25.8.2017

Kanadaher við gæslustörf í GIUK-hliðinu

Á nokkrum misserum hefur afstaða innan NATO og meðal aðildarríkja þess til eftirlits og varðstöðu á Norður-Atlantshafi gjörbreyst. Þetta skýr niðurstaða af fjórum nýlegum ráðstefnum á vegum Varðbergs og Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands með þátttöku sérfróðra manna frá löndum beggja vegna Atlantshafs.

Breytingin sést skýrt á stefnu ríkisstjórnar Kanada. Á meðan íhaldsmenn voru við völd í landinu vildi stjórnin halda NATO sem mest utan norðurslóða. Eftir að frjálslyndir undir forsæti Justins Trudeaus mynduðu ríkisstjórn í nóvember 2015 hafa Kanadamenn látið meira að sér kveða í norðurslóða-samvinnu NATO-ríkjanna meðal annars í nágrenni Íslands. 

Kanadamenn í fararbroddi


Á vefsíðunni Breaking Defense sem sérhæfir sig í fréttum af herfræðilegum málefnum birtist þriðjudaginn 15. ágúst viðtal við Michael Hood hershöfðingja, yfirmann kanadíska flughersins. Það snerist um hlut Kanadamanna í vörnum hafsvæðanna fyrir norðaustan Norður-Ameríku, það er í átt að Grænlandi og Íslandi.

Í samtalinu sagði Michael Hood hershöfðingi:

„Um borð í kafbátaleitarvélum okkar hafa verið tveir menn úr röðum breska flughersins nú á tímanum á milli þess sem Bretar ráða ekki yfir Nimrod-þotunum [úreltar kafbátaleitarvélar] og þeir hafa ekki eignast P-8 þoturnar [Boeing-kafbátaleitarvélar sem Bretar hafa keypt]. Við höfum einnig fyllt skarðið sem myndaðist við brotthvarf Nimrod-vélanna með eigin kafbátaleitarvélum. Við höfum gert það með því að senda þær annaðhvort frá bresku flugherstöðinni í Lossiemouth [nyrst í Skotlandi við Inverness] eða frá Keflavík og leggjum þannig okkar af mörkum við eftirlit í GIUK-hliðinu.“

Hershöfðinginn vísar þarna til varnarlínunnar frá Grænlandi um Ísland til Skotlands sem varð fræg í kalda stríðinu sem öflug hindrun á leið sovéskra kafbáta út á Atlantshaf. GIUK-hliðið dregur að sér athygli að nýju nú vegna sóknar kafbátaflota Rússa suður á bóginn. Landafræðin breyttist ekkert við hrun Sovétríkjanna og rússneski flotinn hefur gengið í endurnýjun lífdaganna.

Michael Hood segir að af þeim kafbátaleitartækjum sem NATO noti hafi kanadísku CP-140 Aurora flugvélarnar náð mestum árangri. Hann er einstaklega stoltur af ágæti liðsmanna sinna og tækja þeirra við kafbátaleitina og þegar afl flughersins tengist hæfninni um borð í kanadísku freigátunum sé framlag Kanadamanna þungamiðjan í aðgerðum NATO til kafbátaleitar í GIUK-hliðinu og nágrenni þess.

Þessi lýsing kemur heim og saman við það sem sagt var um hlut Kanadamanna í kafbátaeftirlitsæfingunni sem hófst hér í Reykjavík 26. júní sl. með þátttöku frá níu NATO-ríkjum auk Íslands. Fimm kafbátar, níu freigátur og eitt rannsóknarskip auk 6 til 8 kafbátaleitarflugvéla og þyrla tóku þátt í æfingunni með hátt í þriðja þúsund manns.

Viðbrögð vegna Trumps


Chrystia Freeland er utanríkisráðherra Kanada. Hún skýrði frá því í júní að Kanadastjórn mundi hækka fjárframlög til varnarmála „umtalsvert“. Hún tilkynnti þetta skömmu eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti hafði enn einu sinni vakið reiður máls á því að innan NATO stæðu aðildarþjóðirnar ekki við skuldbindingu sína um að útgjöld til varnarmála næmu 2% af vergri landsframleiðslu. Utanríkisráðherrann kynnti ákvörðun Kanadastjórnar á þann hátt að hún yrði ekki sökuð um að láta undan þrýstingi frá Trump. Ráðherrann sagði:

„Sú staðreynd að vinur okkar og bandamaður hefur vakið máls á hvort sé þess virði fyrir hann að axla byrðar sem forysturíki heims skerpir nauðsyn þess að við hin mótum okkur skýra og sjálfstæða stefnu.“ Síðan þakkaði hún Bandaríkjamönnum fyrir einstakt framlag þeirra til að tryggja frið og velmegun í samstarfi við Kanadamenn. Á þennan hátt boðaði hún nauðsyn þess að Kanadamenn létu meira að sér kveða á sviði öryggismála, meðal annars á hafinu hér í nágrenni Íslands eins og kanadíski hershöfðinginn lýsti.

Þessi afstaða Kanadastjórnar lýsir annarri hlið á afleiðingum stefnu Trumps en almennt er vakið máls á í fjölmiðlum. Bandamenn Bandaríkjamanna vita að NATO rofnar ekki vegna Trumps. Breytingin á líðandi stundu hvetur hins vegar stjórnvöld til að huga að úrlausn mála á annan hátt en þau hefðu ella gert.

NATO eflist að nýju


Í byrjun þessa áratugar var NATO greinilega á milli vita. Þá mátti finna rök fyrir orðinu sem Trump kaus að nota um bandalagið þegar hann sagði það „úrelt“. Tímasetning ummæla hans bentu hins vegar til að hann væri ekki alveg með á nótunum því að gjörbreyting varð á NATO eftir að Rússar innlimuðu Krím og hófu frekari tilraunir til að kljúfa Úkraínu á fyrri hluta árs 2014.

Nú er áherslan innan bandalagsins að nýju á sameiginlegar varnir í Evrópu og nauðsyn eftirlits á Norður-Atlantshafi til að tryggja öryggi á samgönguleiðum milli Norður-Ameríku og Evrópu.

Bandaríski prófessorinn Michael Mandelbaum, sérfróður um evrósk öryggismál og samskiptin við Rússa, segir í nýlegri tímaritsgrein að á tímum ofurverðs á olíu hafi Vladimír Pútín Rússlandsforseti nýtt olíugróðann til að kaupa sér vinsældir. Nú sé öldin önnur. Á árinu 2014, tveimur árum eftir að Pútín varð forseti öðru sinni, hafi olían fallið í verði. Til að tryggja sér vinsældir nú neyðist Pútín til að nota annað öruggt ráð: árásargjarna þjóðernisstefnu.

Nágrannaþjóðir Rússa hafa kynnst þessari stefnu undanfarin misseri, allt frá Finnlandi til Búlgaríu. Finnar og Svíar hafa styrkt samstarf sitt við NATO-ríkin og undir merkjum NATO hefur herafli verið fluttur til Eystrasaltsríkjanna, Póllands, Rúmeníu og Búlgaríu.

Bandaríkjamenn hafa ekki skorast undan þátttöku í þessum aðgerðum, Trump segir NATO ekki lengur úrelt. Nú viðurkenna stjórnvöld í Evrópu og Kanada nauðsyn þess að huga sjálf meira að eigin vörnum. Þau fylgjast með Pútín og þjóðernishyggju hans. 

Nú eru fjórar vikur til sambandsþingkosninganna í Þýskalandi. Martin Schulz, kanslaraefni jafnaðarmanna (SPD), segir Angelu Merkel Þýskalandskanslara og flokk hennar (CDU) í duftinu andspænis Trump. Reynir hann að slá sér upp á persónulegum óvinsældum Trumps í Þýskalandi. Líklegt er að það mistakist eins og annað hjá Schulz auk þess á SPD undir högg að sækja vegna vináttu Gerhards Schröders, fyrrverandi kanslara SPD, við Vladimír Pútín en Schröder situr í stjórnum orkufyrirtækja fyrir Pútín.

Angela Merkel bregst við ásökunum vegna Trumps með því að boða öflugri varnir Þjóðverja sjálfra og markviss skref með Frökkum í átt að ESB-herafla. Þeir sem halda að Trump kljúfi NATO fara villur vega. Hann styrkir Evrópustoðina ekki síður en vilja Kandastjórnar til að láta meira að sér kveða á Norður-Atlantshafi.