Kapphlaupið við gervigreindina
Morgunblaðið, laugardagur 1. júli 2023
Háskóli Íslands brautskráði metfjölda kandídata, 2.832, laugardaginn 24. júní. Þeir voru úr grunn- og framhaldsnámi frá öllum fræðasviðum og hefur skólinn aldrei áður brautskráð jafnmarga á einum degi. Á vefsíðu háskólans segir að frá stofnun hans fyrir 112 árum hafi ríflega 60 þúsund sérfræðingar brautskráðst þaðan. Til þeirra megi rekja blómlegt atvinnulíf og félags-, velferðar-, mennta- og menningarkerfi sem eigi sér fáa líka um víða veröld.
Háskóli Íslands situr ekki einn að æðri menntun í landinu þótt hann sé vissulega fremstur meðal jafningja vegna sögu sinnar og gildis fyrir grunninn að íslensku nútímasamfélagi sem þar hefur verið lagður.
Jón Atli Benediktsson háskólarektor ávarpaði kandídata og nefndi óvissu um framtíðina, stundum væri eins og hún læddist aftan að okkur og kæmi fyrr en við hefðum vænst. Rektor gat um merkar vísindauppgötvanir eða miklar tækninýjungar: síma, flugvélar, tunglferjur, tölvur, raðgreiningu erfðaefnis og þráðlausan gagnaflutning.
Um þetta allt eigum við gagnsæ orð sem segja okkur auðveldlega um hvað er rætt þótt við þekkjum ekki allt hugvitið, þróunina og tæknina sem að baki býr.
Eftir að hafa nefnt þetta gat rektor um nýjasta boðbera breytinga á „gangi hversdagslífsins“, það er „gervigreindar-spjallmennið ChatGPT sem fangaði athygli heimsbyggðarinnar á nýliðnum vetri og hvíslaði að okkur að mikilla breytinga væri að vænta“.
Íslenska orðið spjallmenni er gott svo langt sem það nær gagnvart því fyrirbrigði sem við köllum gervigreind á íslensku, artificial intellegence (AI) á ensku og kunstig intelligens á dönsku. Miðað við þá byltingu sem þessi nýjasti „boðberi breytinga“ á eftir að valda eru þessi hugtök ekki góð. Þau segja okkur alls ekki hvað þarna er á ferðinni. Spennandi verður að sjá hvaða hugtak sigrar að lokum.
Margrethe Vestager.
Fulltrúi Dana í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, Margrethe Vestager, fer þar með málefni gervigreindar og vinnur nú hörðum höndum að setningu evrópskra lagareglna um fyrirbrigðið. Von hennar er að ESB verði þar í fararbroddi og hafi jafnmikil áhrif við mótun alþjóðareglna á þessu sviði og við reglusmíði um persónuvernd, annað nýtt réttarsvið sem snertir daglegt líf okkar allra.
Íslensk réttarþróun um persónuvernd hefur fylgt þróun í öðrum Evrópuríkjum samhliða byltingunni í tölvu- og upplýsingatækni. Reglur um persónuvernd gera stjórnvöldum og einkaaðilum kleift að safna og miðla miklu magni persónuupplýsinga um einstaklinga á tiltölulega einfaldan hátt. Reglunum er ætlað að tryggja friðhelgi einkalífs. Markmið þeirra er einnig að tryggja áreiðanleika og gæði slíkra upplýsinga, ásamt frjálsu flæði þeirra á sameiginlega EES-markaðnum og að flæðinu verði ekki settar of strangar skorður.
Í viðtali við danska blaðið Berlingske 25. júní sagði Vestager eftir kynni sín af gervigreindinni og áhrifum hennar:
„Ég hef aldrei kynnst neinu sem jafnast á við hana. Það er erfitt að nefna nokkuð til samanburðar vegna þess hve hún brýtur sér víða leið:
Hún mun hafa áhrif á öllum sviðum og á allt sem við gerum – hvernig við búum, lifum og störfum, á hvern hátt við menntum okkur og stöndum að framleiðslu. Ég held að ekkert verði látið ósnert.“
Vestager hvetur til þess að unnið verði að smíði reglna á sama tíma og áhrif umbyltingarinnar birtast, ekki dugi að beita þeirri gamalkunnu aðferð að láta breytingar gerast og grípa síðan til regluverks til að setja þeim og áhrifum þeirra skorður. Víða sé tekin mikil áhætta við innleiðingu tækninnar og áhættan sé ekki bara fræðileg. Þess vegna sé brýnt frá upphafi að tryggja að þessir gífurlega miklu kraftar þjóni okkur vel en skaði okkur ekki.
Opinn hugbúnaður (e. open source software) heitir það þegar rétthafi veitir frjálsan aðgang að hugbúnaðinum og þar sem frumforrit eru aðgengileg. Þrátt fyrir heitið OpenAI á fyrirtækinu sem þróaði og kynnti ChatGPT, er þar ekki um opinn hugbúnað að ræða heldur lokaðan, fyrirtækið á hann og stjórnar.
Á bandarísku vefsíðunni Axios er fylgst mjög náið með framvindu mála á þessu sviði. Þar sagði í vikunni að æðstu embættismenn í Washington væru að „fríka út“ vegna afleiðinganna fyrir þjóðaröryggi ef stór opinn AI-hugbúnaður lenti í höndunum á öllum sem kynnu að forrita. Með aðferðum hönnunarlíffræði mætti til dæmis ýta nýjum heimsfaraldri úr vör.
Margrethe Vestager segir að haga verði efni reglna í samræmi við hættuna af beitingu gervigreindar, til dæmis í tengslum við mikilvæg mannvirki, lögregluaðgerðir, lögreglurannsóknir, landamæravörslu og réttarvörslu. Þá verði að setja bannreglur þar sem hættan sé mest, til dæmis ef nota á tæknina til að hafa áhrif á frelsi manna, til fjöldaeftirlits í rauntíma og við félagslega flokkun fólks eftir tekjum og líferni.
Vestager telur að gervigreind kunni að leiða til gífurlegra framfara á heilbrigðissviði fyrir allt mannkyn. Meginreglan verði sú að allir geti fengið aðgang að sams konar sjúkdómsgreiningu og meðferð og þar með skapist þar langþráður jöfnuður. Hin hlið málsins sé að gervigreindartól geti ekkert án þess að þau séu fóðruð með mjög viðkvæmum persónuupplýsingum.
Fyrir um aldarfjórðungi voru hér harðar deilur um gagnagrunn á heilbrigðissviði. Nú ætti að rifja upp það sem þá var sagt til að fá forsmekk að umræðunum um gervigreindarreglurnar. Eigi að semja þær samhliða byltingunni til að skapa okkur hæfilega vernd, verður að láta hendur standa fram úr ermum.