vildu í byrj­un árs­ins að gas yrði sett í sömu skúffu fyr­ir fjár­festa í græn­um verk­efn­um. ESB-stórþjóðirn­ar fóru að hvatn­ingu stórþjóðanna eins og oft áður.

Við það fór bolt­inn af stað og fram­kvæmda­stjórn ESB lagði til breyt­ingu á flokk­un­ar­regl­um sem eiga að tryggja fjár­fest­um að þeir geti full­vissað fjár­magnseig­end­ur um að fé þeirra renni til sjálf­bærra grænna verk­efna en ekki sé um „grænþvott“ á fé að ræða. Þetta skipt­ir til dæm­is miklu fyr­ir stjórn­end­ur líf­eyr­is­sjóða sem vilja full­vissa sjóðfé­laga um að fé þeirra sé varið í þágu lofts­lags­mark­miða.

Lík­legt er að ráðherr­aráð ESB staðfesti síðar í mánuðinum að nýju regl­urn­ar taki gildi 1. janú­ar 2023. Á hinn bóg­inn ætla rík­is­stjórn­ir Aust­ur­rík­is og Lúx­em­borg­ar ásamt Grænfriðung­um að láta reyna á lög­mæti þess­ar­ar nýju skil­grein­ing­ar á græn­um orku­gjöf­um fyr­ir dóm­stól­um. Fjár­fest­ing­ar í kjarn­orku og gasi stang­ist á við meg­in­regl­ur ESB um leiðir í lofts­lags­mál­um og jafn­vel sátt­mála sam­bands­ins.

Stuðnings­menn breyt­ing­anna segja að ekki sé hróflað við meg­in­mark­miðinu um kol­efn­is­hlut­leysi ESB árið 2050. Þetta snú­ist ekki um hvað sé grænt held­ur það sem sé sjálf­bært. Með þessu verði auðveld­ara brúa bilið við orku­skipti.

Þegar kjarn­orku­slysið varð í Fukus­hima í Jap­an fyr­ir 11 árum ákvað Ang­ela Merkel, þáv. Þýska­landskansl­ari, á „einni nóttu“ að loka þýsk­um kjarn­orku­ver­um . Við það urðu Þjóðverj­ar veru­lega háðir orku­gjöf­um frá Rússlandi. Reyn­ist það nú hættu­legt ör­yggi þeirra og Evr­ópuþjóða al­mennt. Í aðdrag­anda stríðsins hækkaði orku­verð í Evr­ópu nær nú hæstu hæðum.

Í Jap­an var ákveðið eft­ir at­b­urðina í Fukus­hima að minnka stig af stigi hlut kjarn­orku sem raf­orku­gjafa. Nú standa Jap­an­ir hins veg­ar í þeim spor­um að óvissa rík­ir um aðgang að jarðefna­eldsneyti og orku­verð slig­ar efna­hag­inn. Vegna kosn­inga til efri deild­ar jap­anska þings­ins hef­ur verið tek­ist á um hvort virkja eigi að nýju kjarn­orku­ver sem staðið hafa verk­efna­laus. Í kosn­ing­un­um á morg­un, 10. júlí, er lagt í hend­ur kjós­enda að breyta jap­anskri orku­stefnu. Við kjós­end­um blas­ir sú staðreynd að að orku­fram­leiðsla Jap­ana sjálfra stend­ur aðeins und­ir 10% af orku­neyslu þeirra. Stór­átak er nauðsyn­legt til að auka orku­ör­yggið.

FI5AVOZA4BINTEQKGDWNHMWQAYKjarnorkuverið í Fukushima í Japan.

Í orku­um­ræðum í háþróuðum iðnríkj­um á borð við Jap­an og Þýska­land blasa við vanda­mál sem eru fjarri okk­ur Íslend­ing­um, Við kom­umst að vísu beint í snert­ingu við heims­ástandið þegar keypt er fljót­andi eldsneyti á öku­tæki, skip og flug­vél­ar. Að öðru leyti njót­um við orkukjara sem lit­in eru öf­und­ar­aug­um. Hér er hag­kvæmni þess að eiga bíl knú­inn raf­orku til dæm­is marg­föld á við það sem er ann­ars staðar í Evr­ópu.

Hér í blaðinu birt­ist fimmtu­dag­inn 7. júlí frétt sem sagði að vís­bend­ing­ar væru um að viðskipta­kjör þjóðar­inn­ar hefðu gefið eft­ir á öðrum árs­fjórðungi í ár. Skýrðist það meðal ann­ars af því að olíu­verð hækkaði sem hlut­fall af fisk­verði ann­ars veg­ar og ál­verði hins veg­ar.

Þegar litið er til þess­ar­ar þró­un­ar allr­ar sést hve mik­il­vægt er í stóru sam­hengi hlut­anna að fest­ast ekki hér á landi í deil­um sem verða vegna sér­sjón­ar­miða Land­vernd­ar og annarra sem leggj­ast gegn því að gerðar séu áætlan­ir um virkj­un sjálf­bærra, end­ur­nýj­an­legra orku­gjafa, sem eng­inn get­ur ef­ast um að séu græn­ir.

Á vis­ir.is birt­ist 1. júlí grein eft­ir Jón­as Ket­ils­son, formann jarðvarma­hóps orku­spár­nefnd­ar og yf­ir­verk­efn­is­stjóra hjá Orku­stofn­un, um stór­aukna eft­ir­spurn eft­ir jarðhita. Þar sagði að spáð væri að eft­ir­spurn eft­ir heitu vatni yk­ist 3,4% ár­lega til árs­ins 2027. Eft­ir­spurn­ar­spá til árs­ins 2060 gerði ráð fyr­ir allt að 63% aukn­ingu og rúm­lega tvö­föld­un miðað við há­spá. Talið er að mest­ur vöxt­ur verði vegna varma­notk­un­ar í fisk­eldi þá kalli ferðaþjón­ust­an á auk­inn jarðvarma og hús­hit­un at­vinnu­rým­is en notk­un heim­ila, iðnaðar og yl­rækt­ar vaxi í takt við mann­fjölda­spá.

Höf­und­ur hvet­ur til þess í grein­ar­lok að stjórn­völd hugi nú þegar „að reglu­verki, ný­sköp­un, grunn­rann­sókn­um og al­mennri framþróun í jarðhita­tækni“ til að tryggja fram­hald þeirra lífs­gæða sem ís­lensk sam­fé­lag nýt­ur á líðandi stund.

Þegar litið er til þess sem sagði hér í upp­hafi um viðleitni orkuþyrstra ESB-þjóða og Jap­ana til að styrkja stöðu sína með auknu svig­rúmi til orku­fram­leiðslu og hvatn­ingu til fjár­festa til að koma að henni yrði það ör­ugg­lega til að styrkja stoðir ís­lenska hag­kerf­is­ins að auka svig­rúm annarra fjár­festa en op­in­berra á sviði orku­mála.

Hér er al­mennt of lít­il áhersla lögð á að efla sam­starf op­in­berra aðila og einka­fyr­ir­tækja til að styrkja grunnstoðir sam­fé­lags­ins. Við setn­ingu op­in­berra reglna eins og nú inn­an ESB vegna grænna fjár­fest­inga í kjarn­orku og við nýt­ingu á gasi eru aldrei all­ir á einu máli. Skref­in verður þó að stíga og fylgja þeim fast­ar eft­ir við aðstæður eins og mynd­ast hafa vegna stríðs Pútíns í Úkraínu.

Aug­ljóst er að ekki er eft­ir neinu að bíða við töku ákv­arðana sem búa í hag­inn fyr­ir stór­aukna nýt­ingu ís­lensks jarðvarma. Jafn­framt er óhjá­kvæmi­legt að virkja vatns­afl af mikl­um þunga.