Íslenska í skjóli Dana
Umsögn um bók, Morgunblaðið, föstudagur, 3. desember.
Þrautseigja og mikilvægi íslenskrar tungu ***
Eftir Kristjönu Vigdísi Ingvadóttur. Sögufélag, 2021. Kilja, 320 bls.
Sögufélag gefur út bókina Þrautseigja og mikilvægi íslenskrar tungu sem er reist á BA-ritgerð höfundarins Kristjönu Vigdísar Ingvadóttur sagnfræðings um tungumálanotkun Íslendinga á átjándu öld. Ritgerðin varð að þessu riti eftir að hún jók við efnið, bætti við nítjándu öldinni og hugleiðingum sínum um stöðu tungumálanna á Íslandi á 21. öld.
Bókin skiptist í þrjá hluta: (1) Tungumálin og tengslin við samfélagið frá siðaskiptum; (2) Viðhorf og viðhorfsbreytingar í garð tungumálanna og (3) Hugleiðingar um tungumálin. Ágrip er birt á ensku, heimildaskrá, myndaskrá, og skrár yfir töflur, súlurit, nöfn og efnisorð, alls 320 bls.
Bókarhlutarnir þrír skiptast í marga kafla og undirkafla þannig að í efnisyfirliti er auðvelt að finna einstaka efnisþætti. Er það kostur vegna þess að endurtekningar einkenna textann.
Höfundur vitnar mikið í aðra fræðimenn og rannsóknir þeirra. Hún stígur sjálf varlega til jarðar þegar heimildir eru vegnar og metnar. Þar er hún einnig oft á ókunnum slóðum. Á kápu bókarinnar segir:
„Hér er í fyrsta skipti rannsökuð tungumálanotkun á Íslandi á markvissan hátt með því að rýna í bréfaskipti amtmanna við aðra embættismenn, stjórnvöld og almenning. Þannig fæst skýr mynd af tungumálanotkun Íslendinga á átjándu og nítjándu öld.“
Of fast er að orði kveðið í þessum kynningarorðum um „skýra mynd“. Þvert á móti er óljóst hve skipulega skyldi gengið fram við notkun íslensku í stjórnsýslu á þessum árum. Það er oft undir ákvörðun einstakra embættismanna komið. Í staðinn fyrir „skýra mynd“ mætti frekar tala um „grátt svæði“.
„Fornmenntastefnan (eða húmanismi) kom fyrst fram í Danmörku um miðja sextándu öld og beindist athyglin fljótlega að Íslandi. Áhugi á fornri sögu Danmerkur kviknaði hjá Dönum og þeir áttuðu sig á því að þeirra saga væri skráð í fornrit Íslendinga. Danir fóru því að falast eftir handritum frá Íslandi í lok sextándu aldar en áttuðu sig í kjölfarið á því að þeir þyrftu aðstoð við lestur handritanna; tungumál þeirra hafði þróast mikið frá þeim tíma þegar töluð var „samnorræn“ tunga og þeir skildu tungumál handritanna ekki.“ (66)
Við siðaskiptin þegar danska konungsvaldið náði hér undirtökunum varð þessi vakning meðal ráða- og menntamanna í Danmörku. Þeir sáu sögulega og menningarlega nauðsyn þess að hlúa að íslenskri fornmenningu með því að varðveita tækið til að njóta hennar, tungumálið. Þótt tilgangur þeirra væri að styrkja Danaveldi varð hann Íslendingum og sögu þeirra til bjargar.
Sé þessi kenning höfð að leiðarljósi skýrir hún hvers vegna íslensk tunga lifði. Hér hefðu valdsmenn getað gengið fram á sama veg og gert var til dæmis í Færeyjum, að banna annað en dönsku í kirkjum landsins. Það var ekki gert hér heldur hlúð að íslenskum guðsorðatextum og sálmum, íslenska varð kirkjumálið.
Innan stjórnsýslunnar og á sviði viðskipta voru tveir málheimar, íslenskur inn á við og danskur gagnvart Kaupmannahöfn. Átökum milli þeirra er lýst í bókinni. Íslendingar voru aldrei „Danavæddir“ á sama hátt og Norðmenn, Færeyingar og Grænlendingar.
Með rómantíkinni á 19. öld lögðu íslenskir menntamenn í Kaupmannahöfn aukna rækt við forna menningararfinn. Þjóðernisstefna magnaðist samhliða ást á ættjörðinni og íslenskunni, frumkröftum sjálfstæðisbaráttunnar. Alþingi var endurreist og allt sem þar gerðist fór fram á íslensku. Með heimastjórninni 1904 varð stjórnsýslan endanlega íslensk.
Því má velta fyrir sér hvort mesti munurinn á viðhorfi til tungumálsins þá og nú felist ekki í hve mennta- og menningarfrömuðir samtímans leggja margir lítið á sig til að efla með þjóðinni virðingu fyrir tungumálinu og þjóðlegum hefðum. Viðmælendur í menningarþáttum ríkisútvarpsins, sjónvarps og hljóðvarps, slá til dæmis meira um sig með erlendum orðum en almennt tíðkast,
Þá er það viðskiptamálið. Á 20. öld hefði verið óhugsandi að sjá öll ensku orðin sem nú einkenna auglýsingar í fjölmiðlum. Væri komið með auglýsingar á ensku til birtingar í Morgunblaðinu var þeim hafnað. Þetta er ekki gert lengur. Vegna viðskiptahátta sem tengjast meira siðvenjum vestan hafs en austan hafa innlendir kaupmenn nú mikil áhrif á samfélagsbreytingar í krafti auglýsinga sinna. Danska kaupstaðamenningin hafði aldrei eins víðtæk áhrif á íslenskt samfélag. Hana aðhylltust embættismenn og íslenskir kaupmenn „til að greina sig frá alþýðunni“. (160)
Sagan sem Kristjana Vigdís skrifar á brýnt erindi til samtímans. Þar er dreginn saman fróðleikur sem varpar birtu á menningu og stjórnsýslu. Textann hefði átt að skerpa með minni endurtekningum og skýrari niðurstöðum.