Inn í nýtt kjörtímabil
Morgunblaðið, 30. nóvember 2024
Á það hefur verið minnst í kosningabaráttunni að kannski hefði verið betra fyrir stjórnarflokkana að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra hefði ekki tekið af skarið og slitið stjórnarsamstarfinu 13. október sl. Með því að bíða hefði staða flokkanna styrkst með minnkandi verðbólgu.
Bjarni tók ákvörðun sína vegna þess að einn stjórnarflokkanna, VG, hafði ályktað á landsfundi sínum gegn stjórnarsamstarfinu en vildi fresta aftökunni þar til flokknum þætti hún tímabær. Bjarni sagði réttilega að ekki yrði lengra komist vegna ósamlyndis flokka í stjórninni, mikilvæg málefni lægju óhreyfanleg.
Atburðarásin hefur verið hröð á þeim sjö vikum sem síðan eru liðnar. Fyrstu dagana eftir stjórnarslitin hófst dálítið sjónarspil vegna þekkingarleysis Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar, á hvað við tæki eftir lausnarbeiðni ríkisstjórnar og síðan setu starfsstjórnar.
Þá varð Svandís Svavarsdóttir, formaður VG, fúl yfir að dagsetning stjórnarslita var tekin úr hennar höndum. Reyndi hún að spilla fyrir að unnt yrði að verða við ósk forseta Íslands um starfsstjórn þegar hún og flokkssystkini hennar höfnuðu setu í henni. Ráðherrar sem sitja í stjórninni tóku á sínar herðar embætti VG-ráðherranna.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, maldaði einnig í móinn og lét eins og hann væri fúll yfir stjórnarslitunum. Hann hefur síðan vikið frá þeirri skoðun og lætur nú eins og stjórnarsamstarfið hafi verið sér þungbært.
Öll stjórnarandstaðan fagnaði frumkvæði Bjarna og enginn léði máls á því með formönnum Samfylkingarinnar og VG að hefja stjórnskipulegar æfingar í tilefni af stjórnarslitunum.
Starfsstjórnin vildi að fjárlög fyrir árið 2025 yrðu afgreidd áður en þingstörfum lyki fyrir kjördag og tókst það 18. nóvember, rúmum mánuði eftir stjórnarslitin.
Nauðsynlegt var að eyða öllum vafa um fjárlögin.
Á kjördag, 30. nóvember 2024.
Nú eftir kjördag getur dregist um nokkrar vikur að þing komi saman að nýju, meðal annars með vísan til ákvæða í lögum um kærufresti vegna úrslita kosninganna. Þá er allt á huldu um raunverulegan vilja flokka til samstarfs í ríkisstjórn. Starfsstjórnin situr þar til nýtt þing hefur skipað sér að baki nýrri ríkisstjórn.
Er þess skemmst að minnast frá þingkosningunum 2021 hve langan tíma tók að afgreiða kjörbréf. Þá var gengið til kosninga 25. september en þing kom ekki saman til fundar fyrr en 23. nóvember. Ný og endurnýjuð ríkisstjórn þriggja stærstu flokkanna á þingi var formlega mynduð 28. nóvember og umræður um stefnu hennar fóru fram á alþingi 1. desember 2021.
Búast má við að sviptingar vegna stjórnarmyndunar verði flóknari núna en árið 2021. Stjórnarflokkarnir þrír stefna ekki að endurnýjuðu umboði – nema síður sé.
Allt er óljóst um vilja flokka til stjórnarsamstarfs. Samfylkingin boðar nýtt upphaf með plani sem hún segir að taki tvö kjörtímabil að framkvæma. Vangaveltur um stjórnarmyndun minna helst á samkvæmisleik.
Sagan geymir dæmi um mál sem ekki eru á dagskrá í kosningabaráttu en verða stór átakamál að kosningum loknum. Þar má til dæmis nefna Icesave-málið, deilurnar um uppgjör við Breta og Hollendinga vegna innlánsreikninga íslenskra banka í þessum löndum í bankahruninu 2008.
Það var ekkert rætt um Icesave-málið fyrir þingkosningar vorið 2009 en strax á sumarþinginu að þeim loknum logaði allt í illdeilum á þingi um samninga um uppgjör Icesave-reikninganna. Var síðar gengið til tveggja þjóðaratkvæðagreiðslna um Icesave-lög, árin 2010 og 2011.
Að því hefur verið vikið í kosningabaráttunni núna að sjálfsagt sé að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu sem fyrst á nýju kjörtímabili um heimild til umsóknar um aðild að ESB.
Innan Viðreisnar vilja frambjóðendur gera kröfu um slíka atkvæðagreiðslu að „ófrávíkjanlegu skilyrði“ við stjórnarmyndun. Flokksformaður Viðreisnar kýs þó að fara undan í flæmingi til að loka engum dyrum.
Þetta tal er flótti frá því meginverkefni að sannfæra þjóðina um að eitthvað kalli á að kljúfa hana í herðar niður með atkvæðagreiðslu um þetta mál. Engin þjóð sækir um aðild að ESB án þess að brýnir hagsmunir hennar krefjist þess. Það dugar ekki að rægja aðildina að evrópska efnahagssvæðinu (EES) til að réttlæta ESB-aðild.
Fullyrðingar um að okkur sé best borgið í ESB eru haldlausar. Hagsæld er mun meiri í EES-ríkjunum utan ESB en í ESB-löndunum. Í því felst engin töfralausn að taka upp evru. Kostir krónunnar birtust vel eftir hrun. Gengið féll og ferðamenn streymdu til landsins. Besta peningastefna fyrir Þýskaland gagnast ekki endilega íslenskum efnahag best. Innan ESB ræður sá stærsti að lokum.
Þegar vinstristjórnin 2009-2013 sótti um aðild að ESB var hún einnig með á stefnuskrá sinni að breyta stjórnarskránni til að hún heimilaði aðildina. ESB-umsóknin rann út í sandinn og einnig tilraunin til að breyta stjórnarskránni.
Enginn flokkur boðar stjórnarskrárbreytingu í þágu ESB-aðildar núna. Getur þjóðin greitt atkvæði um eitthvað sem bryti í bága við stjórnarskrána ef á reyndi? Er það ekki óhjákvæmilegur liður „upplýstu umræðunnar“ sem jafnan er flaggað í sambandi við ESB-aðildarmálið að tekið sé af skarið og stjórnarskránni breytt? Ábyrgðarlausir stjórnmálamenn óska eftir heimild til að gera það sem stjórnarskráin bannar þeim.
Sá kostur er fyrir hendi að úrslit kosninganna í dag verði ávísun á ESB-aðildardeilur og leið til sundrungar á nýju kjörtímabili. Einfaldast er að hafna honum strax.