Ísland: nafli heimsins
Bækur - Nútímasaga - Morgunblaðið, 8. júlí 2021
How Iceland Changed the World ****-
Eftir Egil Bjarnason. Kilja, 266 bls., nafnaskrá. Penguin Books, 2021.
Bókin How Iceland Changed the World: The Big History of a Small Island – Hvernig Ísland breytti heiminum: Stórsaga lítillar eyju – eftir Egil Bjarnason, blaðamann frá Selfossi, búsettan á Húsavík, er vel til þess fallin að efla skilning allra erlendra manna á ýmsum þáttum samtímans á Íslandi þótt hún snúist að mestu um fortíðina og segi sögu þjóðarinnar allt frá því að land byggðist. Textinn er skýr og auðlesinn og þar er fortíð og samtíð tvinnuð saman á skemmtilegan hátt.
Íslendingar skrifa stundum um land og þjóð fyrir útlendinga til að koma að einhverjum ákveðnum boðskap eða jafnvel til að lauma að lesendum mynd af þjóðinni sem heimamönnum finnst næsta andkannaleg. Jafnvel mætti ætla að upphafning þátta í fari þjóðarinnar í slíkum textum mótaðist af minnimáttarkennd – að það sé nauðsynlegt til að gera sig merkilegri en efni standa til í augum annarra. Bók Egils er ekki skrifuð í þessum dúr.
Titillinn minnir á montbók. Hvernig er unnt að láta eins og Ísland hafi breytt gangi mála í veröldinni? Frásögn Egils er þó á þann veg að það liggur einhvern veginn í augum uppi að það sem hann nefnir úr þjóðarsögunni skipti máli fyrir fleiri en okkur sem hér búum, hvort sem það breytti heiminum eða ekki.
Í bókinni takast á alvarlegur og gamansamur tónn. Sumar athugasemdir höfundar eru á þann veg að ekki einungis fáfróðir um Íslandssöguna sjá nýtt samhengi hlutanna. Hvergi er rembst við að sannfæra neinn með alvarlegri ítroðslu heldur slegið á létta strengi en allt innan hóflegra marka.
Egill hóf blaðamennsku ungur að árum hjá Sunnlenska á Selfossi. Vor nokkurt greiddi útgefandinn honum með tuttugu og sjö gíra Mongoose-reiðhjóli. Til að nýta gripinn lagði Egill upp í hringferð eftir þjóðvegi 1 sem liggur um Selfoss. Þegar hann hafði hjólað til Húsavíkur ákvað hann að hvíla sig um stund. Þar hitti hann fyrir tilviljun á bryggjunni Hörð Sigurbjarnarson, skipstjóra og framkvæmdastjóra Norðursiglingar. Egill sló til og tók tilboði Harðar um starf það sem eftir lifði sumars. Reynsla hans af störfum fyrir Norðursiglingu hér við land og við Grænland auk siglingar til Noregs kemur Agli að góðum notum við ritun bókarinnar og auðveldar honum að dýpka skilning lesenda á ferðum í austur og vestur frá Íslandi við allt aðrar aðstæður en nú.
Rætt var við Egil um bókina hér í blaðinu 27. maí. Þar segist hann upphaflega hafa ætlað að gefa bókina út hjá forlagi föður síns, Sæmundi á Selfossi. Hann hóf vinnu við handritið fyrir nokkrum árum og í leit að ritlaunum sendi hann sýnishorn á umboðsmenn í Bandaríkjunum og fékk síðan einn þeirra til að taka kynningu á verkinu að sér og átti Penguin hæsta boðið í útgáfuréttinn. Fyrirframgreiðsla þaðan dugði til að Egill gat unnið við handritið í eitt og hálft ár í viðbót. Bókin kom út 11. maí 2021.
Þegar í apríl 2021 birti Andrew Maitland Moravcsik, prófessor í stjórnmálum og alþjóðastjórnmálum við Princeton-háskóla í Bandaríkjunum og forstjóri Liechtenstein Institute on Self-Determination sem Hans Adam, prins af Liechtenstein, stofnaði við Princeton árið 2000, stutta umsögn um bókina í tímaritinu Foreign Affairs , heimskunnu tímariti um alþjóðamál.
Moravcsik segir að sérhver þjóð geymi í minni sínu goðsagnir um heimssögulegan mikilleika – jafnvel Íslendingar. Enginn haldi málstað þessarar litlu eyjar fram af meiri ákafa en Egill Bjarnason, sem hafi náð góðum árangri sem blaðamaður í heimi enskumælandi þjóða. Af frásögn hans megi ráða að Íslendingar séu einskonar Forrest Gump meðal þjóða heims; þeir verði fyrir tilviljun miðdepill sérhvers stórviðburðar nútímasögu.
Fyrir okkur Íslendinga sætir það ekki tíðindum sem bandaríski prófessorinn tíundar um efni bókar Egils. Á hinn bóginn er ástæða til að fagna því að þetta hefur allt verið tekið saman á einn stað og sett fram á þann veg að kunnur fræðimaður í sögu og stjórnmálum Evrópu sér ástæðu til að geta þess í virtu bandarísku alþjóðariti.
Einn af kostum þess að fá Penguin sem útgefanda er að þar er, ef marka má þakkir höfundar í lokin, her ráðgjafa til aðstoðar. Það fór þó fram hjá þeim að það var Kristján X. Danakonungur sem kom hingað á alþingishátíðina 1930 en ekki Kristján IV.
Markaðssetning Penguin er markviss og árangursrík eins og umsögnin í Foreign Affairs ber með sér. Þá hafa umsagnir a.m.k. einnig birst í The New York Times og hjá AP-fréttastofunni en fyrir þessa öflugu miðla og fleiri hefur Egill skrifað fréttir og frásagnir frá Íslandi.
Nú þegar ferðamennska á milli landa hefst að nýju er mikils virði að til sé bók um Ísland þar sem í lokin er lýst hvernig brugðist var við COVID-19 hér á landi. Ágæt bók Egils Bjarnasonar á örugglega eftir að kveikja áhuga margra á að kynna sér land og þjóð og ekki er verra að þeir komi hingað með þeim léttleika sem einkennir textann.