17.3.2023

Jóhannes Nordal - minning

Minningargrein, Morgunblaðið, 17. mars 2023.

Þau orð falla gjarnan um bókina Veröld sem var eftir Stefan Zweig að hún sé líklega besta endurminningabók 20. aldarinnar. Zweig birtir lesendum sínum ljóslifandi lýsingar á einstaklingum sem nú eru hlutgengir í mannkynssöguna og lýsir horfnum tíðaranda á snilldarlegan hátt.

Þó að of snemmt sé að fullyrða nokkuð um það sem merkilegast kann að þykja, þegar fram líða stundir, í bók Jóhannesar Nordal, Lifað með öldinni, sem hann birti 98 ára að aldri síðastliðið haust, er víst að hún verður talin með merkustu og traustustu endurminningarbókum Íslendings um 20. öldina. Verður ekki framvegis skrifað um íslensk stjórnmál, efnahagsmál og stórstígar framfarir í atvinnumálum á öldinni án þess að litið sé til bókar Jóhannesar.

Picture-42Jóhannes Nordal.

Tuttugu ára aldursmunur var á okkur Jóhannesi en leiðir okkar lágu þó víða saman. Eins og hann lýsir á einlægan og sannan hátt var hann trúnaðarmaður föður míns við bróðurmissi hans og viðkvæmar ákvarðanir sem þá þurfti að taka að vel ígrunduðu máli. Ólst ég upp við virðingu fyrir Jóhannesi.

Síðar átti ég oft eftir að kynnast því að þeir sem ábyrgð báru á stjórn landsins og úrlausn vandasamra málefna á fjölbreyttum sviðum fóru í smiðju til Jóhannesar áður en mikilvæg ákvörðun var tekin.

Ástæðan var augljós. Jóhannes lét málefnið ráða. Hann bjó sig vel undir allt sem að honum og ábyrgð hans laut. Ætti hann ekki svar þegar um var spurt, lá það fyrir rökstutt á næsta fundi.

Jóhannes kom heim með doktorspróf frá London School of Economics árið 1953 og hóf næsta ár störf í hagfræðideild Landsbankans með

„fastmótaða sannfæringu fyrir því að frjáls markaðsbúskapur ásamt öflugum almannatryggingum og opnun hagkerfisins fyrir erlendri samkeppni væri farsælasta leið Íslendinga til frambúðar,“ eins og hann segir í bók sinni.

Hann vann að framgangi málefna þjóðarinnar í þessum anda í 40 ár. Áhrifa skoðana hans gætti í sívaxandi mæli. Embættisferli hans sem seðlabankastjóra lauk árið 1993 og hafði hann þá gegnt embættinu frá 1961. Hann var stjórnarformaður Landsvirkjunar frá 1965 til 1995. Kom það í hans hlut að móta bankann og orkufyrirtækið frá fyrsta degi. Í báðum tilvikum býr lengi að fyrstu gerð.

Á viðreisnartíma sjöunda áratugarins átti Jóhannes aðild að lykilákvörðunum um íslenskt efnahags- og atvinnulíf og umbyltingu þjóðlífsins í heild þegar það var opnað fyrir erlendri samkeppni með aðild að EFTA. Með góðum rökum, málafylgju og lagni var skref fyrir skref gengið til þess frjálsræðis sem nú er talið sjálfsagt og fest var í sessi með EES-samningnum.

Við ritun bókar sinnar hlýtur Jóhannes oft að hafa glaðst yfir árangrinum af sannfæringu hans um gildi þess að opna íslenska þjóðarbúið fyrir erlendri samkeppni. Þá varði hann kröftum sínum ekki síður til að styrkja menningarlega innviði samfélagsins. Opið samfélag krefst sterkra menningarstoða.

Jóhannes er í mínum huga einn glæsilegasti fulltrúi veraldar sem var.

Blessuð sé minning Jóhannesar Nordal.