16.2.2019

Karólína Lárusdóttir - minning

Útför föstudag 15. febrúar 2019 - minningargrein í Morgunblaðinu laugardag 16. febrúar

Við Karólína áttum samleið í Menntaskólanum í Reykjavík og tengsl okkar rofnuðu aldrei. Þau mótuðust að sjálfsögðu af því að eftir að við lukum stúdentsprófi árið 1964 bjó hún erlendis. Alltaf þegar við hittumst var þó eins og það hefði síðast gerst í gær. Einlægni hennar og gleði yfir lífinu var fölskvalaus.

Fyrir tæpum 35 árum heimsótti fjölskylda mín Karólínu og Fred, eiginmann hennar, í Bishop's Storford, fallegum smábæ milli London og Cambridge. Hún fór með okkur til háskólaborgarinnar og meðal annars í galleríið þar sem myndir hennar voru eftirsóttar.

Vinnusemi Karólínu var mikil. Féll það vel að vinsældunum sem hún og verk hennar nutu. Þegar hún sýndi fyrst á Kjarvalsstöðum árið 1982 voru verkin 176. Biðraðir mynduðust áður en sýningarsalir voru opnaðir. Seldust öll verkin upp á fyrsta degi.

Þegar litið er til baka voru þetta skemmtilegir og líflegir tímar. Karólína varð þjóðsagnapersóna. Ég átti hlut að því að leiða þær saman Karólínu og Jónínu Michaelsdóttur sem skráði ævisögu hennar (útgefin 1993). Síðar ritaði Aðalsteinn Ingólfsson listaverkabók um Karólínu að frumkvæði Jóhanns Valdimarssonar, forstjóra Forlagsins. Einmitt þegar útgáfu hennar var fagnað 27. nóvember 2013 bárust okkur fréttir um alvarleg veikindi Karólínu.

Listamenn sem vinna mikið einir eins og Karólína kynnast auðveldlega sársaukanum. Hann brýst fram samhliða gleðinni við listsköpunina og getur tekið á sig mynd biturleika yfir að vera ekki metinn að verðleikum. Ýmsir álitsgjafar litu list Karólínu öðrum augum en þeir fjölmörgu sem nutu þess að eiga verk eftir hana.

Við sem áttum því láni að fagna að eignast vináttu Karólínu og listaverk höfum hana ávallt nálægt okkur, gleði litanna og sögunnar sem hún sagði okkur.

Blessuð sé minning Karólínu Lárusdóttur.