Katrín, Stoltenberg og NATO
Morgunblaðið, 5. mars 2022
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sýnir yfirlætislausa festu þegar hann kemur fram fyrir hönd bandalagsins og ræðir innrás Rússa í Úkraínu og afleiðingar hennar. Á fundum fastaráðs bandalagsins og á ráðherrafundum hefur Stoltenberg einstakt lag á að stjórna umræðum til sameiginlegrar niðurstöðu. Hvað sem á dundi í forsetatíð Donalds Trumps lagði Stoltenberg hvað eftir annað leið sína til Washington án þess að forsetinn talaði niður til hans opinberlega eins og hann gerði til bandalagsins sjálfs.
Þeir sem fylgdust með framgöngu Jens Stoltenbergs þegar hann sem forsætisráðherra Noregs brást við ódæðisverki Breiviks gegn ungliðum í Verkamannaflokknum í júli 2011 vita að Stoltenberg brotnar ekki undan álagi. Hann vex með hverri raun. Er ríkisstjórnum NATO-ríkjanna vandi á höndum að velja eftirmann hans nú á þessu átakaári. Enginn er öfundsverður af því að axla ábyrgðina sem hvílir á framkvæmdastjóra NATO þegar kjarnorkuveldi stofnar í fyrsta sinn til árásarstríðs í Evrópu- og veifar kjarnorkuvopnum sínum.
Hafi Vladimir Pútin vonað að með innrásinni gæti hann splundrað samstöðu NATO-ríkjanna hefur hann orðið fyrir vonbrigðum. Samstaðan er meiri en nokkru sinni. Í 30 mínútna ræðu í Bundestag, þýska þinginu, sunnudaginn 27. febrúar, sagði Olaf Scholz Þýskalandskanslari skilið við stefnuna sem þýsk stjórnvöld hafa fylgt frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar og reist var á ströngu hernaðarlegu aðhaldi og viðleitni til að halda dyrum opnum gagnvart Rússum.
Forveri Scholz sem leiðtogi þýskra jafnaðarmanna og kanslari, Helmut Schmidt, taldi að ekki bæri að höggva á viðskiptatengsl því á meðan menn ræddu sameiginlega viðskiptahagsmuni tækjust þeir ekki á með vopnum. Í þessu ljósi ber að skoða gasviðskipti Rússa og Þjóðverja. Með innrásinni nú braut Pútin allar brýr að baki sér. Þjóðverjar settu nýju gasleiðsluna Nord Stream 2 til hliðar, hófu endurhervæðingu, réttu Úkraínumönnum hjálparhönd með vopnum og tóku ákvörðun um að treysta frekar á endurnýjanlega orkugjafa en rússneskt gas.
Jens Stoltenberg notar orðin „nýr veruleiki“ um það sem gerst hefur í evrópskum öryggismálum. Miklar breytingar urðu eftir stríðsaðgerðir Pútins gegn Úkraínumönnum árið 2014. Hernaður hans nú leiðir til enn meiri umskipta.
Katrín Jakobsdóttir og Jens Stoltenberg í Brussel 2. mars 2022 (mynd: forsætisráðuneytið).
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra lagði leið sína til Brussel miðvikudaginn 2. mars. Flugi héðan seinkaði vegna veðurs og hittust þau Stoltenberg ekki í höfuðstöðvum NATO eins og boðað hafði verið heldur á heimili hans og efndu þar til síðbúins blaðamannafundar. Hann var meðal annars sýndur beint á sjónvarpsstöðinni BBC World News.
Jens Stoltenberg ávarpaði forsætisráðherra og fagnaði henni og sagði Ísland traust stofn- og stuðningsríki NATO. Íslendingar gegndu mikilvægu hlutverki fyrir bandalagið á margvíslegan hátt, ekki síst vegna legu landsins og öflugs stuðnings þjóðarinnar við megingildi bandalagsins. Þá stuðlaði aðild Íslands að NATO að því að tengja Norður-Ameríku og Evrópu saman, það skipti ekki síst máli á örlagatímum eins og núna þegar staðan í evrópskum öryggismálum væri hættulegri en nokkru sinni um langt árabil.
Í svari við spurningu frá Ólöfu Ragnarsdóttur frá fréttastofu ríkisútvarpsins gat Stoltenberg sérstaklega um hve Ísland skipti miklu fyrir kafbátaeftirlit úr lofti í þágu NATO. Þá létu Íslendingar sig mannúðleg viðfangsefni miklu varða sem vægi þungt núna vegna hryllilega grimmdarlegrar árásar Rússa á Úkraínu, fullvalda þjóð. Öll aðstoð af Íslands hálfu væri mikils metin. Íslendingar legðu auk þess sitt af mörkum til pólitískrar samstöðu innan NATO með því að fordæma innrásina.
Ólöf spurði Katrínu Jakobsdóttur um viðræður hennar við Stoltenberg. Hún svaraði:
„Ég tel að við munum leggja mat á þá breytingu sem þetta kann í raun að hafa í för með sér fyrir framtíð NATO. Strategískar áætlanir NATO. Vegna þess að augljóst er að þessi innrás hefur í raun breytt ástandi öryggismála í Evrópu á mjög djúpstæðan hátt. Ég held að við munum ræða um áhrif þessara atburða í Úkraínu á bandalagið.“
Þegar þau heilsuðust fyrst fyrir framan sjónvarpsvélar í höfuðstöðvum NATO Katrín Jakobsdóttir og Jens Stoltenberg fór ekki á milli mála að þau þekktust frá fyrri tíð. Stoltenberg var á sínum tíma í hópi gagnrýnenda NATO þótt flokkur hans hafi aldrei snúist gegn bandalaginu eins og flokkur Katrínar, sem einn fárra evrópskra stjórnmálaflokka rígheldur í úrelta afstöðu til varnarbandalags Vesturlanda.
Þegar litið er til orðanna sem vitnað er til hér að ofan og Katrín Jakobsdóttir lét falla á heimili framkvæmdastjóra NATO á miðvikudaginn sjá allir að hvorki í orði né á borði er hún andstæð NATO.
Forsætisráðherra vill þvert á móti leggja sitt af mörkum til að laga NATO að breyttum aðstæðum. Þetta gerði hún líka á fundi ríkisoddvita NATO- ríkjanna auk Svíþjóðar og Finnlands föstudaginn 25. febrúar 2022 og þetta ætlar hún að gera á ríkisoddvitafundi NATO í Madrid sumarið 2022.
Þetta er hluti nýs veruleika ekki síður en ræða Olafs Scholz á dögunum eða ákvarðanir Norðmanna, Svía og Finna að veita Úkraínumönnum hernaðarlega aðstoð og Svisslendinga að loka á Rússa, svo að ekki gleymist að í byrjun vikunnar kostuðu íslensk stjórnvöld Atlanta-fraktflugvél sem flutti búnað (hergögn o.fl.) frá Slóveníu til notkunar í Úkraínu.