3.12.2021

Íslenska í skjóli Dana

Umsögn um bók, Morgunblaðið, föstudagur, 3. desember.

Þrautseigja og mikilvægi íslenskrar tungu ***

Eft­ir Kristjönu Vig­dísi Ingva­dótt­ur. Sögu­fé­lag, 2021. Kilja, 320 bls.

 

Sögu­fé­lag gef­ur út bók­ina Þraut­seigja og mik­il­vægi ís­lenskr­ar tungu sem er reist á BA-rit­gerð höf­und­ar­ins Kristjönu Vig­dís­ar Ingva­dótt­ur sagn­fræðings um tungu­mála­notk­un Íslend­inga á átjándu öld. Rit­gerðin varð að þessu riti eft­ir að hún jók við efnið, bætti við nítj­ándu öld­inni og hug­leiðing­um sín­um um stöðu tungu­mál­anna á Íslandi á 21. öld.

Bók­in skipt­ist í þrjá hluta: (1) Tungu­mál­in og tengsl­in við sam­fé­lagið frá siðaskipt­um; (2) Viðhorf og viðhorfs­breyt­ing­ar í garð tungu­mál­anna og (3) Hug­leiðing­ar um tungu­mál­in. Ágrip er birt á ensku, heim­ilda­skrá, mynda­skrá, og skrár yfir töfl­ur, súlu­rit, nöfn og efn­isorð, alls 320 bls.

G8I174LB3Bók­ar­hlut­arn­ir þrír skipt­ast í marga kafla og undirkafla þannig að í efn­is­yf­ir­liti er auðvelt að finna ein­staka efn­isþætti. Er það kost­ur vegna þess að end­ur­tekn­ing­ar ein­kenna text­ann.

Höf­und­ur vitn­ar mikið í aðra fræðimenn og rann­sókn­ir þeirra. Hún stíg­ur sjálf var­lega til jarðar þegar heim­ild­ir eru vegn­ar og metn­ar. Þar er hún einnig oft á ókunn­um slóðum. Á kápu bók­ar­inn­ar seg­ir:

„Hér er í fyrsta skipti rann­sökuð tungu­mála­notk­un á Íslandi á mark­viss­an hátt með því að rýna í bréfa­skipti amt­manna við aðra emb­ætt­is­menn, stjórn­völd og al­menn­ing. Þannig fæst skýr mynd af tungu­mála­notk­un Íslend­inga á átjándu og nítj­ándu öld.“

Of fast er að orði kveðið í þess­um kynn­ing­ar­orðum um „skýra mynd“. Þvert á móti er óljóst hve skipu­lega skyldi gengið fram við notk­un ís­lensku í stjórn­sýslu á þess­um árum. Það er oft und­ir ákvörðun ein­stakra emb­ætt­is­manna komið. Í staðinn fyr­ir „skýra mynd“ mætti frek­ar tala um „grátt svæði“.

„Forn­mennta­stefn­an (eða húm­an­ismi) kom fyrst fram í Dan­mörku um miðja sextándu öld og beind­ist at­hygl­in fljót­lega að Íslandi. Áhugi á fornri sögu Dan­merk­ur kviknaði hjá Dön­um og þeir áttuðu sig á því að þeirra saga væri skráð í forn­rit Íslend­inga. Dan­ir fóru því að fal­ast eft­ir hand­rit­um frá Íslandi í lok sextándu ald­ar en áttuðu sig í kjöl­farið á því að þeir þyrftu aðstoð við lest­ur hand­rit­anna; tungu­mál þeirra hafði þró­ast mikið frá þeim tíma þegar töluð var „samn­or­ræn“ tunga og þeir skildu tungu­mál hand­rit­anna ekki.“ (66)

Við siðaskipt­in þegar danska kon­ungs­valdið náði hér und­ir­tök­un­um varð þessi vakn­ing meðal ráða- og mennta­manna í Dan­mörku. Þeir sáu sögu­lega og menn­ing­ar­lega nauðsyn þess að hlúa að ís­lenskri forn­menn­ingu með því að varðveita tækið til að njóta henn­ar, tungu­málið. Þótt til­gang­ur þeirra væri að styrkja Dana­veldi varð hann Íslend­ing­um og sögu þeirra til bjarg­ar.

Sé þessi kenn­ing höfð að leiðarljósi skýr­ir hún hvers vegna ís­lensk tunga lifði. Hér hefðu valds­menn getað gengið fram á sama veg og gert var til dæm­is í Fær­eyj­um, að banna annað en dönsku í kirkj­um lands­ins. Það var ekki gert hér held­ur hlúð að ís­lensk­um guðsorðatextum og sálm­um, ís­lenska varð kirkju­málið.

Inn­an stjórn­sýsl­unn­ar og á sviði viðskipta voru tveir mál­heim­ar, ís­lensk­ur inn á við og dansk­ur gagn­vart Kaup­manna­höfn. Átök­um milli þeirra er lýst í bók­inni. Íslend­ing­ar voru aldrei „Dana­vædd­ir“ á sama hátt og Norðmenn, Fær­ey­ing­ar og Græn­lend­ing­ar.

Með róm­an­tík­inni á 19. öld lögðu ís­lensk­ir mennta­menn í Kaup­manna­höfn aukna rækt við forna menn­ing­ar­arf­inn. Þjóðern­is­stefna magnaðist sam­hliða ást á ætt­jörðinni og ís­lensk­unni, frum­kröft­um sjálf­stæðis­bar­átt­unn­ar. Alþingi var end­ur­reist og allt sem þar gerðist fór fram á ís­lensku. Með heima­stjórn­inni 1904 varð stjórn­sýsl­an end­an­lega ís­lensk.

Því má velta fyr­ir sér hvort mesti mun­ur­inn á viðhorfi til tungu­máls­ins þá og nú fel­ist ekki í hve mennta- og menn­ing­ar­frömuðir sam­tím­ans leggja marg­ir lítið á sig til að efla með þjóðinni virðingu fyr­ir tungu­mál­inu og þjóðleg­um hefðum. Viðmæl­end­ur í menn­ing­arþátt­um rík­is­út­varps­ins, sjón­varps og hljóðvarps, slá til dæm­is meira um sig með er­lend­um orðum en al­mennt tíðkast,

Þá er það viðskipta­málið. Á 20. öld hefði verið óhugs­andi að sjá öll ensku orðin sem nú ein­kenna aug­lýs­ing­ar í fjöl­miðlum. Væri komið með aug­lýs­ing­ar á ensku til birt­ing­ar í Morg­un­blaðinu var þeim hafnað. Þetta er ekki gert leng­ur. Vegna viðskipta­hátta sem tengj­ast meira siðvenj­um vest­an hafs en aust­an hafa inn­lend­ir kaup­menn nú mik­il áhrif á sam­fé­lags­breyt­ing­ar í krafti aug­lýs­inga sinna. Danska kaupstaðamenn­ing­in hafði aldrei eins víðtæk áhrif á ís­lenskt sam­fé­lag. Hana aðhyllt­ust emb­ætt­is­menn og ís­lensk­ir kaup­menn „til að greina sig frá alþýðunni“. (160)

Sag­an sem Kristjana Vig­dís skrif­ar á brýnt er­indi til sam­tím­ans. Þar er dreg­inn sam­an fróðleik­ur sem varp­ar birtu á menn­ingu og stjórn­sýslu. Text­ann hefði átt að skerpa með minni end­ur­tekn­ing­um og skýr­ari niður­stöðum.